Lesbók Morgunblaðsins - 17.09.2005, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 17.09.2005, Blaðsíða 16
16 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 17. september 2005 V onandi verður bráðum kveðið upp úr um að hið gagnmerka fyrirbæri á sviði hugmyndanna sem kennt var við póstmódern- isma sé liðið undir lok. Eitt af því sem menn höfðu gjarnan í flimtingum um fyrirbæri þetta var sú stað- reynd, sem iðulega tók á sig yfirbragð ákæru, að enginn vissi hvað hann væri eiginlega, þessi svokallaði póstmódernismi. Hér kvað semsé við strákslegan tón: „Hí á þig, þykist vera eitthvað en veist ekki einu sinni hvað þú ert!“ Hver gat hugsanlega tekið stefnu sem þessa alvarlega, úr því að hún gat ekki einu sinni skilgreint sjálfa sig? Til að bæta gráu ofan á svart, sögðu menn, reynist póstmódernisminn (þegar að er gáð) vera ekkert annað en leikur, fálm, sjónarspil, sýndarmennska. Helsta einkenni hans sé að áhuginn á að taka til máls, prjóna saman texta, flækja saman fáránlega uppþembdum hug- tökum ber alla tilburði til að segja eitthvað of- urliði. Raunar sé ekki hægt að eiga lengi við póstmódernismann áður en maður fái sterk- lega á tilfinninguna að aðalatriðið sé einmitt að segja ekki neitt. Að segja allt um ekkert; kjarn- inn er enginn, hismið er allt; póstmódernisminn er froða, vindur, tóm: (blekkingar)leikur en ekki alvara. Engu að síður fór það auðvitað svo að póst- módernisminn var tekinn alvarlega, ekki síst fyrir tilstilli þeirra sem töldu sig vera að berj- ast gegn honum. Vindmyllurnar leynast víða, og sjónumhryggir riddarar sömuleiðis. Á köfl- um var engu líkara en þarna væri við gríð- arlega háskalegan andstæðing að fást, eða jafn- vel andskotann sjálfan, og að mikil vá væri fyrir dyrum. Næsta skref var þá að hamra á mik- ilvægi þess að þreyja þorrann, hafast við innan dyra eins og Ísraelsmenn forðum á hinum fyrstu páskum; og fyrir alla muni ekki gleyma því að rjóða blóði lambsins á dyrastafinn á með- an engill dauðans fer hjá. Að því búnu má svo leggja af stað á vit fyrirheitna landsins. Auðvitað voru þessar aðstæður ekki lausar við kaldhæðni. Einhver kynni að segja að þarna sé um djúpstætt lögmál að ræða: sá sem helgar sig því verkefni að kveða niður drauga blæs einmitt nýju lífi í draugaganginn. Þannig voru riddarar þeirrar alvöru sem tókst á við leikgleði póstmódernismans í raun og veru í hópi helstu sporgöngumanna stefnunnar. Freistandi er að líta svo á að andstæðingarnir hafi, þegar öllu er á botninn hvolft, borið ægishjálm yfir hina raunverulega forsprakka; því að hverjir voru þeir eiginlega? Umkvörtunarefnið var líka á þá leið að þeir stigu aldrei fram fyrir skjöldu, við- urkenndu aldrei aðild sína að hinu illa sem vomir yfir okkur, höfðu aldrei manndóm í sér til að játa á sig glæpinn. Póstmódernistarnir voru ekki póstmódernistar – en andstæðingar þeirra voru það. Textinn Var það þá, eftir allt saman, þessi óskiljanlegi, óþolandi, innihaldslausi ismi sem átti síðasta orðið? Hver hló síðast – póstmódernistinn eða alvörufræðimaðurinn? Tökum málið til skoð- unar og gefum okkur, rökfærslunnar vegna, að póstmódernismanum megi lýsa á eftirfarandi hátt: að heimurinn sé