Lesbók Morgunblaðsins - 26.11.2005, Page 7
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 26. nóvember 2005 | 7
S
kjaldsveinn Hitlers í Noregi,
maðurinn sem ljáði föð-
urlandssvikum nafn, er enn á
ný til umræðu á heimaslóðum
sínum. Nú þegar 60 ár eru frá
því Quisling var tekinn af lífi,
eru hugleiðingar hans um yf-
irburði hins germanska kyn-
þáttar dregnar fram í dagsljósið. Í leikritinu,
sem Ibsen-leikhúsið í Skien setur upp, Quisling
– athugun (Quisling – en undersøkelse), er
reynt að skilja hugarheim svikarans og gefa
áhorfendum tækifæri til að kynnast annarri hlið
á honum.
Slæm auglýsing
Íbúar Skien og Þelamerkur hafa hingað til verið
tregir til að beina athyglinni að Quisling. Nafnið
er ekki talið líklegt til að auka
hróður fylkisins í augum
ferðamanna og auk þess hafa
menn haft áhyggjur af, að leik-
ritið gæti hleypt nýju lífi í starfsemi nýnasista.
Leikhúsið vill hins vegar leita svara við þeirri
spurningu hvernig prestssonurinn frá Fyresdal
gat orðið foringi nasista í Noregi. Var hann
brjálaður eða var það röð rangra ákvarðana
sem varðaði veginn? Áttu föðurlandsástin og
þjóðernishyggjan sinn þátt í hvernig fór?
Ástæður svikanna hafa lengi verið til umræðu
meðal menntamanna um allan heim en íbúar
Þelamerkur hafa í litlum mæli rætt þetta sögu-
lega slys.
Inger Buresund, leikhússtjóri Ibsen-
leikhússins, dregur enga dul á, að þessari list-
rænu uppákomu fylgi nokkur pólitísk áhætta.
Hún telur að íbúar Skien þurfi á umræðunni að
halda og lítur á það sem skyldu sína að efla hana
í sveitarfélaginu, í Grenland, sem hefur lengi
flaggað þessum litlausu einkunnarorðum: „Við
höfum það svo notalegt í Grenland.“
„Allir hafa skoðun á Quisling,“ segir Bure-
sund, en það þýðir ekki, að mikið sé um hann
talað og því fer líka fjarri, að fólk almennt fái
einhverja gæsahúð yfir pólitískri arfleifð hans.
Heimur Óðins
Á frumsýningardegi leikritsins um Quisling
beindist athygli fréttamiðlanna að samtökum
nýnasista, Vigrid, og þeirri ákvörðun þeirra að
vera með nasískar athafnir og uppákomur á
Slottsfjallinu á Túnsbergi. Starfsemi samtak-
anna, sem er stöðugt undir eftirliti norsku lög-
reglunnar, er öflug á heimslóðum Quislings. Nú
vilja þau gera fjallið, sem gnæfir yfir elstu
byggð Noregs, Túnsbergi, að miðstöð sinni. Þar
á að vígja ungt fólk og nýja félaga inn í Heim
Óðins, þann heim, sem Quisling tengdi á sínum
tíma við nasista í Þýskalandi með skelfilegum
afleiðingum fyrir Noreg.
Hugtakið Quisling
Hinn 9. apríl árið 1940 varð Quisling hluti af
mannkynssögunni. Á sama tíma og Þjóðverjar
lögðu undir sig Noreg, rændi Quisling völd-
unum í landinu. Vöktu svikin mikla athygli og
nafnið „Quisling“ varð strax alþekkt og alræmt
um allan heim.
„Nafnið, hugtakið, hefur unnið sér þegnrétt í
öllum heimsins tungumálum og þýðir sá sem
svíkur föðurland sitt. Þannig hefur fjölskyldu-
nafnið frá hinni fögru Þelamörk öðlast eilíft líf.
Nú er hægt að tala um kvislinga í Írak, Líbanon
og Afganistan,“ segir norski Quisling-
sérfræðingurinn og sagnfræðingurinn Hans
Fredrik Dahl. (Dahl hefur m.a. skráð ævisögu
Quislings í tveimur bindum, „Foringi verður til“
og „“Foringi fellur“ („En fører blir til“, „En før-
er for fall“). Var ævisagan höfð til hliðsjónar við
gerð leikritsins).
