Fréttablaðið - 01.11.2007, Page 28

Fréttablaðið - 01.11.2007, Page 28
greinar@frettabladid.is Ádögunum vantaði mig eitt stykki augaskrúfu. Leið mín lá í Byko við Hringbraut því ég bý þar nærri og er með afsláttarkort. Byko er með langan opnunartíma og aðgengi verslunarinnar er afar gott. Þess vegna versla ég oft þar. En það geri ég ekki framar. Þeir hjá Byko (ég veit ekki með hina risana) selja ekki lengur skrúfur og annað smálegt í stykkjatali heldur er búið að pakka saman tíu stykkjum eða fleirum í litla plastpoka. Poki með tíu augaskrúfum var á rúmar fimmhundruð krónur. Ekkert okurverð kannski en mig vantaði EINA augaskrúfu en ekki tíu. Átti ég að henda hinum níu eða geyma þær um aldur og ævi? Eftir nokkur ár eiga viðskiptavinir Byko mörg tonn af járni sem þeir keyptu en höfðu engin not fyrir. Hvaða vit er í þessu? Byko eykur veltuna en hvers á kúnninn að gjalda? Til að gera langa sögu stutta keypti ég ekki plastpokann með augaskrúfunum. Ég fór í Brynju við Laugaveg af því að mig vantaði tvo metra af gúmmílista (þeir eru EKKI seldir í metratali í Byko, aðeins í heilum rúllum). Í Brynju sá ég augaskrúfur í stykkjatali og kostar eitt stykki tuttugu og fimm krónur. Ég hefði sem sagt getað fengið tíu augaskrúfur í Brynju á tvö- hundruð og fimmtíu krónur! Það er helmingi ódýrara en í Byko! Ég sparaði sumsé um það bil fimm hundruð krónur á að versla í Brynju, og þarf ekki að henda eða geyma níu augaskrúfum sem ég hef engin not fyrir. Það er sorglegt, nú á tímum frelsis og einka- væðingar, hvernig andlausir risar eru smám saman að útrýma hinum sjálfstæða kaupmanni. Það er sama hvert litið er: Matarvara, lyfsala, byggingavörur, alls staðar er sama sagan. Og enginn þessara risa hefur minn hag að leiðar- ljósi, það er deginum ljósara. Upp með alvöru sjálfstæði! Niður með nýju SÍS-veldin! Brynja lengi lifi! Höfundur er rithöfundur. Brynja, ég elska þig Seðlabanki Íslands hefur sætt harðri gagnrýni mörg undangengin ár. Hvernig ætti annað að vera? Bankanum var sett verðbólgumarkmið með lögum og hátíðlegum heitstreng- ingum 2001, og síðan þá hefur ekki staðið steinn yfir steini í peningastjórninni, og var ástandið þó ekki beysið fyrir. Meginmarkmið Seðlabanka Íslands samkvæmt lögunum frá 2001 er að stuðla að stöðugu verðlagi. Það hefur þó mistekizt svo hrapallega, að verðbólgan hefur nær allan þennan tíma verið yfir auglýstu verðbólgu- markmiði Seðlabankans og oftar en ekki yfir efri þolmörkum bankans, og þá „ber Seðlabankan- um að gera ríkisstjórninni opinberlega grein fyrir ástæðum þess og leiðum til úrbóta,“ svo sem segir í yfirlýsingu á vefsetri bankans. Ekki verður séð, að opinberar greinargerðir Seðla- bankans handa ríkisstjórninni hafi hingað til borið mikinn árangur, enda er varla við öðru að búast, því að gagnrýni Seðlabank- ans hlýtur einkanlega að beinast að þeirri agalausu hagstjórnar- stefnu, sem formaður banka- stjórnarinnar átti sjálfur mestan þátt í að móta sem forsætisráð- herra og hefur haldizt óbreytt að kalla árum saman. Seðlabankanum hafa að minni hyggju orðið á mistök í stjórn peningamálanna. Seðlabankinn fleygði frá sér beittu vopni, bindiskyldunni, sem hann hefur