Lesbók Morgunblaðsins - 17.09.2005, Page 3

Lesbók Morgunblaðsins - 17.09.2005, Page 3
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 17. september 2005 | 3 ekki vera nægilega gott tæki til að fjalla um ytri heim. Að minnsta kosti virðast til dæmis skáldsögur ekki oft ná máli í pólitískum umræðum samtímans, þær koma ekki oft til tals þegar til dæmis stórviðburðir ríða yfir lönd og þjóðir, þær eru ekki nefndar jafnvel þótt þær hafi fjallað um atburði í líkingu við þá sem eiga sér stað í raunheimum. Hvað veldur?“ Stefán Máni svarar þessu á sinn hátt; skáldsagan er dauð, heimur bókmennta lítið annað en Idol-keppni, „þar sem sig- urvegarinn fær að launum nútímalega upphafningu á innihaldi sínu: Kvikmynd í fullri lengd …Þetta er í raun eina von þessa gamla listforms – skáldsögunnar – að verða einn daginn að kvikmynd.“ En það er ekki nóg með að skáldsagan sé dauð, nei, ekki bara það, skrifar Stefán Máni, því Victoria Beckham hefur aldrei lesið bók, og vísar þá í frétt sem heimspressan hélt á lofti í nokkra daga, ekki af minni fimi en David Beckham heldur boltanum á lofti hjá Real Madrid. Stefán Máni virðist hafa áhyggjur af þessu með Victoriu, hann segir: „Um leið og skáld- sagan fer að tilheyra einhverjum gáfumanna-minnihlutahópi sem lítur niður á allt yfirborðskennda tískufólkið er hún um leið orðin að tilgerðarlegri uppfærslu á gamalli óperu, lesist snobb.“ Fyrir það fyrsta; ég hef ekki orðið var við það að sá hópur sem les mikið af skáldsögum, sem sækir bókmenntahátíðir, upplestra og svo framvegis, sé eitthvað gáfaðri en gerist og gengur, það er einhver misskilningur. Sumir eru gáfaðir, sumir eru ekki gáfaðir, flestir líklega mitt á milli, eins og fólk er flest. En segið mér, hefur skáldskapur einhvern tíma verið lesinn að jafnaði af öðrum en þröngum hópi? Er einhver munur þar á okkar tíma og segjum fyrir einni öld? Og hvenær hafa tíðindi eða tíðindaleysi í bókmenntaheiminum „skipt máli“ í pólitískri þjóðfélagsumræðu, hver vitnaði í ljóð Pessoa meðan hann lifði, hver í sögur Kafka á hans dögum? Skipta þeir þá engu máli? Ganga þeir Stefán Máni og Þröstur ekki bara með rómantískar grillur í höfðinu, sjá liðna tíma í hillingum? Vissulega gegna bókmenntir pólitísku hlutverki í einræðisríkjum, í frelsisbar- áttu, á stríðstímum og svo framvegis, en það er tímabundið ástand og þegar því lýkur sjá greina- og pistlahöfundar um hina daglegu gagnrýni, enda pistlaformið oftast beittara, skjót- ara til höggsins. Bókmenntir hafa ætíð verið hugarfóstur og áhugamál minni- hlutans, og þær eru hvorki betri né verri fyrir vikið, hvorki æðri né lægri. Miklu fleiri sækja í hreina og klára afþreyingu, og lengi frameftir voru það sögur, rímur, sögukvæði, í dag eru það kvikmyndir, sjónvarp, tölvuleikir, tímarit. Og með leyfi, hvaða tíðindi eru það þótt poppsöngkona og tískukona hafi aldrei lesið bók, hjálpi mér, fjöldinn allur fer í gegnum lífið án þess að gera það, og þannig hefur það alltaf verið. Hitt er hins vegar öllu verra, og meira áhyggjuefni en lesdeyfð Victoriu, að á okkar dögum hafa þáttastjórnendur í sjónvarpi – með afar misjafna þekkingu á skáldskap, og ósjaldan íhaldssaman smekk – umtalsvert meiri áhrif á bókmenntaumræðuna, og á hvað fólk les, heldur en allir gagnrýnendur og greinarhöfundar til samans. Það er ágeng, áhrifamikil og yfirborðsleg rödd ljós- vakamiðlanna sem stýrir bókmenntaumræðu samtímans, rödd sem spyr miklu fremur um sölutölur en innihald, um höfundinn frekar en skáldskapinn. En við lifum líka á tímum þar sem aug- lýsingameistarar hafa meiri áhrif á daglegt líf okkar en