Lesbók Morgunblaðsins - 26.11.2005, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 26.11.2005, Blaðsíða 16
16 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 26. nóvember 2005 Þ egar ég frétti upprunalega af því að það ætti að vera „einhver“ íslensk listahátíð í Köln í nóv- ember bjóst maður við þessu venjulega, kannski einum eða tvennum tónleikum og kannski einni myndlistarsýningu með. Þegar málin voru svo könnuð betur kom annað og meira (áhersla á „meira“) í ljós. Hér var á ferðinni allsherjar listahátíð með þátttöku íslenskra tónlistarmanna, myndlistarmanna, ljósmynd- ara, kvikmyndagerðarmanna, rithöfunda og hönnuða, fjölda sem slagaði upp í hundraðið. Hátíðin skyldi standa í rúma viku, sumar sýningar lengur, og tugir þýskra fjölmiðla voru settir í start- holur vegna herlegheitanna. Þegar maður kom svo til Kölnar, um hádegisbilið á föstu- deginum, gerði maður sér grein fyrir að þetta lyti svipuðum lögmálum og Hróarskelda, þ.e. það væri ekki möguleiki að komast yfir allt það sem í boði væri þó að vilji væri fyrir hendi. Svona eiga alvöru listahátíðir að vera! Happadrjúgt Ég og fjölskyldan skráðum okkur inn á Ibis- hótelið við Barbarossaplatz á téðu föstu- dagshádegi, hótel sem var krökkt af Íslend- ingum, fjölmiðlafólki sem listamönnum. Blaðamaður býr nú í Berlín og tók fegins hendi því tækifæri að fá að kíkja aðeins í aðra þýska borg, og það meira að segja í gamla Vestur-Þýskalandi. Maður fann líka strax fyr- ir mun, Berlín hefur yfir sér austurblokk- arblæ en Köln fellur kirfilega að „vestur- evrópsk stórborg“-líkaninu, þá sérstaklega miðbærinn. Ég kannaðist betur við mig hér en í Berlín. Fólkið líka tilbúnara til að tala ensku, sem er guðsgjöf á meðan maður er enn temmilega mállaus. Í Köln er þá einn miðbær en ekki tíu eins og í hinni stóru Berl- ín sem er ekki ósvipuð Reykjavík hvað stærð miðað við mannfjölda varðar. Fljótlega kom maður svo auga á tákn Köln- ar, dómkirkjuna ógurlegu sem er svo há að maður botnar eiginlega ekki í því hvað menn voru að spá með þessu ferlíki (kirkjan var hæsta bygging veraldar fram til 1884 og er hæsta gotneska bygging í heimi). Á hótelinu hitti ég Jónatan Garðarsson og hans fólk frá Sjónvarpinu auk valinna hljóm- listarmanna sem áttu að leika á tónleikum um kvöldið. Þetta fyrirkomulag, að setja allt liðið á eitt hótel, átti eftir að reynast happadrjúgt. Fólk gat skipst á upplýsingum og skoðunum í anddyrinu, orðið samferða á viðburði og svo framvegis. Dagurinn fór síðan í að átta sig á aðstæðum, melda sig við fjölmiðlafulltrúa, stinga kjöltutölvunni í samband og kanna hvort það væri þráðlaus nettenging á hót- elherberginu (svo var, en þvílíkt sem það var okrað á henni). Fyrsti opinberi viðburðurinn var svo opnun í hönnunar- og nytjalista- safninu Museum für angewandte Kunst. Margt var um fyrirmenni og fína gesti og Þjóðverjar, skiljanlega, í miklum meirihluta. Utanríkisráðherra, sendiherra Íslands í Berl- ín og aðstoðarmaður menntamálaráðherra voru á meðal gesta og eftir tilheyrandi ræðu- höld og glasaklingerí var hönnunarsýning sett í sama húsi. Fimmtán hönnuðir sýndu þar, m.a. Steinunn Sigurðardóttir, Aftur (systurnar Bára og Raven), Ragna Fróðadótt- ir, Óðinn Bolli Björgvinsson og Spaksmanns- spjarir. Þéttbókað Klukkutíma síðar var svo fyrstu tónleikunum hleypt af stokkunum. Fóru þeir fram í Stadt- garten-tónleikahöllinni sem er hin álitlegasta, hæfilega lítil og hæfilega hrá líka. Hilmar Jensson og Skúli Sverrisson, Orgelkvartett- inn Apparat og Mugison léku og plötusnúðar frá Thule sáu um næturvaktina; þeir Thor, Biogen, Frank Murder og Ozy. Frammi hékk svo Smekkleysusýning og einnig Tólf tóna-Jói sem var með sölubás í anddyrinu. Íslenski raunveruleikinn er þannig að allir þekkja alla í tilteknum bransa og myndaðist í raun ein- hvers konar sumarbúðafílingur á milli tónlist- armannanna. Allir saman í ókunnugri borg en með sama markmið. Aðstæður í baksviðs- herbergi voru þá til að kæta landann, en vel var veitt bæði af mat og drykk, þægilegir sóf- ar voru til reiðu o.s.frv. Þessi mikilvægi þátt- ur hefur gleymst í öllu tali um bætta tónleika- menningu á Íslandi og meiri fagmennsku þar að lútandi. Þegar þessi mál eru á hreinu hristist fólk betur saman og gleði svífur yfir vötnum, sem skilar sér mögulega í betri tón- leikum. Laugardagurinn var þéttbókaður, klukkan 16.00 hófst ljósmyndasýning í Alfred Ehrhardt-stofnuninni en því næst var brunað á stóru myndlistarsýninguna Norðurljós – mýta og melankólía (Nordlicht – Mythos und Melancholie) í C.A.T.