Tíminn - 06.04.1986, Qupperneq 7

Tíminn - 06.04.1986, Qupperneq 7
Tíminn 7 Sunnudagur6. apríl 1986 William Sharpe, - einvalalið og ég langyngstur. En það er ekki gert ráð fyrir að ég standi þeim neitt að baki, - enda ætla ég mér að standa mig vel." Grobb? Eruð þið alltaf jafn montnir? „Montnir!? Ja, - mér hefur nú bara virst það hérna á íslandi, að menn mættu ekki vera svolítið bros- mildir og ánægðir með lífið, án þess að vera taldir montnir. Maður þarf alltaf að vera eins og draugur upp úr öðrum draug, til þess að falla í kramið. Ég vil ekki meina að ég sé montinn, - ég held ég sé bara vel ánægður með sjálfan mig. Og það þýðir ekki að vera í þessu fagi öðru vísi en að hafa visst sjálfstraust. Maður þarf að hafa trú á sjálfum sér og ef fólk telur það mont, þá er það bara allt í lagi. Ég brcyti mér ekki til þess að falla betur í kramið. Ég kem til dyranna eins og ég er klæddur". Og Gunnar kinkaði kolli og sam- sinnti bróðursínum. En blaðamaður minntist þess, að Guðbjörn hefði sungið á skemmtun í Broadway og að Irigólfur Guðbrandsson hefði líkt honum við Pavarotti í kynningunni. „Nei, nei“, sagði Guðbjörn hlæj- andi,. „Hann kallaði mig nú bara Pavarotti íslands og það er nú svolít- ið annað. Ingólfur setur nú samt Kristján Jóhannsson skör hærra, - hann er geysilega fínn söngvari. Menn segja svo margt þegar þeir verða hrifnir og mér hafði gengið vel að syngja þetta kvöld“. Rétt í þessu stökk Gunnar á fætur og hljóp inn í eldhús. Pizzan var tilbúin. „Hvað ertu að koma með þetta inn núna, Gunnar? Ég er kominn í stuð til að tala, maður. Ég má varla vera að því að borða“. „Þú ert nú líka búinn að segja nóg í bili“. Og svo gæddum við okkur á gómsætri pizzu, sem var greinilega verk unnið af vönum höndum. „O, ætl’ekki. Æfingin er í góðu lagi, því að tenórar þurfa nefnilega að borða fleiri máltíðir á dag en aðrir“, sagði Gunnar, og tók vel til matar síns. „Maður er ómögulegut ef maður borðar ekki nóg. Til dæmit segir Sieglinde Kahmann að á morgn- ana eigi maður að borða smávegis. syngja svo aðeins, borða svo meira og syngja svo meira, og loks borða mikið, - þá geti maður sungið mikið. Og þetta er alveg rétt. Og til að halda sér í góðu formi, þarf maður að hvíla sig vel. Svona á milli matmálstíma og söngtíma förum við stundum í líkamsræktina og lyftum og pumpum, - þó það geri kannski ekki meira en að hreinsa matarblett- ina af samviskunni". En hvað er Gunnar að fást við helst, annað en matargerð? „Ég er náttúrlega þremur árum yngri en Guðbjörn og hef lært árinu skemur en hann. En við komum yfirleitt saman fram á árshátíðum og skemmtunum og núna um daginn tók ég upp ítalskar aríur, þýsk ljóð og Kaldalónslög fyrir útvarpið. Svo er bara að vinna vel undir prófin í vor.