Morgunblaðið - 30.08.2005, Blaðsíða 24

Morgunblaðið - 30.08.2005, Blaðsíða 24
24 ÞRIÐJUDAGUR 30. ÁGÚST 2005 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR É g bjó einu sinni í snyrtilegri blokk í Vesturbænum. Hún var meira að segja snyrtilegri en aðrar blokkir í því þrifalega hverfi, enda nýrri. Nágrennið, bæði úti og inni, var harla gott. Nema stundum. Í stigaganginum mínum, sem var alltaf ryksugaður og fínn og keim- ur af síðustu hreingerningu lá í loftinu, bjó fólk sem greinilega fannst gott og mikilvægt að hafa umhverfi sitt snyrtilegt og góða granna. Í næstu íbúð við mig á stigapallinum bjuggu, ef ég man rétt ung hjón með barn, þótt reyndar hafi ég aldrei nokk- urntíma heyrt það barn gráta. Í næstu íbúð við þau bjó flugfreyja sem átti kærasta. Í næstu íbúð við hana, og beint á móti minni á stigaganginum, bjó miðaldra maður sem sagði mér oftar en einu sinni, með sinni djúpu og brakandi rödd, að hann væri á frystitogara. Ef ekki hefði verið þetta þykka, fína og eins og nýja teppi á stiga- ganginum hefði mátt heyra þar saumnál detta svo að segja allan sólarhringinn. Svefnfriðurinn var alger. Nema stundum. Ég hitti satt best að segja ekki oft fólkið sem bjó á sama stigapalli og ég. Nú má til sanns vegar færa að ég sé sjálfur ekkert sérstaklega fé- lagslyndur, en ég held að í raun- inni höfum við öll, eins og góðra granna er siður, lagt okkur svolít- ið fram um að láta nágranna okk- ar í friði. Ekki vegna þess að okk- ur væri sama um þá, heldur þvert á móti af virðingu fyrir þeim. Þetta kom reyndar mest af sjálfu sér hvað manninn beint á móti varðaði – þennan sem sagði mér ítrekað að hann væri á frysti- togara – þar sem hann var mán- uðum saman fjarri heimili sínu. En þegar hann var heima, þá munaði ekki um það. Þá hvarf al- veg keimurinn af síðustu hrein- gerningu í stigaganginum; svefn- friðurinn var gjörsamlega úti og stundum – jafnvel um miðjar næt- ur – hefði maður ekki heyrt Fokk- er fljúga yfir, hvað þá saumnál detta á stigaganginum, sökum drynjandi „stemmningar“ úr íbúðinni beint á móti mér á stiga- ganginum. Þessi nágranni okkar, sem ítrekað hafði sagt mér að hann væri á frystitogara, lagði sig ekki beint í framkróka við að láta granna sína í friði. Sem er til marks um að hann hafi ekki borið mikla virðingu fyrir þeim. Þegar hann var í landi ríkti terror í stigaganginum. Maður vissi aldrei hvað kæmi næst. En reynslan kenndi manni að maður gat þó verið viss um að lögreglan kæmi fljótlega. Lífsgleði þessa manns hékk eins og demókles- arsverð yfir höfðum nágranna hans. Eina nóttina vaknaði ég og hafði á tilfinningunni að það hefði komið jarðskjálfti. En svo heyrði ég kunnugleg óhljóð framan af stigagangi og vissi að maðurinn á frystitogaranum væri kominn í land. Því til staðfestingar heyrði ég ryðgaða röddina í honum þeg- ar hann hrópaði eitthvað um að einhverjir skulduðu sér mörg þús- und krónur. Síðan sagði hann hátt og snjallt að hann ætlaði að kalla á lögregluna. Nú þótti mér týra. Það hlaut eitthvað óvenju mikið að hafa gengið á