Lesbók Morgunblaðsins - 17.09.2005, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 17.09.2005, Blaðsíða 10
10 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 17. september 2005 Barn grætur sárum gráti í hossandifaðmi nýbúamóður sem huggar átungumáli sem ég skil ekki. Dönskblöð með húðfitu og sýklum, lasinn burkni og bláir plastpokar utan um skóaða fætur. Hvaða skór eru bláir? Er ekki hægt að fá svört skóplöst? Eða brún? Hvít væru skárri en blá. Bláir fætur eru heimskulegir. Ég sit á læknabiðstofu í Vesturbænum og læt hugann reika. Hann reikar, svo mikið er víst, hvort sem það er ég sem læt hann gera það eða ekki. Hugurinn, það er að segja. Sem reikar, á ég við. En ég reyni að minnsta kosti að stýra honum. Reyni að muna. Hvaðan ég kem. Hver ég er. Hvert ég ætla. En ég get það ekki. Enda skrifa ég til að gleyma. Eða gleymi af því að ég skrifa. Hálfnað er verk, þá hafið er, segir máltækið. Og á þeim tímapunkti man ég ekki lengur „hver kveikjan var að verkinu“, eins og sagt er. Man ekki hver tilgangur ferðalagsins var í upphafi, veit ekki hvert ferðinni er heitið. En held samt áfram, því á meðan ég skrifa ER ég. Ef ég hætti að skrifa, hætti ÉG um leið að vera. Að skrifa er „köllun“. Samt er það stað- reynd, að ef ég fengi greidda upphæð sem myndi duga mér til framfærslu ævilangt, myndi ég samdægurs leggja pennann á hill- una. Rétt eins og ljón, sem fengi hrátt kjöt á diski daglega, myndi hætta að veiða sér til matar. Það „ljón“ væri ekki lengur ljón, heldur bara eitthvað sem liti út eins og ljón. Að veiða er ekki köllun, heldur eðli, eitthvað sem sá sem veiðir fær í fæðingargjöf. Um leið og sá sem veiðir þarf ekki lengur að veiða, deyr veiðieðlið innra með honum. Gjöfin er frá hon- um tekin. Þannig fer fyrir höfundi sem þarf ekki lengur að skrifa. Hæfileikinn til að skrifa deyr innra með honum. Þá hættir viðkomandi (vonandi) að skrifa, eða snýr sér að ritun end- urminninga. Höfundurinn er rándýr, hann er ljón. Eðli hans er að veiða. Hann veiðir sögur, þekkingu, orð, tungutak, persónur, tilfinningar og margt fleira. Sumir skrifa um það að veiða, en flestir um bráðina. Sumir skrifa um hungrið, aðrir um sæluna að áti loknu. Margir skrifa um sjálfan sig í þátíð eða á efri árum, um ljónið sem hvolp eða gamlan garm. Ég ætla að skrifa um ljónin á gresjunni, um sjálfan mig og kollegana, um sigra, mistök og dauða, langanir, örvæntingu og öfund, um ólíkar veiðiaðferðir, sameiginlega óvini og samskiptin innan hópsins. Um óútgef- in handrit og „Liljur“ sem allir vildu kveðið hafa. Ljón eru miskunnarlaus. Það er þeirra eðli. Ljón sem sýnir miskunn er ekki alvöru ljón. Það er tamið og fær kjöt á diski. Gæludýr. Ljónið er hópdýr. Og einfari. Ég er ljón. Ég er rithöfundur. Ég er hópdýr. Og ég er einfari. Ég elska hin ljónin. Og ég hata þau. Óttast þau. Lít niður á þau. Ég er einn af þeim: Minn versti óvinur. Búinn að skrifa mig út í horn. Aftur! Og út- gefandinn orðinn pirraður á mér – ENN og aftur! En segist ætla að gefa út bókina – Túr- ista. Þá hlýtur hann að gera það, ekki satt? Ég meina, hvers vegna ætti hann EKKI að gera það? Vegna hinna höfundanna? Samsær- iskenningarnar hrannast upp eins og ský á himni jólabókaútgáfunnar – burt með ykkur! Hvernig get ég útskýrt fyrir kollegunum að þessi bók sem ég er að skrifa sé ekki um þá, heldur bara svona einhverja aðra sem líkjast