Tíminn - 06.01.1988, Blaðsíða 9
Tíminn 9
Miðvikudagur 6. janúar 1988
Þórarinn Þórarinsson:
Heljarstökkið inn
í markaðskerfið
Á síðastliðnu ári bjó þjóðin við
meira góðæri en um langt skeið. Þá
hafa þau undur gerst, að þjóðin
hefur sennilega ekki áður á einu ári
safnað meiri skuldum erlendis. Við
áramótin blasir við stöðvun hjá
útflutningsframleiðslunni eða
a.m.k. stórum hluta hennar. Verð-
bólgan virðist komin á fullan skrið
eftir að henni hafði verið náð niður
í stjórnartíð Steingríms Her-
mannssonar. Gjaldþrot virðistvofa
yfir fjölda fyrirtækja og einstak-
linga meðan mikill gróði er að
safnast á fáar hendur.
Hvers vegna hefur þetta gerst á
einum mestu góðæristímum í sögu
þjóðarinnar? Glöggt svar við þess-
ari spurningu er að finna í viðtali
við Árna Gunnarsson alþingis-
mann í Þjóðviljanum 31. desember
síðastliðinn undir fyrirsögninni:
„Heljarstökk inn í markaðskerf-
ið“. Árni segir þar orðrétt:
„Á árinu tóku íslendingar helj-
arstökk inn í hið óhefta markaðs-
kerfi, kerfi nýfrjálshyggjunnar,
eða hvaða nöfnum menn vilja
nefna það, og ég hygg að við
höfum tekið full stór skref. Afleið-
ing þess er sú að peningamarkaður-
inn virðist kominn í vítahring.
Þetta lýsir sér einkum í þróun
vaxtamála. Peir hafa hækkað
óheyrilega mikið og eru komnir
langt uppfyrir þau mörk sem ég tel
skynsamleg.
Þessir háu vextir eru nú farnir að
hafa áhrif á rekstur fyrirtækja. Að
vísu hefur verið góðæri hjá fyrir-
tækjunum, en ég hef miklar
áhyggjur af útflutningsatvinnuveg-
unum núna. Einkageirinn hefur
notið góðs af þessu frjálsa mark-
aðskerfi á margan hátt. Hann hefur
fjárfest grimmt í verslunar- og
þjónustuhúsnæði, einkum og sérí-
lagi á höfuðborgarsvæðinu. Þetta
hefur haft mikil þensluáhrif. Skoð-
un mín er sú að einkageirinn hafi
að mörgu leyti brugðist í þeirri
baráttu að reyna að keyra niður
verðbólguna.
Þenslan hefur verið mest á höf-
uðborgarsvæðinu, því það er þar
sem verðbréfamarkaðurinn hefur
höfuðstöðvar sínar, en hann býður
hæstu vexti á markaðinum og því
leitar fjármagnið til hans, líka utan
af landi. Höfuðborgin hefur því
dregið til sín fjármagn af lands-
byggðinni í stórum stíl. Þetta er
mjög alvarlegt mál og ég hef nánast
vissu fyrir því að brottflutningur
manna frá landsbyggðinni til
thöfuðborgarsvæðisins hefur aukist
mikið á þessu ári, en það er
stórhættuleg þróun.“
Það er sannarlega aðkallandi að
hverfa af þeirri óheillabraut, sem
farin hefur verið inn á síðastliðið
ár og Árni Gunnarsson hefur hér
rétt lýst.
En hvernig verður það helst
gert? Því svarar Steingrímur Her-
mannsson utanríkisráðherra mjög
réttilega í áramótagrein sinni.
