Tíminn - 13.03.1983, Síða 9

Tíminn - 13.03.1983, Síða 9
SUNNUDAGUR 13. MARS 1983 menn og málefni mgg[^^j||j| | ' Alþingi hefur lagt lög- gjafarstarfið til hliðar Umræðurnar á Búnaðarþingi ■ Ég hlýddi nokkrum sinnum á umræður á Búnaðarþingi, sem lauk störfum sínum um helgina. Búnaðarþing sat í hálfan mánuð að þessu sinni. Það fékk um 70 mál og erindi til meðferðar og afgreiddi þau flest eða öll. Það verður að teljast góð afgreiðsla á svo skömmum tíma. Meðan ég hlýddi á umræðurnar á Búnaðarþingi, rifjaðist það upp fyrir mér, þegar ég fylgdist með umræðum á Alþingi fyrir um 56 árum. Ég var þá að vísu ekki nema 12 ára og ýmsir atburðir, sem gerast á þeim aldri, vilja breytast í endurminningunni. Ég minnist þess m.a., að þingmenn sýndu með klæðaburði sínum, að þeir báru virðingu fyrir Alþingi. Það gilti a.m.k. um þá velflesta. Þeir héldu sig mun betur í sætum sínum meðan á þingfundi stóð en nú er títt. Það er mér þó einna minnisstæðast, að mér fannst þingmenn hafa búið sig undir ræður sínar. Þær voru flestar stuttar, málefnalegar og þokkalega fluttar. Ræðumenn höfðu auðheyri- lega kappkostað að geta rætt um málin af þekkingu. Það var ekki nema þegar deilumál bar á góma, að ræðugarparnir breyttu um stíl, gerðust mælskir, hækkuðu róminn og létu hnútur fljúga um borð. Löggjafarstarfið orðið hornreka Það rifjaðist jafnframt upp fyrir mér hversu mikil breyting hefur orðið á störfum Alþingis, þótt ekki sé horfið nema tuttugu ár aftur í tímann og staðnæmzt við þingið 1962-1963. Það má segja, að löggjafarstarfið hafi í vaxandi mæli orðið hornreka á þessum tíma. Löggjafarstarfið á þó að vera aðalverkefni Alþingis. Störfum Alþingis er þannig háttað, eins og flestir munu vita, að löggjafar- málin, þ.e. frumvörp, tilheyrandi breytingartillögur og nefndarálit, eru rædd í þingdeildum og afgreidd frá þeim. Fjárlög ein eru undanskilin, en um þau er fjallað í Sameinuðu þingi. Verkefni Sameinaðs þings eru að öðru leyti að fjalla um þingsályktunar- tillögur og fyrirspumir. Umræður utan dagskrár fara oftast fram í Sameinuðu þingi, en þær geta einnig farið fram í þingdeildum. Fyrir tuttugu árum eða á þinginu 1962-1963 var fimm daga vinnuvika á Alþingi. Fjóra daga vikunnar voru fundir í deildum, en einn daginn fundur í Sameinuðu þingi. Nú er búið að stytta vinnuviku þingsins í fjóra daga. Fundir í deildum 'eru aðeins tvo daga í viku, en fundir í Sameinuðu þingi tvo daga í viku. Þá tvo daga vikunnar, sem fundir eru í deildum, eru jafnframt fundir í þingflokkunum, sem hefjast kl. 16. Þegar allra síðustu vikur þingsins eru uiidanskildar, ræða deildirnar yfirleitt ekki löggjafarmál nema í fjórar klukkustundir í viku eða frá kl. 14-16 á mánudögum og miðvikudögum. Löggjafarmálin hafa þannig horfið í skuggann fyrir umræðum um þings- ályktunartillögur og fyrirspurnir og umræðum utan dagskrár, sem fara fram í Sameinuðu þingi. Þar standa umræður oftast frá klukkan 14-19 á þriðjudögum og fimmtudögum. Þessi mál fá m.ö.o. miklu meiri umræðutíma á Alþingi en löggjafarmálin. í alltof mörgum tilfellum eru þings- ályktunartillögur og fyrirspurnir nauða ómerkileg áróðursmál eða aug- lýsingaskrum. Fyrir umræðum um þessi mál hefur löggjafarstarfið þokað. Umræður utan dagskrár Það versta, sem hefur gerzt í vinnu- brögðum Alþingis síðustu árin, eru hinar stórauknu umræður utan dagskrár. Venjulegast er hér um að ræða pólitískt þras um dægurmál, sem er oftast gagnslaust og þýðingarlaust. Þingmenn, sem hafa gaman af því að láta Ijós sitt skína, eru hér aðallega að verki. Einkum hefur þetta ágerzt eftir að hljóðvarp og sjónvarp fóru að segja fréttir frá þinginu. Áður fyrr heyrðu umræður utan dagskrár til hreinna undantekninga. Þingtíðindi frá 1962-1963 veita fróð- legar upplýsingar um þetta. Samkvæmt þeim voru umræður utan dagskrár mjög