Lesbók Morgunblaðsins - 26.11.2005, Blaðsíða 3
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 26. nóvember 2005 | 3
ég geri stundum, þegar ég er að klára, og
skrifaði vinkonu minni að ég hefði samið hand-
bók um allar mögulegar tegundir sorgar.
En þetta er örlagasaga um eina tiltekna teg-
und af örlögum, hver þau eru og hvernig þau
fara með fólk. Og þetta er skáldsaga, þú gætir
kallað hana bernskusögu, en hún er líka saga
um sorg, saga um ást og saga um ástleysi.
Ég veit um eitt orð sem er rauði þráðurinn,
allra mesti kjarninn í sögunni, en ég get ekki
ljóstrað því upp hér og nú. Höfundur má ekki
mata lesandann um of. Hann getur sagt allt
nema síðasta orðið. Það verður lesandinn að
hafa. Þú hefur lesið hana. Hvað segir þú?“
– Þetta er sorgbitin ástarsaga með fyndnum
innskotum, sem lesandinn getur stiklað á
gegnum söguna.
„Já. Fannstu fyndnina? En gaman! Í svona
sögu verður húmorinn nefnilega að vera svo
fínn og vel ofinn inn í textann.
Húmor er í stíl við lífið sjálft. Fólk í fang-
elsum segir brandara. Fólk segir brandara á
banasænginni.
Mér var til dæmis sögð sagan af konunni
sem rankaði við sér í banalegunni og spurði
hvort hún væri enn hérna megin eða komin yf-
ir. Þegar henni var sagt, að hún væri enn í
jarðvistinni, sagði hún: Já, þeir eru farnir að
setja á terturnar hinum megin! Svo gaf hún
upp öndina!
Húmorinn er eitthvað það furðulegasta í fari
mannskepnunnar. Margir nota hann til þess
að komast af, lifa af einhvern sársauka, eitt-
hvert ströggl í lífinu.Til dæmis eru allir sam-
kynhneigðir, sem ég þekki, miklir húmoristar
og kunna að gera grín að sjálfum sér.
Íslendingar hafa fleiri en eina tegund af
húmor í farteskinu. En þeir kunna ekki að
gera grín að sjálfum sér.“
Börnin börðu höfund-
inn til bókarinnar
Svo heldur hún áfram:
„Það er gott þú fannst fyndnina í sögunni
minni. Þar með hefur lesandinn gefið sitt loka-
svar! Eigum við þá að láta þessu samtali lok-
ið?“
– Ef þú hefur ekkert fleira að segja um sög-
una þína.
„Mér finnst allt í lagi að opna bókina og gefa
fólki inngönguleið.“
– Tölum þá um bernskusöguna. Í húsinu á
Sjafnargötunni alast systkinin upp við tómlæti
sérviturra foreldra. Þetta er nokkuð óvenjuleg
bernskusaga, eða hvað?
„Það er kannski frekar að foreldrarnir í sög-
unni séu óvenjulegir, sérstaklega móðirin.
Það er hulinn leyndardómur, jafnvel fyrir
mér, hvernig móðirin hagar sér gagnvart
börnunum sínum og bremsar með návistinni
einni saman föðurinn af í því að vera sá pabbi
sem hann gæti hafa verið.
Ég held samt að sagan sé alltof algeng, það
er alltof mikið um það að börn búi við fálæti og
taki þann kostinn að flýja of mikið inn í eigin
heim, þar sem þau búa sér til sinn eigin raun-
veruleika.
Börnin í sögunni hringla svo mikið laus og
þau finna að veruleikinn er ekki eins og þeim
er sagt að hann sé.“
– Kaflarnir um börnin eru með öðrum brag
en hinir kaflarnir.
„Ég þurfti að taka mér tak til þess að nálg-
ast bernskuheiminn og reyndi að gera það í
eins tærum og einlæglegum stíl og ég gat
Andstæða bernskunnar er veruleiki fullorð-
insmanneskjunnar og hann kallaði á öðru vísi
stíl.
Það veitti mér ákaflega mikla ánægju að
fjalla um bernskuheiminn. Að fara inn í rök-
heim barnanna. Ógæfukonan Nellí Rós Hjart-
ardóttir í minningargreininni getur ekki verið
Nellí á Grettisgötunni. Hún hét bara Nellí og
var einstæðingur en ekki ógæfukona. Þannig
búa börn til raunveruleikann út frá sínum rök-
um.