ekkert annað en texti, og allar túlkanir á þessum texta séu jafngildar; eða, með öðrum orðum, að hvaðeina í heiminum megi setja í samhengi við eitthvað annað og skilja það til fullnustu með því að rekja þessi tengsl. Ekkert búi að baki samhenginu. Auðvitað er eitthvað hálf-óbærilegt við hugs- un af þessu tagi – einhvers konar óskammfeilið yfirlæti sem vekur hjá þeim sem fyrir verður ofur eðlilega tregðu sem helst verður líkt við tilfinningu fyrir því að eitthvað vanti: það getur hreinlega ekki verið að málum sé háttað á þennan veg, að „allt sé texti“, auðvitað hlýtur eitthvað að standa utan þessa svokallaða texta. Handan samhengisins hlýtur að vera eitthvað, en ekki ekkert. Hið staðlaða svar póstmódernistans við þess- ari mótbáru væri líklega á þessa leið: tregðan er klassískt dæmi um hinn frumspekilega draum eins og hann gerist bestur, drauminn um að eitthvað æðra eigi sér stað handan hins hversdagslega veruleika okkar, eða, svo dæmi sé tekið, að eitthvað sem kalla megi Guð sé til. Gott og vel, látum Guð liggja á milli hluta, en getur þessi ímyndaði póstmódernisti okkar samt þrjóskast við að halda því fram að allt sé texti? Er ekki eitthvað bogið við slíka kenn- ingu? Reynist hún ekki, þegar til á að taka, al- gjörlega áhrifalaus andspænis þeirri frumspeki ríkjandi viðhorfa sem hún þykist þó gagnrýna? Getur verið að póstmódernisminn sé þannig í raun, hvort sem honum líkar betur eða verr, ekkert annað en sauður í úlfagæru, sefandi þjónkunarstefna við ráðandi öfl? Tregðan Segjum þetta hreint út: að því gefnu að ástæða sé til að líkja veruleikanum við texta, þá er það að minnsta kosti ekki skýr og læsilegur texti í innbundinni bók sem fer vel í hillu. Eitthvað í veruleikanum tregðast (ennþá) við og felur sig á milli línanna, nagar sig í gegnum blaðsíð- urnar, eða valsar jafnvel út um allt í bóka- herberginu og víðar. Hvað er þetta „eitthvað“? Svo undarlega vill til að margir af þeim kenn- ingasmiðum sem alvörumönnum þóknaðist að kenna við póstmódernisma eiga svör við spurn- ingunni um eðli þessa „einhvers“ sem hér er um að ræða. Með öðrum orðum virðast póst- módernistarnir svokölluðu ekki vera jafn sann- færðir um það og andstæðingarnir að til séu menn sem haldi því fram að ekkert sé utan textans. Að vísu er svar þeirra við spurninguni um þetta „eitthvað“ hvorki einhlítt né afger- andi; þeir verða ekki við þeirri kröfu að tefla fram nýrri frumspekilegri formúlu sem þykist þess umkomin að ryðja öllum öðrum tillögum úr vegi og drottna síðan ein um aldir alda, held- ur eiga þeir gríðarlegt safn af svörum sem þó mynda að vissu leyti eina heild: „Hersing heiti ég, vér erum margir.“ Það sem öll þessi svör nefna er nokkuð sem við skulum kalla, til hægð- arauka (og með tilvísun til hugsuða á borð við Kant, Lacan og Slavoj Žižek), Hlutinn. Með stórum staf, því að verið getur að það sem þannig er nefnt verðskuldi sérnafn fremur en nokkuð annað. Gott og vel, en hver er hann þá, þessi Hlutur? Almenna svarið, og það fyrsta, gæti verið á þessa leið: hann er það sem tregð- ast við – hann er einhvers konar „raunvera“, hinn „sanni raunveruleiki“ sem býr að baki „hversdagslegum veruleika“ og lætur ekki hneppa