sjaldan þá og menn spöruðu sér langar ræður. Þetta sést á því, að þær eru samtals ekki nema 48 dálkar eða 24 blaðsíður í þingtíðindunum. ■ Þingtíðindin frá sama þingi segja einnig frá því á athyglisverðan hátt, hvernig hlutföllin milli umræðna um löggjafarmál annars vegar og þingsá- lyktunartillagna og fyrirspurna hins vegar hafa tekið miklum breytingum á þessum tíma. Samkvæmt þingtíðindunum frá 1962-1963 er B-deildin, sem eru um- ræður um samþykkt lagafrumvörp, 1904 dálkar, og C-deildin, sem eru umræður um felld og óafgreidd laga- frumvörp, 759 dálkar eða samtals um- ræður um lagafrumvörp 2653 dálkar. C-deild þingtíðindanna frá 1962- 1963, sem eru umræður um þingsájykt- anir og fyrirspurnir, er 537 dálkar. Umræður ura lagafrumvörp hafa samkvæmt þessu orðið um fimm sinn- um meiri á þinginu 1962-1963 en umræður um þingsályktunartillögur og fyrirspurnir. Þingtíðindum er öðru vísi skipað nú en 1962-1963, svo að ekki er hægt að gera samanburð, nema með ærinni vinnu. Óhætt er þó að fullyrða, að nú er dæminu alveg snúið við. Umræður um þingsályktunartillögur og fyrir- spurnir eru orðnar miklu meiri en umræður um lagafrumvörp. Mestur ofvöxtur hefur þó hlaupið í umræðurnar utan dagskrár. Þær hafa ivafalítið mörgum sinnum tugfaldazt. Heilum þingfundum hefur stundum vcrið eytt í umræður utan dagskrár. Óhætt er að fullyrða, að slíkar umræður heyra til undantekninga á öðrum þjóðþingum og víða þekkjast þær alls ekki. Þar hefur löggjafarstarfið algeran forgang. Þingnefndirnar Einhverjir kunna að segja í þessu sambandi, að hér sé ekki getið um þá athugun, sem lagafrumvörp fá í þing- nefndum. Þingnefndir hafa vissulega unnið mikið og gagnlegt starf hvað þetta snertir. Því hefur hinsvegar hrakað á síðari árum. Að nokkru leyti stafar þetta af því, að vinnuvikan hefur stytzt, og nefnd- irnar hafa minni tíma til starfa, en aðalvinnutíminn þeirra er fyrir hádegi þá daga, sem þingfundir eru haldnir. Þetta stafar einnig af því, að um- ræðutími þingdeildanna hefur stytzt um helming síðan á þinginu 1962-1963. Mörg frumvörp eru því ekki afgreidd til nefnda fyrr en eftir dúk og disk. Nefndir fá því styttri tíma en ella til að fjalla um þau. Þá háir deildaskiptingin verulega nefndarstörfum. Þetta sést t.d. vel, ef menn íhuga nefndarstörfin hjá efri deild. í neðri deild eru níu nefndir, hver skipuð sjö mönnum. Samtals er hér um að ræða 63 nefndarststörf. Tuttugu þingmenn eiga sæti í efri deild og oft eru 2-3 þeirra ráðherrar, sem venjulcga starfa ekki í nefndum. Nefndarstörfin skipt- ast því milli 17-18 þingmanna, sem oft þurfa einnig að starfa í nefndum, sem kosnar eru í Sameinuðu þingi. Það leiðir af þessu, að þingmenn þurfa oft að starfa í þremur til fjórum þingnefndum. Eins og áður segir, er starfstími nefndanna yfirleitt fyrir há- degi fjóra daga vikunnar. Erfitt er því að (inna tíma fyrir nefndirnar svo að ekki rekist þannig á, að sami maður þurfi að mæta í tveimur nefndum samtímis. Þetta veldur meiri og minni töfum á nefndarstörfum. Niðurstaðan af þessu öllu verður sú, að nefndum vinnst seint og nefndarálit í seinni deildinni koma oft ekki fyrr en í þinglokin. Þá lenda málin í einum hnút og afleiðingin verður meira og minna óvönduð afgreiðsla. í seinni tíð hefur sú vinnuaðferð orðið æ algengari, að nefndir beggja deilda vinni saman að athugun mála. Þetta hefur gefizt vel. Þetta styður þau rök, að nefndarstörf myndu batna. ef þingið yrði ein málstofa. Þá þyrftu þingmenn ekki að vera nema í einni eða mesta lagi tveimur nefndum og gætu sinnt miklu betur þeim mála- flokki, sem heyrði undir þá nefnd, sem þeir eiga sæti í. Reglugerðirnar Augljóst dæmi þess, að löggjafar- starfið hefur í vaxandi mæli orðið hornreka og að því hefur á margan hátt hrakað, er að finna í svo að segja flestum meiri háttar lögum, sem