Tíminn - 29.08.1982, Side 16

Tíminn - 29.08.1982, Side 16
16 SUNNUDAGUR 29. ÁGÚST 1982 ■ Sjálfsmynd Thorvaldsens árið 1839. ■ Úr Thorvaldsen-safni í Kaupmannahöfn. THORVALDSEN OG ÍSLAND — eftir dr. Kristján Eldjárn, fyrrverandi forseta og fyrsta beina heimild fyrir því aö Thorvaldsen hafi ekki einasta ákveðið að gefa íslandi skírnarfont, heldur einnig verið búinn að ganga frá honum í ársbyrjun 1827, og ennfremur fullgild heimild þess að hann hafi þá ætlað dómkirkjunni í Rcykjavík fontinn? Þetta hlýtur svo að vera, því eftir hverjum ætti Jóhanna fagra að hafa þctta öðrum en Thorvaldsen sjálfum í vinnustofu hans í Rómaborg? Fonturinn seldur norskum kaupmanni Hitt er annað mál, að fonturinn sem Jóhanna sá kom aldrei til íslands, þótt fullbúinn væri, og svo hitt að saga skírnarfontsins í Rcykjavíkurdóm- kirkju nær í rauninni miklu lengra aftur en til 1826-27. Hún byrjar með því að greifafrú Charlotte Schimmelmann bað Thorvaldsen að gera skírnarfont fyrir systur sína, Sybille Reventlow, handa hallarkirkjunni í Brahe-Trolleborg á Fjóni. Þetta mun hafa verið árið 1805, og byrjaði Thorvaldsen þá að gera uppköst að myndum á hliðar fontsins en , lauk við verkið á árunum 1807 og 1808. Komst það þó ekki til Kaupmanna- hafnar fyrr en 1815, en var þá sýnt þar við mikla hrifningu sem jafnvel átti sinn þátt í að vekja almennan áhuga á listamanninum, en síðan var fonturinn sendur í sína kirkju og þar er hann enn. Á öllum fjórum hliðum hans eru sömu myndir og á skrínarfontinum í Reykja- vík, en áletrun er þar engin. Talið hefur verið, og víst með réttu, að Thorvaldsen hafi hugsað sér að hefðarfólk það, sem að fyrstu gerð fontsins stóð, mundi geta orðið gömlum föður hans að einhverju liði til endurgjalds fyrir verkið. Þessa þurfti þó ekki lengi með, því Gottskálk Þorvalds- son andaðist á Vartov gamalmennahæli í Höfn j24. okt. 1806. Hugsanlegt er að þegar svo var komið hafi sú hugmynd kviknað hjá syni hans að minnast ættjarðar hans með því að senda þangað einhvem listgrip og skírnarfontur þá orðið fyrir vali af því að hann var einmitt þá að gera fontinn fyrir greifafrúna. Til mála kemur einnig, eins og menn hafa bent á, að þegar Thorvaldsen kom til Danmerkur og dvaldist þar um hríð á árunum 1819 og 1820 hafi einhverjir íslendingar þar í borg stungið þessari hugmynd að honum. Hvernig sem þetta hefur verið er víst að lokið hefur Thorvaldsen við skírnar- fontinn handa íslandi árið 1827, og hann hefur verið búinn að láta höggva hann í marmara í ársbyrjun, þegar Jóhanna sá hann. Þetta sannast á því að í bréfi frá Thorvaldsen, skrifuðu í febrúar 1827, til dómkirkjunefndar í Höfn, segir hann að skírnarfontur „ligeledes i Marmor, som jcg giver til en kirke i Island", muni verða sendur frá Livorno eftir tvo mánuði. En nú hefur það gerst að Thorvaldsen hefur hætt við að senda þennan skírnarfont eins og hann hafði ákveðið. Þess í stað hefur hann selt hann norskum kaupmanni og það án þess að áletrunin til íslands væri máö af honum (þó að Thiele segi að svo hafi verið gert). Auðséð er að Thiele, sem er hcimildar- maður að þessu 1831, hefur ekki vitað af hverju þessi ráðabreytni stafaði, því að Thorvaldsen byrjaði strax að gera annan font eins, ætlaðan Miklabæjar- kirkju, segir Thiele. Þessi fyrri marmara- fontur er með hartnær óyggjandi vissu sá sem nú stendur í Heilagsandakirkju í Kaupmannahöfn. Þangað er hann kom- inn frá A. Boyer, stórkaupmanni sem gaf hann kirkjunni 1939 og hafði keypt hann á uppboði hstgripa úr eigu jarlsins af Caledon í London sama ár. „Norski kaupmaðurinn" sem keypti fontinn, líklega af Thorvaldsen