Fréttablaðið - 30.12.2007, Síða 46

Fréttablaðið - 30.12.2007, Síða 46
22 30. desember 2007 SUNNUDAGUR Þ egar ég millilenti á flug- vellinum í Frankfurt frétti ég að ég yrði sendur í bæ sem heitir Vavuniya. Ég vissi að bærinn liggur mjög nálægt víg- línunni, kannski tíu til fimmtán kílómetra frá henni, inni í miðju landi og því ekki aðlaðandi staður til að vera á. Það reyndist raunin. Ég fékk létt menningarsjokk þegar ég kom til Srí Lanka, allt var svo miklu öðruvísi en við eigum að venjast. Þegar ég fór til Vavuniya fékk ég hins vegar algert áfall. Göturnar voru tæplega malbikaðar og beljur og hundar og hermenn úti um allt. Bærinn var hrörlegur svo ekki sé fastar að orði kveðið. Ég spurði sjálfan mig að því hvað ég væri búinn að koma mér út í,“ segir Snorri Már Skúlason, deildar- stjóri hjá ASÍ, sem er nýkominn úr sex mánaða starfi fyrir utanríkis- ráðuneytið á Srí Lanka. Fyrsta nóttin á framandi slóðum bætti heldur ekki úr skák. „Nágrannakonan hafði dáið af slys- förum daginn áður. Þegar dauðs- fall verður stendur líkið gjarnan uppi í húsinu í ákveðinn tíma og vinir og ættingjar koma og það er grátið og hljóðað yfir þeim látna lungann úr sólarhringnum. Þessi líkvaka hélt fyrir mér vöku þannig að það var ekki hátt á mér risið í upphafi. En aðlögunarhæfni mannsins er ótrúleg og ég komst fljótt yfir menningarsjokkið. Það æxlaðist síðan þannig að ég var í þessum bæ nánast allan tímann og eftir tvo mánuði vildi ég hvergi annars staðar vera. Mér fannst mikill kostur að vera á sama stað, mynda tengsl og kynnast svæðinu eins vel og kostur er,“ segir hann. Snorri Már starfaði sem vopna- hléseftirlitsmaður í sameiginlegu eftirliti Íslendinga og Norðmanna á Srí Lanka. Hann segir að á skrif- stofuna hafi gjarnan komið fólk sem hafi lent í hremmingum. Á Srí Lanka sé töluvert um hótanir, þvinganir og jafnvel mannrán. „Við fengum slíkar kvartanir inn til okkar og skráðum samviskusam- lega niður. Ótti var í fólkinu og bjartsýni á framtíðina ákaflega takmörkuð, atvinnuleysi yfir fimm- tíu prósent í mínum heimabæ en samt gat þetta fólk brosað. Ég hafði oft á tilfinningunni að ég væri ekki að fylgjast með vopnahléi heldur stríði. Þó að manni féllust hendur um stund þá áttaði maður sig á því þegar rykið settist að vopna hlés- eftirlitið er augu alþjóða sam fé- lags ins. Ef við værum ekki þarna þá væri ástandið margfalt verra. Vera okkar veitir bæði stjórnar- hernum og tígrunum töluvert aðhald. Ef eitthvað gerist þá er það komið í skýrslurnar okkar og þar með út á netið og í fjölmiðla. Fólk fann ákveðið öryggi í því að við værum á svæðinu og þess vegna var mikilvægt að við værum sýnileg.“ Maður dofnaði allur upp Snorri Már segir að skelfilegasta upplifunin hafi átt sér stað í byrjun ágúst þegar eftirlitsmennirnir fengu vitneskju um að maður hefði verið skotinn á götu í bænum. „Við vorum komin inn í bíl á leið í eftir- litsferð annað þegar fréttin barst og ákváðum að kanna málið. Það stóð heima. Þegar við komum á gatnamótin þá lá þar maður með stórt pappaspjald sem á var skrif- að að hann hefði stundað fjárkúgun og þess vegna verið drepinn, skot- inn í höfuðið. Þetta var mjög furðuleg sjón enda ekki nokkur sála sjáanleg á vettvangi nema hinn látni. Meðan við vorum á staðnum tíndist fólk út úr görðum og nærliggjandi götum til að athuga hvað væri í gangi en við hringdum í lögregluna og báðum hana að hraða sér á stað- inn,“ segir hann. Meðan á þessu stóð heyrðust skothljóð. „Við höfðum ekki meira þarna að gera svo að við keyrðum 200-300 metra og sáum þar hvar hálfur maður lá á göngustíg. Sjálfs- morðssprengjumaður hafði greini- lega sprengt sig og ætlað að taka