Lesbók Morgunblaðsins - 17.09.2005, Síða 8
8 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 17. september 2005
H
ugtakið þétting byggðar hef-
ur á undanförnum misserum
borið hátt í allri umræðu um
framtíðarþróun Reykjavíkur
og hvernig fyrirmyndar-
borgarsamfélagið gæti litið
út. En hvað er átt við með því? Í umfjöllun
um skipulagsmál á opinberum vettvangi kem-
ur oft fram að fólk leggur mjög ólíkan skiln-
ing í hugtakið, jafnvel svo að
umræðan verður með öllu
ómarktæk. Margir sjá fyrir
sér þétta byggð sem háa
steinsteypumúra á meðan
aðrir telja þéttingu byggðar bestu leiðina til
að skapa betra og manneskjulegra umhverfi.
Í upphafi er vert að nefna nokkur und-
irstöðuatriði. Skoðum fyrst hugtakið landnýt-
ing. Eins og orðið hljóðar felur það í sér nýt-
ingu lands til verðmætasköpunar, svo sem
fyrir byggð, útivist, ræktun ofl. Til eru ýmsar
aðferðir til að leggja mat á landnýtingu, svo
sem að skilgreina mælikvarða á þéttleika
byggðar á tiltekna flatareiningu. Tveir mæli-
kvarðar eru algengastir.
Þegar rætt er almennt um skipulag heilla
borga, borgarhluta eða hverfa er algengt að
nota hugtakið þéttleiki byggðar (density).
Þar er mælieiningin fjöldi íbúða á einingu
lands. Í þessu tilviki eru götur, leiksvæði og
stofanalóðir oftast reiknaðar með þegar stuð-
ullinn fyrir þéttleika er fundinn. Í elsta hluta
í Reykjavík er þéttleikinn víða 73 íbúðir/
hektara, í nýrri úthverfum er þessi tala 14–16
íb/ha.
Hinn mælikvarðinn sem algengt er að nota
er svonefnd reitanýting (plot ratio). Þar er
eingöngu átt við nýtingu á einstökum bygg-
ingarlóðum en götur og opin svæði ekki talin
með. Þegar lagt er mat á reitanýtingu er al-
gengt að borið sé saman heildargólfflötur
bygginga á tilteknum reit og flatarmál bygg-
ingarlóðar (reitsins). Reitanýting 1,0 þýðir að
leyfilegur gólfflötur bygginga á tilteknum
reit jafngildir flatarmáli reitsins. Á svæðinu
milli Snorrabrautar og Barónsstígs, þar sem
íbúðarbyggð er nú hvað þéttust í Reykjavík,
er reitanýting á bilinu 1,5–2,0. Í Foldahverfi í
Grafarvogi er sambærileg tala 0,3–0,5.
Mikilvægt er að hafa í huga að þéttleiki
byggðar er aðeins mælieining á landnýtingu.
Hugtakið felur ekki í sér ákveðna hugmynd
um hvernig byggð lítur út. Þetta þýðir t.d. að
ÞÉTT byggð þarf ekki endilega að þýða HÁ-
REIST byggð. Áhugavert er að bera saman
reiti með ólíku yfirbragði en með sömu reita-
nýtingu, 1.1–1.3. Annars vegar eru gömlu
verkamannabústaðirnir við Hringbraut með
tveggja hæða húsaröð meðfram götu. Hins
vegar Æsufell og Asparfell í Breiðholti, þar
sem fjölbýlishúsin eru átta hæðir með stórum
opnum svæðum umhverfis.
Af þessu má draga þá ályktun að þétt-
leikatölur segi í reynd lítið um gæði skipu-
lags eða hvort umhverfið er manneskjulegt
eða ekki. Það má þó segja að því þéttari sem
byggðin er, þeim mun meira verður að vanda
til verka í skipulagi, hönnun og frágangi
bygginga. En hverjir eru kostir þess að þétta
byggðina? Lítum á hina fjárhagslegu þætti.
Með vaxandi fólksfjölda í flestum löndum
heims er land víðast hvar að verða takmörk-
uð og eftirsótt auðlind, sem ber að nýta eins
vel og kostur er. Eins eru það fjárhagslegir
hagsmunir sveitarfélaga að byggð sé sem
þéttust. Kostnaður samfélagsins við gatna-
gerð, holræsi, veitur, stíga og land lækkar
um helming þegar þéttleiki nýrrar byggðar
er aukinn úr 8 íbúðum/ha yfir í 16 íbúðir/ha.