þeim kannski bara svolítið en samt ekki? Auð- vitað er hún um þá. Og mig. Okkur alla. En líka ekki, því um leið og einhver ímyndaður veru- leiki er klæddur í búning skáldskapar og látinn hegða sér eftir innri lögmálum sögu sem er bundin í bók, þá hættir hann að vera ímynd- aður raunveruleiki og verður sjálfkrafa að raunverulegri ímyndum. Rétt eins og eitthvað stolið hættir að vera „stolið“ ef enginn saknar þess og sá sem stal viðurkennir ekki „glæp“ sinn. Eitthvað brennur upp og endurfæðist síðan sem nákvæm eftirlíking af sjálfu sér: Fuglinn Fönix. Huglægt mat, sjáiði til. Af- staða. Viðhorf. Sjónarhorn. Hvernig er hægt að orða þetta? Skáldsaga er ekki raunveruleg nema … Nei. En svona: Skáldsaga er sýnd sem gerir fyrirmynd sína einnig að sýnd. Þú ert fyrirmynd. Ergo: þú ert sýnd. „Stefán Máni!“ Það er læknirinn minn sem kallar. „Ha? Já,“ segi ég og stend á fætur og elti hann inn á stofuna. Hann gengur hratt á hvít- um klossum og fráhnepptur sloppurinn flaks- ast á eftir honum. Kem auga á skáldsögu í hillu fyrir aftan lækninn. Við hliðina á rauðum möppum og lú- inni Lyfjaskrá: Kiljuútgáfan af Hellu eftir Hallgrím Helgason. Af hverju er maðurinn með skáldsögu hér? Þessa skáldsögu. Ég hef ekki lesið hana og skilst að það hafi afar fáir gert. Ef einhver er með eina skáldsögu í hillu hjá sér er ekki líklegt að Hella sé sú saga. Eða hvað? Ætli Hallgrímur hafi gefið honum bók- ina? Trúlega. Ætli Hallgrímur sé líka sjúkling- ur læknisins? Ætti ég að gefa honum eina af mínum skáldsögum? Hverja þá? „Hvað get ég gert fyrir þig í dag?“ spyr læknirinn. Ég ætti auðvitað að koma mér beint að efn- inu og segja honum frá dílunum. Það eru díl- arnir sem eru að gera mig frávita af áhyggjum. Bókin líka. Skrifin, það er að segja. Og sam- særiskenningar um „frystingu“ bókarinnar. En það er ekkert nýtt. Hið hefðbundna helvíti höfundarins. Það eru bannsettir dílarnir sem eru nýir. Rauðir, upphleyptir og óvelkomnir. En þetta með dílana er viðkvæmt mál. Stað- setning þeirra, það er að segja. Þannig að ég ákveð að lýsa bara afleiðingum þeirra á heilsu mína svona almennt séð. Út frá þeim upplýs- ingum hlýtur hámenntaður læknirinn að geta þrengt hringinn um sjálfa uppsprettu vanlíð- unarinnar: Dílana. „Ég er bara búinn að vera með helvískan hausverk í á þriðju viku samfleytt,“ segi ég og bendi á svæðið kringum blóðhlaupin augun. „Þessu fylgir lystarleysi, ógleði og svo fæ ég reglulega blóðnasir.“ „Hljómar ekki vel,“ segir læknirinn og hnyklar brýrnar og horfir á mig með svo fag- legum og rannsakandi augun að mér fer undir eins að líða betur. Eitthvað róandi við þessa hvítu sloppa. Þessa tunguspaða. Hlustunarpíp- una. Og alla þessa óút-fylltu lyfseðla. „Nei, nei,“ segi ég og dæsi. „Þetta setur allt daglegt líf manns úr skorðum.“ „Komdu hérna með mér,“ segir læknirinn og stendur upp og gengur á undan mér inn í bakherbergi skrifstofunnar. „Farðu úr að of- an.“ Ég sest á pappírsdúk á hörðum bekk og anda inn og út á meðan hann hlustar mig. Síð- an mælir hann blóðþrýstinginn, kíkir í munn og eyru, bankar í brjóst og þrýstir á kvið. „Farðu aftur í,“ tautar hann og sest aftur við skrifborðið og tekur sér eyðublað og penna í hönd. „Eitthvað ekki eins og það á að vera?