Tíminn - 21.05.1988, Page 3

Tíminn - 21.05.1988, Page 3
Laugardagur 21. maí 1988 3 vísa Páls síður. Árni orti er hann kvaddi skálkinn frá Rein í Höfn: „Líta munu upp í ár íslands búar kærir, að Hreggviðs niður hærugrár höfuð til landsins færir. “ En Páll kvað: „Hann fer seinna hrætetrið hann Kolur, höfuð fylgist enn nú jafntsem bolur, um illt var hann lengi yfirburða þolur, til íslands færa karlinn hægar golur. “ En mál Jóns Hreggviðssonar var ekkert á við það sem nú beið. Á þessum árum hafði sá maður verið að færast upp met- orðastigann sem lengi hafði hugsað honum þegjandi þörfina og fann nú loks að stund hefnd- arinnar var að nálgast. Og sann- arlega var Páll ekki ókunnugur þessum manni, en hann var Oddur Sigurðsson frá Rauða- mel, þá orðinn varalögmaður norðan og vestan. GAMALT HATUR Hér verður að snúa aftur í frásögninni til þess tíma er Páll lögmaður var skólameistari í Skálholti. Þá var meðal náms- sveina hans áðurnefndur Oddur, sem bar af jafnöldrum sínum í skólanum fyrir námsgáfur og glæsimennsku í sjón og raun. Hann var kominn af mestu ríkis og fyrirmannaættum landsins og var langafi hans í föðurætt Odd- ur Skálholtsbiskup Einarsson, en langafi í móðurætt Gísli Hák- onarson, lögmaður í Bræðra- tungu. Oddur Sigurðsson út- skrifaðist frá Skálholti aðeins 16 ára gamall og sigldi árið eftir til Hafnar, þar sem hann tók guð- fræðipróf árið 1700 eða á aðeins einu og hálfu ári. En sérstætt atvik hafði orðið er Oddur var undir handarjaðri Páls í Skálholti. Oddur hafði misst föður sinn er hann var níu ára og hélt mikilli tryggð við móður sína, Sigríði Hákonar- dóttur, sem hann að vonum skrifaði oft. Hún var stórlynd og óhemju metnaðargjörn fyrir hönd sonar síns. í einu þessara bréfa skrifaði hann margvíslegt háð um skólann og þó einkum Pál skólameistara. Bréfið komst á flæking og lenti fyrir tilstuðlan óvalinna manna í höndum skóla- meistara er reiddist svo ákaflega að hann barði námssveinninn með hrísi, uns skyrta hans var orðin löðrandi í blóði. Sýndi Oddur hinni stórráðu móður sinni skyrtuna og lá henni við öngviti af reiði. Geymdu þau skyrtuna vel og sóru að hefndir skyldu fyrir koma. UPPGANGUR ODDS Oddur, hinn ungi guðfræðing- ur frá Kaupmannahöfn lét lítið yfir sér hin fyrstu árin, og var að móður sinni á Rauðamel. En Gyldenlöve stiftamtmaður, sem var aðeins fjórum árum eldri en hann (sex ára höfðu honum verið falin æðstu völd yfir ís- landi) hugsaði honum eitthvað betra. Það var því er hann hélt til Hafnar 1707 að hann var gerður að varalögmanni Gottrups, veitt Snæfellsnessýsla og falið dómsmálavald það er þeir „commissarii'LÁrni og Páll höfðu farið með áður. Þá hafði honum verið heitið lþgmanns- embættinu eftir Gottrup, sem nú var orðinn aldraður. Það var því hróðugur maður sem sneri heim að Rauðamel frá skipshlið, kominn með svo mikið vald, aðeins 27 ára gamall. Var það í lögréttu um sumarið að hann las upp bréf sín og brá mörgum stórbokka er hann hét að rétta hlut hvers þess manns er til hans leitaði. En varla neinum meir en Páli Vídalín. Enn voru þeir Árni að safna til jarðabókarinnar og var það einn daginn að þeir komu að Rauðamel. Var þeim veittur besti beini og fylgdi Oddur þeim á leið daginn eftir. Áður