nú eru afgreidd frá Alþingi. Þar eru mikilvæg- ustu þættirnir oft afgreiddir á þann hátt, að þetta skuli nánar ákveðið í reglugerð af viðkomandi ráðuneyti. Dæmi um þetta er að vísu að finna í eldri lögum, en miklu færri og miklu takmarkaðri eri nú. í raun hefur þetta þýtt það, að löggjafarvaldið hefur færzt frá Alþingi og inri í ráðuneytin. Ráðuneytin hafa orðið á margan hátt raunverulegur löggjafi. í mörgum ráðuneytum eru prýðilegir menn, sem hafa reynt að semja reglugerðirnar af mestu sam- vizkusemi. Eigi að síður er þetta ekki hlutverk. þeirra og á heldur ekki að vera það. Það er hlutverk Alþingis. Vaxandi málæði utan dagskrár á Alþingi, ásamt auknu málæði um þings ályktunartillögur og fyrirspurnir, hafa þannig beint og óbeint orðið til þess, að Alþingi hefur misst löggjafarvaldið úr höndum sér og látið framkvæmda- valdinu það eftir. Þessi framvinda er ekki aðeins óeðli- leg, heldur hættuleg fyrir Alþingi. Nokkuð kann það að geta bætt úr þessu, ef reglugerðir væru ekki látnar öðlast gildi, nema áður hafi verið fjallað um þær f viðkomandi þingnefnd. Þingið verði ein málstofa Það, sem hér hefur verið rakið, gefur ótvírætt til kynna, að mikil breyting þarf að verða á vinnubrögðum Alþingis, ef það á að vera handhafi löggjafarvaldsins á þann hátt, sem stjórnskipan ríkisins ætlast til. Vinnubrögð Alþingis hafa verið að komast í slíkar ógöngur, að sennilega verður ekki aftur snúið, nema með stórfelldri breytingu, sem gerir það nauðsynlegt að endurskipuleggja næst- um öll vinnubrögð þess. Líklegasta leiðin til þess er að gera þingið að einni málstofu. Það hafa Norðurlandaþjóðirnar hinar gert og láta vel af árangrinum. Jafnhliða því a ð gera þingið að einni málstofu, verður að skera niður um- ræður utan dagskrár og takmarka sfór- lega frá því, sem nú er, umræðurnar um þingsályktunartillögur og fyrir- spurnir. Krefjast verður þess af þing- mönnum, að þeir flytji stuttar og gagnorðar ræður. Langhundasmiðir verða að finna sér fullnægingu annars staðar en á Alþingi. Löggjafarstarfið verður að hafa al- geran forgang á þingfundum. Mikil breyting þarf svo að verða á störfum þingnefnda. Með því að gera þingið að einni málstofu, en fjölga þó ekki í nefndum, þurfa þingmenn ekki að starfa nema í einni eða mesta lagi í tveimur nefndum og geta því sinnt nefndarstarfi sínu miklu betur en þegar þeir þurfa að vera í þremur til fjórum nefndum. Þá ætti að auka verkssvið nefnd- anna. Þeim væri ekki aðeins ætlað að fjalla um lagafrumvörp. Þær ættu einn- ig að fá það verkefni að fylgjast með framkvæmd laga og veita fram- kvæmdavaldinu aðhald á þann hátt. Til þess að geta sinnt þessu verkefni, þyrftu þingnefndirnar að starfa allt árið eins og utanríkismálanefnd gerir nú. Þetta væri líka eðlilegt, þar sem þingmenn fá full laun fyrir þann tíma, sem þingið starfar ekki. Of náin tengsl Eins og hér hefur verið rakið, myndi sú breyting að gera þingið að einni málstofu og auka hlutverk þingnefnda, geta bætt vinnubrögð þingsins á margan hátt. Vinnubrögð þess verða vart bætt, nema samfara einhverri slíkri grund- vallarbreytingu. Það mun samt halda áfram að vera löggjafarstarfi þingsins þrándur í götu, að of náin tengsl eru nú milli fram- kvæmdavaldsins og löggjafarvaldsins. Vegna þessara nánu tengsla, hefur ákvörðunarvaldið í löggjafarmálum færzt í hendur ríkisstjórnarinnar. Vik- um og jafnvel mánuðum saman hafa þingflokkar þeir, sem styðja stjórnina, orðið að bíða eftir ákvörðun frá' ríkisstjórninni um mikilvæg löggjafar- mál. Þetta hefur oft gert þingið meira og minna starfslítið. Þingið yrði sjálfstæðara og gæti sinnt löggjafarstarfinu betur, ef dregið yrði úr þessum tengslum. Það sýnir reynsl- an í Bandaríkjunum. Þórarinn Þórarinsson, ritstjóri skrifar

x

Tíminn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.