Endurreisn borgarmenningar
Á seinasta fjórðungi aldarinnar hefur ný
hugsun verið í deiglunni sem kenna mætti við
endurreisn borgarmenningar eða „urban
renaissance“, sem byggist á hugmyndinni um
endurreisn þeirrar borgarmenningar sem
ríkjandi var fyrir tíma heimsstyrjaldar. Æ
fleiri fræðimenn hallast að því að vel skipu-
lagðar og fagrar borgir verði það form
byggðar sem einkenna muni samfélag 21. ald-
ar. Má í því sambandi vitna til skýrslu um
stefnumörkun bresku ríkisstjórnarinnar á
sviði byggðaþróunar, „Towards an Urban
Renaissance“. Þar er heilsteyptri og bland-
aðri byggð eins og má finna í eldri breskum
bæjum stillt upp sem fyrirmynd af framtíð-
arbyggð, þar sem áherslan er lögð á orku-
sparnað, vistvænt umhverfi, fagra bæj-
armynd og fjölbreytt mannlíf. Andstæða
þessa er dreifða ameríska bílaútborgin sem í
skýrslunni er skilgreind sem ósjálfbær teg-
und byggðar sem felur í sér sóun á landi,
eldsneyti, tíma fólks, auk fábreytilegs um-
hverfis og félagslegrar einangrunar. Þessi
hugarfarsbreyting á sér margþættar for-
sendur. Nefna má þróun atvinnulífs frá
þungaiðnaði til þekkingariðnaðar og breytt
viðhorf til umhverfismála og auðlindanýt-
ingar, þar sem land til byggingar er nú skil-
greint sem takmörkuð auðlind. Síðast en ekki
síst má nefna félagslega þætti, eins og vax-
andi tilhneigingu meðal yngra fólks að kjósa
fremur að búa í eða við miðbæi, þar sem
heimili, vinna og afþreying fléttast saman í
samþættu umhverfi.
Það eru einmitt þessir félagslegu þættir
sem ekki mega gleymast. Þétting byggðar er
ekki markmið í sjálfu sér. Markmið hennar
er samfélagslegt, að skapa betra umhverfi og
fjölbreytilegra mannlíf. Hún er leið til að
skapa fleira fólki vettvang til félagslegs sam-
neytis, þægilegra og innihaldsríkara lífs.
Meðal augljósra kosta er að fleiri njóta þjón-
ustu í þægilegri göngufjarlægð. Traustari
grundvöllur er fyrir sameiginlegri þjónustu,
t.d. almenningssamgöngum, einnig má nefna
sparnað í umferðartíma við það að búa mið-
svæðis fremur en í úthverfi. Lágmörkun
ferðatíma er spurning um mikilvæg lífsgæði.
Það er ekki lítil kjarabót í lífi hvers ein-
staklings að spara sér hálftíma til klukkutíma
á hverjum virkum degi til að sinna fjölskyldu
og áhugamálum í stað þess að eyða honum í
akstur.
Þétting byggðar er mikið þjóðþrifamál en
ekki er sama hvernig að verki er staðið. Það
sem skiptir máli eru listræn og félagsleg
gæði þess umhverfis sem verið er að móta,
spurningin um hvar á að þétta og hvernig.
Vöxtur borgarinnar inn á við á ekki að vera á
kostnað opinna almenningssvæða sem gildi
hafa fyrir samfélagið. Né heldur á þétting
byggðar að fela í sér eyðileggingu á mik-
ilvægum náttúrulegum sérkennum eða stað-
armynd. Það er heldur ekki réttlætanlegt að
rífa merkar byggingar eða raska grónum
hverfum í nafni byggðaþéttingar.
Víða erlendis, t.d. í Bretlandi, er mönnum
tamara að tala um „endurnýtingu lands“ en
„þéttingu byggðar“. Endurnýting lands felst í
uppbyggingu á vannýttun svæðum innan
borgarinnar í stað þess að brjóta nýtt land til
byggingar. Efling miðborga beinist að end-
urnýtingu svæða sem eru hætt að þjóna
tilgangi sínum eða eru bundin undir pláss-
freka starfsemi sem betur er komin utan við
borgirnar. Sem dæmi má nefna gömul og úr-
elt iðnaðarhverfi, athafnasvæði járnbrauta,
vöruport við hafnir og flugvelli sem ekki
þjóna lengur mikilvægu hlutverki. Skúla-
gatan og Borgartúnið eru dæmi um slík þró-
unarsvæði sem tekið hafa stakkaskiptum í
kjölfar breyttrar landnotkunar.
