Tíminn - 25.09.1983, Síða 6
&_________
laf og list
mmm
SUNNUDAGUR 25. SEPTEMBER 1983
„Guðfræðin er ættgeng
í minni fjölskyldu”
— segir danska þingkonan Dorte Bennedsen guðfræðingur, fyrrum menntamálaráð-
herra- og kirkjumálaráðherra
■ Um miðjan mánuðinn var haldin
ráðstefna hér i bæ, samnorræn,og
fjallaði hún um tölvumál og
menntun. Veitir ekki af að ræða
aðeins um tölvur og hvernig beri að
bregðast við þeim því að þær eru
bæði það sem koma skal og það
sem er víða þegar komið. Ráðstefn-
una sátu 120 manns frá fimm
Norðurlöndum og voru tíu norrænir
fyrirlesarar en einn kom frá Eng-
landi. Meðal fyrirlesaranna var
Dorte Bennedsen guðfræðingur, en
hún er þingmaður sósíaldemókrata
í Danmörku og hefur gegnt ýmsum
trúnaðarstörfum fyrir sinn fiokk,
innan þings og utan, var t.d. kirkju-
málaráðherra og menntamála-
ráðherra. Það má geta þess til gam-
ans að móðir Dorte Bennedsen var
einnig þingmaður fyrir sósíaldemó-
krataflokkinn danska um nær þrjá-
tíu ára skeið og gegndi þá um hríð
embætti menntamálaráðherra.
Undirrituð hitti Dorte Bennedsen að
máli úti á Hótel Loftleiðum um það bil
sem ráðstefnunni var að ljúka og byrjaði
á því að spyrja hana hvort hún hafi verið
alin upp til að verða stjórnmálakona.
„Nei,“ sagði Dorte og hló við, „ekki
beinlínis, en ég var alin upp á pólitísku
heimili og þegar maður er alin upp við
að hlusta á pólitískar umræður allan
daginn fer ekki hjá því að maður fari að
fá áhuga á því sem um er rætt og taka
þátt í því. Og reyndar var einn af
bræðrum mínum líka þingmaður sós-
íaldemókrata um nokkurra ára skeið.“
- Hver eru helstu áhugamál þín innan
stjórnmálanna?
„Ég var menntamálaráðherra í nær
fjögur ár - frá því í janúar'79 þangað til
í september'82 - og þau ár fór allur minn
tími í menntamál. Nú er ég í þingnefnd
sem fjallar um menntamál en reyndar er
ég líka í þingnefnd sem fjallar um
umhverfismál og annarri um Efnahags-
bandalag Evrópu. En ég hef svosem gert
ýmislegt annað um ævina, var t.d. prest-
ur í þrjú ár, þá var ég aðalritari danska
æskulýðsráðsins, formaður dönsku neyt-
endasamtakanna o.fl. Einnig var ég
kirkjumálaráðherra um skeið, reyndar
án þess að vera þingmaður en í dönskum
lögum eru sérstök ákvæði sem heimila
það.
En ég er ennþá á kafi í menntamálun-
um. Nú er hægri stjórn við völd í
Danmörku og það er mikill munur á því
sem sú stjórn gerir og á því sem við
gerðum. En ég reyni að fá núverandi
menntamálaráðherra til þess að taka á
málum á skynsamlegan og sanngjarnan
hátt.
í Danmörku er mikið atvinnuleysi á
meðal ungs fólks og nú eru á milli áttatíu
og hundrað þúsund atvinnuleysingjar á
aldrinum 16-24ra ára. Á meðan ég var
menntamálaráðherra gerði ég sérstakar
ráðstafanir, í samvinnu við atvinnu-
málaráðherrann, til þess að gefa ungu
fólki - sérstaklega á aldrinum 16-19 ára
- tækifæri til þess að afla sér menntunar,
einkum iðn- og tæknimenntunar -
menntaskólarnir standa jú opnir þeim
sem kjósa bóklegt nám.
Við reyndum sérstaklega að hvetja
ungar stúlkur til þess að afla sér
menntunar. Það er algengt að þær fái
ekki vinnu þegar þær koma út úr skólun-
um 16 eða 17 ára gamlar. Margar þeirra
fara að eignast börn, eignast kannski eitt
eða tvö og þá eiga þær mjög erfitt með
að komast aftur inn í skólakerfið. En við
reyndum að gera sérstakar ráðstafanir til
þess að auðvelda þeim það.