þó lagaheimild til að beita líkt og fyrr. Hann ákvað heldur að einskorða peningastjórnina við stýrivexti, sem eru deigara vopn en bindiskyldan við aðstæður undangenginna ára. Bankinn virðist nú reyna að skýla sér á bak við það, að gagnrýnin beinist að honum úr öllum áttum. Bankinn virðist líta svo á, að hann sé á réttu róli svo lengi sem sumir gagnrýna hann fyrir of lítið aðhald og aðrir fyrir of háa vexti. Bankinn virðist sjá þversögn í þessari gagnrýni, ef marka má grein Arnórs Sighvatssonar aðalhagfræðings bankans í Morgunblaðinu (Umræða í öngstræti, 29. október). En það er engin þversögn í gagnrýninni á Seðlabankann alls staðar að. Ef bindiskyldunni hefði verið beitt svo sem þurfti, hefði Seðlabankinn sennilega getað komizt af með minni hækkun vaxta og samt veitt viðskipta- bönkunum og atvinnulífinu meira aðhald en raun varð á. Útlána- aukning viðskiptabankanna hefur verið of mikil. Hún var 10 prósent 2003, 20 prósent 2004, 31 prósent 2005 og 34 prósent 2006. Svo mikilli og þrálátri útlánaþenslu hlýtur alls staðar og ævinlega að fylgja verðbólga, enda varð raunin sú. Verðbólgan mælist nú milli fjögur og fimm prósent milli ára, en Arnór Sighvatsson telur undirliggjandi verðbólgu nú vera tæplega sjö prósent. Seðlabankanum bar lagaskylda til að sporna gegn útlána- þenslunni með tiltækum ráðum til að halda aftur af verðbólgunni, en það gerði hann ekki nema til hálfs. Seðlabankinn hefði getað beitt bindiskyldunni, svo að viðskiptabankarnir hefðu þá þurft að geyma hluta af innlána- aukningu sinni í Seðlabankanum og hefðu þá búið að því skapi við skerta útlánagetu. Viðskiptabönk- unum er auðvitað ekki vel við að láta binda hendur sínar með þessu móti. Seðlabankinn ákvað að fella niður bindiskylduna og láta stýrivextina duga og studdist við fyrirmyndir utan úr heimi, þar sem seðlabankar hafa sums staðar dregið úr bindiskyldu eins og í Bandaríkjunum eða fellt hana niður eins og í Bretlandi. En hér er ólíku saman að jafna, því að Bandaríkjamönnum og Bretum tókst fyrir löngu að kveða verðbólguna niður, og þeir þurfa því ekki lengur á bindiskyldu að halda. Það hefði því verið nær fyrir Seðlabankann að sækja sér fyrirmyndir til landa í svipuðum sporum og Ísland stóð í, til dæmis til Austur-Evrópu, þar sem bindiskylda er enn við lýði, af því að hennar er ennþá þörf eins og hér. Þetta virðist Seðlabankanum hafa yfirsézt, og því hefur hann barizt við verðbólguna með aðra höndina bundna fyrir aftan bak. Bindiskyldu er ennþá beitt í Sviss. Seðlabankinn hefði þurft að beita einkabankana ákveðnara aðhaldi með peningastefnu sinni, og hann hefði einnig þurft að beita ríkisstjórnina skynsamleg- um fortölum. Til þess skortir bankann þó sjálfstæði og styrk við núverandi skipan banka- stjórnarinnar. Ritstjóri Morgun- blaðsins hefur viðurkennt á prenti, að núverandi formaður bankastjórnar Seðlabankans hafi „talið nauðsynlegt að Landsbank- inn kæmist í hendur manna sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði a.m.k. talsamband við“. Til að tala um hvað? Flokkar eiga einmitt ekki að vera í talsambandi við banka, ekki frekar en við dómstóla. Slík tengsl draga úr getu Seðlabank- ans til að gegna