hermenn með sér en ekki tekist það. Neðri hlutinn af manninum var horfinn. Við fórum strax af þeim vettvangi af því að ástandið var ótryggt og byssur á lofti. Þegar við komum aftur einum og hálfum tíma seinna var búið að fjarlægja líkamsleifarnar en maður í næsta húsi var að skafa líkamsleifar af húsinu sínu og maður þurfti virki- lega að gæta að því hvar maður steig niður. Þetta var það ljótasta sem ég upplifði,“ segir hann. Með grátbólgin augun Neyðin er mikil meðal fólksins á Srí Lanka, ekki síst í Vavuniya þar sem atvinnuleysið er mikið. Snorri Már rifjar upp að á skrifstofuna til sín hafi komið ung kona með mánaðargamalt barn í fanginu. Maðurinn hennar hafði verið drep- inn nokkrum dögum fyrr, báðir foreldrar hennar voru látnir, hún gat ekki gefið barninu brjósta- mjólk og barnið var vannært og veikt. „Hún var alein í heiminum. Við reyndum að aðstoða hana eins og við gátum. Þegar einhver er myrt- ur þá eru það ákveðin endalok og þess vegna er jafnvel erfiðara að hitta fólkið sem eftir lifir því að hvað tekur við hjá fjölskyldunni ef fyrirvinnan deyr? Ég lenti líka í því að koma að þar sem maður hafði verið skotinn og líkið lá á jörðunni. Ættingjarnir höfðu mætt á staðinn og eiginkonan með grát- bólgin augun kom til mín og félaga míns að biðja um hjálp. Hún leiddi þriggja ára strák, átti tvö önnur börn og var með kúluna út í loftið, ófrísk að því fjórða. Að horfa á vonleysið í augum eftirlifenda var þyngra en tárum taki.“ Snorri Már segir að dvölin á Srí Lanka hafi verið mikill skóli þar sem hann hafi meðal annars þurft að takast á við sjálfan sig. Að detta inn í stríðsástand í framandi sam- félagi sé mikil áskorun sem kalli á nýja forgangsröðun og aðra hugs- un. Hann hafi aldrei verið mikið einn en eftir erfiða atburði hafi reynst sér best að tala við vinnu- félagana. „Það kom fyrir að það var talað fram á nótt eða þar til maður var búinn að afgreiða málið en auð- vitað lifir svona upplifun í höfðinu á manni. Eitt af því sem utanríkis- ráðuneytið býður upp á eftir heim- komu er að hitta sálfræðing til að tappa af. Virðingarleysið fyrir mannslífum er því miður mikið þarna eins og víðast þar sem átök geisa,“ segir hann. Eins og svitalyktareyðir Dvölin á Srí Lanka var ekki bara erfið heldur líka lærdómsrík og ánægjuleg og á heildina litið mikið ævintýri. Snorri Már segir að dýra- lífið sé blómlegt á þessari fallegu eyju enda kjöraðstæður, hitastigið yfirleitt við þrjátíu gráður og regn- tímabil tvisvar á ári. Ekki er mikið um stór villidýr en þeim mun meira af snákum og skorkvikindum. Einn daginn kom hann að stórri köngu- ló fyrir ofan dyrnar að herberginu sínu og hafði ekki áhuga á að fara inn með köngulóna fyrir utan. „Ég náði í norskan félaga minn, sem er þrautþjálfaður hermaður, og bað hann að aðstoða mig við að koma henni fyrir kattarnef. Ég prílaði upp á stól í stuttbuxum og sandölum með úðabrúsa með moskítóeitri í hendi. Fyrir svona risakönguló var það nánast eins og svitalyktareyðir en ég hugsaði ekkert út í það. Ég stóð uppi á stóln- um og byrjaði að úða en hún brást hin versta við og varð ekki vitund sljó. Hún tók strikið niður vegginn og ég á eftir með úðabrúsann í botni. Þegar hún kom niður tók hún stefnuna beint á mig. Sá norski var með kústinn á fullu en köngulóin fór það hratt að hann náði aldrei að slá á hana. Það var ljóst að ég var óvinur númer eitt og að köngulóin ætlaði í mig en þegar hún var komin alveg að mér náði sá norski að fletja hana út. Það mátti ekki tæpara standa. Við heyrðum síðar hjá innfæddum að þetta hefði verið baneitrað kvikindi.