“ spyr ég og sest fyrir framan skrifborðið og held áfram að hneppa að mér skyrtunni. „Ég fann ekkert að þér,“ tautar læknirinn og párar eitthvað á blaðið, ef til vill vonsvikinn yfir hraustleika mínum. „Þetta gæti stafað af umhverfisþáttum. Þessi hausverkur á ég við. Mér líst ekki á hann.“ „Umhverfisþáttum?“ spyr ég, um leið og höfuðið á mér fyllist af rauðum dílum á bleiku holdi. „Já. Streita, álag, breytingar,“ segir lækn- irinn og horfir í augun á mér. „Nútíminn er erfiður okkur karlmönnum.“ „Já,“ segi ég og dæsi. „En við megum ekki taka þetta allt of alvar- lega,“ bætir læknirinn við og brosir vingjarn- lega. „Megum ekki kikna undan álaginu, er það?“ „Nei, nei,“ segi ég og framkalla aumt bros. „Þú ert rithöfundur,“ segir læknirinn, eða fullyrðir, öllu heldur, rétt eins og það hafi runnið upp fyrir honum heiti sjúkdómsins sem augljóslega hrjáir mig: skrifus stupidus. „Já?“ segi ég hikandi, enda óviss um hvort sjúkdómur þessi er krónískur eður ei, eða hvort ég kæri mig um að læknast af honum eða ekki. „Geturðu ekki fara yfirfært eigin vanlíðan yfir á einhverjar svona skáldpersónur, ha?“ spyr læknirinn sposkur og blikkar mig með hægra auga. „Og setja lyfjaiðnaðinn á höfuðið?“ spyr ég á móti. „Ég segi svona,“ segir læknirinn og grúfir sig aftur yfir pappírana. „Hver veit,“ tauta ég og sýg upp í nefið. „Ég ætla að senda þig með þvagsýni upp á Landspítala. Og þar vil ég að þú farir í blóð- rannsókn. Ég læt þig hafa beiðni,“ segir lækn- irinn og klárar að pára á blöðin sín. „Þú færð bauk hérna frammi sem þú pissar í að morgni. Síðan ferðu fastandi upp á Lansa. Þeir senda mér niðurstöðurnar.“ „Hvað heldurðu að …?“ tauta ég og yppi öxl- um. „Við sjáum hvað kemur út úr þessu,“ segir læknirinn og réttir mér beiðnina og lyfseðil. „Ég skrifaði líka upp á sterkar verkjatöflur. Það gengur ekki að þú þjáist svona.“ „Takk,“ segi ég og brosi, og samtímis hverf- ur hausverkurinn eins og útstrokaður texti á tölvuskjá. Deleteum. „Hjemmet“ „Búinn að skrifa mig út í horn. Aftur! Og út- gefandinn orðinn pirraður á mér – ENN og aftur! En segist ætla að gefa út bókina – Túr- ista. Þá hlýtur hann að gera það, ekki satt? Ég meina, hvers vegna ætti hann EKKI að gera það? Vegna hinna höfundanna? Sam- særiskenningarnar hrannast upp eins og ský á himni jólabókaútgáfunnar – burt með ykk- ur!“ Eftir Stefán Mána stefan.mani@simnet.is Höfundur er rithöfundur. Morgunblaðið/Þorkell Fórnarlömbin „Höfundurinn er rándýr, hann er ljón. Eðli hans er að veiða. Hann veiðir sögur, þekkingu, orð, tungutak, persónur, tilfinningar og margt fleira.“ Hafið er skrautbúið í dag. Ég man önnur höf, aðrar strendur. Sandurinn var gulur eins og hér. Svartir klettar fylktu liði með polla fulla af marflóm, þangi, lifandi gróðri sjávarins. Morgnar og kvöld. Stundum var aldan hávær og hellarnir fundarsalir mikilla örlaga, beiskju, tára móður. Einu sinni fann ég dauðan skarf í grjótinu, stoltan fugl loftanna. Blóð manna og fugla hefur litað þessa strönd og allar strendur heimsins. Það er oft langt til lands og farkostirnir veikburða. Hafið gleymir ekki vinum sínum. Sumum skilar það líflausum, bleikum upp í fjöru bernskunnar. Sandurinn, þar sem þú lékst þér átti eftir að horfa á þig varnarlausan, án ástar án söngs með spyrjandi augu þín starandi til himins. Skýin, sem þú skildir aldrei litu niður til þín. Hvað hugsuðu þau? Af hverju komstu of snemma heim? Lesbók Morgunblaðsins | 9. júlí 1967 Hafið Jóhann Hjálmarsson

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.