Hann segir:
„Eins og ég hef áður sagt, tel ég
bætta stjórn á peningamarkaðnum
hvað mikilvægasta. Vil ég í því
sambandi, m.a. leggja áherslu á
ítarlegt eftirlit með fjármagns-
markaðnum öllum, einnig þeim
hluta, sem er utan bankakerfisins,
glöggar upplýsingar um umsvif og
kjör á þeim markaði, samræmda
skattheimtu og hert skattaeftirlit,
að lög verði sett um þær greinar
fjármagnsviðskipta, sem eru án
laga, eins og t.d. um notkun
greiðslukorta, kaupleigur o.fl. og
að reglur og aðgerðir verði sam-
ræmdar og nái til fjármagnsmar-
kaðarins alls. Eðlilegt er að gera
þeim að greiða vexti og allan
kostnað af notkun greiðslukorta,
sem slík lán taka. Seðlabankanum
ber einnig að sjálfsögðu að gera
tillögu til ríkisstjórnarinnar um
aðgerðir til lækkunar vaxta til sam-
ræmis við vexti í okkar helstu
viðskiptalöndum, eins og lög gera
ráð fyrir. Þá tel ég einnig mjög
athugandi að Seðlabankinn ákveði
þá hámarksvexti sem hæstir verði
löglegir.
Erlendar lántökur í heild verði
skilyrðislaust takmarkaðar eins og
lánsfjárlög og opinberar heimiidir
gera ráð fyrir, og stöðvaðar á
meðan þenslan er, til fram-
kvæmda, þar sem óhóflega mikil
fjárfesting er orðin.
Mér sýnast reglur um bindingu
fjármagns í Seðlabanka og kröfur
um lausafjárstöðu banka haldlitlar,
ef erlendar lántökur og fjármagns-
markaðir utan bankanna leika
lausum hala og raunar að öllum
líkindum skaðlegar. Á meðan
bönkunum er gert að greiða hundr-
uð milljóna króna í refsivexti og
sektir eru önnur fjármögnunarfyr-
irtæki óheft. Með slíkum ósam-
ræmdum aðgerðum eru bankarnir
í raun þvingaðir til að vísa við-
skiptavinum þangað, sem frelsið er
og vextirnir jafnframt enn hærri.“
Steingrímur Hermannsson segir
ennfremur: „Lausn þeirra mála,
sem ég hef fjallað um, munu ráða
framtíð þeirrar ríkisstjórnar, sem
nú situr."
Þeir sem þekkja Steingrím Her-
mannsson vel og þekktu föður
hans og fyrirmynd, Hermann Jón-
asson, gera sér fullt ljóst, að þessi
ummæli eru ekki sögð út í bláinn.
Það er mikilvægt að vinna að því
eins og Steingrímur, að núverandi
stjórn verði starfhæf stjórn, sem
gæti setið til loka kjörtímabilsins.
Enn mikilvægara er þó það, að hér
verði komið heilbrigðri stjórn á
peningamálin. Takist ekki sam-
komulag um það, er ekki um
annan kost að ræða en að leita álits
og úrskurðar kjósenda.
Árni Böðvarsson:
Nokkur orð um beygingu
landaf ræði heita,
ættarnafna og fleira
Hinn 9. des. sl. birtist í DV
athugasemd frá Sigurði Þorkels-
syni sem hann kallar „Um eignar-
fall og uppnefningu sérnafna" og
um sama leyti sendi Vináttufélag
íslands og Kúbu fjölmiðlum álykt-
un þar sem mótmælt er lýsingar-
orðinu kúbskur sem hefur nokkr-
um sinnum verið notað í stað
„kúbanskur". Hvoru tveggja er
beint gegn málfari í Ríkisútvarp-
inu. Bæði þeir sem athugasemdina
gerðu og lesendur eiga kröfu á
svari, en eitt verður látið nægja.
Sigurður spyr m.a.: „Hvaða vit
er í því að kalla norsku borgina
Bergen Björgvin? ... Og því er þá
ekki notuð eignarfallsmyndin
„Björgvins" í stað „Björgvinjar“?“
Þessu skal svarað fyrst. „Vin“ er
kvenkynsorð sem allir íslensku-
mælandi menn þekkja, t.d. „gróð-
urvin, vin í eyðimörk". Eignarfall
þess orð er vinjar. Það er seinni
hluti borgarnafnsins Björgvin og
því er eignarfall þess Björgvinjar.
