Tíminn - 11.10.1987, Blaðsíða 7

Tíminn - 11.10.1987, Blaðsíða 7
Sunnudagur 11. október 1987 Tíminn 7 Ég hcf verið á sjó í 37 ár, en fyrst fór ég í túr á togara 1948. Ég er sem sagt af þeirri kynslóð sem varð að læra sjómennskuna „the hard way“, eins og við segjum, byrjaði sem léttadrengur og vann mig svo upp. Þetta var erfitt í þá daga, maður reyndi að taka allar aukavakt- ir sem buðust, bæði sem kyndari og í fiskilest og þegar maður varð fullgildur háseti stóð maður stýr- isvaktir eins og þolið ieyfði. Það var svo sem enginn leikur. f þá daga var engin sjálfstýring og maður þurfti að leggjast á stýrishjólið af fullum þunga. Væri snúið of skart í stjór eða bak átti maður á hættu að brúin fylltist af gufu, því þetta voru vitan- lega gufuskip. En brátt breyttust tímarnir. Ég gerðist háseti á einum fyrsta verk- smiðjutogaranum sem smíðaður var, skipi frá Salveseon í Aberdeen og það voru mikil viðbrigði. Það var árið 1952. Við fiskuðum einkum við Grænland, Spitzbergen og New Fo- undland, (Nýfundnaland) en ekki við íslandsstrendur. Veiðin var oft góð og ég man eftir túr árið 1956, þegar við veiddum 600 tonn af flökuðum fiski á þrem til fjórum vikum. En ekki var veiðin alltaf svo góð og þegar frá leið fóru túrarnir að gerast lengri en góðu hófi gegndi, tóku stundum allt að sex mánuði. Og tekjurnar voru stundum litlar. Úr hófi keyrði eitt sinn þegar ég bar ekki úr býtum nema 61 pund eftir 21 viku túr! Þá hætti ég um hríð. En 1961 gerðist ég háseti á nýjum frystiskipum í Hull og síðar fór ég til sjós á verksmiðjuskipum sem veiddu til flökunar hjá útgerðarfyrirtækinu Seafridge. Þau voru byggð í Noregi og voru mjög fullkomin og ég starf- aði á þremur þeirra. Þessi sæla stóð þó ekki nema í fjögur ár. Þá voru skipin seld til Noregs og ekki til fiskveiða, heldur sem flutningaskip fyrir olíuborpallana, að því er ég best veit. Þetta voru ill umskipti. Ég fór nú aftur á gömlu síðutogarana, gamla kláfa, þar sem fiskurinn var unninn á dekki í öllum veðrum, en ekki undir þiljum, eins og maður hafði vanist á nýju skipunum. Og ekki aðeins það. Þarna var vinnuharkan gífurleg. Þegar bilanir urðu, sem voru tíðar, fóru allar viðgerðir fram um borð. Hásetar og vélstjórar áttu aldrei frí, stöðugt var verið í ein- hverju viðhaldssnatti. Fyrir kom að menn stóðu við þetta í tvo eða þrjá sólarhringa. Yrðu stærri bilanir var viðgerð látin bíða uns komið var til Englands á ný. Það gat dregist, því skipstjórarnir vildu enga mínútu missa og héldu sjaldnast í var, þótt verstu veður geysuðu. Heilu dægrin var áhöfnin að þræla við að höggva ís í vetrarveðrum. Nei, alvarlegar bilanir stöðvuðu skipin ekki. Þetta var oft stórhættulegt, því stundum var spilið í ólagi og hefði maður fest í vírnum, eins og kemur fyrir, var slys eða dauði vís. En það þýddi ekki að mögla. Framboð á vinnuafli var meira en nóg og engar forsendur fyrir að krefjast mannsæmandi launa eða hvíldartíma. Stundum var komið í land klukkan þrjú á nóttunni og farið út aftur strax morguninn eftir. Árið 1982 varð ég að fara í land og næstu þrjú árin var ég atvinnu- laus. Það var erfiður tími. Ég átti fallegt hús utan við Hull, sem ég hafði lagt mikið á mig til þess að eignast. Þetta hús varð ég nú að selja og kaupa lítið hús niðri í borginni. En það dugði ekki til. Mismunurinn eyddist óðum og ég sá fram á fullkomna fátæklingstilveru. At- vinnuleysisstyrkurinn fyrir okkur hjónin var aðeins 41 pund á viku og menn geta gert sér í hugarlund hvað eftir mundi verða, þegar við hefðum greitt öll eðlileg útgjöld. Ástandið hjá sjómönnum í Hull var orðið hræðilegt. Robert bróðir minn, sem hefur fullkomnustu vél- stjóraréttindi, fékk