ef þessi ryð- kláfur, sem hlaut að vera því van- astur að lögreglunni væri sigað á sig, var farinn að hóta að kalla hana sér til liðsinnis. Forvitnin varð því fýlunni í mér yfirsterkari og ég stóðst ekki mátið og rauk framúr og lagðist á gægjugatið í hurðinni fram á gang. Fyrir utan opnar dyrnar á íbúðinni sinni stóð nágranni minn og sendi tóninn einhverju fólki sem var að hrekjast niður stig- ann. Svo fór hann inn og lokaði á eftir sér og þá sá ég hvers kyns var: Það vantaði neðri helminginn á útihurðina hjá honum. Það var þá bresturinn sem hafði vakið mig – ekki jarðskjálfti. En þetta var sterkbyggð hurð og greinilegt að ekki hafði kostað nein smáræðis átök að brjóta hana svona snyrti- lega í tvennt og rífa neðri helm- inginn af. Eftir þetta lagðist allt í dúna- logn – gott ef ekki í nokkra daga, ef ég man rétt. Samt reyndist þessi atburður marka nokkur þáttaskil, því að upp úr þessu fór að bera á því að íbúarnir í stiga- ganginum hefðu misst þolinmæð- ina. Ungu hjónin í íbúðinni við hliðina á mér seldu og fluttu burt, enda ekki búandi með lítið barn við svona aðstæður. Ég frétti að kærasti flugfreyjunnar hefði ver- ið kominn á fremsta hlunn með að berja óværuna niður, og ekki lái ég honum það. (Ég heyrði líka skömmu eftir þetta að konan sem átt hafði íbúðina sem ég bjó í hefði selt og flutt burt vegna þess að hún var búin að fá alveg nóg af þessu mannkerti beint á móti.) Ég flutti svo sjálfur burtu ekki löngu síðar. Og ég held að svo hafi farið að íbúunum í stigaganginum tókst að hrekja óværuna af höndum sér. Gott hjá þeim. Svona fólki, sem ber enga virðingu fyrir ná- grönnum sínum, á maður að henda út. En nábýlið við manninn sem ítrekað sagði mér að hann væri á frystitogara kenndi mér í eitt skiptið fyrir öll þá lexíu að góðir grannar eru mikilvægari en flest annað. Og ég get ekki ímyndað mér að hægt væri að hafa verri nágranna en hann. Ég vissi fátt um þennan mann annað en að hann var á frystitogara og Íslend- ingur í húð og hár. Ég veit ekkert hverrar trúar hann var en það bendir allt til að hann hafi verið þessarar venjulegu, íslensku lút- erstrúar. Og þá verður vísast ein- hver, ef marka má nýlega skoð- anakönnun, til að benda mér á að ég eigi sko ekki að vera að kvarta undan honum. Ég eigi bara að þakka fyrir að hann var ekki múslími. Góðir grannar Þegar hann var í landi ríkti terror í stigaganginum. Maður vissi aldrei hvað kæmi næst. Lífsgleði þessa manns hékk eins og demóklesarsverð yfir höfð- um nágranna hans. VIÐHORF Kristján G. Arngrímsson kga@mbl.is ✝ Nína KristbjörgGuðmundsdóttir fæddist í Otradal í Arnarfirði 6. maí 1926. Hún lést á Fjórðungssjúkra- húsinu á Akureyri mánudaginn 22. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Guðmundur Guðmundsson, bóndi í Otradal, f. 22. júlí 1883, d. 9. júní 1962, og kona hans Jensína Henrí- etta Hermannsdóttir húsfreyja, f. 11. júlí 1886, d. 8. janúar 1955. Systkini Nínu voru Hermann Þor- berg, f. 1908, d.1994, Eiríkur Guðni, f. 1911, d. 1936, Þorbjörg, f. 1912, d. 1990, Davíð Guðberg, f. 1915, d. 1934, Kristján Björgvin, f. 1918, d. 1968, Gunnar, f. 1922, d. 1979, Runólfur, f. 1924, d. 1966, Sigurður, f. 1928, d. 2004, og Aðalsteinn, f. 1936, d. 2005. Eft- irlifandi uppeldis- systir þeirra er Una Thorberg Elíasdótt- ir. Hinn 18. desem- ber 1948 giftist Nína Kristni Torfasyni, f. 29. sept. 1917, d. 24. febr. 1974, frá Tálknafirði, og eignuðust þau fimm börn. Þau eru: Ás- laug, f. 13 maí 1948, Elísabet Torfhildur, f. 15. júní 1949, Henríetta Guðmunda, f. 17. sept. 1953, Davíð Guðberg, f. 29. janúar 1956, og Ægir Elís, f. 16. mars 1958. Nína skilur eftir sig barnabörn og barnabarnabörn. Útför Nínu verður gerð frá Glerárkirkju í dag og hefst at- höfnin klukkan 14. Það eru ekki öll börn svo heppin að fá að kynnast langömmu sinni. En alltaf var gott að koma til þín, fá mjólk og köku og einnig komstu í heimsókn til okkar í sveitina. Heilsu þinni hrakaði mikið seinnihluta síð- asta árs og varstu lögð inn á Land- spítalann í byrjun þessa árs og vor- um við þá flutt suður. Þegar við sáum þig á spítalanum þá rukum við í fangið á þér, kysst- um þig og föðmuðum. Þú tókst eftir því að við vorum í flísjökkunum sem þú gafst okkur í jólagjöf. Þrátt fyrir veikindin ljómaðirðu af ánægju. Mömmu og pabba hlýnaði um hjartaræturnar yfir að eiga svona yndisleg börn. Ekkert er eins ynd- islegt og þegar börnin manns gleðja eldra fólkið. Þökkum fyrir góðar samveru- stundir. Kær kveðja. Friðrik Eiður og Dagný Lind. Elsku amma mín. Þér leið alltaf betur þegar sólin skein og bjart var úti, þannig trúi ég, elsku amma, að sé hjá þér núna hlýtt og bjart og þú laus við veikindin sem hrjáðu þig síðustu mánuði. Það verður erfitt að venjast því að hafa þig ekki hérna hjá okkur.Í huga mínum er söknuður. Hvíl í friði. Guð geymi þig. Þórhildur. Elsku langamma. Nú ertu farin til Guðs, við munum sakna þín. Okkur langar að senda þér þessa litlu kvöldbæn: Láttu nú ljósið þitt loga við rúmið mitt hafðu þar sess og sæti, signaði Jesús mæti. Helga Nína og Ása Björk. Kæra mágkona, þá ert þú líka farin yfir móðuna miklu, þú ert sú síðasta af tíu systkinum sem kveður þennan heim. Það er aðeins ár síð- an þú fylgdir Sigga bróður þínum til grafar og í maí síðastliðnum féll hann Alli yngsti bróðir þinn frá. Í bæði skiptin var það ég sem færði þér þessa sorgarfrétt. Þegar Alli dó varst þú sjálf orðin mikið veik. Við Svanhvít fórum til þín á sjúkrahót- elið við Rauðarárstíg. Þú sagðir mér þá að þú hefðir vitað hvaða tíð- indi við værum að færa þér um leið og þú sást okkur. En alltaf sýndir þú svo mikið æðruleysi. Elsku Nína mín, allt frá því að ég kom til Bíldudals í fyrsta skipti hef- ur þú reynst mér sem besta systir. Það var um páskana 1953 að Siggi bauð mér með sér vestur, dönsku stúlkunni, sem kunni bara örfá orð í íslensku. Mér leið svo óskaplega vel hjá þér, þú sýndir mér svo mikla hlýju og skilning. 