sig (allan) í bönd frumspeki og vísinda en er þó að vissu leyti það sem stöðugt kallar á útþenslu þessara sömu vísinda. Hann er lík- astur öreindunum sem hátæknivísindi nú- tímans geta ekki fest hendur á ef marka má óvissulögmál Heisenbergs: þegar reynt er að ákvarða staðsetningu hans, þá skreppur hann undan. Nöfnin Hver eru nöfn hans – þessa „raunveruleika“ að baki hversdagsleikanum? Dauðinn, til dæmis, og sú staðreynd að tíminn líður: tímans tönn. Sú staðreynd að rúmið er til, eða með öðrum orðum, að á milli tveggja punkta er vegalengd. Náttúran er annað nafn á þessum raunveru- leika – náttúran, þessi óræða stærð sem er alls staðar og hvergi, í okkur og utan okkar, og get- ur hvenær sem er tekið upp á því að birta okk- ur mátt sinn. Veran, nú eða verðandin: allt fram streymir. Með öðrum orðum: einhvers konar „hlutur“ sem þó á sér engan ákveðinn, skýran og skilmerkilegan stað meðal hlutanna í heiminum, í hópi þeirra hluta sem mynda í sameiningu það sem við köllum í daglegu tali veruleikann. Hlutur handan alls þess sem „er“ í hversdagslegum skilningi þess orðs. Hlutur sem er ekki – a.m.k. ekki í sama skilningi og hlutirnir. Hlutur sem er ekki hlutur. Hluturinn er semsé það sem er handan reynslunnar – handan textans. Víkjum aftur að dauðanum, þeim dauða sem mér einum (og ef- laust okkur öllum, hverju fyrir sig) er úthlutað: hann er til dæmis ekki texti. Vera má að ég geti líkt dauða annarra við texta, um hann get ég að minnsta kosti talað, ég get rakið tildrög hans og orsakir, ég get rætt um hann eins og orðinn hlut – en sama verður víst aldrei sagt um dauða minn. Og þegar að er gáð gildir það sama um dauða annarra líka, um sjálfan dauðann, þá „at- höfn“, sem einmitt er ekki athöfn, að deyja. Þýski heimspekingurinn Heidegger orðaði þetta svo að dauðinn sé „eiginlegasti ómögu- leiki“ hinnar vitandi veru. Dauðinn er ómögu- legur: hann er ekki til, hann er Hluturinn. Annað dæmi er líkaminn. Sú staðreynd að „ég“ er bundinn í „líkama minn“, hér og nú – líkamleikinn sjálfur. „Enginn veit hvers lík- aminn er megnugur,“ skrifaði Spinoza – og þar á hann við að líkaminn er afl sem við ráðum ekki við, þó að við séum sífellt að burðast við að stjórna honum, hafa hemil á honum, móta hann og halda honum við – þá tekur hann samt alltaf upp á einhverju nýju, einhverju sem við sáum ekki fyrir, og svo eldist hann líka, smátt og smátt, þvert gegn vilja okkar og í trássi við öll okkar háþróuðu vísindi. Hann hrörnar og deyr – vegna þess að hann er það sem hann er: lík- ami. Læknisfræðin hefur ekki fundið lækn- inguna við líkamanum. Í þessum skilningi er líkaminn ekki texti: eitthvað í honum þrjóskast við og lætur ekki færa sig inn á svið hins skilj- anlega og rökræna. Það sem öll þessi dæmi megna líklega að sýna okkur, ef ímyndunarafl okkar er nægilega virkt og hefur tekið nægilega miklum fram- förum (í tvennum skilningi þessara orða), er að tæknin er svar mannsins við þessari tregðu í veruleikanum, þessum heimska efnisleika þess sem heimurinn er gerður úr (leiddu hugann að þessu, lesandi góður, næst þegar þú verður fyr- ir því að týna mikilvægum hlut: er það ekki óþolandi að hluturinn sá arna skuli þrjóskast