stjórn- málamenn, líkamsræktarkennarar hafa meiri áhrif en prestar, og fótboltamenn meiri áhrif á hugsun okkar en heimspekingar. En hér er frétt sem birtist fyrir skömmu á mbl.is: Breskir bókaútgefendur hafa af því nokkrar áhyggjur að lesendur eigi í erfiðleikum með stórar og þykkar bækur á borð við Stríð og frið eftir Tolstoj og Sögu tímans eftir Stephen Hawking. Því hafa þeir nú brugðið á það ráð að gefa út einfaldari – eða lesendavænni – útgáfur af þessum bókum og jafnvel einhverjum fleirum. Hvernig skyldi standa á þessu; vegna þess að skáld samtím- ans hafa dofnað, skáldsagan dauð, skáldskapurinn í kreppu? Er ekki svolítið annað hér í spilunum, til dæmis peningar, gróðasjónarmiðin? Eða hefur lesendum farið svo aftur að þeir geti ekki lengur lesið 1.500 síðna epískan doðrant frá 19. öld- inni, og hefur Saga tímans ekki nú þegar fengið meiri út- breiðslu en nokkurn óraði fyrir? Ég held að áhyggjur breskra bókaútgefenda stafi einfaldlega af því að þeir vilja selja fleiri eintök af þessum bókum en „eðlilegt“ mætti telja, þeir vilja ná til lesenda sem hafa sáralítinn áhuga á bókmenntum eða vangaveltum um rök tilverunnar, og leiðin að þessum lesendum er þá að sjóða allt niður í hentugar umbúðir. Nú bíður maður bara eftir auglýsingunni: Lesið Stríð og frið á 50 mínútum! Við lifum á dögum fjölmiðla og mælum allt í áhorfi, sé lítið áhorf er þátturinn misheppnaður, hann er blásinn af eða breytt til að koma til móts við fleiri. Hann er einfaldaður, hann er gerður almennari. Sama, eða svipað virðist gilda í bókmennta- umræðunni, bók er betri og mikilvægari eftir því sem fleiri lesa hana, ljóð sem er ekki á hvers manns vörum er lítils virði, skáldsaga sem lítið selst hlýtur að vera misheppnuð, hún á ekk- ert erindi við samtímann, smásagan kemst ekki einu sinni inn í umræðuna; við Íslendingar stöndum í þeirri trú að smásagan sé form sem skáldsagnahöfundurinn grípur í þegar hann er í óstuði. Og krafa dagsins í dag virðist vera sú að skáldskapurinn eigi að tengja sig við samtímann, hann á að taka þátt í um- ræðunni, hvers vegna ná skáldsögur ekki máli í pólitískum um- ræðum samtímans, spyr Þröstur, og mikið andskoti er nú freistandi að spyrja á móti; er það svo eftirsóknarvert? Vin- samlegast gefið ykkur fram sem var skemmt yfir þeim sirkusi sem fór af stað, fyrst í kringum bók Hallgríms, Höfund Ís- lands, og síðan kringum ævisögur um Halldór Laxness – gefið ykkur fram sem þótti sú umræða frjósöm. Ef mann dreymir ekki verður maður brjálaður „Það er orðið svo langt síðan ég hef heillast algerlega af skáld- sögu að það er nánast dapurlegt“, skrifar Stefán Máni og veltir fyrir sér hvort hann sé orðinn svona sljór, eða hvort ekkert sé að gerast í skáldsögunni. Eiríkur segist líka fá á tilfinninguna að eitthvað hafi gengið af bókmenntunum dauðum, að þær til- heyri liðnum tíma, en sami Eiríkur hefur þó undanfarið talað í útvarpið af talsverðri hrifningu um spánska rithöfundinn Jav- ier Marías, og virðist því ekki eins langt leiddur og Stefán Máni. En er Stefán Máni þá svona sljór eða er skáldsagan dauð; eðlilega hneigist hann sjálfur að hinu síðarnenda. Skáld- sagan er dauð, hrópar hann, og fólk um allan heim hefur hróp- að það sama síðastliðin 50 ár; það er nú meira hvað það tekur langan tíma fyrir hana að drepast. Ég held annars að Stefán Máni sé ekki sljór, en hef á tilfinningunni að hann sé haldinn sama misskilningi og Þröstur, þeir segja: Skáldsagan nær ekki máli í pólitískri umræðu vegna þess að hún nær ekki til al- mennings, hún tekur ekki á veruleikanum, samtímamálum. Stefán vill eitthvað alveg nýtt, nýja