1961 fluttum við Siggi með stelpurnar okkar vestur. Við keyptum jörðina Otradal í Arn- arfirði, þennan fallega stað þar sem þið systkinin ólust upp ásamt fóst- ursystur ykkar, sem enn lifir í hárri elli. Ég man ennþá hvað það voru mér mikil vonbrigði að þú varst þá nýflutt frá Bíldudal til Tálknafjarð- ar, en ég lærði fljótt að keyra yfir Hálfdán til að heimsækja þig. Kristinn maðurinn þinn var frá Tálknafirði og þið keyptuð þar hús sem heitir Laufás. Þú varst á besta aldri þegar þú misstir eiginmann þinn. En þú hefur staðið þig með eindæmum vel. Eftir að Kristinn dó fórst þú að vinna á pósthúsinu í Tálknafirði. Seinna fluttir þú til Reykjavíkur, keyptir þér íbúð þar og starfaðir hjá Pósti og síma á R7. Þrisvar sinnum flaugst þú til Tasm- aníu að heimsækja yngsta son þinn, hann Ægi og fjölskyldu hans. Það þurfti án efa mikinn kjark og dugn- að fyrir fullorðna konu að leggja í svo langt og erfitt ferðalag. En þú hafðir ekki mörg orð um það, þú bara gerðir það. Fyrir örfáum árum fluttir þú til Akureyrar, þú festir kaup á lítilli snoturri íbúð sem þú varst svo ánægð með. Þar fyrir norðan búa hin fjögur börnin þín sem vildu svo gjarnan fá móður sína norður. Ég mun sakna þess mikið að geta ekki hringt til þín og látið þig ráða drauma mína. Ég þakka þér sam- fylgdina, hún var mér mikils virði. Ég bið góðan guð að veita börn- unum þínum styrk í þeirra miklu sorg. Þín mágkona, Ingrid Guðmundsson. Nú er hún Nína elskuleg föð- ursystir mín látin, eftir stutt en erf- itt stríð við illvígt lungnakrabba- mein. Það er rétt ár síðan pabbi dó, Alli bróðir þeirra lést í maí síðast- liðnum og núna er Nína farin og þar með er síðasti hlekkurinn í systkinahópnum horfinn. Una Thor- berg uppeldissystir þeirra er sú eina sem lifir. Nú er of seint að spyrja, nú verð- ur spurningunum ósvarað að eilífu. Minningarnar streyma fram í hug- ann: þegar Nína bauð mér tíu ára gamalli á heimili sitt í Tálknafirði svo ég gæti notið sundkennslu þar. Ég var ekki sú eina sem varð þess aðnjótandi, heldur bauð hún mörg- um systkinabörnum sínum til sín á sumrin svo þau mættu sækja sund- námskeið. Og þrátt fyrir að hún ætti fimm börn sjálf virtist þetta ekki vera neitt mál fyrir hana. Og búrinu hennar Nínu gleymi ég seint. Þar voru öll box ávallt stútfull af fínum smákökum. Það var alltaf mikil tilhlökkun að fara í heimsókn til Nínu og fjölskyldu í Tálknafirði. Þar biðu kræsingarnar eftir manni. Aldrei kom ég svo í heimsókn með börnin mín til hennar að ekki væru dregnar fram gjafir handa þeim öllum og borðin svignuðu undan veitingunum eins og ævinlega, ekkert var nógu gott fyrir okkur. Fyrir einu og hálfu ári sótti Kjartan námskeið í Háskólann á Akureyri. Hann bjó þá hjá Nínu og hún bakaði og eldaði og gerði allt svo honum mætti líða sem best. Nína var aðeins tæplega 48 ára þegar hún missti eiginmann sinn, Kristin. Aldrei hef ég heyrt hana kvarta. Hún var nægjusöm og spar- söm, fór vel með alla hluti og tók öllu af miklu æðruleysi, og núna síðast veikindum sínum. Í júní síð- astliðnum fórum við mamma og heimsóttum hana og Betu eina helgi. Það var góð helgi sem gleym- ist seint. Hún vissi innst inni að tíminn hennar var að renna út. Hún tók þá af mér loforð sem ég mun reyna