hlutverki sínu í samræmi við lög. Seðlabanki í öngstræti F angelsismálastofnun hefur með opinberri yfirlýsingu vísað á bug nýlegum röksemdum fangavarða á Litla- Hrauni fyrir því að uppbygging ríkisfangelsis eigi að vera á þeim stað. Embættismenn stofnunarinnar segja að samkvæmt faglegum rökum verði aðalfangelsi landsins að vera í Reykjavík. Hafa þeir embættismenn fangelsismála sem búa í Reykjavík ein- hvern einkarétt á faglegum sjónarmiðum um þessi málefni? Er það trúlegt að þeir starfsmenn fangelsanna sem starfa utan Reykjavík- ur láti einir eigin búsetu hafa áhrif á skoðanir sínar um staðsetn- ingu þeirra? Felst ekki einum of mikill hroki í þess konar áliti? Á síðasta áratug var ákveðin og framkvæmd veruleg uppbygg- ing og endurbót á fangelsinu á Litla-Hrauni. Það var gert á grund- velli ítarlegrar og vel rökstuddrar tillögugerðar. Ákvörðunin fól í sér að meginstarfsemi ríkisfangelsisins skyldi áfram vera fyrir austan fjall en lítil stofnun með aðstöðu fyrir gæsluvarðhald og móttöku yrði í Reykjavík. Þetta var meðal annars rökstutt með því að hagkvæmni stærðar- innar væri forsenda fyrir virkri deildaskiptingu og nútíma þjónustu við fanga. Þessari stefnumörkun var síðar breytt. Úrbótaáform í fangelsismálum hafa því upp á síðkastið tekið mið af þeim sjónar- miðum starfsmanna fangelsanna í Reykjavík að tvær meðalstórar stofnanir eigi að reka á þessu sviði: Aðra í Reykjavík en hina á Eyrarbakka. Fráleitt er að líta svo á að annað sjónarmiðið sé faglegt en hitt ekki. Sannleikurinn er sá að ábendingar fangavarðanna á Litla- Hrauni byggja á gildum rökum og áttu fullt erindi inn í umræðuna. Gild rök þarf að vega og meta á báða bóga. Ein rétt niðurstaða er ekki til. Núverandi dómsmálaráðherra hefur með eftirtektarverðum hætti fært talsvert af þjónustuverkefnum úr ráðuneytinu út til sýslumannsembætta á landsbyggðinni. Með málflutningsröksemd- um Fangelsismálastofnunar hefði mátt halda því fram að þær ráð- stafanir skorti fagleg rök. Svo var ekki. Þær fólu bæði í sér hag- kvæmni og skynsemi. Áformuð staðsetning fangelsis á Hólmsheiði vekur síðan upp annað og miklu alvarlegra umhugsunarefni. Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur sent borgaryfirvöldum rökstudda greinargerð til varnar því mikla skógræktarstarfi sem unnið hefur verið á austurheiðum Reykjavíkur undanfarna áratugi. Skipulagsyfirvöld í Reykjavík stefna nú að því með skipulagi um margs konar mannvirkjagerð að rífa þetta starf upp með rótum. Það er ásetningur um ósmátt umhverfisspellvirki. Ætli Fangelsis- málastofnun að halda fast við byggingu nýs fangelsis á þessu svæði felst í því upplýst hlutdeild í atlögu að hálfri milljón trjáplantna sem ungt fólk hefur unnið við að gróðursetja í tvo áratugi. Fyrir þeirri gerð eru fá og fátækleg fagleg rök. Betur færi á hinu að ríkisvaldið tæki höndum saman við Skóg- ræktarfélagið í brýnni viðleitni þess til að hrinda þessum áform- um borgaryfirvalda. Hvar sem fagleg rök eru í hávegum höfð geta menn með góðri samvisku og af fullri reisn tekið undir röksemda- færslu Skógræktarfélagsins. Fangelsi og skógrækt

x

Fréttablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.