„Nafnið náði ekki eingöngu fótfestu vegna at-
burðanna sem liggja að baki, heldur hjálpaði
einnig upp á ákveðin hljóðfræðileg upplifun,
sjálfur hljómur nafnsins,“ segir Finn Skårde-
rud, sálfræðingurinn sem ásamt rithöfundinum
Øystein Lønn (handhafa bókmenntaverðlauna
Norðurlandaráðs 2002) er höfundur leikverks-
ins um Quisling.
„Aðeins 10 dögum eftir hernám Noregs, hinn
19. apríl 1940, birtist í breska dagblaðinu The
Times leiðari þar sem norska majórnum er
þakkað fyrir að auðga tungumálið að þessu
leyti, orðaforðann yfir svik og undirferli. Nafnið
byrjar á „Q“, sem leiðarahöfundur segir um, að
enskumælandi fólki hafi lengi þótt „heimskuleg-
ur og óáreiðanlegur bókstafur“. Þar á eftir
koma s-hljóð sem gera það að verkum að það er
líkt og nafnið hvæsi eins og stór og eitruð
slanga,“ segir Skårderud.
Tekinn af lífi á stofndegi
Sameinuðu þjóðanna
Á árunum 1940 til 1945 leitaðist Quisling við að
tvinna saman hlutverk sitt sem liðsmaður Hit-
lers í Noregi og það að treysta stöðu landsins í
Evrópu framtíðarinnar, sem hann var viss um,
að myndi lúta yfirráðum Þjóðverja. Þegar svo
Hitler tapaði stríðinu, tók hann aðra með sér í
fallinu og Quisling var skotinn sem drottins-
svikari eftir réttarhöld, sem efnt var til í mikl-
um flýti. Hann var tekinn af lífi á stofndegi
Sameinuðu þjóðanna, hinn 24. október 1945.
Skårderud og Lønn hafa unnið að leikritinu í
sex ár. Um tíma stóð til að úr því yrði kvik-
myndahandrit, en Buresund taldi að hér væri á
ferðinni leikverk, sem upplagt væri að setja á
svið á Þelamörk. Í því er dregin upp mynd af
Quisling sem foringja án fólks, jafnt veiklund-
uðum sem sterkum manni, sem er einn í sinni
hugmyndafræðilegu baráttu. Á sviðinu vekur
föðurlandssvikarinn nokkra samúð, honum er
lýst sem manni á líkan hátt og gert er í kvik-
myndinni „Der Untergang“ og í leikritinu
„Speer“, sem fjallar um Albert Speer, arkitekt
og hervæðingarráðherra Hitlers. Hjá Ibsen-
leikhúsinu er þó ekki bara verið að segja gamla
sögu. Hugsanir hans um hinn hreina kynþátt
lifa enn góðu lífi utan dyra leikhússins.
Pólitískt leikhús
Hjá Ibsen-leikhúsinu veltu menn því fyrir sér
hvort bjóða skyldi félögum í Vigrid á sýninguna
og koma þannig á eins konar fundi með þeim og
Quisling. Lýsa þeir sjálfum sér sem „þjóðlegum
félagsskap, sem vill þróa samfélagið á grund-
velli norrænnar trúar og norræns gildismats“.
Það hljómar ekki illa en nasisminn er illa falinn.
Inger Buresund telur, að fáist unga fólkið, sem
heillast af þessum boðskap, til að koma á sýn-
inguna og kynnast Quisling í túlkun Jan Ø.
Wiigs, geti það aukið skilning þess á því hvers
vegna Quisling hlaut að lúta í lægra haldi.
Þrátt fyrir það sem norska öryggislögreglan
kallar „fyrirbyggjandi aðgerðir“ gegn starfsemi
Vigrids, hafa samtökin náð að festa sig í sessi á
heimaslóðum Quislings. Leiði hans við Gjerpen-
kirkju í nágrenni Skien er nýnasistum heilagur
staður og félagar í Vigrid fara þangað í píla-
grímsferð. Hugmyndir Quislings um yfirburði
Norðmanna eiga enn nokkurn hljómgrunn í
þessum hluta Noregs þar sem samfélagið hefur
að litlu leyti þróast í fjölmenningarlega átt.