en þeir skildu lagði Árni sig fyrir í hvammi og sofnaði en þeir rædd- ust við Páll og Oddur. Vaknaði Árni von bráðar við öskur mikil og heitingar. Voru þeir valds- mennirnir þá að fljúgast á í móanum, eins og drukknir bændur. Reyndist ástæðan ekki önnur en sú að Páll hafði ávarp- að Odd „varalögmann“, en ekki „generalactor", í krafti þess dómsvalds sem hann hafi. Mátti nú sjá að ekki stefndi í gott efni. En ekki átti lánið af Oddi að ganga. Hann hafði verið heit- bundinn Guðrúnu, dóttur Guð- mundar Þorleifssonar hins ríka á Narfeyri. Stúlkan dó hins veg- ar í bólunni 1707 og urðu við- brögð hins harmi lostna föður hennar að ánafna Oddi allar sínar eigur, gengi hann honum í sonar stað. Lét Oddur ekki slíkt kostaboð sér úr greipum ganga og fluttist hann nú að Narfeyri. Og enn bættist við mannvirð- ingarnar: Möller amtmaður fór alfarinn til Danmerkur 1708 og var Páll Beyer settur fulltrúi hans á íslandi. En Gyldenlöve hafði ekki gleymt Oddi. Hann skipaði hann sérstakan um- boðsmann sinn á íslandi og má segja að þannig hafi hann hreppt amtmannstignina líka að hálfu. Voru þeir Beyer nefndir manna á meðal „hinir fullmektugu.“ ^ Um hríð deildu þessir tveir höfð- ingjar um skiptingu valdsins, en eftir landsfræg fylliríisáflog þeirra 8. júlí 1708 á Alþingi, komu þeir sér saman um að hvor skyldi ráða í sínu umdæmi, ann- ar sunnan og austan, en hinn vestan og norðan. , En víst var um að meira vald en Oddur á Narfeyri hafði nú, hafði enginn íslendingur borið frá því Kópavogseiðarnir voru teknir 1662. PÁLL SVIPTUR EMBÆTTUM Oddur vann ósleitilega að því að grafa undan kollega sínum, Páli Vídalín, með óskammfeiln- um rógsbréfum sem hann án afláts sendi velunnara sínum, Gyldenlöve stiftamtmanni. í sem skemmstu máli lýsti hann honum sem óþolandi þrætu- manni, sem með allra handa málarefjum náði eignum undan fákænu fólki sem treysti honum. Er hann þóttist fullviss um að jarðvegurinn væri nægilega undirbúinn, var svo höggið látið ríða. Það var á Alþingi 1713. Lét hann þá svifta Pál lögmanns- embættinu, eftir að hafa fengið stóran hóp lögréttumanna og sýslumanna til að stefna honum um níu mál, flestöll hinn mesta hégóma. Enginn dómendanna þorði nema standa og sitja sem Oddur vildi og þannig lýstu þeir því yfir á þinginu að „þetta fátæka land muni ei ná hinum fyrri og gömlu rólegheitum og verða frí frá öllu ónauðsynlegu þrætuvafstri allt svo lengi sem Seignr. Páll Jónsson Vídalín lög- mannsembættinu þjónaði.“ Hafði Oddur nú náð langþráð- um hefndum fyrir hýðinguna í Skálholtsskóla. Árið 1712 hafði Oddur gert aðför að spönsku kaupfari fyrir verslun við landsmenn, en ekki tekist betur til en svo að Spán- verjar hröktu lið hans á flótta, en handtóku hann sjálfan og héldu föngnum heila dagstund.' Gekk sú saga meðal manna þar á eftir að Spánverjar hefðu gelt Odd og gerði Páll Vídalín beina- kerlingarvísu um málið, sem Oddi barst til eyrna og reiddist mjög. Er Páll Vídalín nú hugðist ríða af þingi, embættislaus, sagði Oddur því við hann: „Kveddu nú Páll!“ Og lét Páll ekki segja sér það tvisvar: „Login held ég sagan sé, sagan af geldingunni, liggur þetta last og spé ljóst í hvers manns munni. “ Nú var ekki um annað að gera fyrir Pál en kæra meðferðina og sigla til Hafnar að reyna að ná rétti sínum. Oddur bjóst við þessu og sagði við Pál á Alþingi árið á eftir: „Ætlar þú að sigla, Páll?