“ Söngnám Bræðurnir hafa gengið mjög svip- aðan menntaveg. Þeir tóku báðir þátt í Nemendamóti Verzlunarskól- ans sem einsöngvarar, þeir hafa verið hjá tveimur söngkennurum og eru nú í söngnámi hjá Sigurði Demetz, eins og fyrr sagði. En ólíkt flestum öðrum söngnemend- um, taka þeir ekkert fram yfir sönginn. Þeir eru einungis í söng- námi og ekkert er látið trufla það. „Ég byrjaði í Söngskólanum fyrir fjórum árum. Þá tók ég inntökupróf og söng fyrir kennarana lag sem ég hafði sungið í uppsetningu Verzlun- arskólans á Evita á Nemendamóti,“’ sagði Guðbjörn. „Jón Ólafsson, yfir- poppari á Rásinni ogstórvinur minn, lék undir á píanóið. Svo á eftir söng ég nokkra skala og fór nú ekki hærra en upp á b. Már Magnússon, söngv- ari, var einhvern veginn ekki alveg sáttur við þetta og trúði ekki að mér hefði verið gefið svona klingjandi gott b af náttúrunnar hendi, en við Gunnar höfum báðir það sem kallað er náttúruraddir. Nú, hann lét mig taka þetta b hvað eftir annað, áður en hann varð sannfærður. í>á struns- Guðbjörn t.v. og Gunnar Guðbjörnssynir með kennara sínum, Sigurði Demetz, (sem aftur hefur tekið upp fornafnið Vincenzo). ,Tímamynd: Róbcn) aði hann út. Ég vissi auðvitað ekki hvaðan á mig stóð veðrið og hélt helst að ég væri kolómögulegur og fengi aldrei inngöngu í samfélag söngvara. En það var nú öðru nær og var ég settur í tíma hjá Magnúsi Jónssyni, en hjá honum var ég út veturinn“. „Ég hinsvegar byrjaði ári síðar og hjá Snæbjörgu Snæbjarnarsdóttur í Tónlistarskólanum í Garðabæ,“ sagði Gunnar. „Pá var ég 18 ára gamali. En þegar ég hafði verið þar í eitt ár ákvað ég að fylgja bróður mínum, sem þá var byrjaður hjá Demma“, en svo er Sigurður Dem- etz yfirleitt kallaður í vinahópi. Og Guðbjörn tók við: „Já. Það bar nú þannig til að mágkona okkar kennir á píanó í Nýja tónlistar- skólanum. Hún benti mér á Dem- etz og bað mig um að syngja fyrir hann, sem ég og gerði. Hann bauð mér þá í tíma til sfn, en hafði áður spurt hvort ég ætlaði mér ekki að vérða atvinnusöngvari. Hann vill ekki nemendur sem eru með hálfkák." „Nei, - enda tók hann mig inn með sömu skilyrðum." „Hann er mjög strangur kennari. Fyrst þegar ég byrjaði braut hann mig algjörlega niður; hann hermdi eftir mér þegar ég gerði vitleysur, sagði að ég syngi í nefið og gerði grín að mér á allan hátt. Svo einu sinni þegar ég var nýkominn í tíma til hans lét hann mig syngja „Ég lít í anda liðna tíð“ eftir Kaldalóns og þegar það vfir búið spurði hann mig þeirrar samviskuspurningar, hvort mér hefði nú fundist þetta gott hjá mér. Ég sagði honum sem var, að mér hefði nú ekki fundist það. Já, sagði hann, þetta er þá ágætt í dag. Og ég var látinn ganga út úr kennslu- stundinni þó hún væri ekki nær hálfnuð. Ég skildi vitanlega hvorki upp né niður í nokkrum hlut og var gráti næst, en Demmi sagði mér svo löngu seinna, að þarna hefði hann verið að athuga hvort ég gagnrýndi sjálfan mig, - því að annars hefði hann ekki nennt að eyða meiri tíma í mig.“ „Hann hefur ekkert að gera með fólk, sem ekki heyrir þegar það gerir vel eða illa. Það þýðir ekki að vera að segja mönnum til alla ævi, - alla vega endist Demma karlinum ekki aldur til þess,“ skaut Gunnar inn í, en Guðbjörn hélt áfram. „Ég held ég móðgi engan, þótt ég segi að Demmi sé besti söngkennar- inn hér á landi. Hann hefur skilað svo mörgum söngvurum út í þjóðfé- lagið, svo sem Kristjáni Jóhanns- syni, Sigríði Ellu, Erlingi Vigfússyni, Ólafi Þ. Jónssyni, Ingveldi og Sigur- veigu Hjaltested og gott ef ekki Kristinn Hallsson sjálfur hafi verið