sjálfum, hefur sennilega verið milligöngumaður fyrir þennan jarl og látið hann hafa fontinn. En sem sagt: Thorvaldsen fór strax að gera annan font og árið 1830 er á vorsýningu í Charlottenborg í Höfn, „Döbefont, bestemt til Miklabye kirke pa Island“. Þetta þykir með vissu hafa verið Reykjavíkurfonturinn, það er að scgja gifseintakið, því að marmara- fonturinn kom ekki til Hafnar fyrr en 1833. Þar var hann svo enn þegar Thorvaldsen kom þangað 1838, honum til undrunar og hrellingar, enda dreif hann nú í að fonturinn yrði sendur til íslands. Og til íslands kom hann snemma sumars 1839, var settur í dómkirkjuna og vígður þar af Helga Thordersen dómkirkjupresti hinn 14. júní þá um sumarið. Þá var og skírt fyrsta barnið og látið heita Bertel eftir listamanninum, var það sonur Stefáns Gunnlaugssonar landfógeta. Til er bæði vígsluræða séra Helga og þakkarkvæði Jónasar Hallgrímssonar, sem frægt er. Þar víkur Jónas að því að menn hafi undrast hvað dveldi dýrgrip á leið. fslendingar hafa þá lengi haft pata af því að Thorvaldsen ætlaði að gefa Islandi skírnarfont í ræktar skyni við föðurland sitt. Tvennt hefur lengi verið til umræðu í sambandi við skírnarfontinn í dóm- kirkjunni. Annað er hvers vegna Thorvaldsen lét af hendi marmarafont, sem hann hafði gert gagngert handa íslandi og með áletrun þaraðlútandi. Hitt er hvort hann hafi ætlað Mikla- bæjarkirkju eða dómkirkjunni fontinn. Fyrra atriðinu verður aldrei með vissu svarað. Á það má þó líta, að fonturinn í Heilagsandakirkju er ekki eins vandað- ur og Reykjavíkurfonturinn, að því er Dyveke Helsted segir. Til dæmis er hinn síðarnefndi úr heilli marmarablokk, en hinn fyrri úr marmaraplötum og smá- gallar á marmaranum. Verkið er einnig betra á Reykjavíkurfontinum ogsérstak- lega er kransinn utan um skálina bæði stærri og fegurri. Allt þetta gæti blátt áfram bent til þess að Thorvaldsen hafi ekki verið nógu ánægður með hinn fyrri font sem heiðursgjöf til íslands, hafi því fargað honum til áfjáðs kaupanda og látið slag standa um hina latnesku áietrun, byrjað síðan þegar í stað að útbúa annan úr betra efni og með betri útfærslu. Þetta virðist vera geðfelldasta skýringin og jafnvel einnig sú senni- legasta. Um hitt atriðið er það að segja, að ótrúlegt er að Jóhanna Briem hefði nefnt dómkirkjuna í Reykjavík ef Thorvaldsen hefði ekki gert það sjálfur, þegar þau hittust í Róm 1827. Þegar gifseintakið var sýnt í Höfn 1830 var hinsvegar sagt að fonturinn væri ætlaður Miklabæjarkirkju og hið sama segir Thiele 1831. Einnig hefur barónessa Stampe það eftir Thorvaldsen í minn- ingum sem hún skrifaði eftir honum á árunum 1840-41. Á móti þessu kemur svo að til eru bréf í skjalasafni rentukammersins, þar sem fram kemur að Thorvaldsen hafi skriflega 28. desember 1838 falið því að senda skírnarfont sem -han for nogle ár siden har forfærdiget og skiænket domkirken i Reikevig". íslendingar hylla Thorvaldsen Svo sem sjá má af þessu er ekki auðvelt að greina hvort blessaður Thorvaldsen hefur upprunalega hugsað sér, Miklabæ, sem hann kallaði „min Faders Födeby" (barónessa Stampe), ellegar aðalkirkju landsins, dóm- kirkjuna í Reykjavík. Ef til vill hefur hann hvarflað eitthvað þarna í milli, og hugsanlegt er að menn hafi verið að hræra í honum, hver veit? Ef áletrunin er tekin bókstaflega, virðist hann gefa ættlandi sínu fontinn og kæmi það þá heim við það sem hann sennilega hefur sagt við Jóhönnu Briem. Sú hugsun kynni svo að hafa komið yfir hann síðar, að réttast væri að fonturinn væri á þeim kirkjustað þar sem afi hans var prestur og faðir hans kenndi sig við. Þegar svo