“ Hinn svaraði að sú væri ætlun sín, en gæti hann ei náð rétti sínum hér megin grafar væri eilífðin löng og Guð réttlát- ur dómari. Oddur hreykti höfði, svo sem hans var siður og sagði: „Hvað vilt þú vera að tala um eilífð?“ Páll leit fast á hann, en augum hans hefur verið svo lýst að þau hafi verið hvöss og hörð sem í fálka, þegar hann reiddist. Nú var hann reiður og mælti: „Sjáðu svo til að þú fáir hana ei of þunga.“ Síðan gekk hann brott án þess að kveðja. RIMMA í HÖFN Það var með miklum tárum og áhyggjum að Páll Vídalín gekk um borð í Höfðaskip haustið 1715 og lýsa mörg bréf hans og fyrirbænir hve hann óttaðist um sitt fólk, varnarlaust fyrir óvinum hans, svo og erind- islok ytra. Oddur sigldi einnig, en með fiskiskipi og varð á undan honum. Hreppti skip hans þó verstu veður. Hann tók land í Lúbeck eftir tveggja mán- aða volk, en hélt þó ekki beint til Kaupmannahafnar. Norður- landaófriðurinn mikli stóð sem hæst og fyrir flota Dana, sem beið úti fyrir Greifsvald í Prúss- landi, réð sækempan Hannibal Sehested, aðmíráll. Þekktust þeir Oddur vel og reið Oddur nú á fund hins mikla manns og áttu þeir langt tal saman, þar sem Pálsmálið hefur án efa borið á góma og Oddur leitað eftir stuðningi. Er til Hafnar kom átti hann svo viðræður við Gylden- löve og er ekki annars getið en að vel hafi farið á með þeim. Þó er talið að Gyldenlöve hafi verið farið að þykja nóg um ofstopa skjólstæðings síns. Lengi dróst að Páll kæmi og er nær víst að Oddur hefur verið farinn að halda að skip hans hefði farist á leiðinni. Það hefur hann að minnsta kosti innilega vonað, því er tíðindi um komu Páls bárust loks á fjórða dag jóla, varð Oddi svo mikið um að hann reyndi að fremja sjálfs- morð. Skar hann sig á háls með rakhníf og var lengi tvísýnt um líf hans. En er mál komu til dóms í marsmánuði var hann það hressari að þeir komu báðir í dóminn í Hæstarétti. Leit Páll háðslega á Odd og óskaði hon- um til hamingju með batann, en hinn kvaðst hafa verið sáttur við að deyja, úr því að hann gæti ekki gert íslandi neitt gott. Hvessti þá Páll á hann augu og spurði hvenær hann hefði lagt stund á að reyna það! Dómurinn féll Páli í vil. Að vísu féll hann á ýmsum málum, en lögmannsstöðuna endur- heimti hann og þeir „fullmekt- ugu“, Oddur og Beyer, svo og dómsmenn þeirra, voru dæmdir til að greiða honum 300 ríkisdala bætur. Þar með var deilum þeirra tveggja að mestu lokið, enda. átti Oddur nú brátt nóg með að rækja illindi sín við aðra menn, svo sem þá Jón biskup Vídalín og Jóhann Gottrup. 1718 missti hann umboð sitt sem fulltrúi stiftamtmanns við dauða Gyld- enlöve og brátt önnur embætti sín og loks eignir. Er saga hans öll hin makalausasta, en verður ekki rakin hér nánar en orðið er. FRÁ ANDLÁTI PÁLS OG GREFTRUN Dauðinn stóð mönnum stöð- ugt fyrir hugskotssjónum um daga Páls Vídalíns og ekki að ástæðulausu. Felliár riðu yfir, skæðustu pestir geisuðu og minni skeina varð iðulega að Á Völlunum við Öxará lést Páll lögmaður á Alþingi 1727. Hitar voru miklir og var líkið ófélega útleikið er norður að Víðidalstungu