enga vinnu á togurum. Hann fékk ekki leyfi hjá tryggingaraðilum togaraútgerðar- innar, þótt allir hans pappírar væru í ágætu lagi og menntun hans í faginu löng og traust. Þeir sögðu hann vera orðinn of gamlan - fertug- an manninn! Hann hefði hins vegar getað fengið full réttindi á farskipi, en sú reynsla sem hann hafði af togarsjómennsku frá unglingsaldri var einskis metin. Þetta lýsir kjörum togaramanna í Hull núna. Útgerðarmenn seldu skipin til út- landa og allar áhafnir togaranna stóðu uppi án vinnu. Það fengust engar bætur, eins og siður er í Englandi, þegar fólk verður atvinnu- laust vegna rekstrarstöðvunar. Til dæmis fá námamenn háar upphæðir, þegar námum er Iokað, hafi þeir unnið svo sem tuttugu og fimm ár. Eins er með hafnarverkamenn, en fjöldi þeirra missti vinnuna með gámaflutningunum. En okkur tog- aramönnum var sagt að við værum „lausafólk," og það þótt við hefðum aldrei við annað starfað alla ævina. Fyrir þessu réttlætismáli höfum við nú barist í tíu ár. Ég var sjálfur í nefnd þeirri sem að þessu vann fyrir okkur sjómennina og þekki því vel til þessa. En það hefur ekkert fengist fram. Þó berjumst við áfram. Við erum eins og hundur með bolta í hvoftinum, sem hann vill ekki sleppa. Ég var nýlega heima í Hull og ég er ekki frá því að það sé að færast agnar líf í sjávarútveginn aftur. En hvar eru reyndu mennirnir? Þeir eru dreifðir út um allt, út um allan heim. Ungu mennirnir hafa enga reynda starfskrafta sér til halds og trausts. Sonur minn, Paul, er líklega einn sá síðasti sem lærði sjómennsku á ensk- um togurum, eins og ég gerði. Hann .byrjaði sextán ára og er nú orðinn tuttugu og sex ára. Hann er hér með mér nú. Núna er ríkisstjórnin í Englandi að veita ógrynni fjár í að koma upp útgerð á Falklandseyjum. Því eru útgerðarmenn nú að kaupa gömlu skipin sín aftur fyrir hlægilega lágt verð og hljóta stóra styrki. En það er ekki hægt að bæta okkur sjó- mönnunum upp okkar missi. Svona er nú ástandið heima núna og því var það að er ég frétti af þeim möguleika að koma til íslands og fá vinnu, að ég ákvað að skoða rnálið. Það var sumarið 1985. Þetta atvikaðist þannig að ég var að drekka te, er ég heyrði sagt í útvarpinu frá því að íslenskur at- vinnumiðlari væri staddur í Hull og vildi fá góða flakara. Þessi maður var Pétur Jónsson og með honum var framkvæmdastjóri Glettings í Þorlákshöfn. Ég fór og ræddi við þá og það varð úr að við fórum þrír til íslands, tveir frá Hull og einn frá Grimsby. Þegar ég kom var fiskirí heldur dræmt og félagi minn frá Hull hélt senn heim, en ég ákvað að þrauka. Dvalarleyfið mitt rann út og ég varð að fara til Glasgow í minnst 24 tíma og koma svo aftur, til þess að fá það endurnýjað. En ég gat notað ferðina til ávinnings fyrir fyrirtækið, því meðan ég var úti svipaðist ég um eftir fleira fólki. Árangurinn varð sá að mér tókst að útvega Glettingi sex stúlkur, sem komu til íslands til vinnu í hálft ár. Þær reyndust vel og tveimur vikum áður en þær fóru heim kannaði ég hvort einhverjar þeirra vildu koma aftur. Nokkrar voru viljugar til þess og þær gengu fyrir sem fyrri reynslu höfðu. Þessu hef ég svo haldið áfram og nú eru 12 stúlkur hjá Glettingi og sex karlar, en þetta er 75% alls vinnuafls hjá fyrirtækinu. Ég hef líka útvegað fleiri frystihús- um fólk. Þó fór miður þegar ég útvegaði sex ágætis menn til Bakka- fjarðar. Ég hafði sagt þeim að þeir gætu haft sem svaraði 150 pundum á viku og helmingi meira með yfir- vinnu. Þeir komu til landsins á föstudegi, unnu á laugardegi, en neituðu svo að vinna á mánudegi. Þeir héldu því fram að þeim hefði verið lofað meira kaupi. Ekki var hægt að greiða þeim meira en