loks kemur að því að fonturinn er sendur hingað heim, hefur einhver skot- ið því að honum að þetta mikla listaverk ætti hvergi heima á íslandi nema í höfuðkirkju landsins, dóm- kirkjunni í Reykjavík. Þetta kann sem sagt að hafa verið nokkuð laust og bundið og því einna mestur sannleikur í því sem séra Árni Helgason segir í Sunnanpóstinum 1835: „Sú fregn hefur líka hingað borist, að Thorvaldsson hafi tilbúið skírnarfont, ætlaðan annaðhvort til Reykjavíkur eður Miklabæjarkirkju, í minningu þess að hann er héðan ættaður, hvað sem af þessum skírnarfonti er síðan orðið, því til landsins er hann ekki kominn.“ Þegar Thorvaldsen var orðinn frægur maður má nærri geta að málsmetandi íslendingar létu það ekki fram hjá sér fara án þess að hreyfa hönd eða fót. Þegar Thorvaldsen kom til Kaupmanna- hafnar hylltu Hafnaríslendingar hann uridir forustu Finns Magnússonar sem afhenti honum ættartölu hans eftir Jón Espólín og flutti honum kvæði eftir sjálfan sig. Tveimur áratugum síðar 1838 þegar Thorvaldsen kom heim alfarinn og Hafnarbúar gerðu meiri mannfagnað en dæmi eru til, var hópur fslendinga framarlega í mannfjöldanum og Jónas Hallgrímsson orti dýrlegt kvæði sitt, Kveðju íslendinga til Alberts Thorvaldsens, þar sem hann segir meðal annars að aldrei hafi annar eins frægðargeisli og hann skinið yfir ísland. Áður var nefnt þakkarkvæði Jónasar fyrir skírnarfontinn, og er óhætt að segja að þessi tvö kvæði séu veglegustu minnisvarðamir, sem íslendingar hafa reist hinum fræga frænda sínum. Mikilfenglegasti minnisvarði Thor- valdsens hér á landi af áþreifanlegu efni gjör er hinsvegar sjálfslíkneski hans sem getið er í upphafi þessarar greinar, styttan sem Kaupmannahafnarborg gaf íslandi til minningar um þúsund ára byggð landsins. Það ágæta listaverk var upprunalega reist á Austurvelli, afhjúp- að þar og afhent með mikilli samkomu á afmælisdegi Thorvaldsens 18. nóvem- ber 1875. Allt var gert sem unnt var til þess að athöfnin yrði virðuleg og til sóma öllum aðiljum, fyrirmenn landsins fluttu miklar ræður, skáldin ortu kvæði og konur tóku sig saman um að skreyta allt hátíðarsvæðið með öllum tiltækum ráðum. Samkoma þessi er með vissu hið langtum tilkomumesta sem nokkurn- tíma hefur verið gert á íslandi í minningu Thorvaldsens og ber þess þó öllu öðru fremur að minnast, að upp af samstarfi kvennanna spratt Thor- valdsensfélagið, sem enn lifir í góðu gengi og hefur látið svo ótal margt og mikið gott af sér leiða. Stytta Thorvaldsens var flutt af Austurvelli 1931 og henni komið fyrir í Hljómskálagarðinum og vafasamt hvort margir leggja þangað leið sína til fundar við hann þar. Hver veit nema Thor- valdsenssýningin á Kjarvalsstöðum, hin fyrsta sem haldin er á íslandi, verði nú einhverjum hvöt til að heilsa upp á öðlingsmanninn með hamarinn, þann sem í senn er hamar Þórs og sá sem lét meitilshöggin gjalla um víðan heim eins og H.C.Andersen segir í frægu kvæði. (Við samantekt þessarar ritgerðar hefur verið stuðst við ýmis rit um Thorvaldsen og þau fáu listaverk hans sem eru hér á landi. Of langt yrði öll þau skrif upp að telja, t.d. um skirnarfontinn í dómkirkjunni en öðru fremur ber að nefna grein Matthíasar Pórðarsonar í Islenskum listamönnum II, 1925, og mörg önnur skrif Matthíasar um Thorvaldsen, þar á meðal um brjósllíkneski Jóns Eiríks- sonar, Eimreiðin XXVI, 177-185, sbr. einnig Else Kai Sass, Thorvaldsens Portrœtbuster 1, Kph. 1963. - Um Gunnlaug Briem sjá Sigurður Lindal, Listneminn frá Brjánslœk. Lesbók Morgunblaðsins 5. febr. 1973, bls. 6 og áfr.).

x

Tíminn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.