Lesbók Morgunblaðsins - 26.11.2005, Blaðsíða 2

Lesbók Morgunblaðsins - 26.11.2005, Blaðsíða 2
2 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 26. nóvember 2005 ! Það er sagt að samkvæmt lög- málum eðlisfræðinnar geti bý- fluga ekki flogið. Þetta þýðir bara tvennt. Annaðhvort eiga lögmál eðlisfræðinnar ekki við rök að styðjast, eða býflugan er guðleg vera, hafinn yfir lögmál þessa heims. Sjálfur hallast ég að þriðja mögu- leikanum, sem er sá að þessi frasi sé ónýt- ur og menn eigi ekki að hafa hann eftir. Býfluga getur flogið og þar með er það eðlisfræðileg staðreynd. Um þessar mundir er talsvert rætt um raunveru- leika í bókmenntum, þ.e. skáldsögum, jafnvel talað um raunveru-leikabókmenntir. En skáld- skapur er skáldskapur og raun-veruleiki er raunveruleiki. Þetta tvennt verður ekki sameinað nema annað yfirtaki hitt. Það sem birtist innan ramma skáldskapar er sjálfkrafa ekki til í raun og veru nema sem eftirlíking af einhverju sem lesandinn kannast við úr raunveruleikanum. Það getur vel verið að samkvæmt lögmálum skáldskaparins geti hann rúmað raun- veruleika, en eins og frasinn með býflug- una og eðlisfræðina stingur fullyrðingin í stúf við eðli þeirra hluta sem hann fjallar um. Skáldsaga mín, Túristi, er hreinrækt- aður skáldskapur, en þó fullur af hermilík- önum og spegilmyndum úr raunveruleika sem margir þekkja. Ég hef til dæmis búið til eftirhermur eða staðgengla fyrir nokkra kollega mína. Þessar strengja- brúður kalla ég til dæmis Andra S. og Ein- ar M. Ég læt þá tala og hreyfa sig, gefa út bækur og svo framvegis. En þetta eru ekki raunverulegir höfundar, þ.e. Andri Snær Magnason og Einar Már Guð- mundsson. Ég gæti kynnt til sögunnar t.d. pípulagningamanninn Einar Má Guð- mundsson, það væri dálítið fyndið og svo- leiðis sprell hefur verið framkvæmt með ágætum árangri. En hinn raunverulega rithöfund get ég ekki notað í eigin skáld- skap, því þá myndi tvennt óæskilegt eiga sér stað: Annars vegar væri ég að ljúga eða hafa rangt eftir, því orð og athafnir þessa „raunverulega“ manns gætu varla átt sér stoð í „raunveruleikanum“ nema ég hefði elt manninn á röndum og skráð niður hverja hreyfingu, hvert orð, og hins vegar dræpi ég eigin skáldskap, því hann væri samstundis orðinn að skýrslu, ævisögu eða blaðagrein. Stórskáldið mitt, Einar M., er jafn- raunverulegur og Erkibóndinn Bjartur frá Sumarhúsum. Ég gæti auðvitað, eða hefði getað, nefnt sköpunina bara Guðjón eða eitthvað, svona til að skera á öll tengsl við raunverulega fyrirmynd, en Einar M. á ekki að vera bara einhver erkitýpa, held- ur hermilíkan eða eftirmynd af rithöfund- inum snjalla, Einari Má Guðmundssyni. Raunverulegir menn eru búnir til af Guði eða Darwin eða eru eigin sköpunarverk, en Einar M. og allar mínar skáldpersónur eru mitt leirhnoð; skopteikningar, grímur og strengjabrúður búnar til úr orðuðum hugsunum. Kveikjan að þessum pistli eru vanga- veltur Hermanns Stefánssonar í Lesbók fyrir viku, þar sem hann tvístígur vegna notkunar minnar á „raunverulegum“ per- sónum og spyr sjálfan sig hvers vegna ég hafi þá ekki bara notað fullt nafn þeirra. Eins segist hann gruna mig um að bera kala til sömu manna eða persóna, en setur reyndar spurningarmerki við þann grun sinn; kannski að hann sé bara að ímynda sér þetta. Fyrir ári sendi ég frá mér sögu um hættulega menn í hættulegum heimi. Í ár sendi ég frá mér hættulega bók. Túristi er hættulegur vegna þess að hann er raun- verulegur skáldskapur; eldur tilfinninga sem brennur þar