Tíminn - 29.08.1982, Síða 25

Tíminn - 29.08.1982, Síða 25
SUNNUDAGUR 29. ÁGÚST 1982 25 ■ Robert Kennedy var eins og allir vita dómsmálaráðherra í stjórn bróður síns, og sem slíkur þótti hann afar duglegur. Hann stóð fremstur í flokki í ýmsum umbótaáætlunum sem John beitti sér fyrir, ekki síst í sambandi við réttindi blökkumanna og raunar mannréttindi almennt - athugið að þegar John komst til valda í Hvíta húsinu voru ekki liðin nema örfá ár síðan McCarty-æðið stóð sem hæst og FBI var ennþá í ríkinu. Þetta starf Kennedys í dómsmálaráðu- neytinu varð til þess að ýmsir tóku að líta á hann sem hálfgerðan róttækling - róttækling í bandarískum skilningi, skal tekið fram. í rauninni var hann alls ekki til að byrja með, hann var fyrst og fremst Kennedy að stússa í pólitík og þó hann ætti sér náttúrulega ýmsar hugsjónir voru þær aukaatriði en pólitíkin númer eitt. Eftir að John var myrtur lenti Robert Kennedy hins vegar í nokkrum vandræðum. John hafði á margan hátt vikið frá hefðbundnum stjómarháttum og hlotið fyrir það mikla aðdáun vissra hópa í Bandaríkjunum sem álitu að nýir stjórnarhættir hlytu að hafa í för með sér betri stjórn. Eftir að Lyndon B. Johnson tók við gerði hann þessa stjórnarhætti að sínum, sniðgekk þingið eftir bestu getu og svo framvegis, og til þess að viðhalda sérstöðu sinni varð Robert Kennedy - sem alla tíð ætlaði sér í forsetaframboð - að ganga enn lengra. Hann varð því smátt og smátt talsmaður afla sem á bandarískan mælikvarða töldust vera harla róttæk. f dómsmálaráðuneytinu hafði Kenn- edy aftur á móti ekki verið svo róttækur sem hann sýndist vera. Hann reyndi eftir megni að halda aftur af mannréttinda- hreyfingum blökkumanna og annarra, ef hann og forsetinn töldu að aðgerðir þeirra gætu haft slæmar afleiðingar fyrir forsetann, og Robert var yfir sig hneykslaður þegar hann frétti að einn leiðtogi blökkumanna væri meira að segja á móti kjarnorkusprengjunni! Þáttur John F. Kennedy í mannréttinda- hreyfingunni var raunar ekki annar en sá að ganga til móts við það hugarfar sem var að verða ríkjandi. Eftir að hann lést af skotsárum blandaðist Robert hins vegar meira og meira inn í þessa baráttu og með tímanum varð hann í raun og veru einlægur baráttumaður fyrir alla vega umbótum fyrir minnihlutahópa þarna vestra. Eftir að Kennedy kynntist betur þeirri kúgun sem blökkmenn sættu í Suðurríkjunum, sannfærðist um að pottur væri brotinn, og hann fór að skilja tilfinningar reiðu, ungu svertingjanna sem voru allt eins og tilbúnir til að láta sverfa til stáls. Hann vakti til dæmis mikið írafár þegar hann lét hafa eftir sér að ef hann væri sjálfur blökkumaður myndi hann án efa taka þátt í uppreisn þeirra. í upphafi var hann bara á móti „kerfinu" vegna þess að það hindraði hann og var bæði þröngsýnt og heimskt. En þegar hann hafði tekið sæti í öldungadeildinni eftir morðið á John var hann farinn að skilja þá sem voru á móti „kerfinu“ vegna þess að þeim stóð raunveruleg ógn af því. Um sama leyti hófst einnig uppreisn æskulýðsins í Bandaríkjunum. John F. Kennedy hafði notfært sér eldmóð æskunnar án þess að finna til hans sjálfur, en Robert varð fyrir áhrifum. Það var ekki síst barátta unga fólksins gegn Víetnam-stríðinu sem olli því að Kennedy skipti um skoðun og barðist fyrir því 1968 að bandarískt herlið yrði kallað heim frá Víetnam. Kennedy hafði líka mikil tengsl við ýmsa fræga bandaríska baráttumenn á vinstri kant- inum, eins og til dæmis Tom Hayden (sem nú er eiginmaður Jane Fonda) og jafnvel Abbie Hoffmann. Hann fór smám saman að kunna vel við sig í þessu nýja hlutverki og gekkst upp í því. Þessi breyting sem varð á Kennedy þykir með ólíkindum. Hann var af þessari hagsýnu og valdagírugu ætt, sem mat hugsjónir ekki mikils, og sjálfur var hann ekki aðeins kaþólskur á pappírn- um eins og John, heldur raunverulega trúaður og púrítani í þokkabót. Undir lok ævinnar var þessi maður orðinn átrúnaðargoð fólks sem að öðru leyti hélt mest upp á Ho Chi Minh, Mao Zedong, Fidel Castro og Ché Guevara. Kennedy hafði reyndar kynnt sér skrif allra þessara manna nákvæmlega þegar bróðir hans varð forseti og undir lokin var hann orðinn eins konar lítill Fídel sjálfur. Hann talaði um uppreisn gegn hefðum og kerfi, nýja tímaog gerbreytta stjórnarhætti í Bandaríkjunum, mann- réttindi og réttlæti og svo framvegis. Hann tók að vísu ekki stórt upp í sig miðað við Fídel og Ché en á einhvern hátt virtist hann samt vera þeim samstíga í andanum. Af sjálfu leiddi að „stæll“ Kennedys breyttist. Bróðir hans hafði verið óaðfinnanlega klæddur og strokinn en Robert Kennedy tók upp aðra háttu. Hann gekk um á