Við komum einnig á fót sérstökum
starfsþjálfunarnámskeiðum fyrir ungt
fólk, því að margt af því unga fólki sem
nú er atvinnulaust hefur aldrei unnið.
Pessu fólki getur maður ekki bara sagt
að fara að vinna á morgun, maður
verður að kenna því svo einfalda hluti
sem það að fara á fætur á morgnana og
í vinnuna á ákveðnum tíma vegna þess
að þau hafa aldrei kynnst atvinnulífinu
og þeim reglum sem þar gilda. En sú |
ríkisstjórn sem nú situr að völdum í
Danmörku hefur lítinn skilning á þessu,
hún hefur dregið úr, eða hreinlega
strikað yfir ýmsar ráðstafanir okkar. Nú
er til að mynda verið að hætta þessum
þjálfunarnámskeiðum og sum eru þegar
hætt.
„Stef num ad 35 stunda
vinnuviku"
Atvinnuleysið er mikið vandamál í
Danmörku, nú eru 320 þúsund Danir
atvinnulausir. Á aðalfundi sósíaldemó-
krata um síðustu mánaðamót var sér-
staklega fjallað um þennan vanda og sett
fram áætlun um styttingu vinnutímans í
því skyni að gefa fleirum möguleika á
vinnu. Þá var ákveðið að stefna að því
að stytta vinnuvikuna um fimm stundir,
niður í 35 stundir, í áföngum héðan í frá
og fram til ársins 1990.“
- Hvernig standa konur að vígi í
danskri pólitík?
„Við erum alltof fáar, ekki nema 25%
þingmanna og það gengur hægt að fjölga
konum á þingi. En á fyrrnefndum aðal-
fundi sósíaldemókrataflokksins voru
settar reglur um að gætt yrði jafnréttis í
nefndum á vegum flokksins, svonefnd
40:60% regla. Hún gengur út á það að í
þeim ncfndum sem flestir karlmenn
skipa, svo sem eins og um alþjóðamál,
verði að minnsta kosti 40% nefndar-
manna að vera konur. Og í þeim nefnd-
um sem konur eru í meirihluta verða
karlar að vera að minnsta kosti 40%.
Sjálf hef ég aldrei fundið fyrir því að
mér hafi verið mismunað kynsins vegna,
enda er ég alin upp á heimili sem hafði
jafnrétti kynjanna að leiðarljósi. Það er
heldur ekkert vandamál að vera kona á
þinginu loksins þegar maður er komin
þangað en leiðin inn í pólitíska lífið er
hins vegar þyrnum stráð. Og auðvitað
fylgja þessu mörg vandamál, fólk sem er
á kafi í pólitísku starfi hefur minni tíma
til að sinna fjölskyldunni en ella og
konur finna meira fyrir því en karlar
vegna þess að þær hafa meiri áhyggjur af
fjölskyldunni, í hvaða vinnu sem þær
eru. Það er líka ennþá litið svo á að
konan beri endanlega ábyrgð á fjölskyld-
unni.“
- Nú eru íslenskar konur farnar að
bjóða fram upp á eigin spýtur - hafa
danskar konur rætt þann möguleika?
„Já, ég veit allt um það, ég hef fylgst
vel með því framtaki íslenskra kvenna,"
segir Dorte og brosir áhugasöm, „en ég
held ekki að það muni gerast í Dan-
mörku. Ég held að flestar konur, svona
45 ára og þaðan af yngri séu sammála
þeirri hugmyndafræði sem kvennahreyf-
ingin setur á oddinn þó þær greini á um
leiðir. Ég kýs frekar að vera áfram í
mínum flokki og berjast þar fyrir sömu
málefnunum.
