Lesbók Morgunblaðsins - 17.09.2005, Blaðsíða 12

Lesbók Morgunblaðsins - 17.09.2005, Blaðsíða 12
12 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 17. september 2005 Virginia Madsen, Bruce Willis ogBruce Dern hafa tekið að sér hlutverk í myndinni The Astronaut Farmer, sem nú er verið að taka upp í Nýju-Mexíkó í Bandaríkjunum. Í myndinni leikur Billy Bob Thorn- ton sérvitran bónda sem dreymir um að ferðast út í geim og smíðar í þeim tilgangi eldflaug í hlöðunni sinni. Nágrannar hans líta á hann sem furðufugl, stjórn- völd líta á hann sem ógn við almanna- öryggi og fjölmiðlar líta á hann sem efni í góða frétt. Madsen mun leika eiginkonu bónd- ans og Willis verður í hlutverki fyrr- verandi kollega hans hjá Bandarísku geim- ferðastofn- uninni, NASA. Dern leikur tengdaföður bóndans, þ.e.a.s. föður persónu Madsen. Independent-deildin innan War- ner-fyrirtækisins framleiðir myndina og leikstjóri hennar er Michael Pol- ish. Hann samdi handritið að mynd- inni ásamt tvíburabróður sínum, Mark.    Peter Berg, sem leikstýrði FridayNight Lights, hefur skrifað und- ir samning um að skrifa handrit að og framleiða The Losers, sem byggist á teiknimyndasögu. Hún fjallar um vel þjálfaða sérsveit hermanna sem er svikin og skilin eftir til að mæta dauða sínum. Her- mennirnir hefjast þá handa við að leita að þeim sem sveik þá og lenda á leiðinni í ýmsum ævintýrum. Sagan um The Losers birtist í blöðunum GI Combat og Our Fig- hting Forces hjá DC Comics- fyrirtækinu á áttunda áratugnum. Þá fjallaði hún um ævintýri utangarðs- manna í bandaríska hernum í seinni heimsstyrjöldinni. Fyrirtækið hóf út- gáfu á sögunni að nýju fyrir þremur árum undir merki Imprint og skrifaði Andy Diggle texta, en listamaðurinn Jock sá um myndskreytinguna. Gagnrýnendur hafa lofað þessa nýju útgáfu í hástert að undanförnu. Auk þess að leikstýra Billy Bob Thornton í Friday Night Lights, sem fjallaði um amerískan fótbolta, leik- stýrði Berg nýlega The Rundown, með The Rock í aðalhlutverki.    Yfirmenn hjá Paramount Classics-fyrirtækinu eru í vondu skapi þessa dagana, eftir að keppinautar þeirra hjá Fox Searchlight kræktu í dreifingarréttinn á Thank You for Smoking, gam- anmynd sem ger- ir grín að sér- hagsmunabaráttu tóbaksfram- leiðslufyrirtækj- anna. Myndin hefur vakið mikla athygli á Kvik- myndahátíðinni í Toronto, sem lýk- ur í dag. 20th Century Fox sendi frá sér yfirlýsingu í vikunni, þar sem sagði að fyrirtækið hefði náð í réttinn á sunnudaginn með tilboði upp á 6,5 milljónir doll- ara, eða sem nemur 405 milljónum ís- lenskra króna. „Fox Searchlight verður frábær dreifingaraðili fyrir Smoking og ég gæti ekki verið ánægðari með að hafa gert samning við fyrirtækið,“ er haft eftir leikstjóra myndarinnar, nýlið- anum Jason Reitman, syni Ivans sem leikstýrði m.a. Ghostbusters árið 1984. Í Thank You for Smoking er fjallað um Nick Naylor (Aaron Eckhart), lobbíista fyrir fyrirtækið Big To- bacco. Hann reynir að breiða út þá skoðun að vindlingar séu hættulausir, en fær bakþanka. Í myndinni leika m.a. Rob Lowe, Maria Bello, Katie Holmes og Robert Duvall. Erlendar kvikmyndir Virginia Madsen Peter Berg leikari og leikstjóri Jason Reitman K vikmyndagagnrýnandinn er eina sjálfstæða