skyrtunni, var ýmist laushnýtt eða alls ekki, hárið síkkaði. Þetta kunna að virðast smáatriði en skipta nú samt sem áður töluverðu máli í stjórnmáiabaráttu, ekki síst í Banda- ríkjunum þar sem forsetakosningar vinnast út á „stæl“ fremur en stefnu. Margir helstu ráðgjafar Kennedys voru ungir og síðhærðir stráklingar sem spiluðu á gítar og sungu baráttulög - Robert var kominn langan veg frá „Camelot" bróður sínum. En hvað hefði gerst ef Kennedy hefði ekki verið myrtur árið 1968, rétt í þann mund sem kosningabarátta hans var að hefjast? Átti hann í raun og veru möguleika á því að verða kjörinn forseti Bandaríkjanna? Hann átti vísan stuðing ýmissa minihlutahópa, láglaunastétt- anna og unga fólksins (þurfti að vísu að keppa við Eugene McCarthy um þau atkvæði) og ráðgjafar hans vonuðu að sjálfur Kennedy-ljóminn myndi duga til þess að tryggja honum svo mikið af atkvæðum frá „venjulegum“ Ameríkön- um að hann næði inn í Hvíta húsið. En hvort það hefði tekist er afar vafasamt. Mjög stór hluti bandarísku þjóðarinnar hataði hina nýju mannréttindabaráttu eins og pestina og því fólki kom ekki til hugar að kjósa Robert Kennedy. Bent hefur verið á að í kosningum '68 vann Richard Nixon mjög nauman sigur yfir Humphrey en þá ber að taka það með í reikninginn að George Wallace og Curtis Le May kepptu við Nixon um atkvæði hægri manna og fengu 13%. Bæði Nixon og Wallace hömuðust gegn „krökkunum", og samanlagt fengu þeir vænan meirihluta. Sönnun þess er ekki aðeins stórsigur Nixons '72 eftir að Wallace hafði verið skotinn heldur og hitt að jafnvel þegar Watergate-málið stóð sem hæst var lítið minnst á harkalegar aðgerðir Nixon gegn ýmsum baráttuhópum á vinstri bakkanum. Þó ljóst væri að Nixon hafði beitt ólöglegum aðferðum studdi meirihluti þjóðarinnar hann hvað þetta snertir. Því var það að margir syrgðu morðið á Kennedy einkum vegna þess að það væri fánýtt. „Hann átti ekki séns.“ sagði Lawrence O’Brien, sem fylgst hafði náið með kosningabaráttu Kennedys og annarra. Það verður auðvitað aldrei úr því skorið héðan af, en altént er það firra sem margir halda af ef Kennedy hefði lifað hefði hann unnið iéttan sigur á Richard Nixon. Robert Kennedy var á ýmsan hátt í slæmri klemmu og hann vissi það sjálfur. Hann var umfram allt annað Kennedy með öllu sem því tilheyrði, en samtímis hafði hann neyðst til að brjótast út úr þeim viðjum sem þessi staðreynd setti honum. Er hann hóf árásir sínar á „kerfið" var hann að vissu leyti að ráðast á minningu bróður síns um leið, og það gekk bara ekki upp. Þetta leiddi meðal annars til þess að Kennedy átti í miklum erfiðleikum með að finna veikan biett á Eugene McCarthy, sem einnig barðist um útnefningu sem forsetaframbjóð- andi demókrata, vegna þess að Mc- Carthy var í raun og veru afskaþlega svipaður John F. Kennedy í sinni pólitík. (Það má taka það fram að þvert ofan í það sem margir halda, þá var Eugene McCarthy engu minni skíthæll en allir hinir.) Og við hlið Johns hafði Robert staðið alla tíð og stutt hann í hvívetna. Skrítinn maður, Robert. Meðan hann var dómsmálaráðherra og nánasti ráð- gjafi bróður síns hafði hann gengið hart fram í því til dæmis að fá leyniþjónust- una CIA til ýmissa ólöglegra aðgerða gegn þeim sem Kennedy-bræðurnir töldu vera óvini Bandaríkjanna. Hann lagði sig mjög fram um að fá CIA til að gera samsæri gegn Fídel Castro á Kúbu og satt að segja voru yfirmenn leyniþjón- ustunnar lengi tregir til að ganga jafn langt og Kennedy heimtaði. Svo varð þessi breyting á honum, mjög snögg breyting meira að segja þó hann ætti í erfiðleikum með að að laga hana að Kennedy-ímyndinni. Hann var alvar- lega þenkjandi maður og hafði alltaf verið, gífurlega ákveðinn og viljasterkur í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur, en hann var líka fullkomlega samvisku- laus þegar hann vildi það. En um leið var hann-námfúsari en eldri bróðir hans, og átti sér raunverulegri hugsjónir, og hann var alveg óhræddur við að brjóta nýtt og óþekkt land - ólíkt til dæmis yngri bróður sínum. Einn Kaninn kallaði hann existentíalískan stjórn- málamann: „Hann skilgreindi og skap- aði sjálfan sig í hita og þunga baráttunnar, og lærði næstum allt af eigin reynslu... Hann hafði hæfileika til að treysta hugboðum sínum og tilfmn- ingum og verða ekta. Hann var alltaf í því ástandi að verða..." En betta er auðvitað blaður. Bandaríkjamenn eru voðalega svag fyrir aöalsfólki. Og ef þeir hafa það ekki nær- hendis, þá búa þeir þaö bara til. Besta dæmið síðustu ára- tugi eru Kennedy- arnir. Glæsilegir, gáfaöir og snjallir.

x

Tíminn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.