Mikilvægt leiðarljós
Að mati Buresund leikhússtjóra er tímasetn-
ingin hárrétt. „Árið er 2005 og Noregur heldur
upp á 100 ára sjálfstæði sitt. Við fögnum með
glæsilegum uppákomum og alls staðar er flagg-
að. Við slíkar aðstæður er mikilvægt að minnast
þeirra atburða í sögu okkur sem við erum ekki
mjög stolt af,“ segir hún og leikstjórinn Tom
Remlov er henni sammála. „Það var það norska,
sem Quisling vildi fagna, og það var það norska,
sem Quisling sveik,“ segir hann.
Eitt af markmiðunum með leikverkinu er að
reyna að skilja þá breytingu, sem varð á Quisl-
ing frá því hann vann að mannúðarmálum með
norsku þjóðhetjunni Friðþjófi Nansen í Sov-
étríkjunum á þriðja áratug síðustu aldar og þar
til hann sveik þjóð sína minna en 20 árum síðar.
Sjónarmið verksins er bæði pólitískt og per-
sónulegt. Quisling sveik ekki eingöngu land sitt,
hann sveik einnig sína nánustu, fjölskyldu og
eiginkonur. Samband hans við kvenfólk var
mjög sérstakt. Þrátt fyrir mikla feimni og skort
á persónutöfrum, gerðist hann sekur um tví-
kvæni. Snemma á þriðja áratugnum kvæntist
hann tveimur ungum, rússneskum konum. Eft-
ir að hafa verið giftur þeirri yngri, Alexöndru, í
rúmt ár, „endurskilgreindi“ hann hana sem
fósturdóttur eiginkonu sinnar númer tvö, Mar-
íu.
„Hræðilegur hversdagsleiki“
Fyrsta stóra ævisaga Quislings kom út árið
1965 og hét „Manneskjan Vidkun og svikarinn
Quisling“ („Mennesket Vidkun og forræderen
Quisling“). Höfundurinn, Benjamin Vogt, segir
þar, að „það skelfilega við Quisling var ekki ein-
hvers konar óeðli, heldur einhver hræðilegur
hversdagsleiki“. Þessi niðurstaða varð Finn
Skårderud að umhugsunarefni og hún er rauði
þráðurinn í leikritinu.
„Það getur verið réttlætanlegt að reyna að
sálgreina þá, sem valda öðrum miklum skaða,
einfaldlega í þeim tilgangi að skilja. Það ber þó
að varast að einfalda hlutina um of, að lýsa
mönnum sem sálsjúkum illmennum, því að þá
erum við að farin að tala um eitthvað sem er ut-
an við okkar eigin reynsluheim. Við erum þá að
skilja á milli „þeirra og okkar“. Niðurstaða
Vogts minnir okkur á að við verðum að taka
okkur sjálf með í útreikninginn. Hvað verður til
þess, að hversdagsmaðurinn breytist í hálfgert
skrímsli við tilteknar aðstæður?“ spyr Skårde-
rud.
Fleiri leita svara við gátunni um Quisling.
Hann var vel gefið barn, prestssonur, afburða-
nemandi og sá, sem lokið hefur námi við her-
skólann með hæstu einkunn. Jafnframt var
hann veiklundaður, klunnalegur og sérgóður.
Hann reyndi samt að hugsa stórt og hóf þegar á
unglingsárum að þróa með sér sitt eigið hug-
myndakerfi, alheimskenninguna, pólitískan og
trúarlega bræðing, sem breyta átti heiminum.
„Í skrifum hans má lesa á milli línanna að
hann hafði stórar hugmyndir um eigið mik-
ilvægi. Hugmyndafræði Quislings var eins kon-
ar strákaheimspeki þar sem sjálfið fékk að vaxa
og bólgna út án þess að raunveruleikinn gripi
inn í. Þessi raunveruleikafirrti maður vildi
bjarga heiminum. Fyrir Norðmenn var ógæfan
sú, að hann tengdi sitt eigið mikilvægi norskri
náttúru, ættinni og hinum norræna kynstofni.
