Lesbók Morgunblaðsins - 22.10.2005, Side 3
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 22. október 2005 | 3
B
jarni Daníelsson var nágranni
minn um tíma. Eitt sinn spurði
hann mig úti á bílaplani hvort
við hjá Landsvirkjun værum
með „aumingja-budget“. „Ha?
Nei,“ svaraði ég óviss í minni
sök. „Það var gott!“ sagði hann að bragði.
Það er ekki alltaf einfalt hvernig atvinnulífið
á að tengjast menningunni. Æ fleiri fyrirtæki
hafa áttað sig á því að það þarf að vera ákveðin
hugsun á bak við það hvernig þau starfa á því
sviði. Réttlætingin fyrir
útgjöldum til samfélags-
málefna felst í snertiflöt-
um starfsemi fyrirtæk-
isins og málefnisins og í eðli samstarfsins þar
sem menn eiga samleið sem stuðlar að því að
markmið beggja nást. Um þetta og fleira má
lesa í ágætu erindi Halldórs J. Kristjánssonar
bankastjóra sem hann flutti á málþingi í tilefni
af 80 ára afmæli Lesbókarinnar og hún birti um
síðustu helgi ásamt erindum þeirra þriggja
annarra sem fluttu þar mál sitt.
Umræðan um samfélagsábyrgð fyrirtækja
er raunar sprottin úr umræðunni um sjálf-
bærni. Sjálfbærni er fólgin í því að hverri kyn-
slóð ber að nýta auðlindir sér til hagsældar með
þeim hætti að komandi kynslóðir geti gert slíkt
hið sama. Upphaflega var áherslan nær ein-
vörðungu á umhverfismál og samspil manns og
náttúru þegar sjálfbærni var annars vegar. Hin
seinni ár hefur alþjóðleg umræða um þessi efni
jafnframt beint sjónum manna að samfélags-
legu samhengi verðmætasköpunar. Atvinnu-
starfsemi þarf að falla að samfélaginu ekki síð-
ur en að náttúrunni. Fyrirtæki sem vill stuðla
að sjálfbærni þarf að hlúa að og örva það sam-
félag sem það starfar í svo að samfélagið verði
ekki síðra eða þróttminna þegar fram líða
stundir.
Ég set þessar hugleiðingar fram í tilefni af
því að mér var sýndur sá heiður að vera boðið
að sitja í pallborði á áðurnefndu málþingi Les-
bókarinnar undir yfirskriftinni „Menning og
samfélag“. Eins og yfirskriftin gaf tilefni til
voru flutt fjölbreytt og vönduð erindi um efnið
út frá ólíkum sjónarhornum tengdum atvinnu-
lífi, háskólasamfélagi, bókmenntum og rekstri
menningarstofnana. Pallborðsumræðurnar í
kjölfarið urðu mér nokkurt undrunarefni. Auk
fyrirlesaranna settumst við Kolbrún Halldórs-
dóttir og Þorvaldur Þorsteinsson við pall-
borðið. Mér þótti sem þessum tveimur sessu-
nautum mínum tækist, vitandi vits eða
óafvitandi, að beina nánast allri umræðunni
sem fram fór í þann farveg að hugleiða aðkomu
Landsvirkjunar að samfélagsmálum. Það var í
sjálfu sér ánægjulegt fyrir mig sem starfsmann
fyrirtækisins en líklega ívið þrengri nálgun við
efnið „Menning og samfélag“ en skipuleggj-
endur samkomunnar ætluðu og ekki mjög
sanngjörn í garð þeirra sem þarna fluttu erindi.
Upphafsorð Kolbrúnar skildi ég þannig að
hún teldi óeðlileg eða dulin markmið á bak við
það sem Landsvirkjun gerði á sviði samfélags-
mála. Út frá þessu spannst einn meginþráður
pallborðsumræðunnar sem ég vil gera hér að
umtalsefni. Hann fólst í vangaveltum um frelsi
listamanna og þá hættu sem því kynni að vera
búin af samstarfi við atvinnulífið.
Á frelsi listamannsins eru margar hliðar sem
vert er að íhuga. Því var fleygt í umræðunni að
ábyrg fyrirtæki ættu að hlúa að frelsi lista-
manna með því að styðja þá án þess að setja
þeim skilyrði eða gera kröfur. Fyrirtæki eins
og Landsvirkjun voru sögð kaupa listamenn til
verka, þeir væru því ekki frjálsir og list þeirra
ekki frjáls og þar með lítilsverð.