kom. HELGIN I banaund. Þetta vissi hver maður, kominn af barnsaldri og prestarnir minntu óaflátanlega á þessa óþægilegu staðreynd. Páll skynjaði líka oft dauðann og fyrir kom að hann sá óhugn- anlegar sýnir. Þannig gerðist það eitt sinn er hann lá veikur í Skálholti að hann sá um öll staðarhúsin sem í miklu ljósi, meira að segja hvern kvist í rjáfrum þar sem aldrei bar birtu á. Líka gerðist annað undur er hann kom gestur að Höskulds- stöðum og hafði sofið um nótt- ina í kirkjunni. Hann stóð upp að morgni og sá þá niður um kirkjugólfið eins og niður um ís og út í kirkjugarðinn. Blasti þar við hvert mannsbein nokkrar álnir niður. Hann hafði látið semja lík- predikun sína löngu áður en hann andaðist og kvaðst vilja verða grafinn í Víðidalstungu, hægra megin fyrir utan kirkju- dyrnar. Eins og fram kom í upphafi þessarar frásagnar lést hann á Alþingi 1727. Hann hafði sagt fyrir og spáð um áður en hann hélt að heiman að hann mundi ei lifandi aftur koma og er sagt að þegar hann kom að syðstu landamerkjum Víðidalstungu hafi hann mælt: „Far vel Víðidalstunga; ég kem ei lifandi afturtil þín.“ Svoerog sagt að hann hafi verið að raula þessa vísu fyrir munni sér, þegar liann reið hinsta sinni niður með Ármannsfelli: „Leiðast tekur himinn og hauður, hagur bágur alla daga, sem andvana frá auð burt skundi, undarlegt erstríð lífsstunda. “ Hann andaðist um sólarupp- rás þann 18. júlí. Sigurður Sig- urðsson, landþingsskrifari, lét gera kistuna, sem var gisin og léleg, þvoði líkið og bjó um það. En Sigurður Jónsson, sýslumað- ur á Hvítárvöllum, fylgdi alla leiðina norður og söng vers í’ hvert sinn sem hann setti líkkist- una niður eða lét hana á hestbak. Það var sterkur hestur, rauður, sem bar hana, kallaður Múlarauður. Hitar höfðu verið þann tíma er líkið stóð uppi á Alþingi í tjaldi hans, en maður- inn hafði verið orðinn feitur og lyktaði því. Sigurður lét þó aldrei neitt á sig fá er hann var að þénusta líkið á norðurleið og það þó að lykt legði undan vindi. Hlaut hann margra aðdá- un fyrir, m.a. gaf ekkja Páls,frú Þorbjörg honum alklæðnað gráan af manni sínum fyrir um- hyggjuna! Ekki er fegurri lýsingin af því er Páll kom norður. Hafði kista hans verið borin inn í kirkjuna og kom að hinn gamli óvinur lögmanns, Halldór prestur Hallsson. Sá hann hversu vilsa og maðkur gengu niður af kist- unni, svo pollur mikill var á kirkjugólfinu. Létti prestur sér þá yfir pollinn og mælti um leið það 13. vers af 91. Davíðssálmi: „Yfir ljón og eiturpöddur muntu ganga... etc.“ Þannig verður ekki beinlínis sagt að ljóma stafi af endalokum þessa merka gáfumanns og skálds, þótt hann sé ekki um að saka, heldur þá stskrifandi ann- álaritara og fræðaþuli, sem á íslandi sáu til að elckert gleymd- ist, stórt eða smátt. Hafa margar útfarir á þessum tíma verið með litlu hroðalegri blæ. ' En hér verður látið staðar numið um Pál Vídalín. Mörgu hefur verið gengið fram hjá, ekki síst fjölda af skemmtilegum sögum um daglega háttu hans, skáldskap, kennslu og margt annað. Hann lifði stórbrotna tíma í þjóðarsögunni og var sjálfur stórbrotinn maður, eins og vonandi hefur tekist að gera fullljóst hér.

x

Tíminn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.