eitthvað hjá honum líka. Það var líka fyrir óperusöngvara sem Demmi kom hingað fyrst til að halda nám- skeið, svokallað „master class“, en ekki til að kenna nýgræðingum.” Nú heyrir maður óperusöngvara, og þá auðvitað sérstaklega tenóra, klifra upp eftir tónstiganum í óguð- legar hæðir. Eru slíkar æfingar heil- brigðar? „Það er ekkert eðlilegt við óperu- söng. Viðerum líkirfþróttamönnum að þessu leyti. Það er heldur ekki eðlilegt að stökkva 2 metra í loft upp eða að svipta upp 300 kílógramma lóðum. Þar hafa menn aukið við krafta sína og getu með æfingu. Hjá okkur er nákvæmlega hið sama uppi á teningnum", sagði Guðbjörn Guð- björnsson og enn samsinnti Gunnar. Hér ríkir betra bræðralag en sagt er frá í íslenskum handritum fornum. Hjónakornin á Þórsgötunni „Já, við erum eiginlega eins og hjón“, sagði Gunnar hlæjandi. „Við vorum að fá okkur börn á heimilið, þessa páfagauka þarna. Þess vegna getum við ekki skilið, því að við gætum aldrei komið okkur saman um hver ætti að eiga Cava- radossi og hver Toscu“. Það þykir rétt að benda á, að Cavaradossi cr tenórhlutverkið í óp- eru Puccinis „Tosca“, en titilhlut- verkið er fyrir sópran. Kvarta nágrannar ekkert yfir háv- aða, þegar þið æfið ykkur? „Blessaður vertu, þetta eru bestu nágrannar í heimi. Þeir hafa sýnt okkur ótrúlegt umburðarlyndi, enda allt saman listamenn eða listhneigt fólk. Rögnvaldur Sigurjónsson, pí- anóleikari, býr hér við hliðina á okkur, beint á móti býr Stefán Stephensen, hornaleikari, nú, Megas býr hér á efstu hæðinni og hér skammt frá er Gunnar Sverrisson skáld. Hann fylgist grannt með því sem við erum að gera“. En skyldfólkið? „Það styður okkur heils hugar. Pabbi er að vísu dáinn fyrir fimm árum, en þá fengum við þessa íbúð, vegna þess að mamma tók ekki í mál að hafa okkur hávaðaseggina undir sama þaki og hún. Hún er samt ákaflega söngelsk og hefur hjálpað okkur mikið. Til dæmis á hún bílinn sem við erum alltaf á“. Meðan á þessu spjalli stóð hafði Gunnar tekið saman mataráhöldin og fært fram í eldhús. Óþarft ætti að vera að taka fram, að engu var leyft, - enda blaðamaður orðinn sannfærð- ur um, að til að öðlast góða söngrödd „þurfi maður að borða mikið“. „Og fyrst við erum farnir að tala um fjölskylduna”, sagði Gunnar og fékk sér aftur sæti, „má alveg bæta því við, að við erum fleiri frændurnir í söngnámi. Kolbeinn Ketilsson er líka hjá Demma, en hann er sonur Ketils Jenssonar tenórsöngvara og föður-bróður okkar. Ketill gat sér frægðar hér á landi á sínuni (ima fyrir óperusöng en hann lærði á Ítalíu. Við höfum því fengið óper- una með móðurmjólkinni, ef svo má að orði komast." „Söngraddir ganga í ættir. Afi okkar og bróðir hans höfðu báðir góðar raddir og fólk þekkir okkur stundum á röddinni, hafi þeir þekkt annan hvorn okkar. Það kom eitt sinn til mín maður, þegar ég hafði sungið á skemmtun, og spurði hvort ég væri skyldur Júlíusi Hallgríms- syni, sem er afabróðir minn, - við hefðum svo svipaða rödd. Þetta virðist vera einhver sérstakur radd- blær sem fólk þekkir, enda eru raddir okkar Gunna mjög háar og bjartar". Eruð þið ekki bornir saman sem söngvarar? „Jú, því er nú ver,“ svaraði Gunnar. „En það er ekki sanngjarnt. Þó að við höfum líkar raddir, þá eru þær ekki eins. Við komum sennilega til með að verða gjörólíkir söngvarar, þegar fram líða stundir." „í sam- bandi við samanburðinn vil ég bara svara þessu svona,“ sagði Guðbjörn „de gustibus non est disputandum.