sem áður var myrkur sem var þögnin sem ríkti um fáviskuna um fánýti skáldskapar sem stofustáss. Hann er hættulegur vegna þess að hann hefur raunveruleg áhrif á raunverulegt fólk. Fólk sem ekki á heima eða getur átt heima innan ramma skáldskaparins, en verður fyrir áhrifum frá honum, vegna hans, í gegnum hann. Fólk sem ég elska og dái svo mikið að ég kasta mér á eldinn þeirra vegna. Davíð Scheving Thorsteinsson fluttiathyglisvert erindi um Ragnar íSmára á fundi sem Verslunarráð ogStofnun Sigurðar Nordals stóðu fyrir í aprílmánuði. Davíð sagði þar ýmsar sög- ur af Ragnari, meðal annars þá að í hvert skipti sem Ragnar eða fyrirtæki hans urðu fyrir skakkaföllum hefði hann sest niður með samstarfs- mönnum sínum og spurt: Hvernig getum við grætt á þessu? Ég hugsaði oft til Ragn- ars þegar ég gerði föstudagsinnkaupin í Bónus síðsumars. Það gerðist þá hvað eftir annað að í stöndunum við afgreiðslukassana voru á boð- stólum tímarit eða dagblöð með fréttum af eig- endum Bónus/Baugs, umfjöllun um einkamál þeirra, úttekt á persónuleika þeirra eða grein- ingu á ákærum yfirvalda í þeirra garð. Fyrstu vikurnar var dramatískasta umfjöllunin reynd- ar í fjölmiðlum sem eru ekki að neinu leyti í eigu þessara einstaklinga, þar á meðal Séð og heyrt og Mannlíf, en áður en langt um leið tók DV líka þátt í gleðinni, en sá fjölmiðill er, eftir því sem ég kemst næst, að umtalsverðu leyti í eigu sömu einstaklinga og Bónus. Og þetta var bara upphafið. Haustið leið og í hverri einustu viku var eitthvað nýtt í fréttum um hin svokölluðu Baugsmál: „Hæstiréttur vísar 32 af 40 ákæruatriðum frá dómi … rík- islögreglustjóri felur ríkissaksóknara að fjalla um þessa 32 ákæruliði … verjandi hinna ákærðu segir að ólöglegt sé að sækja Baugs- málið af tveimur saksóknurum … rík- issaksóknari segir sig frá málinu vegna per- sónulegra tengsla … verjandi efast um að dómsmálaráðherra sé hæfur til að skipta nýjan saksóknara í málið … dómsmálaráðherra segir sig hæfan og skipar mann í starfið … héraðs- dómur úrskurðar þennan setta ríkissaksókn- ara ekki bæran til að taka við ákæruliðunum átta sem áður voru í höndum ríkislög- reglustjóra … setti saksóknarinn kærir þann úrskurð til hæstaréttar …“ Þetta eru að vísu engar æsifréttir rétt í bili en fréttir samt og örugglega meiri dramatík framundan. Andskoti eru þessir viðskiptajöfrar séðir, sagði ég við sjálfan mig fyrstu vikurnar á þess- ari miklu fréttavertíð. Jafnvel þótt Mannlíf og Séð og heyrt birti nístandi umfjöllun um þessa menn þá græða þeir á henni, í bókstaflegri merkingu, nokkrar krónur á hverju seldu ein- taki. Einn föstudaginn jókst aðdáun mín svo enn frekar þegar ég sá forsíðu DV í yfirstærð á útvegg Bónusbúðarinnar í Holtagörðum með aðalfyrirsögninni: „Konurnar á bakvið Baug: Sjálfstæðar, sterkar & standa saman“. Blaðið var auðvitað til sölu við kassana og virtist selj- ast vel. Hvílík snilld, tautaði ég fyrir munni mér. Nú rennur bæði heildsöluálagning DV og smásöluálagning Bónus í sama vasann. Og var- an sem er á boðstólum er frásögn af sjálfum búðareigendunum. Þetta er líklega það sem menn eiga við þegar þeir tala um sjálfbæran rekstur: úrbeinaður slátrari í kjötborðinu. Síðan þetta gerðist hef ég ítrekað hugsað um þær raddir sem fullyrða að Baugsveldið hafi lagt undir sig drjúgan hluta íslensks fjölmiðla- heims til að tryggja jákvæða umfjöllun um Baugsmálið. Þær raddir gætu vafalítið gert sér einhvern mat úr fyrirsögnum á borð við „sjálf- stæðar, sterkar og standa saman“ en ég