Efnahagslegt frelsi listamannsins hlýtur allt-
af að vera tálsýn. Hann þarf að draga fram lífið
eins og aðrir. Það eru félagslegar og efnahags-
legar forsendur fyrir list hans. Opinberir styrk-
ir eða listskreytingarsjóður gera listamanninn
háðan einhverjum öflum engu síður en sam-
skipti við fyrirtæki eins og Landsvirkjun.
Kannski svaraði Bubbi Morthens þessum
áhyggjum manna best þegar hann var spurður
að því, farandverkamaðurinn og baráttujaxl-
inn, hvort hann væri ekki að selja sál sína þegar
hann seldi hugverk sín til tryggingafélags.
Hann hélt nú ekki, hann væri tónlistarmaður
sem vildi ná eyrum fólksins. Væri sál hans seld
hefði það gerst þegar hann gerði fyrsta útgáfu-
samninginn.
Önnur sýn á frelsi listamannsins sem kom til
tals á málþinginu snýr að listrænu frelsi. Krist-
inn E. Hrafnsson myndlistarmaður kom fram
með áhugaverðar ábendingar og gagnrýni á
samkeppni Landsvirkjunar um listaverk tengd
Kárahnjúkavirkjun. Um þær skoðanir sínar
skrifar Kristinn ágæta grein í Morgunblaðið sl.
þriðjudag. Skerðir skilgreining Landsvirkj-
unar á staðsetningu, tilefni og markmiði með
uppsetningu listaverksins listrænt frelsi þeirra
listamanna sem taka þátt?
Ég tek undir með Kristni að áhugavert sé að
hefta listina sem minnst með skilyrðum í sam-
keppni af þessu tagi. Á móti kemur að huga
þarf að fleiru í þessu samhengi. Á að viðhalda
hefðum eða brjóta þær? Hvort tveggja hefur
nokkuð til síns ágætis. Frá fyrstu tíð hafa virkj-
anir á Íslandi verið myndskreyttar. Þeirri hefð
hefur Landsvirkjun viðhaldið. Þannig sköpuðu
virtustu listamenn þjóðarinnar merk verk við
virkjanir fram eftir síðustu öld. Má þar nefna
Ásmund Sveinsson, Sigurjón Ólafsson og Kjar-
val. Á síðustu árum hafa verið sett upp áhuga-
verð listaverk við virkjanir eftir Sigurð Árna
Sigurðsson, Finnboga Pétursson og Gjörn-
ingaklúbbinn, svo einungis nýjustu dæmin séu
tekin.
Ábendingar Kristins um að ekki eigi að skil-
greina staðsetningu, tilefni og markmið geta
verið réttmætar. Samkeppnishald Landsvirkj-
unar hefur einmitt þróast í þá átt og veit ég
ekki til að aðrar samkeppnir hérlendis hafi gef-
ið listamönnum jafn frítt spil og er raunin í
tveimur síðustu samkeppnum Landsvirkjunar.
Kristinn bendir á, eflaust réttilega, að betur sé
gert úti í heimi. Það er hvatning til að gera enn
betur hér heima.
Ég leyfi mér að efast um að skilyrði og skil-
greiningar í samkeppnislýsingu Landsvirkj-
unar að þessu sinni hefti listrænt frelsi svo
mjög að rétt sé sem Kristinn segir í Morgun-
blaðsgrein sinni að „niðurstaða keppninnar
getur vart orðið önnur en meðalmennska og
leiðindi“. Það tengir hann því að skilyrðin fæli
frá þá mörgu af bestu listamönnum þjóð-
arinnar sem hafi verið meðal helstu baráttu-
manna gegn Kárahnjúkavirkjun. Gott er ef satt
reynist að listamennirnir greini milli þátttöku í
samkeppni tengdri virkjuninni og ótengdri,
þannig að almenn keppni á vegum Landsvirkj-
unar yrði þeim fagnaðarefni. Ég sé hins vegar
trauðla að samkeppnishald á vegum Lands-
virkjunar til uppsetningar á listaverki „hvar
sem er á landinu“ svo að staðarval verði alfarið
í höndum höfundarins leysi stórlistamenn and-
stæða Kárahnjúkavirkjun almennt úr læðingi.