við og halda sig á tilteknum stað, einmitt þar sem þú finnur hann ekki?). Hámark tækninnar er uppfylling draumsins, og draumurinn er að yfirvinna tregðuna. Hlutinn. Að við verðum ekki lengur bundin líkamanum. Að við sigr- umst á dauðanum. Og að allt verði utan við tíma og stað: okkur innan handar þegar okkur hentar. Hluturinn En hvaða máli skiptir þessi Hlutur? Ef til vill er hann það sem allur styrinn stendur um. Hluturinn er heila málið. Hann býr að baki, dylst – en stundum brýtur hann sér leið til okk- ar, inn í stofu þar sem við sitjum andspænis plasmaskjánum, og þá verðum við þess vör svo ekki verður um villst. En jafnframt – það er sið- menningin sjálf að verki – fara þar til kvaddir aðilar á stúfana og bregðast við þessari íhlutun í veruleikann. Á hinn bóginn er jafnljóst að án hinnar ófyrirsjáanlegu og síendurteknu inn- rásar Hlutarins – endurkomu raunveruleikans inn í snyrtilegan veruleika okkar – yrði tómt mál að tala um „framfarir“. Tali raunveruleik- inn ekki til okkar, þá gerist ekkert (nýtt). Með öðrum orðum – eitthvað í veruleikanum, Hluturinn, hið raunverulega, tregðast sann- arlega við að láta smætta sig niður í öfgafulla samhengishyggju. Þetta „eitthvað“ lætur ekki fanga sig í (rökrænu, skiljanlegu, lokuðu) sam- hengi – það sleppur ætíð undan, snýr alltaf aft- ur þegar minnst varir, rýfur samhengið, hina skynsamlegu, fyrirsjáanlegu, lögbundnu, þægi- legu framvindu – og þá gerist eitthvað sem ef til vill má kalla viðburð. Auðvitað getum við ekki lifað – a.m.k. ekki „heilbrigðu“, „góðu“, „yfirveguðu“, „hvers- dagslegu“ lífi – nema við bælum sífellt niður vitundina um Hlutinn. Einhver kynni að segja að sjálft líf einstaklingsins, og þá ekki síður samfélagsins, felist einmitt í þessu og engu öðru: að koma sér upp safni kunnuglegra og vingjarnlegra hluta sem skyggja á Hlutinn. Hlutirnir eru skurðgoð sem við blótum leynt eða ljóst; og rétt er að geta þess að hlutirnir í þessari merkingu einskorðast ekki við áþreif- anlega, efnislega hluti á borð við bíla, raftæki, farsíma og fatnað, heldur eru þeir líka skoð- anir, trúaratriði, kenningar og svo auðvitað persónur af holdi og blóði. Allt það sem við hömpum og höldum í heiðri meðan á hérvist okkar stendur, eftirlæti okkar úr mengi þess sem fyrir ber með einum eða öðrum hætti – en bak við þessi fyrirbæri stendur, eins og fyrr segir, eitthvað annað … Hluturinn. Og það sem kemur á milli okkar og Hlutarins er líka af toga tungumáls, táknmáls, hug- myndafræðilegra kerfa og ímynda. Hlutskipti fjölmiðla í nútímanum (og raunar á fyrri tímum líka) er að fela Hlutinn bak við þann hafsjó tákna sem þeir hvolfa yfir okkur um leið og þeir þykjast einmitt vera að leiða sjálfan Hlutinn í ljós. Hvað gerðist 11. september 2001? Þá varð einhvers konar viðburður, en við fengum aðeins að virða hann fyrir okkur í fáeina klukkutíma – fjölmiðlarnir breiddu yfir sárið, þann hrylling sem viðburðurinn í eðli sínu var. Og hvað gerði fellibylurinn Katrín? Eftir að sjónvarpsmenn komust loksins á vettvang með búnað sinn fékk Hluturinn um stund að koma í ljós, öllum að óvörum og áreiðanlega óvart: fátækt fólk og blökkumenn máttu um stund eiga sjónvarps- skjáinn