Hann taldi að aðrir hefðu svikið málstaðinn, að
það væri skylda hans að endurreisa norsku
þjóðina til fornar frægðar. Hann var sann-
færður um að sjálfur væri hann afkomandi forn-
germanskrar höfðingjaættar og jafnvel Óðins
sjálfs,“ segir Skårderud.
Í leikritinu kemur meðal annars fram, að
markmið Quislings var ekki að vera skósveinn
Hitlers. Hann taldi sig betur gefinn og hafa
betri skilning á hlutunum en Foringinn.
Aleinn
„Persónuleiki Quislings var uppblásinn. Fram-
lag hans til aukins skilnings á svikurum kristall-
ast ekki síst í samskiptum hans við annað fólk.
Hann átti enga trúnaðarvini, fór alltaf sínar eig-
in leiðir og naut ekki þess aðhalds, sem sam-
ábyrgð og sameiginleg gildi veita okkur,“ segir
sálfræðingurinn og hinn nýbakaði leikritahöf-
undur Skårderud. Hann telur að Quisling hafi
slitið ummæli Ibsens og Péturs Gauts um að
„vera sjálfum sér nógur“ úr sínu samfélagslega
samhengi. Þess vegna varð einfarinn heimsins
þekktasti kvislingur. Hann hlýddi engum nema
sjálfum sér.
Sjálfsgagnrýni
Frumsýning leikritsins 21. október síðastliðinn
sýnir, að nú er vilji til að ræða um föðurlands-
svikarann, en svo var ekki fyrir aðeins fjórum
árum. 2001 reyndi fylkissafnið á Þelamörk að
koma upp sýningu um Quisling en mótmælin
voru svo mikil að hætt var við það. Nú horfir
hins vegar öðruvísi við og næsta sumar ætlar
safnið að beina sviðsljósinu um stund frá þjóð-
legri list á Þelamörk og að pólitískri sýningu um
tímabil og mann sem breyttu mannkynssög-
unni.
Einnig er stefnt að því að taka í notkun einka-
heimili Quislings, Villa Grande í Ósló, í þeim til-
gangi að berjast gegn hugmyndafræði hans. Á
húsið að verða miðstöð fræða og upplýsinga um
helförina og lífsskoðanir minnihlutahópa. Nú er
það þó persónan Quisling í túlkun Ibsen-
leikhússins sem Norðmenn ræða um. Leik-
verkið hefur opnað fyrir umræðu um hann og
hvaða þátt hugmyndir hans um eigið ágæti og
landsmanna sinna áttu í að móta mesta föð-
urlandssvikara Noregssögunnar. Þetta eru
óþægilegar umræður. „Hann gæti ekki hafa
komið annars staðar frá.“ Í leikritinu er Alex-
andra, fyrri kona Quislings, látin slá því föstu.
- - - - - - - - -
Leikritið „Quisling – athugun“ var frumsýnt í
Ibsen-leikhúsinu í Skien 21. október sl. Verður
það flutt í öðrum leikhúsum á Þelamörk, Vest-
fold og Buskerud fram til 30. nóvember og sýnt
í þjóðleikhúsinu í Ósló 6. til 17. desember.
Quisling – maðurinn
sem unni Noregi
Hataðasti maður Noregssögunnar, Vidkun
Quisling, er aftur í sviðsljósinu. Að þessu
sinni á fjölum leikhúss á Þelamörk, ástkær-
um heimaslóðum föðurlandssvikarans, og án
grímu grimmdarinnar. Á sama tíma og leik-
húsið reynir að auka skilning okkar á þessum
manni, hugsa nýnasistarnir sér til hreyfings.
Quisling – athugun Á frumsýningardegi leikritsins um Quisling beindist athygli fréttamiðlanna að
samtökum nýnasista, Vigrid, og þeirri ákvörðun þeirra að vera með nasískar athafnir og uppákomur
á Slottsfjallinu á Túnsbergi.
Eftir Jens-Eirik
Larsen
jello@online.nk
Höfundur er blaðamaður í Noregi.