Hins vegar er seinni hluti karl-
mannsnafnsins Björgvin sama og
karlkynsorðið vinur, þótt -ur hafi
horfið aftan af og nafnið þá skipt
um eignarfallsmynd.
Þá er þess að geta að borgin
Björgvin hefur borið þetta nafn frá
upphafi og íslendingar kölluðu
hana ekki annað, allt þar til betri
skipaferðir hófust þangað samtímis
bættum verslunarháttum hérlendis
á síðustu öld. En í dönsku breyttist
nafnið. Sú tunga varð allsráðandi í
norskum borgum og margir Norð-
nienn tóku snemma upp danska
borgarheitið Bergen í stað hins
norska Björgvin. Því varð það
mestu ráðandi í norsku, en þó
Það er ekki rétt hjá
Sigurði að eina borgin
með íslensku nafni frá
fornu fari sé Kaup-
mannahöfn. í Svíþjóð
eru borgirnar Uppsalir,
Stokkhólmur og
Gautaborg (við köllum
þær ekki Uppsala,
Stockholm og Göte-
borg), Noregi Þránd-
heimur (norsku Trond-
heim) og í Færeyjum
Þórshöfn (fær.
Tórshavn), svo að
dæmi séu nefnd.
heitir til dæmis biskupsdæmið þar
„Björgvin bispedöme“. Að sjálf-
sögðu notuðu danskir kaupmenn
dönsku ummyndunina Bergen, en
ekki upprunalega nafnið Björgvin,
og sama gerði útlenda skipafélagið
sem hafði siglingar milli íslands og
Noregs. Margiríslenskirverslunar-
menn tóku það upp eftir þeim, en
samtímis héldu aðrir íslendingar
áfram að nota gamla heitið,
Björgvin. Af þessu stafar þessi
tvískinnungur í íslensku á seinni
áratugnum.
Almennt eru borgarheiti kven-
kyns í íslensku, nema seinni hlut-
inn sé ótvírætt annars kyns (Stokk-
hólmur er karlkynsorð), vegna
þess að hólmur er karlkynsorð .
Því beygjum við þau eins og kven-
kynsorð þegar unnt er að koma því
við, og segjum „til Parísar, til
Rómar, til Berlínar, til Moskvu".
Ekki þó allir. Sumir segja „til
París, til Róm. til Berlín, til
Moskva", og suma hefur þetta
beygingarleysi meira að segja rugl-
að svo rækilega að þeir eru til með
að segja „til Akureyri, til Hergils-
ey, til Vík í Mýrdal“.
Það er ekki rétt hjá Sigurði að
eina borgin með íslensku nafni frá
fornu fari sé Kaupmannahöfn. í
Svíþjóð eru borgirnar Uppsalir,
Stokkhólmur og Gautaborg (við
köllum þær ekki Uppsala, Stock-
holm og Göteborg), Noregi Þránd-
heimur (norsku Trondheim) og í
Færeyjum Þórshöfn (fær.
Tórshavn), svo að dæmi séu nefnd.
Þá skal vikið að ályktup Vináttu-
félags fslands og Kúbu. Þar segir
m.a.: „Lýsingarorðið kúbanskur
er ólíkt hljómfegurra en kúbskur
og hefur þar að auki alltaf verið
notað og særir alls ekki íslenska
máltilfinningu einsog kúbskur hlýt-
ur að gera, eða hvar hafa menn séð
þessa stafi saman í einni runu:
-bsk-?“ Þetta síðasta er rétt. Stafa-
sambandið -bsk- er ekki til í ósam-
settu orði íslensku. Samt er
„kúbskur" rétt myndað orð, af
„Kúba“, en -b- er ekki heldur til
milli sérhljóða í ósamsettu íslensku
orði, þó að það sé í nafni Kúbu.