Og þau kölluðu rakarann fléttuþjóf af því að
hann klippti flétturnar af söguhetjunni og þau
dunduðu sér við að drepa hann í rafmagns-
stólnum nokkrum sinnum. Þegar ég var búin
að ákveða að þau myndu fleygja fléttunum í
sjóinn hafði ég samband við vin minn, vísinda-
mann, og spurði hann hvort og þá hvernig
fléttur færu að því að drukkna. Hann gerði há-
vísindalega tilraun og á henni byggist frásögn-
in í sögunni um afdrif fléttnanna.
Ég hef reyndar tæpt á bernskunni í fyrri
bókum mínum, en þetta er í fyrsta skipti sem
hún er ráðandi afl í sögu minni. Og það var erf-
itt.
Þessi börn eiga verra líf en þau eiga skilið.
En þau voru svo hugrökk og þegar ég var að
gefast upp voru það þau, sem börðu mig til
bókarinnar og hugguðu mig í mínum rithöf-
undarraunum.“
Saga í hárnákvæm-
um skömmtum
– Það er mikil sorg í sögunni.
„Já eða missir. Söguhetjan missir konuna
sem gengur henni í móðurstað, hún missir föð-
ur sinn og hún missir æskuástina sína.“
– Af hverju hana líka?
„Ég segi ekki hvers vegna í sögunni. Ég var
búin að skrifa það, en tók það svo út. Þessi
saga er svo skafin! Það er allt í svo hárná-
kvæmum skömmtum. Líka sorgin. Og skýr-
ingarnar.
En það má segja að söguhetjan kunni á
tómarúmið, en hún ræður ekki við sambandið.
Þetta er líka saga um það þegar tvær korn-
ungar manneskjur hittast og bráðsmella sam-
an, eru eins og þerripappír, svo næm í sálinni
og ungum kroppnum. Svona lagað gerist en
það getur ekki gerzt aftur. Því miður! Ég er
sem höfundur hrygg yfir því að þau skyldu
hætta að vera saman!“
– En þau ná saman aftur.
„Já. En þá eiga þau aðeins eina stund.“
– Þú skapar þeim ekki annað en að skilja.
„Já, eitthvað þess háttar. Söguhetjan mætir
örlögum sínum og gerir upp líf sitt.“
– Og þá erum við komin í dauðann!
„Já. Ég fjalla beint um dauðann í þessari
bók. Það er eitt af söguefnunum, hvað dauðinn
er gjörsamlega óásættanlegur, hvað það er
óþolandi fyrir fólk að missa sína. Það er engin
sérstök leið til þess að fást við dauðann. Fólk
vinnur einhvern veginn úr þeirri reynslu og
setur hana í eitthvert hólf. Dauðinn er kannski
vel geymdur þar, en hann fylgir okkur alla tíð.
Það er fremur óhugnanleg staðreynd, að við
skulum einn góðan veðurdag hverfa. Að fjöllin
hafi okkur ekki lengur til þess að horfa á sig.
Að við hverfum um alla eilífð og okkar saga
með okkur. Því um leið og manneskjan deyr er
glatað það tækifæri að hún segi sína sögu sjálf.
Bróðir söguhetjunnar er sá sem veit mest um
hana en hann veit ekki helminginn.
Öll eigum við okkur uppáhaldsviðmælanda.
Söguhetjan mín segir æskuástinni sögu sína
með höfuðið á öxl hans í garðinum við Hnit-
björg. Þar bítur sagan í skottið á sér. En enda-
lokin á söguhetjan með lesandanum einum.“
Nýtt form á
hverri bók
– Hvert sækirðu þetta efni – í þinn raunveru-
leika eða eitthvað annað?
„Þetta er algjörlega skáldsaga. Ég bý til
eitthvað úr engu. Kannski ekki alveg engu!
Það geta verið einhverjar lauslegar fyr-
irmyndir. Hús bókarinnar er til dæmis ekki
við Sjafnargötu, eins og þar segir, heldur við
aðra götu þar nálægt.
Þegar ég var búin með bókina fékk ég
barnsföður minn, sem er arkitekt, til þess að
koma með mér og tala við alvöruhúsið. Þá
gerðust stórmerkilegir hlutir!
Í sögugarðinum mínum er hlynur og þarna í
alvörugarðinum stóð tvístofna hlynur, sem ég
sá strax að gat verið tilvísun til foreldranna í
sögunni. Ég breytti því mínum hlyn, sem var
skjól söguhetjunnar, og gerði hann tvístofna.