„Ekki mitt að hafa
áhyggjur af því...“
Ég held að það muni taka margar
kynslóðir að breyta ríkjandi viðhorfi til
hefðbundinna kynhlutverka og ég held
líka að það sé að einhverju leyti sök
kvennanna sjálfra. Oft eru konur til að
mynda ekki nógu fúsar til þess að losa
sig við ábyrgðina á heimilinu. Ef eigin-
maðurinn hefur átt að skúra í dag fer
konan kannski yfir verkið, þegar hann
hefur lokið því, gáir að því hvort hann
hafi hreinsað nógu vel úr öllum hornum
o.s.frv. Við skiptum með okkur verkum
á mínu heimili og ég læt hina fjölskyldu-
meðlimina alveg um ábyrgðina á sínum
hluta. Ef ég á ekki sjálf að elda á
miðvikudögum þá dettur mér ekki í hug
að fara að hugsa um hvað eigi að vera í
matinn eða hvort það sé nú búið að
kaupa í matinn og þess háttar - það er
ekki mitt að hafa áhyggjur af því.“
- Hvað viltu segja okkur um tölvuráð-
stefnuna?
„Þetta er mjög góð ráðstefna og ég hef
lært margt hér. Við höfum rætt um
nauðsyn þess að fólk verði frætt um
tölvur og möguleikana á því að hefja
fræðsluna strax í grunnskólunum. Þá er
ekki nóg að kenna bara tæknilegu hliðina
heldur verður einnig að upplýsa um
félagslegar afleiðingar aukinnar tölvu-
væðingar. Stærsta vandamálið sem við
er að etja í því sambandi er það að til
þess þarf að kenna kennurunum á mjög
skömmum tíma. Nú fer tölvukennsla
einungis fram á háskólastiginu og í Vi
hlutum menntaskólanna í tilrauna-
skyni."
- Hvert var inntakið í þínum fyrir-
lestri?
„Ég talaði um það hvers eðlis tölvu-
menntun á grunnskólastigi ætti að vera.
Ýmsum finnst að hún eigi að vera
valgrein en mér finrst að hún eigi að vera
skyldunámsgrein fyrir öll börn. Þeim
börnum sem nú eru að alast upp er brýn
nauðsyn að vita sem mest um tölvunotk-
un og afleiðingar hennar og því tel ég
ákaflega mikilvægt að veita öllum börn-
um þessa fræðslu."
- Hverjar heldurðu að vérði helstu
afleiðingarnar?
„Ég held að ef við höfumst ekkert að
muni kerfið þróast og verða að sínum
eigin herra. Að mínum dómi eigum við
að kenna börnunum að líta ekki á tölvur
sem einshvers konar valdhafa heldur
tæki sem opnar ýmsa möguleika og veitir
upplýsingar og tækifæri til að taka
ákvarðanir á upplýstari hátt en áður.
Það sem ég á við er að við eigum að
kenna börnunum jákvætt en gagnrýnið
viðhorf til tölva - gera þeim Ijósa
hættúna á því að þær verði misnotaðar
og kenna þeim að treysta ekki sérfræð-
ingunum í blindni. Almenningur á rétt á
öllum þeim upplýsingum sem við höfum
yfir að ráða, það á ekki að vera hægt að
velja úr einhverjar upplýsingar til að
skammta almenningi.
„Verðum að bregðast
við tölvuvæðingunni"
Þá er einnig hætta á auknu atvinnu-
leysi ef ekki verður gripið í taumana.
Það er Ijóst að fjöldinn allur af störfum
verður lagður niður í kjölfar tölvuvæð-
ingar, t.d. í bankaheiminum, verksmiðj-
um og víðar. Kosturinn við það er sá að
fólk losnar þannig við ýmis einhæf og
leiðinleg störf en ef við bregðumst ekki
við í tíma mun atvinnuleysið skella yfir
okkur. Við verðum að bregðast við með
því að stytta vinnutímann og eins og ég
sagði áðan hefur sósíaldemókrataflokk-
urinn lagt fram áætlun þar að lútandi.“
- Gerið þið ráð fyrir einhverjum
breytingum á launum í kjölfar styttri
vinnutíma?
„Danska alþýðusambandið hefur lagt
til að þeim launalægstu verði greiddar
bætur en þeir launahæstu ættu á hinn
bóginn að komast af með 35 stunda
laun. Það yrði hræðilegt ef lægst launaða
fólkið fengi ekki bætur en aftur á móti
er óraunhæft að fara fram á að allir haldi
sínum launum. En atvinnuleysið er þeg-
ar orðið það mikið að eitthvað verður að
gera og 35 stunda vinnuvika myndi
skapa fleirum atvinnu. Frakkar hafa
þegar stytt vinnuvikuna hjá sér um tvo
tíma.“
- Heldurðu að tölvuvæðingin geti
orðið konum skeinuhættari en körlum?