-galleríinu (Cologne.- Artspace.Temporary). Flott sýning en ég set efasemdir við heiti hennar. Fullklisjukennt. Í millitíðinni var stokkið upp í Malakoffturninn þar sem Finnbogi Pétursson var með dul- magnað verk. Meðal þeirra sem sýndu í C.A.T. voru Gabríela Friðriksdóttir, Ásmund- ur Ásmundsson, Birgir Andrésson, Finnbogi Pétursson, Gjörningaklúbburinn og Sigurður Guðmundsson. Skondna sögu heyrði ég í tengslum við sýn- inguna. Uppsetning hófst á föstudeginum klukkan 10.00 og biðu Þjóðverjarnir galvaskir eftir Íslendingunum, reiðubúnir að leggja hönd á plóg. Enginn þeirra mætti þó klukkan 10.00 en klukkutíma síðar mætir Heimir Björgúlfsson einn. Þjóðverjarnir sátu síðan furðu lostnir með hendur í skauti fram til 16.00 en þá ruddust Íslendingarnir inn með látum og hentu verkum sínum upp einn, tveir og tíu. Klukkutíma eftir þessa opnun var kvik- myndahátíð opnuð í Filmhaus Cologne. Opn- unarmyndin var Næsland og var Friðrik Þór sjálfur viðstaddur ásamt Laufeyju Guðjóns- dóttur, framkvæmdastýru Íslensku kvik- myndamiðstöðvarinnar. Mugison, höfundur tónlistarinnar, tróð svo upp eftir myndina. Kvikmyndahátíðin var metnaðarfull og vel í takt við það sem er að gerast heima í þeim efnum. Hátíðin var keyrð daglega, Voksne mennesker var t.a.m. sýnd (með Degi Kára viðstöddum) og sex aðrar myndir eftir Frið- rik. Einnig myndir eftir Hilmar Oddsson, Ró- bert Douglas og Baltasar Kormák. Gott úrval stuttmynda var sömuleiðis á dagskrá (Síðasti bærinn, Lost Weekend eftir Dag og Memphis t.a.m.) og líka fullt af heimildamyndum, myndir á borð við How do you like Iceland, Gargandi snilld, Rokk í Reykjavík og Hlemm- ur. Taktfast Um kvöldið voru svo tónleikar í Stadtgarten með Ghostigital, Steintryggi og Still- uppsteypu. Tónlistarfólkið hafði áhyggjur af því að áhorfendur væru fullstífir, þeim væri ómögulegt að sleppa fram af sér beislinu. Þessi eiginleiki (sem kom svo í ljós) hafði þó engin áhrif, sérstaklega fór Ghostigital ham- förum þrátt fyrir að áhorfendur væru meira fyrir að strjúka á sér hökuna en að hoppa upp í loftið. Plötusnúðar frá gus gus sigldu svo taktfast út í nóttina og héldu uppi dúndrandi teknóstuði. Þetta kvöld var allnokkurt útstá- elsi á Íslendingum og enduðu margir hverjir á sjóðandi heitum reggí/döbbklúbbi undir Stadtgarten þar sem dansmennt var iðkuð af mikilli list fram á rauðanátt. Sunnudagurinn var rólegur, enda hátíðinni hleypt af stokkum með miklum krafti. Kvik- myndasýningar voru keyrðar en um kvöldið lék Seria, sveit Skúla Sverrissonar, og gus gus kom fram í tónleikaham. Heimir Björg- úlfsson spilaði þá einnig í Filmhaus Cologne. Daginn eftir var heimsókn þess er ritar svo búin, ég var mættur með börn og buru út á lestarstöð klukkan 7.30 og við tók fjögurra tíma ferð til Berlínar. Á þriðjudeginum var svo fyrsta upplestr- arkvöldið en þá lásu Ólafur Haukur Sím- onarson, Jón Kalman Stefánsson og Guðrún Eva Mínervudóttir í Literaturhaus Cologne. Næstu daga lásu svo Guðbergur Bergsson, Ólafur Gunnarsson, Einar Kárason, Kristín Ómarsdóttir, Sigurbjörg Þrastardóttir, Ingi- björg Haraldsdóttir, Hallgrímur Helgason og Sjón. Tilkomumikill listi verður að segjast. Það orð sem oftast hefur komið upp í hug- ann þegar ég hugsa um þessa hátíð er „fag- mennska“. Það var allt á hreinu og aldrei fékk maður neina óðagotstilfinningu. Manni finnst að Íslendingar gætu lært sitthvað af svona vinnubrögðum en það er líklega full- einfalt að setja dæmið upp þannig. Það er hægt að fara mismunandi leiðir að sama markmiði og flaustrið og hin séríslenska að því er virðist kýlum-á-það- og þetta-reddast- speki er að sumra mati nákvæmlega það sem drífur lista- og menningarlífið áfram – og skil- ar sér m.a. í jafn glæsilegri sýningu og fram fór í Köln. Margbrotnar Íslandsmyndir Listahátíðin Íslandsmyndir rennur sitt skeið formlega á enda í dag. Hátíðin hófst í Köln í Þýskalandi föstudaginn 18. nóvember og var boðið upp á sýningar og uppákomur úr alls sex geirum lista og menningar. Umfang og metnaður sýningarinnar voru aðdáunarverð og sjaldan hefur íslenskt listalíf fengið jafn kröftuga og góða kynningu á erlendri grundu. Eftir Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is www.islandfestival.de Morgunblaðið/Arnar Eggert Ghostigital Elís Pétursson gítarleikari á sviði í Stadtgarten-tónleikahöllinni sem er hin álitlegasta, hæfilega lítil og hæfilega hrá líka. Hönnun Verk Önnu Þóru Karlsdóttur og Guðrúnar Gunnarsdóttur í Museum für Angewandte Kunst.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.