held samt að þarna liggi annar fiskur undir steini. Að minnsta kosti hef ég komið mér upp allt annarri (og kannski enn hæpnari) samsær- iskenningu sem skýrir rás viðburðanna: Þegar eigendur Baugs sáu hvert stefndi settust þeir niður og spurðu sig sömu grund- vallarspurningar og Ragnar í Smára. Fram- undan var lögreglurannsókn, ákærur, málþóf, pólitískar samsæriskenningar, dramatík; með öðrum orðum efni sem fjölmiðlar gætu gert sér stórkostlegan mat úr, efni sem ætti eftir að selja, dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð. Já, spurningin var: Hvernig getum við grætt á þessu? Og svarið var einfalt: Með 365 miðlum. Sjálfbær þróun ’Hvílík snilld, tautaði ég fyrir munni mér. Nú rennurbæði heildsöluálagning DV og smásöluálagning Bónuss í sama vasann. Og varan sem er á boðstólum er frásögn af sjálfum búðareigendunum.‘Fjölmiðlar Eftir Jón Karl Helgason jonkarl@gmail.com Það verður að viðurkennast að ég var örlítið kvíðin þegar ég sá hvílíkur doðrantur var á ferð-inni, Blóðberg eftir Ævar örn Jósepsson, heilar 400 síður, en léttleikandi stíllinn, hraðurog fjörugur, með skemmtilegum samtölum og hæfilega mikið af frumlegum líkingum, og fimlega unnin fléttan gerir það að verkum að síðurnar rjúka hjá. Glæpasagan er greinilega komin til vits og ára hér á landi og er augljóst að fleiri og fleiri íslenskum höfundum er treystandi til að hafa ofan af fyrir manni og stela af manni tíma eins og alvöru glæpasögum einum er lagið. Gunnþórunn Guðmundsdóttir Yrsa og Jón Hallur Glæpasögur Jóns Halls og Yrsu eru tvö afar ólík dæmi um nálgunarleiðir á glæpasöguformið og því nokkuð áhugavert að skoða þær saman. Það er ljóst að Krosstré er mun alvarlegra verk en Þriðja táknið, sem er mun reyfarakenndari. Alvarleikinn dregur úr mætti Krosstrés en reyf- arastíllinn gefur Þriðja tákninu skemmtilega léttúðugt yfirbragð sem gerir þá sögu öllu skemmti- legri aflestrar. Báðar eru þessar nýju glæpasögur því forvitnilegar um margt, án þess að ná endi- lega hæstu hæðum glæpasagnahefðarinnar. Úlfhildur Dagsdóttir Stella Að flestu leyti er bókin ánægjulegur lestur. Morðið í Drekkingarhyl er vel heppnuð glæpasaga og líklega ein besta bókin um Stellu. Hver sem hinn raunverulegi höfundur er, þá er hann ágætlega skrifandi. Viðfangsefnið er vel valið, því gerð ágæt skil og spennuþátturinn betur heppnaður en í mörgum öðrum íslenskum glæpasögum. Stælarnir í stílnum eru hins vegar dálítið leiðigjarnir til lengdar. Að tala um silfurlitaðan Benz sem silfurfák, karlmenn sem fola, löggur sem prúðupilta og þetta sífellda „sagði mamma“ verður smám saman pirrandi og skemmir fyrir. Allra leiðinleg- ast er að Jack Daniels búrbón skuli kallað Nonni Daniels eða bara Nonni (!!!). Auðvitað er þetta fáránlega orðfæri dálítið ætlað til þess að hrekkja og pirra, sýna að Stella sé töff stelpa og svo- leiðis auk þess að tengja skáldskap þennan rækilega við „pulp“-reyfara fyrri tíma. Þetta er vissu- lega gamaldags og um leið er höfundurinn að segja við lesandann: Fyrir alla muni, ekki taka þessi skrif alvarlega. Ingvi Þór Kormáksson Bókmenntavefurinn www.bokmenntir.is Morgunblaðið/Ásdís Túristi á Mánaskeri. Krimmahaust I Þorpsskáldið Jón úr Vör nefnist ný sam-talsbók Magnúsar Bjarnfreðssonar þar sem rætt er við skáldið um ævi þess og verk. Í bók- inni er meðal annars forvitnileg frásögn af því þegar fréttir bárust um að Jón úr Vör kæmi sterklega til greina við úthlutun bókmennta- verðlauna Norðurlandaráðs árið 1986. Bar- áttan virtist standa á