skáldsögu, og að hans mati er algert skilyrði að skáldsagan hafi svipaða útbreiðslu og kvik- myndir, að hún sé lesin af miklum fjölda, að öðru leyti eigi hún lítið sem ekkert erindi. Og þá erum við aftur komin að þessu; krafan um útbreiðslu, um áhorf, krafan um að skáldskapurinn sé órjúfanlegur hluti af samtíðarumræðu; að þingmenn fari varla öðruvísi upp í pontu en að vitna í nýjustu skáldsöguna. Þeir gleyma eða hafna því að skáldskapur hefur ætíð verið í ætt við djúpsprengjur; yfirborðið gárast kannski ekkert en það hreyfist sem skiptir máli, hjartað slær öðruvísi um stund- arsakir, rennsli blóðsins breytist. Skáldskapurinn er líka eins- konar draumur, stundum fagur, stundum grimmur, stundum hversdaglegur, stundum kjánalega glaður eins og í þessu ljóða- broti Spánverjans Angel Gonzalez: í gær fór einhver út með hatt á höfði, og allur dagurinn var eftir því, þú sérð í hendi þér hversu skemmtilegur hann var. Sænska skáldið Werner Aspenström segir að dreymi mann ekki, verði maður brjálaður: Ef mann dreymir ekki verður maður brjálaður. En í miðjum draumnum ertu vakinn af skynseminni, sem pantar hefðbundinn enskan morgunverð. Maður verður þá að reika hálfbrjálaður um enn einn daginn. Og hvers vegna dettur mér nú í hug að setja samasemmerki milli kröfunnar um hefðbundinn enskan morgunverð, og þeirr- ar að skáldskapur eigi að taka þátt í pólitískri umræðu? Hvað veldur? Einn af meisturum samtímabókmennta er téður Javier Marías; hnýttu á þig bindið, herra Marías, skrifaði ritdómari Guardian um síðust bók hans, því þú ferð bráðum til Stokkhólms til að taka á móti nóbelnum. „Stundum læðist að mér sá vondi grun- ur,“ skrifar Eiríkur, „að væri Javier Marías íslenskur höfundur þá myndu gagnrýnendur hér saka hann um að taka ekki á mál- efnum samtímans, um að hann hefði of mikinn áhuga á bók- menntum, vitnaði of oft í William Shakespeare: Með öðrum orðum; Javier Marías yrði sakaður um að vera alvöru rithöfundur. Og umsvifalaust flautaður út af vellinum sem slíkur, að öllum líkindum í DV eða bara á netinu.“ Þetta eru kannski ýkjur hjá Eiríki, eða hvað; enginn þing- maður gæti nýtt Marías sér til framdráttar í ræðum sínum, leiðarahöfundar blaðanna myndu tæpast vitna í hann, og senni- lega yrði hann sakaður um að hafa ekki áhuga á samtíma sín- um – við sem búum hér við ysta haf virðumst standa í þeirri trú að einungis þeir sem tala um samtímamál hafi áhuga á samtím- anum, þeir sem fjalla um manneskjur en ekki málefnin eru „flautaðir út af vellinum“. Hvað veldur? Er það vegna þess að við viljum, nánast krefjumst þess, að það sé hægt að máta per- sónur í skáldsögum við einstaklinga í þjóðfélaginu? Vegna þess að við viljum og verðum að finna skáldskapnum samastað í veruleikanum? Það er ekki nóg, að okkar mati, að skáldskapur sé bara skáldskapur. Nei, skáldskapur má alls ekki vera of mikill skáldskapur, það verður að vera hægt að tengja hann fljótt og vel við daglegt líf, og helst umræðuna; það verður að vera hægt að nýta skáldskapinn. Og erum við þá ekki farin að nálgast orð á borð við nytjalist – rímar orðið nytjalist kannski betur við Íslendinga en aðrar þjóðir? Ef mann dreymir ekki verður maður brjálaður. Kannski höfum við alla tíð verið hálf- brjáluð þjóð. Morgunblaðið/Árni Sæberg Bóklaus ævi „Og með leyfi, hvaða tíðindi eru það þótt poppsöngkona og tískukona hafi aldrei lesið bók, hjálpi mér, fjöldinn allur fer í gegn- um lífið án þess að gera það, og þannig hefur það alltaf verið.“ „Í gær fór einhver út með hatt á höfði“ Höfundur er rithöfundur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.