af fremsta megni að efna. Ekki má gleyma hæfileikum hennar að ráða drauma. Hún var alltaf tilbúin að hlusta og gat alla drauma ráðið. Ég á eftir að sakna þess að geta ekki hringt í hana og spjallað um heima og geima og fengið í leiðinni ráðningu á einum eða tveimur draumum. Hún hafði mikinn áhuga á dulspeki og hún trúði á líf eftir dauðann. Nú veit hún öll svörin. Nína var föður mínum afar kær systir, móður minni elskuleg mág- kona og okkur systkinunum ynd- isleg föðursystir. Takk fyrir allt, elsku Nína frænka. Ég bið almættið að styrkja börnin hennar fimm, Ásu, Betu, Henný, Dabba og Ægi í sorg þeirra. Svanhvít Sigurðardóttir. Við fráfall minnar kæru föður- systur kemur margt upp í hugann og margs er að minnast frá liðnum árum. Þegar ég var barn, var ég svo heppin að fá að búa hjá Nínu þegar ég var send í sundkennslu til Tálknafjarðar. Þó heimilið væri mannmargt og húsið lítið þá var alltaf pláss fyrir fleiri. Þá var mað- ur nestaður fyrir daginn af Nínu og það var vel úti látið og girnilegt nesti. Ógleymanlegar eru líka heim- sóknir Nínu og fjölskyldu í Otradal- inn. Á hverju ári komu þau til þess að fara í berjamó og ég man enn þá gleðina í hjarta mínu þegar ég sá bílinn þeirra birtast á Litla Nesinu. Það var heldur ekki minna ævintýri að fara í heimsókn í Tálknafjörðinn og fá að gæða sér á kræsingunum hennar Nínu. Pabbi og Nína voru alla tíð mjög náin og þess vegna hefur samband mitt við hana alltaf verið það líka. Nína var alveg sér- lega draumspök kona og ég og fleiri leituðum oft draumráðninga hjá henni. Nína var ákaflega vel gerð mann- eskja í alla staði og áreiðanleg, ljóð- elsk og hagyrðingur góður. Ættrækin var hún líka með ein- dæmum og mundi alla afmælisdaga og vildi allt fyrir sitt fólk gera og ósjaldan hefur hún laumað peningi í lófa á yngri kynslóðinni. Eftir að Nína fluttist til Akureyr- ar fyrir nokkrum árum hittumst við sjaldnar en vorum alltaf í reglulegu símasambandi. Ég á eftir að sakna þess mikið. Nína er sú síðasta af tíu systk- inum sem kveður. Nú er Una fóst- ursystir þeirra sú eina sem lifir öll sín fóstursystkini. Börnunum hennar, þeim Ásu, Betu, Henný, Davíð og Ægi og fjöl- skyldum þeirra sendi ég mínar bestu samúðarkveðjur Takk fyrir samfylgdina. Blessuð sé minning þín, elsku Nína. Elsa Nína. Elsku Nína mín, núna ertu farin frá okkur og þjáningum þínum er lokið. Afi hefur komið og tekið á móti þér ásamt hinum systkinum ykkar. Það er sárt að þurfa kveðja þig því þú varst ein af mínum uppá- haldsfrænkum. Þegar ég var yngri fannst mér þú líka vera amma mín og kallaði ég þig það stundum. Það er ótrúlega mikil viska sem hverfur með þér, líkt og þegar afi dó. Það verður erfitt að sætta sig við það að geta ekki hringt í Nínu frænku og fengið draumaráðningar, því það kunni hún vel. Við sáumst því miður ekki mikið síðustu árin því þú varst þá búsett á Akureyri. Mínar innilegustu samúðarkveðj- ur til barna þinna og barnabarna. Þín Sunna María. NÍNA KRISTBJÖRG GUÐMUNDSDÓTTIR

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.