“ Það er ekki hægt að rífast um smckk. Söngkennsla á íslandi „Annars er undarlegt, hvað fólk þarf sífellt að stilla okkur bræðrun- um upp á móti hvor öðrum. Eins og það sé ekki nóg pláss fyrir tvo söngvara í viðbót á íslandi. Menn ættu að hafa meiri áhyggjur af því, hve margar raddir eru skemmdar hér,“ sagði Gunnar og baðaði út öllum öngum. Skemmdar? Er kennslu þá í ein- hverju ábótavant? Kunna þá söng- kennarar hér á landi ekki að...? Þetta mál virðist bræðrunum mjög hugleikið, því Guðbjörn gaf blaða- manni ekki færi á að Ijúka við spurninguna. „Ja, - það getur vel verið að kennararnir kunni alveg ógurlega mikið, - en þeir virðast sumir hverjir eiga í miklum vandræðum með að skila því frá sér.“ Og Gunnar tók við boltanum: „Svo er það þessi: (líkir eftir kerlingu) - hann getur kannski ckkert sungið, en hann er frábær kennari! Það gengur ekki upp í þessu fagi, að sá sem ekki getur, kennir. Fólk lærir afskaplega lengi og tekur hálfan annan helling af stigum og loks kennarapróf án þess að hafa nokkra rödd.“ Guðbjörn: „Ég get ekki skilið rökfræðina á bak við þetta. Ég hlýt bara að vera svona heimskur, því að mér er alveg sama þótt einhver drottningarmóðir suður í löndum leggi blessun sína yfir prófskírteini þessara svokölluðu kennara. Sá sem ekki getur sungið, getur ekki heldur kennt mönnum að syngja.“ Ekki töldu bræðurnir, að allir gætu orðið góðir söngvarar, en mögulegt væri að „opna“ flestar raddir; það væri nauðsynlegt leikur- um, þingmönnum, handboltaþjálf- urum og mæðrum, jafnt og söngvur- um, að læra að beita röddinni. „En ekki nóg með að hér þrífst slangur af kolómögulegum söng- kennurum," sagði Guðbjörn „kerf- ið sjálft gerir hvergi ráð fyrir að þú sért í söngnáminu af einhverri al- vöru. Það er hvergi pláss fyrir þá sem ætla sér að verða einsöngvarar, - og þú getur alveg sagt það, að ekki einu sinni í Söngskólanum er manni gefinn kostur á því að læra af alvöru. Allir þessir skólar eru eins konar útungunarstöðvar fyrir kóra. Nema kannski Nýi tónlistarskólinn. Hvorki Demmi né Ragnar Björnsson skóla- stjóri nenna að kenna fólki sem þeim finnst ekki varið í.“ „Eina leiðin er oft sú, að kennararnir af einskærri hjartagæsku taki nemand- ann í aukatíma heim til sín,“ bætir Gunnar við ræðu Guðbjörns og sló svo botninn í viðtalið: „Allt þetta ranglæti í garð söngnemenda kyndir auðvitað undir fordóma fólks gagn- vart söng og óperutónlistinni. Það er engin furða að fáráðlingarnir spyrji mann: (og enn kemur eftirherma, en Gunnar er sá snjallari af þeim bræðr- um í þeirri list) Ertu bara að læra að syngja? Á hverju ætlar þú að lifa? - Ég hef ætlað mér að lifa hamingju- sömu lífi og starfa það sem ég ánægju af. Og ég veit að ég tala fyrir okkur báða þegar ég segi: Ég er ekki þessi dæmigerða níu til fimm týpa!“

x

Tíminn

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.