“ Eitt kvöldið sat Snorri Már ásamt þremur öðrum úti á svölum að gæða sér á kvöldmat á eina „alvöru“ veitingastaðnum í bænum við vængjaþytinn frá leðurblökum sem flögruðu um í heitu myrkrinu. Flestar voru litlar en ein þó af teg- und sem kallast The Devil‘s Dog og hefur vænghaf upp á einn og hálf- an metra. Í fjarska mátti heyra drunur í fallbyssum og herþyrlur koma inn til lendingar. „Seint í borðhaldinu kemur kvik- indi fljúgandi út úr myrkrinu og ræðst á höfuðið á mér. Þar sem litlu leðurblökurnar sjúga blóð ákvað ég að taka hressilega á móti þessum óboðna gesti og upphófst mikill stríðsdans með tilheyrandi fúkyrðaflaumi. Torkennilegt dýrið flæktist í hárinu á mér og tókumst við á nokkur sekúndubrot. Það versta var að vita ekki hver óvin- urinn var, sérstaklega þegar hann datt niður um hálsmálið á skyrt- unni minni. Æstist dansinn til mikilla muna og örvæntingarfullt umlið breyttist í óttablandið vein. Á meðan á þessu stóð voru borð- félagarnir staðnir á fætur opin- mynntir og fölir í framan því þeir vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Þeir sáu aldrei fljúgandi ófögnuð- inn koma út úr myrkrinu og ráðast til atlögu. Þar sem ég hentist um í krampakenndum hreyfingum tókst mér að moka dýrinu undan skyrt- unni og koma því burt og kom þá í ljós að þarna hafði verið á ferð fljúgandi kakkalakki sem hafði brotlent á hausnum á mér. Hann var svo stór að ég hafði á tilfinn- ingunni að það væri mögulegt að bregða hundaól utan um hálsinn á honum og fara í göngutúr.“ Aðlögunarhæfnin er ótrúleg Að horfa upp á afleiðingar stríðs er erfið lífsreynsla og víst að lífið er ekki sjálfsagt og lífsgæðin enn síður. Snorri Már Skúlason, deildarstjóri hjá ASÍ, er nýkominn úr vopnahléseftirliti á stríðshrjáðu Srí Lanka. Hann sagði í samtali við Guðrúnu Helgu Sigurðar- dóttur að stríðalinn Íslendingur þyrfti öðru hverju högg til að átta sig á og þakka í auðmýkt fyrir það sem hann hefur. STUTT FRÁ VÍGLÍNUNNI Götumynd frá Vavuniya á Srí Lanka, 10-15 kílómetra frá víglínunni. ÁSAMT NORSKUM FÉLAGA Snorri Már Skúlason vopnaeftirlits- maður ásamt norskum félaga sínum Steinari Holm. VOPNAHLÉSEFTIRLITSMENN Á SRÍ LANKA Vinirnir Snorri Már Skúlason og Þorfinnur Ómarsson voru báðir vopnahléseftirlitsmenn á Srí Lanka á árinu 2007. MEÐ 15 KÍLÓA BLÝHÓLKA Í „alvöru“ vesti með 15 kílóa blýhólkum. Vopnahléseftirlitsmennirnir fóru aldrei í ferð án þess að vera með vestið í bílnum. Þeir áttu að fara í vestið og leggjast niður eða ofan í skurð ef átök brutust út þar sem þeir voru staddir. ➜ SRÍ LANKA ■ COLOMBO ■ VAVUNIYA SRI LANKA Íbúafjöldi: 19,4 milljónir Höfuðborg: Kólombó Helstu útflutningsafurðir/framleiðsla: fatnaður og textíll, te, eðalsteinar, hrágúmmí og kókoshnetur. Stjórnmál: Ótryggt stjórnmálaástand og borgarastríð hefur geisað í Tamílahér- uðum í norður- og norðausturhluta Srí Lanka í nokkra áratugi. Vopnahlé komst á árið 2002. Íslendingar og Norðmenn sinna nú vopnahléseftirliti á eyjunni en Íslendingar sinna þar þróunarsamvinnu. Ástandið er talið hafa farið versnandi frá 2006. Saga: Portúgalar og Hollendingar sölsuðu Srí Lanka undir sig á 16. og 17. öld, Bretar festu stjórn sína í sessi í lok 18. aldar og upphafi þeirrar 19. Sjálfstæði Srí Lanka var lýst yfir 4. febrúar 1948 en landið tilheyrði þó eftir sem áður Breska samveldinu. Sjálfstæðið færði landsmönnum þó ekki frið og byggðist upp spenna í gegnum árin á milli tveggja þjóðarbrota, Sinhalesa annars vegar, sem eru í meirihluta, og minnihlutahóps Tamíla hins vegar. Átök brutust út í kring- um 1980 og stóðu þau í tvo áratugi, eða þar til friðarsamningur var undirritaður í febrúar 2002. Heimild: Iceida.is.

x

Fréttablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.