milli hans og danska skáldsins Rolfs Jacobsens. Fulltrúar Íslands í dómnefndinni voru Jóhann Hjálmarsson og Sveinn Einarsson og héldu þeir sínum manni á lofti. Þegar upp var staðið hlaut hins vegar ungt færeyskt skáld verðlaunin, Rói Patursson. Jón úr Vör vill fátt segja um málið þegar Magnús ræðir við hann en dagbók sem skáldið hélt segir allt sem segja þarf um þau áhrif sem nið- urstaðan hafði á það. II „Það er auðvitað beiskari drykkur en framkemur í skrifum mínum í þessa bók, sem ég hef orðið að drekka síðustu dægur. Sig- urlíkur mínar voru í rauninni orðnar miklu sterkari en ég hef hér talið rétt að orða,“ segir Jón í dagbókinni daginn eftir að úrslitin voru tilkynnt. Í ljós kom að Rói Patursson hafði unnið atkvæðagreiðsluna með einu atkvæði umfram þau sem Jón fékk. „Þessum mun varð ekki haggað þrátt fyrir frekari umræður,“ segir í dagbókinni. „Annar fulltrúi Svía las bréf frá Ol. Lagercranz – og sagði síðar við Jó- hann, að hann sjálfur teldi J.ú.V. vera meðal mestu núlifandi ljóðskálda á Norðurlöndum. – En svo fór sem fór.“ III Jón úr Vör ber sig karlmannlega í dag-bókinni en Magnús segir að honum hafi fallið þungt hver úrslitin urðu „enda var hann fluttur á gjörgæsludeild Landakotsspítala með hjartatruflanir og hafði þá fengið tvö vond köst eftir stigagöngur, eins og hann orðar það.“ Jón kynnti sér ljóðagerð Paturssonar eftir að úrslitin urðu kunn og leist ekki meira en svo á: „Ég fékk ennfremur að láni Róa Pat- urssonar bók Líkasum á dönsku. Ég las í jan. s.l. færeysku útgáfuna og hélt, að ég mundi njóta kvæðanna betur þýddra, en svo varð ekki. Nú, eins og áður, er það bara eitt kvæði, sem ég get talið boðlegt. Það er þegar hann yrkir um regnið og litlu dóttur sína, sem segir: „Það rignir allsstaðar í heiminum“. Hvað á ég að halda? Reynsla mín hefur verið sú að ég hef fundið það við fyrsta lestur, hvort kvæði eru góð eða aðeins tískufyrirbrigði sem fölna. Mér er því nær að halda að aumingja Færeyjapiltinum hafi verið gerður bjarnargreiði með þessari verðlaunaveitingu og öll þessi tilstandsmál séu orðin marklaust sprell.“ Jón segir enn fremur í dagbókinni að þögnin um Patursson sé meiri en venjulegt er: „Menn vilja gleyma þessum unga manni. Því miður get ég það ekki. En ekki á hann sök á ósigrum mínum.“ IV Jón úr Vör hlaut síðar þetta sama ártvær viðurkenningar sem honum þótti vænt um. Í maí var hann gerður að heið- ursfélaga í samtökum rithöfunda og í lok árs- ins komst hann í hóp heiðurslistamanna og fékk með því tryggð föst laun til æviloka. Sam- kvæmt frásögn Magnúsar átti Indriði G. Þor- steinsson frumkvæði að því að stinga upp á Jóni úr Vör í heiðurslaunaflokkinn. Eftir að hafa fengið fréttirnar segir skáldið í dagbók sinni: „Ég hef í dag skrifað á þrjú stór jólakort til útlanda og sagt að þetta sé fyrir mig fjár- hagslega eins þýðingarmikið og Nóbels- verðlaun. Nú veit ég að við getum veitt okkur það sem okkur langar í og heilsan leyfir okkur að njóta. En ég veit líka að hjá mér breytist ekkert. Núna eftir hádegið beygði ég mig eins og alltaf áður, þegar ég sá liggja við fætur mínar bréfaklemmu. Mér verður ekki breytt.“ Neðanmáls Lesbók Morgunblaðsins Kringlunni 1, 103 Reykjavík, sími 5691100, Útgefandi Árvakur hf. Umsjón Þröstur Helgason, throstur@mbl.is Auglýsingar sími 5691111 netfang augl@mbl.is Bréfsími 5691110 Prentun Prentsmiðja Morgunblaðsins Að ekki vera Eftir Stefán Mána stefan.mani@ simnet.is Höfundur er rithöfundur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.