ís- lenskum starfsfélögum þeirra, svo það varð úr að þeir fóru. Er heim kom sögðu þeir blaðinu Daily Mail að þeir hefðu verið sviknir og blaðið birti frásögn þeirra undir fyrirsögn- inni „Islenski draumurinn um miklar tekjur hrynur." Þetta var auðvitað alrangt. Ég hafði lagt áherslu á að gott kaup gæti fengist með mikilli eftirvinnu og næst er ég kom til Hull skýrði ég málið fyrir þeim hjá Daily Mail. Ég sagði að þarna væri ekki um íslensk- an draum að ræða, heldur íslenskan veruleika. Þannig gerði ég hreint fyrir mínum dyrum. Mér hefur fallið vel að vinna á íslandi. Mér leist strax vel á er ég sá. ungt fólk, kannske aðeins tólf ára, vera farið að vinna í fiskinum af dugnaði og áhuga og fullt vilja til þess að bjarga sér. Þetta var eins og ég kynntist hlutunum í mínu ung- dænii. Ég sá líka menn komna yfir sjötugt standa og vinna í netum. Á íslandi er enginn of gamall til þess að vinna, ef hann getur það. Þessu er öðru vísi farið í Englandi nú. Er unglingarnir koma úr skólun- um sextán ára gamlir fá þeir enga vinnu, en eru settir á atvinnuleysis- styrk, 18,75 pund á viku. Þetta verður til þess að þeir vilja ekki reyna að bjarga sér. Hitt er auðveld- ara. Þeirlærat.d. aldrei að sækjaum vinnu. Og svo er það eldra fólkið. Menn eru látnir hætta að vinna 65 ára. Ég hef séð menn koðna niður á tveim til þrem árum og verða að skari. Þeir missa alla lífslöngun. Paul sonur rninn hafði verið af og til á spænskum togurum sem veiddu við írland, en það var stopult og ekki mikið upp úr því að hafa. Ég benti honum á að hér væri örugga vinnu að fá og hann lét slag standa og ætlar að vera hér áfram. Robert bróðir minn hafði verið niðri við Persaflóa í vinnu, en var nú kominn heim því hann á konu og börn í Englandi. Einnig honum útvegaði ég starf hér. Hann vill hins vegar halda heim á ný, enda bindur hann fleira en okkur hin. Þó er dóttir hans hér með honum nú. Já, okkur líkar vel hér, þótt oft komi lélegar vikur. Samanburður á kaupinu hér og í Englandi er ekki með öllu auðveldur. Einn þeirra manna sem komu hér frá Hull fyrir mitt tilstilli var vanur að fá 67 pund í kaup fyrir vinnu sína, en hann þurfti að aka 50 mílna veg á hverjum degi í vinnuna og þegar dreginn er frá sá kostnaður sem slíku fylgir sést að kaupið skerðist mikið vegna bens- íneyðslu, trygginga og annars. Hér er stutt í vinnuna og héðan hafa stúlkur haldið heimleiðs með 3000 pund í reiðufé eftir dvöl sína. Margir og margar vilja koma til íslands. Það byggist auðvitað á því hvað verkalýðsfélögin segja hvort fjöldinn eykst enn. Mér er leikur einn að fá fólk, ekki aðeins frá Hull, heldur alls staðar að úr Englandi og Skotlandi. Nógir vilja koma. Nýlega var sjónvarpsstöðin Yorks- hire TV hér á ferð og átti viðtal við mig um þessi efni, og verður þættin- um sjónvarpað nú fyrsta þriðjudag í nóvember. Líklegt er að það veki áhuga margra á Islandi og ekki er verra að þarna standa þeir hlið við hlið hjá Bláa lóninu, Róbert bróðir minn og Guðmundur skipherra Kjærnested, skipherra á Tý, sem við Bretarnir kölluðum „the axman" í þorskastríðinu, vegna klippanna hans frægu. Róbert var einmitt á einum þeirra togara sem hann klippti aftan úr. Úr þessu ætti að verða gott sjónvarpsefni! Sheila kona mín og ég hyggjum því ekki til burtferðar. Ég er nú 58 ára, en hún 56 ára og við unum rónni og kyrrðinni vel, þótt auðvitað sé það mikil breyting að flytjast úr all stórri borg eins og Hull tii Þorláks- hafnar. Og við ætlum að halda hér upp á þrjátíu ára brúðkaupsafmælið okkar á laugardaginn, þann 10. október. Þangað verður íslenskum vinum boðið, en þá eigum við marga.

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.