„Já, hún gæti komið illilega niður á
konum ef ekkert verður að gert. f
Danmörku eru ófaglærðar konur í mikl-
um meirihluta og þessar vélar taka
einmitt yfir þau störf sem ekki krefjast
neinnar sérstakrar menntunar. Við sós-
íaldemókratar erum á þeirri skoðun að
unnt sé að fjölga fólki í opinberri
þjónustu, t.d. í þeim störfum sem lúta
að menningar-, menntunar- og félags-
málum, svo sem aðstoð við aldraða og
þess háttar, en hægri stjórnin sem nú er
við völd í Danmörku er á öðru máli hún
ætlar því miður að skera niður útgjöld til
þessara mála“.
„Síðan geri ég engar
langtímaáætlanir...“
- Svo við víkjum aftur að sjálfri þér -
hefurðu nokkuð hugsað þér að gerast
prestur aftur?
„Ó“, segir Dorte, fórnar höndum og
hlær, „Ég hef einu sinni á ævinni ráðgert
að hætta að vinna í eitt ár, vegna þess
að mig langaði til að gera dálítið annað,
en daginn eftir hringdi forsætisráðherr-
ann í mig og bað mig um að koma inn í
ríkisstjórnina. Þetta var þegar Ritt
Bjærregárd skrapp til Parísar með þeim
afleiðingum að hún varð að segja af sér.
Nú, ég sló til og síðan geri ég engar
langtímaáætlanir. Reyndar vinn ég
stundum einstaka prestsstarf, messa,
gifti eða jarða, en raunar hafði ég alltaf
mestan áhuga á kirkjusögu. Annars er
guðfræðin ættgeng í minni fjölskyldu,
pabbi, afi og langafar mínir í föðurætt
voru prestar hver af öðrum, ég er
sjöunda kynslóðin og auk þess er móðir
mín einnig guðfræðingur."
Dorte Bennedsen sneri aftur til Dan-
merkur á sunnudaginn var en áður
ætlaði hún að. fara til Gullfoss og
Geysis. Þessi ferð var reyndar sjötta
íslandsferð Dorte, svo að hún er íslandi
ekki með öllu ókunn.
„í hvert sinn sem ég kem heim frá
íslandi segi ég fjölskyldu minni að Island
sé besta land í heimi. Hvers vegna getum
við þá ekki farið þangað spyrja bömin
ogég svara: Það er svo hryllilega dýrt.“
-Sbj.
■ Áslaug Olaf sdóttir, höfundur
Litla rauða rúmsins.
yyÞetta er
bók handa
yngstu
bömuuum”
— segir Áslaug
Ólafsdóttir um
sína fyrstu bók:
Litla rauða rúmlð
■ Á Islandi eru bækur - svo sem
kunnugt er-gefnar út á haustin og fram
að jólum. Og nú er komið haust þó að
sumir segi að sumarið hafi ekki ratað
hingað norðureftir þetta árið. Meðal
þeirra höfunda sem senda sína fyrstu
bók frá sér á þessu hausti er Áslaug
Ólafsdóttir sem annars er kennari á
Kirkjubæjarklaustri. Við slógum á þráð-
inn til Áslaugar og spurðum hana nánar
um bókina.
„Þetta er lítið kver,“ sagði Áslaug,"
hugsað fyrir börn á þeim aldri að farið er
að lesa fyrir þau og þangað til þau geta
farið að lesa sjálf. Bókin er prýdd
blýantsteikningum eftir samkennara
minn, Ragnhildi Ragnarsdóttur, og er
prentuð í tveimur litum - það er sem sagt
settur inn í einn litur sem tengist heiti
bókarinnar „Litla rauða rúmið“.
- Um hvað fjallar bókin?
Sagan segir frá því hvernig lítil stúlka
er vanin af því að sofa hjá foreldrum
sínum, en það er sígilt vandamál sem
margir þekkja eflaust af eigin raun. Auk
þess koma foreldrar og þrír bræður litlu
stúlkunnar einnig við sögu ásamt hjálp-
arkokk sem er dúkka.“
Bók Áslaugar, Litla rauða rúmið, sem
gefin er út af Máli og menningu er
væntaleg í bókaverslanirnar í október.
■ Ragnhildur Ragnarsdóttir
myndskreytti bókina.