upplýsingalindin. Allt hitt er auglýsing,“ sagði einn áhrifamesti gagnrýnandi síðustu aldar, Pauline Kael. Kannski var hún að auglýsa sjálfa sig. En hún hafði efni á því. Aldrei varð hún, svo mér sé kunn- ugt, uppvís að því að ganga erinda annarra en eig- in skoðana og þekkingar á kvikmyndum. Frá því í árdaga kvikmyndalistarinnar hafa kvikmyndagagnrýnendur setið um hana og, þegar best tekst til, veitt henni að- hald og stuðning, með rök- studdri afstöðu og grein- andi innsæi, um leið og almennir áhorfendur fá umræðugrundvöll og leiðarvísi um það sem í boði er í bíóunum. Kvikmyndagagnrýnendur fjölmiðla hafa komið úr ýmsum áttum. Sumir hafa verið menntaðir í kvikmyndagerð eða kvikmyndafræð- um, bókmenntum og leikhúsfræðum. Aðrir hafa verið almennir áhugamenn um kvikmyndir sem aflað hafa sér þekkingar á greininni og sögu henn- ar upp á eigin spýtur. Og enn aðrir hafa verið fólk sem fátt hefur fram að færa annað en sniðugheit og stæla, sjálfu sér til auglýsingar og upphafn- ingar. Þeim virðist hafa fjölgað í seinni tíð. Víða erlendis eru miklar kröfur gerðar til fag- þekkingar og fagmennsku kvikmyndagagnrýn- enda. Sums staðar er boðið upp á nám í kvik- myndablaðamennsku og kvikmyndagagnrýni. Breska kvikmyndastofnunin og tímarit hennar, Sight and Sound, gengust fyrr á þessu ári fyrir slíku námskeiði og hafa birt úrval af greinum eftir bestu fulltrúa þessarar nýju kynslóðar gagnrýn- enda. Viðfangsefni þeirra eru margvísleg en ein þessara greina vakti sérstaka athygli mína. Mér fannst að lestri loknum ég hafa orðið einhvers vís- ari um efni sem ég hef ekki náð miklu sambandi við lengi: Kvikmyndir gerðar eftir teiknimynda- blöðum. Slíkar myndasögur, sem sumir aðdáendur vilja reyndar kalla „grafískar skáldsögur“, hafa tröll- riðið bandarískri kvikmyndaframleiðslu mörg undanfarin ár. Greinarhöfundur spyr hvers vegna þessar bókmenntir njóti ekki sannmælis sem list- form. Svar: Heimskulegar Hollywoodútgáfur. Hann nefnir sem dæmi að verk Bretans Alans Moores, „James Joyce myndasagnanna“, eins og Hellblazer, From Hell og The League of Extraor- dinary Gentlemen, hafi á hvíta tjaldinu verið soðin niður í einfeldningslegan delluhasar. Einnig metnaðarfullar myndir „listrænna“ leikstjóra eins og Sam Mendes (Road To Perdition) og Ang Lee (Hulk) hafi mistekist vegna þess að þeir hafi ekki skilið eðli myndasagnanna. Frá því Superman hóf sig til flugs í Hollywood árið 1978 hafi kvikmynda- réttur myndasagna að vísu bjargað útgáfufyr- irtækjunum DC Comics og Marvel frá því að fara á hausinn en sá böggull fylgdi skammrifi að allar mislukkuðu bíómyndirnar virðast hafa dregið úr sölu blaðanna sjálfra. Af ofurhetjumyndunum hafi aðeins Spider-Man og X-Men náð að spegla dýpra inntak hinna teiknuðu fyrirmynda, félagslegar og pólitískar skírskotanir til Bandaríkjanna eftir 11. september 2001 annars vegar og undirokaðra minnihlutahópa hins vegar, sem því miður er ekki rúm til að rekja hér nánar. Á öndverðum póli við ofurhetjusögurnar eru svo undirmálsmannasögur á borð við Ghost World og American Splendour. Höfundur grein- arinnar telur kvikmyndaútgáfur þeirra hafa tek- ist mun betur vegna þess að þær litu ekki niður á viðfangsefni sín, voru fullorðinsmyndir eftir full- orðinssögum. Þar