Hvað skal svo segja um þá listamenn sem
stunda sína list þannig að ramminn sem fólginn
er í samkeppnislýsingunni nú heftir frelsi
þeirra ekki á nokkurn máta? Það snertir kjarn-
ann í listrænu frelsi að slíkir listamenn geti
gert það upp við sig án utanaðkomandi þrýst-
ings hvort þeir taki þátt. Það er harður dómur
að félagi þeirra í listinni lýsi því yfir fyrirfram
að verk þeirra muni einkennast af meðal-
mennsku og leiðindum.
Þetta leiðir hugann að þriðja atriðinu sem ég
vildi nefna og tengist frelsi listamanna. Það var
ekki mikið rætt á málþinginu en bjó undir á
köflum. Það má kalla svart/hvíta sýn á listina
og lífið og einkennist af einhvers konar hug-
myndafræðilegri afstöðu. Minna má á samfélag
listamanna þegar mönnum þar á bæ var gjarna
skipað á bekk sem húskörlum í stríði höfðingj-
anna í austri og vestri á kaldastríðsárunum.
Sagan segir að þá hafi menn á stundum verið
metnir út frá því hvar þeim var skipað flokk en
ekki út frá því hvers þeir voru megnugir. Sumt
af því sem sagt var í pallborðsumræðunum virt-
ist mér ekki einskorðast við efasemdir um
ágæti samfélagsverkefna Landsvirkjunar og
hvernig að þeim er staðið eins og Kristinn ger-
ir. Sumt virtist mér bera vott um neikvæðni í
garð Landsvirkjunar og þar með á verkefnin
óháð innihaldinu. Kannski er sumum illa við að
Landsvirkjun sé ekki mörkuð af þeirri mynd
sem þeim finnst hæfa og mundi styðja afstöð-
una sem þeir hafa til framkvæmda fyrirtæk-
isins. Listamenn eru góðir, Landsvirkjun er
vond. Þess vegna kann að þykja eðlilegt og
sjálfsagt að vara listamenn við að taka þátt í
þeim dansi sem Landsvirkjun býður upp í. Sé
þetta útbreidd afstaða í menningargeiranum
þarf listamaður sem þiggur það sem Lands-
virkjun býður að hafa bein í nefinu.
En hin svart/hvíta sýn er hvorki sönn né holl.
Því til staðfestingar má minna á barnalærdóm-
inn eins og Þórbergur Þórðarson lýsir honum í
Sálminum um blómið. Lömbin eru ekki bara
góð og tígrisdýrin vond eins og lilla Hegga taldi
í fyrstu. „Svona er lífið, litla manneskja. Það er
enginn maður og enginn hlutur alveg góður eða
alveg vondur og ekkert dýr alveg gott eða alveg
vont. Allir menn og allir hlutir eru bæði góðir
og vondir og öll dýr bæði góð og vond.“ Það
þarf að rækta með sér hæfileikann til að sjá og
meta kosti og galla hvers máls en láta ekki það
sem er öðruvísi en maður vildi hafa það slá sig
út af laginu. „Sá sem ekki þekkir lífið, eins og
það er, það liggur oft illa á honum og hann er
oft í vondu skapi og fýlu, af því hann skilur ekki
lífið. En sá, sem þekkir lífið, eins og það er, á
honum liggur aldrei illa og hann er aldrei í
vondu skapi og fýlu, af því hann skilur lífið.“
Lömbin leyna á sér
Á Lesbókarþingi fyrir rúmri viku um menn-
ingu og samfélag var hart deilt á Lands-
virkjun fyrir samkeppni um listaverk við
Kárahnjúkavirkjun. Greinarhöfundur sat í
pallborði á þinginu og varðist en hér tekur
hann upp nokkra þræði umræðunnar og
rekur áfram.
Höfundur er upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar.
Eftir Þorstein
Hilmarsson
thorsteinn@lv.is
Morgunblaðið/Árni Torfason
Kárahnjúkavirkjun Listamenn hafa verið meðal helstu baráttumanna gegn Kárahnjúkavirkjun. Munu þeir taka þátt í samkeppni um listaverk við virkjunina?