Ég hitti svo húsráðandann og þá kom í ljós
að í alvöruhúsinu hafði búið maður með sama
nafni og faðirinn í bókinni. Ég breytti því nafn-
inu hans.“
– Þú beitir víða fyrir þig ljóðrænu og lætur
hana eiginlega vera einráða í lokin.
„Ég varð að gera þetta svona. Það er mjög
erfitt að setja þetta saman, ljóð og prósa, svo
þau falli hvort að öðru en það var engin leið
önnur en ljúka bókinni með þessum hætti, í
þessu formi. Og ég vissi það frá upphafi. Þegar
ég byrjaði að skrifa söguna vissi ég upp á hár
hvernig endirinn yrði.
Ég hef valið mér nýtt form fyrir hverja
sögu. Þessi barátta við formið er mér ákaflega
erfið. Samt verð ég að heyja hana í hverri
nýrri bók. Þessi nýja saga á kannski eitthvað
skylt við Tímaþjófinn í forminu, en þó eru þær
ekkert líkar!“
Ekki kött-og-peist-höfundur
– Hvernig verður bókin til hjá þér?
„Ég safnaði efni til þessarar bókar í sjö ár
og síðustu tvö árin var ég eiginlega innilokuð
við að skrifa hana. Ég er nefnilega svo sein-
virkur rithöfundur! Ég vinn mér alla hluti svo
erfiða. Og ég skrifa svo lélega fyrstugerð, að
það hálfa væri nóg. Ég leið önn fyrir þetta
lengi vel, en svo las ég í bók um Toni Morrison,
sem er einn af mínum uppáhaldshöfundum, að
henni væri eins farið og mér hvað fyrstugerð-
ina snerti. Þá fékk ég uppreisn æru!
Ég er ekki svona kött-og-peist-höfundur.
Ég er í prentun og pappír. Ég er með borð út
um allt hús undir söguna mína. Og ég verð að
hafa blýant. Mér dugar ekki skjárinn. Ég
prenta út af honum og raða blöðunum á borð-
in, les af þeim, skrifa leiðréttingar og viðbætur
á þau og færi þær svo inn í tölvuna. Stundum
handskrifa ég heilu kaflana.
Þessi bók er mikil spennu- og áhættusaga,
því það var einn samfelldur háski að skrifa
hana. Á 25 metra löngum ganginum í húsinu
mínu dróst ég áfram á töfflum með þetta sér-
staka draugahljóð á hælunum. Sambýlismaður
minn sagði, að það hefði verið farið að bera á
nokkrum þunglyndiseinkennum hjá mér á
lokasprettinum!“
– Hvað var erfiðast?
„Að skrifa um börnin. Þau eru svo minni-
máttar og maður er fljótur að finna til með
þeim, en verður samt að vera svo kúl; hjartað
heitt og hausinn kaldur. Út á það gengur
þetta! Sjóðheitt hjarta og ískaldan haus.
Mér finnst lesandinn eiga svo gott. Hann
getur látið hjartað ráða! Mér finnst mest um
vert að lesandinn geti samsamað sig sögufólk-
inu mínu. Kona ein sagði við mig, að henni
fyndist ég alltaf vera að skrifa um sig, bæði í
þessari sögu og í Hjartastað. Svona ummæli
eru mér mikils virði, því þau benda til þess að
mér hafi tekizt það sem ég ætlaði mér; að láta
lesandann sjá sig í bókinni, að hún komi fólki
við.“
Saga sálarinnar
„Ég held að þetta sé langtilfinningaríkasta
skáldsagan mín. Að ég sé örlátari á sjálfa mig
en nokkurn tímann áður í nokkurri bók.“
– Og ástríkari?
„Ekki veit ég það! Mér finnst ástarsagan í
þessari bók ekki hafa meira vægi en ástleysið
eða sorgin.
En ég get viðurkennt að mér finnst ástin
með tímanum vissulega mjög spennandi,
hvaða hluti ástin tekur með tímanum og tím-
inn með ástinni.
En það á líka við um dauðann. Hann er
óhöndlanlegur og jafn leyndardómsfullur og
ástin, skreppur undan, þegar þú reynir að
festa hendur á honum.
Mig hefur alltaf langað til þess að skrifa
skáldsögu sem heitir Saga sálarinnar.
Ég held að það geti verið þessi, þótt hún
heiti það ekki.“
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Steinunn Sigurðardóttir: Mikil spennu- og áhættusaga, það var einn samfelldur háski að skrifa hana.
Með sjóðheitt
hjarta og
ískaldan haus