er komið að forheimsk- unarstefnu Hollywood: 80% lesenda myndasögu- blaða eru á aldrinum 20–40 ára en Hollywoodmyndirnar, sem á þeim byggjast, eru flestar stílaðar fyrir 12–25 ára. X-Men eftir Bryan Singer og Sin City eftir Robert Rodriguez hafa afhjúpað villu þessarar stefnu, segir þessi ungi breski gagnrýnandi. Ég veit ekki hvorum aldursflokknum hann til- heyrir. En þegar skrifað er af vandvirkni, þekk- ingu og virðingu fyrir fagi gagnrýnandans skiptir aldur engu máli. Þá þjónar hann upplýsingu en ekki auglýsingu. Upplýsing, ekki auglýsing ’Hvers vegna skyldu myndasögur ekki njóta sannmælis semlistform? Svar: Heimskulegar Hollywood-útgáfur.‘ Sjónarhorn Eftir Árna Þórarinsson ath@mbl.is E kki er of sterkt til orða tekið að segja að þýski leikstjórinn Wer- ner Herzog hafi í myndum sínum jafnan leitað út fyrir ramma hins hefðbundna og hversdagslega. Slík staðhæfing kemst reyndar hvergi nærri þeirri þrautagöngu á vit hins ómögu- lega sem liggur helstu myndum hans til grundvall- ar. Á ferli sem spannar rúmlega fjörutíu ár hefur Herzog reglulega stefnt sjálfum sér og samstarfs- mönnum í lífshættu í tilraunum sínum til að fanga eitthvað sem hvergi finnst nema á ystu brún mannlegrar reynslu og geðheilsu. Enda virðast skrif um manninn taka því sem gefnu að hann sjálfur sé á húrrandi ferð fram af þessari sömu brún, nema hann sé löngu farinn fram af og sé að senda okkur hinum skilaboð úr djúpinu. Það er að minnsta kosti leit að öðrum leikstjóra sem lendir jafn- reglulega og Herzog í því að hans eigin persónu- gerð er lesin inn í kvikmyndirnar sem hann gerir. Og þar er hans nýjasta mynd, heimildarmyndin Grizzly Man (Grábjarnarmaðurinn), engin und- antekning. Ófáir ummælendur, og jafnvel Herzog sjálfur, hafa bent á hversu vel efniviður mynd- arinnar og aðalpersónan falla að höfundarverki leikstjórans. Nokkuð sem er athyglisvert þar sem um heimildarmynd er að ræða og í ljósi þess að stór hluti hennar er strangt til tekið ekki höfund- arverk Herzogs sjálfs. Myndin fjallar um Timothy Treadwell, fyrrver- andi leikara og strandarstrák í Kaliforníu, sem endurfæddist seint á ferlinum sem dýravernd- unarsinni og varði síðustu þrettán sumrum ævi sinnar í óbyggðum Alaska í nánu samneyti við grábirni. Treadwell varð nokkuð frægur sem sjálf- skipaður verndari og vinur þessara mikilfenglegu dýra en saga hans átti sér harmræn endalok. Haustið 2003 létust hann og kærasta hans, Amy Huguenard, í bjarnarárás. Sumarið áður og fjögur sumur þar á undan hafði Treadwell varðveitt með kvikmyndatökuvél, en hann skildi eftir sig um 100 klukkustundir af efni og upptökur hans eru helsta uppistaða heimildarmyndar Herzogs. Því til við- bótar ræðir Herzog við vini Treadwells og ýmsa þá sem tengdust lífi hans og dauðdaga. Það sam- klippusafn sem Herzog býr til úr eigin efni og upp- tökum Treadwells skapar þó ekki aðeins heild- ræna útkomu heldur eina af merkari heimildarmyndum síðustu ára; verk sem yfirheyr- ir lífshlaup einstaklings og þá samfélagslegu og menningarlegu þræði sem það mótar en leitast einnig við að spyrja spurninga um samband manns og náttúru. Þá glímir myndin við það andartak sem ásækir fagurfræðilega úttekt á veruleikanum en það er dánarstundin: Hvernig er það sem er óframsetjanlegt og óendurtakanlegt framsett? Eins og áður segir er freistandi að leita að sam- svörun milli Treadwells og leikstjórans sem ákvað að gera lífshlaup hans, eða hluta af því, að kvik- mynd. Treadwell fangaði ótrúlega hluti á mynd. Fegurð náttúrunnar veður uppi, ef svo má að orði komast, í fjölmörgum myndskeiðum. Þá kvik- myndaði hann einstakar senur af samlífi grábjarna og eigin samskiptum við þá. En hann gerir sjálfan sig líka að viðfangsefni myndavélarinnar – fjöl- margir kaflar líkjast vídeódagbók og það hugrekki og sú útsjónarsemi sem líf hans með björnunum kallar fram víkur að lokum fyrir sjálfsmynd sem er að sumu leyti óhugnanleg. Ofstæki og firring virð- ast oftar en ekki liggja hegðun hans til grundvall- ar. Verkefnið sem hann setur sjálfum sér er bæði ómannlegt og óframkvæmanlegt, en það er að yf- irstíga mörkin sem skilja á milli tegundanna tveggja. Hér fer þeim áhorfendum sem fylgst hafa með Herzog gegnum tíðina kannski að gruna hvað það var sem laðaði hann að viðfangsefninu. Eins haganlega og Treadwell kemur sér fyrir innan um birnina minna samskipti hans við náttúr- una alltaf á einhvern sem helst á ekki að vera inn- an um villt dýr. Á hátt sem vart á sinn líka utan Disney-teiknimynda manngerir hann veröldina í kring og lögmálin sem ráða ríkjum utan lögsögu mannabyggða. Brothætt siðferðiskennd og hálf- væmin náttúrudýrkun eru áberandi en á stundum sjáum við líka ótrúlegt hugrekki. Vandamálið virð- ist hins vegar vera að hugrekkið á rætur að rekja til áðurnefnds misskilnings um hvernig lífinu í náttúrunni vindur fram. Enginn sem sér myndina efast um að Treadwell vill dýrunum vel. Engum blandast heldur hugur um að hann átti takmarkað erindi inn í það umhverfi sem hann kaus sér. Mátturinn sem býr í ofstæki og hugsýki hefur alltaf sótt á Herzog. Og sú hugmynd að draum- urinn geti að lokum, ef honum er fylgt eftir af nægilegri festu, umbreytt veruleikanum lýsir ekki aðeins dramatískri undirbyggingu bestu mynda hans heldur einnig lífi Treadwells. Þannig lifði Treadwell lífi sínu og myndin sýnir hvernig góðlát- leg og að mörgu leyti aðdáunarverð umhyggja fyr- ir dýralífi verður að þráhyggju. Snilld Herzogs birtist síðan í því hvernig hann notar þessa þrá- hyggju til að bregða birtu á mannssálina, hvernig það sem er mannlegt er dregið fram og þanið út í umhverfi sem ekki tilheyrir manninum. Það er þá sem kvika hins truflaða sjálfs birtist á tjaldinu. En þessi rökvísi passar svo vel við fyrri myndir Her- zogs að stundum hvarflar að manni að hann hafi hreinlega fundið Treadwell upp. Dýrin í skóginum eru ekki vinir Grizzly Man nefnist nýjasta mynd þýska leik- stjórans Werners Herzogs. Hún sprengir af sér ramma hins hefðbundna eins og flestar mynda hans hingað til. Eftir Björn Þór Vilhjálmsson vilhjalmsson@wisc.edu The Grizzly Man Herzog hefur í myndum sínum jafnan leitað út fyrir ramma hins hefðbundna og dagfarslega. ’Myndin fjallar um Timothy Treadwell, fyrrverandi leikara og strandarstrák í Kaliforníu,sem endurfæddist seint á ferlinum sem dýraverndunarsinni og varði síðustu þrettán sumrum ævi sinnar í óbyggðum Alaska í nánu samneyti við grábirni.‘

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.