Í skipulagslegu tilliti er meiri vandi að
þétta byggðina inn á við en að brjóta nýtt
land til byggingar. Þetta kallar á önnur
vinnubrögð þar sem samráð við hags-
munaaðila er lykilorð, svo tryggt sé að gæð-
um aðliggjandi byggðar sé ekki fórnað í þágu
nýrrar uppbyggingar. Þétting byggðar verð-
ur að vera í sem mestri sátt við það samfélag
sem fyrir er, ella stríðir hún gegn þeim fé-
lagslegu markmiðum sem stefnt er að.
Miðbærinn þarf svigrúm til vaxtar
Miðbæ Reykjavíkur hefur lengi skort svig-
rúm til vaxtar. Á sama tíma og úthverfin hafa
vaxið hefur miðjan í borginni staðið í stað.
Þessi misvöxtur hefur með árunum dregið úr
hæfni Reykjavíkur til að rísa undir nafni sem
höfuðborg. Til dæmis hefur hjarta viðskipta-
lífs smám saman flust úr miðbænum í iðn-
aðarhverfi austar í borginni og í versl-
unarkjarna á borð við Kringlu og Smáralind.
Í líflegri umræðu um skipulag borgarinnar að
undanförnu hafa komið fram ýmsar hug-
myndir um hvernig snúa megi þessari þróun
við með því að skapa nýtt land til að þétta
byggðina umhverfis gamla bæjarkjarnann.
Má nefna ævintýralegar tillögur um byggð á
landfyllingum í sjóinn út af Örfirisey og eyja-
byggð í Engey með jarðgangatengingu við
fastalandið. Nú síðast er hugmynd Björns
Kristinssonar verkfræðings um að loka fyrir
Skerjafjörð með flóðgarði og vinna þannig
nýtt land til byggingar. Fleiri eru nú á þeirri
skoðun en nokkru sinni áður að Reykjavík-
urflugvöll beri að færa til að nýta svæðið frá
Vatnsmýri að Nauthólsvík undir þétta, bland-
aða borgarbyggð með margháttaðri starf-
semi. Þar er um að ræða eitt stærsta og mik-
ilvægasta verkefni á sviði skipulags í sögu
borgarinnar. Með flutningi flugvallarins opn-
ast ýmsir möguleikar á því að þróa höf-
uðborgarsvæðið til betri vegar strax í náinni
framtíð, efla miðborgina án stórfellds niður-
rifs í eldri hverfum, bæta úr samgöngu-
hnútum, gera fjölda fólks kleift að búa og
starfa í borg fremur en úthverfi. Aðgerðir
sem miða að því að bæta lífsskilyrði mikils
fjölda fólks um langa framtíð.
Ofangreindar hugmyndir eiga það sam-
merkt að fela í sér mikið rask og kostn-
aðarsamar breytingar á grunngerð og stað-
háttum, enda þótt gild rök hafi verið færð
fyrir arðsemi þeirra til lengri tíma litið. En
eru fleiri kostir í stöðunni til að þétta byggð
og efla byggðina í Reykjavík?
Hefur miðbærinn verið
skilgreindur of þröngt?
Sérstaða Reykjavíkur í skipulagslegu tilliti
mótast af þeirri staðreynd að hún er byggð á
löngu en tiltölulega mjóu nesi. Elsti bæj-
arhlutinn liggur út við jaðarinn fyrir miðju
nesinu og sökum þess hafa í reynd aldrei ver-
ið forsendur fyrir jöfnum hringvexti borg-
arinnar í allar áttir út frá miðju. Fyrsta
heildarskipulag Reykjavíkur frá árinu 1927
tók til þess svæðis sem í dag er þekkt sem
póstnúmer 101. Á þeim tíma má segja að
jafnvægi hafi verið milli miðbæjarins og
íbúðasvæðanna umhverfis. Athyglisvert er að
skilgreint þróunarsvæði miðborgar Reykja-
víkur liggur enn innan marka skipulagsins
frá 1927 enda þótt umfang byggðarinnar og
allar vegalengdir hafi margfaldast. Fullvax-
inn borgarlíkaminn er enn með höfuð hvít-
voðungs.
Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur sem
unnið var á árunum 1960–65 skyldi nýr mið-
bær byggður ofan í þann gamla með stór-
felldu niðurrifi gamalla húsa til að rýma fyrir
stórbyggingum, bílastæðum og umferð-
aræðum. Til að létta á gamla bænum var
jafnframt gerð tillaga um nýjan versl-
unarmiðbæ austar í borginni. Ýmsir staðir
voru skoðaðir, m.a. svæðið við gatnamót Suð-
urlandsbrautar og Kringlumýrarbrautar, þar
sem nú eru gatan Engjateigur og Nordica-
hótel handan götunnar. Niðurstaðan varð, illu
heilli, að reisa miðbæinn einum gatnamótum
ofar við Kringlumýrarbraut, á núverandi
Kringlusvæði. Þó svo að það svæði lægi að
fjölfarnari gatnamótum hafði það þann veiga-
mikla ókost að vera umlukið íbúðarhverfum
og hlaut því að verða einangrað eyland, án
möguleika á línulegri tengingu við gamla bæ-
inn. Fyrri staðurinn hafði þann augljósa kost
að vera í beinum tengslum við enda gamla
miðbæjarins við Hlemm auk þess sem nægi-
legt svigrúm var til vaxtar austur eftir Suð-
urlandsbraut.
Eins og fram kemur í bók Trausta Vals-
sonar: Reykjavík Vaxtarbroddur (bls. 68)
dróst að framkvæmdir hæfust við uppbygg-
ingu hins nýja miðbæjar á sjöunda áratugn-
um. Sú verslunarstarfsemi, sem þangað hefði
átt að fara strax, tók að dreifast um fyr-
irhugað iðnaðarsvæði inn með Suðurlands-
braut og í Skeifunni. Afleiðingin er sú að í
því „einskis manns landi“ eru í dag margar
þær stofnanir, verslanir og fyrirtæki sem
eðlilegt væri að finna í hjarta miðbæjar, við
kuldalegar götur í mismunandi ljótum iðn-
aðarhúsum sem reynt hefur verið að end-
urbæta með ærnum tilkostnaði. Þessi þróun
varð hægt og hljóðlaust, þrátt fyrir allt
skipulag, á sama tíma og öll athygli skipu-
lagsyfirvalda beindist að útfærsluatriðum í
Kringlunni og í gamla bænum. Nýjasti kafl-
inn í þessari þróun er fjármálahverfið við
Borgartún, sem vissulega var endurskipulagt
með tilliti til breyttrar landnotkunar og þétt-
ingar byggðar. Þar vantar þó mikið á sam-
ræmi og listræna heildarsýn í mótun hinnar
nýju byggðar, bæði hvað varðar ásýnd á móti
hafinu og því að skapa vistlega og fallega
götumynd. Engu er líkara en hver lóð við
Borgartúnið hafi verið skipulögð ein og sér
án nokkurs tillits til heildarinnar. Fyrir vikið
fljóta hin nýju og glæsilegu skrifstofuhús um,
ósamstæð og umkomulaus, í hafi bílastæða,
án merkjanlegra tengsla við stað og um-
hverfi.
Brýnt er orðið að skoða hugmyndina um
miðbæ Reykjavíkur í nýju ljósi og endurmeta
samband hennar við aðra hluta borgarinnar.
Til að svo megi verða þarf að líta til stærra
svæðis en hingað til hefur verið gert. Áður en
tekin er ákvörðun um nýtingu Vatnsmýrar
undir byggð er nauðsynlegt að horfa á borg-
ina í heild sinni, skoða virkni hennar og inn-
byrðis tengsl ólíkra hluta. Vandamálin sem
Kvosin – Keldnaholt
Um þéttingu byggðar
og þróun miðborgar
Reykjavíkur
Um þessar mundir stendur yfir sýningin
Hvernig borg má bjóða þér? í Hafnarhúsinu. Í
þessari grein svarar forstöðumaður bygging-
arlistardeildar safnsins spurningunni.
!
" #
! $
Eftir Pétur H.
Ármannsson
petur.armanns-
son@reykjavik.is