í allri þeirri félagslegu eymd sem mark- aðshagkerfi þjóðrembunnar hefur úthlutað þeim. (Dæmi um Hlutinn að verki – reality check upp á alheimsmálið: sjúkrahúsið þar sem starfsfólkið stökk út og bjargaði sér en sjúk- lingarnir – skjólstæðingar þess – máttu deyja drottni sínum: 45 lík, sagði einhver.) Fjölmiðl- arnir hlupu fram úr sjálfum sér eitt augnablik, í fáeina daga kannski, og sýndu allt. Þessu hefur nú verið kippt í liðinn – vatnsborðið í New Or- leans lækkar óðum og bráðum verður allt kom- ið í samt lag. Botninn Endum þetta svona: ákæruna sem póstmód- ernisminn mátti sæta má taka saman á þá leið að „stefna“ þessi hafi ekki borið næga virðingu fyrir raunveruleikanum; að hún hafi verið „úr öllum tengslum við raunveruleikann“, að hún hafi ekki endurspeglað hann – að í samanburði við raunveruleikann sjálfan hafi hún verið ein- tómt hjóm. Rifja má upp að hinir meintu póst- módernistar urðu fyrir gagnrýni af þessum toga úr báðum áttum, frá hægri og vinstri: frá marxistum og íhaldsmönnum. Má ef til vill halda því fram að hægra megin hafi menn hald- ið dauðahaldi í einhvers konar „hverdagslegt“, það er að segja „viðtekið sannleikshugtak“ sem þó hlýtur svo augljóslega að reynast, þegar öllu er á botninn hvolft, ekkert annað en sannleiks- hugtak tiltekins, afmarkaðs (forréttinda)hóps – hugarburður, nostursleg smíð hinna dverg- högu handbenda valdsins? Og að vinstra megin hafi menn á hinn bóginn hengt sig í að ein- hverju leyti óljósa hugmynd um „hið efnislega“, um „efnisleg tengsl“, um „valdaafstæður“, um „líkamlega vinnu“, o.s.frv.? Af deilunni um póstmódernismann má ef til vill draga þann lærdóm að hvort sem þeir gerðu árás frá hægri eða vinstri hafi ákærendurnir sjálfir vanrækt ákveðinn þátt veruleikans – og að póstmódern- isminn hafi einmitt, með því að ganga jafn langt og raun ber vitni, vakið máls á þessum sama þætti. Líkan af heimi án Hlutarins verður til þess að varpa skýrara ljósi á málin en kenning sem þykist hafa fest hendur á, eða í það minnsta þjóna, sannleikanum sjálfum en gerir sér enga grein fyrir þeirri vanhugsuðu for- sendu. Póstmódernisminn hristi upp í veru- leikanum með svo róttækum hætti að fjarvera hins raunverulega varð áþreifanleg. En Hlut- urinn varir! Morgunbænir forsetans og allra hans góðu ráðgjafa munu aldrei duga til að sigrast á honum „í eitt skipti fyrir öll“. Hluturinn snýr aftur – póstmódernisminn kveður Hér er enn og aftur vakið máls á póstmód- ernismanum svokallaða – og hann tekinn til athugunar með tilvísun til hugmyndarinnar um Hlut handan hlutanna. Hver er sá veru- leiki sem sagt er að kenningar eigi að snúast um? Og hvað er bogið við að halda því fram að heimurinn sé texti? Eftir Björn Þorsteinsson bjorntho@hi.is Hlutirnir „Hlutirnir eru skurðgoð sem við blótum leynt eða ljóst; og rétt er að geta þess að hlutirnir í þessari merkingu einskorðast ekki við áþreif- anlega, efnislega hluti á borð við bíla, raftæki, farsíma og fatnað, heldur eru þeir líka skoðanir, trúaratriði, kenningar og svo auðvitað persónur af holdi og blóði.“ Baðherbergið eftir Fernando Botero (1993). Höfundur er heimspekingur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.