Það er líka rétt að ,.kúbanskur“,
þríkvætt orð, er lipurra í flutningi
en tvíliðurinn „kúbskur“ sem þar
að auki hefur stirt samhljóðasam-
band, en með „hljómfegurð" þrí-
liðarins (kúbanskur) virðist vera
átt bæði við hrynjandi orðsins og
lipurð í flutningi. Hitt er rangt að
„kúbanskur" særi alls ekki mál-
kennd þeirra íslendinga sem telja
lýsingarorðsendinguna -anskur og
endinguna -ani í fbúaheitum vonda
íslensku. Til þessa hefur ekki þótt
boðlegt að nota lýsingarorð eins og
„afríkanskur, ameríkanskur, kóre-
anskur, marokkanskur, perúansk-
ur“ eða íbúaheiti eins og „Afrík-
ani, Ameríkani, Kóreani, Marokk-
ani, Perúani" í vönduðu íslensku
máli. „Kúbani" og „kúbanskur"
eru af sama tagi. Því verður að
leita annarra leiðaef við viljum sýna
þjóðinni á Kúbu þá virðingu að
tala um hana á vandaðri íslensku.
Við höfum næg fordæmi um mynd-
un lýsingarorðs og íbúaheitis af
erlendum landaheitum. Með ein-
kvæðum stofnum eru endingarnar
-verjar (eintölu -verji) um þjóðina
og -verskur algengar í góðri ís-
lensku, enda eru orð eins og Kúb-
verji, kúbverskur bæði virðuleg og
eðlileg.
Þess mætti minnast í þessu sam-
bandi að fyrir nokkrum áratugum
voru „Ameríkani" og „amerík-
anskur" algeng í mæltu máli hér.
Nú er miklu fremur sagt „amerísk-
ur“ skrfpið sem endar á ,,-anskur“
rnikils til horfið úr málinu, en
nafnorðið „Ameríkani" er algengt
enn. Hvorugt þykir boðlegt í vönd-
uðu máli, þó að mörgum þættu þau
áður bæði „eðlileg“ og „hljómfög-
ur“.
Þetta var um landafræðiheiti.
En Sigurður Þorkelsson minnist
einnig á beygingu ættarnafna í
athugasemd sinni í DV 9. desem-
ber. Það er ekki rétt að „áður fyrr“
hafi ættarnöfn ekki tekið eignar-
fallsendingu í íslensku. Þetta rakti
Ingólfur heitinn Pálmason raunar
rækilega í lítilli bók sem kom út í
sumar, „Um ættarnöfn og erlend
mannanöfn í íslensku". Þar kemur
fram að frá því íslendingar fóru að
nota ættarnöfn hafa þau ýmist
verið beygð eða óbeygð. í upphafi
var algengast að þau væru beygð,
en á seinni áratugum hefur beyg-
ingin verið á undanhaldi. Hér
verða dæmi ekki rakin, aðeins
vísað í samantekt Ingólfs og bent á
þá meginreglu í íslensku beyginga-
kerfi að orð verður ekki beygingar-
laust þó að annað orð hliðstætt því
bætist við. Sá sem talar um „rit
Nordals, ljóð Thoroddsens" verð-
ur þá líka að tala um „rit Sigurðar
Nordals, ljóð Jóns Thoroddsens",
nema hann vilji skipa sér í þann
fjölmenna flokk sem óafvitandi
stefnir að skemmdum á íslensku
máli með því að fella niður beyg-
ingar.
Að lokum þetta: Allt málfar
byggist á venju. Nýjung í máli
vekur stundum fyrst í stað andúð
þeirra sem hirða um málfar sitt, en
sú andúð hverfur venjulega þegar
nýjungin fer að verða algeng. Að
þessu leyti gildir hið sama um
góðar og vondar nýjungar, menn
taka að telja þær eðlilegt og rétt
mál þegar þeir venjast þeim, en til
þess þurfa þeir ef til vill að nota
þær sjálfir sjö sinnum eða jafnvel
sjötíu sinnum.
Með nýársóskum til lesandans,
Ámi Böðvarsson.