Tíminn - 29.12.1988, Blaðsíða 9

Tíminn - 29.12.1988, Blaðsíða 9
Tíminn 9 Fimmtudagur 29. desember 1988 VETTVANGUR lll' Rúnar Armann Arthúrsson: Heimaslátrun og hag- kerfi undirdjúpanna Segja má að einskær forvitni hafi rekið mig á fund Krulla hárskera í Kambi sem ég frétti fyrir tilviljun að væri tekinn til starfa í nágrannasveit minni. Ekki svo að skilja að Krulii sé raunverulegur hárskeri, - hann er fjárbóndi sem lenti í kröggum og neyddist til að selja Framleiðnisjóði allan fullvirðisrétt sinn, eftir að hann byggði sér nýtt fjárhús, eitt það stærsta og fullkomnasta í sýslunni. Andvirðið, þrjár milljónir króna, hrökk þó ekki til að slétta út þær skuldir sem stofnað var til af óhóflegri bjartsýni, - sumir segja barnalegri trú á velvilja stjórnvalda í garð þeirra sem reyna að bjarga sér af dugnaði og framsýni. Nú á Krulli aðeins eftir nokkrar rollur og ekki segir hann borga sig að fara með lömb í sláturhús, - hann slátrar þeim einfaldlega sjálfur til heimabrúks. Áður en Krulli í Kambi sá af leyfi sínu til að stunda fjárbúskap var hann annálaður rúningsmeist- ari og eftirsóttur sem slíkur. Pegar nýbyggt fjárhúsið stóð allt í einu svo gott sem autt, einangrað eftir ströngustu formúlum ullarræktar- sérfræðinga, hver gat þá láð Krulla þó hann kæmi sér upp aðstöðu í öðrum enda þess til að stunda heimullega aukabúgrein. Krulla skortir nefnilega lög- vernduð réttindi til hárskurðar á fólki, hann má hvorki kalla sig rakara né hárskurðarmeistara, en segist vera hæstánægður með að kalla sig rúningsmann eða leiðbein- anda, því ekki má hann nefna sig kennara, þótt Gíslunn tengdadótt- ir Gunnólfs á Fögruströnd hafi verið honum til aðstoðar' í sumar og nánast í læri hjá honum. Sagði ég læri? Eiginlega voru það dilkalæri, sem Krulla áskotnuðust, sem urðu til þess að ég settist niður og punktaði hjá mér eftirfarandi frásögn um það sem ég hef fyrir satt um hagkerfi undirdjúpanna í íslensku bænda- samfélagi. Þegar ég mætti á Rakarastofu Krulla var enginn annar en Gunn- ólfur á Fögruströnd í stólnum hjá honum. Ég varð því að fá mér sæti stundarkorn og bíða þess að röðin kæmi að mér. Krulli var að ljúka við að tína permanentrúllur úr höfðinu á stórbóndanum þegar mig bar að, klippti svo karlinn eftir kúnstarinnar reglum og blés að lokum á honum hrokkið faxið með forláta hárblásara sem tengdur er við nýju haugsuguna sem hann keypti í vor leið. Auðvitað tók þetta allt sinn tíma og á meðan þóttist ég vera að glugga í Búnaðar- ritið Frey og Tímann, þótt auðvit- að legði maður eyru við samræðum þessara merku heiðursbænda, að hætti sannra rannsóknarblaða- manna: - Gengur ekki allt vel með bú- skapinn, Gunnsi minn? sagði Krulli og mundaði fjárklippurnar eftir að hárrúllurnar voru allar komnar í bala á gólfínu. - Ojæja, sagði Gunnólfur á Fögruströnd, læt ég það vera, þetta dankast einhvern veginn. Verst hvað allt er miklu tímafrekara með breyttum búskaparháttum. - Hvemig má það vera með þessár fínu vélar sem þið eigið til allra hluta á Fögruströnd? - Það er ekki það. Ekki veit ég hvernig færi ef ekki væru vélarnar, en þær eru dýrar og dýrt ef þær bila. Nei, það er allt útstáelsið í kringum þessa nýju landbúnaðar- stefnu. Núna þarf maður að fara svo mikið um, rófurnar og kart- öflurnar selja sig ekki sjálfar, að ekki sé talað um ketið af því fé sem ekki fer í sláturhús og enginn má vita af. Og það fer mikill tími í að spjalla og drekka kaffi. Síðan er maður í standandi vandræðum með að koma ketinu fyrir, hólfið í Sláturhúsinu löngu orðið stútfullt og báðar fimmhundruð lítra frysti- kisturnar heima. - Hvað lógaðirðu miklu á sunnu- daginn, Gunnsi minn? - Það voru nítján haustlömb og tólf gemlingar. Annars kem ég ekki nálægt þessu, mér hefur alltaf leiðst að drepa skepnur. Maður neyðist til að stóla á aðkeypt vinnu- afl þegar slátrað er heima. - Varla borgar það sig? Þú gætir þá alveg eins látið Sláturhúsið sjá um þetta... - Ertu frá þér maður? Það er ekki svo lítið sem þeir taka fyrir að slátra því sem heimilisfólkinu er ætlað að éta, þegar maður er búinn að fylla kvótann. - Töluverðan mannskap hefur þurft til að létta undir með ykkur á blóðvellinum á Fögruströnd. Eitthvað hefurðu mátt borga fólk- inu? - Njaaá, Gíslunn tengdadóttir fékk auðvitað tvo skrokka og Ög- mundur faðir hennar annað eins. Hann er alveg príma fláningsmað- ur, Ögmundur, það segja þeir í Sláturhúsinu. Nú, svo fékk ég Magnús í Bæli til að drepa fyrir mig. Hann hefur svo mikið gaman af þessu strákurinn. Verst að það þýðir ekkert að bjóða honum ket, hann á svo mikið af því sjálfur, allar gerðir. Blessaður vertu, hann á eftir að verða stórbóndi hann Maggi litli í Bæli. - Því miður kláraðist allur landinn hjá mér í Búnaðarfélagsferðinni í haust, annars hefði ég borgað honum með landa. Þú getur bölvað þér upp á það, Krulli. Það er heldur ekkert smáslot sem hann er að byggja strákurinn, og kominn á nýjan bíl. - Hvertiig gastu þá gert upp við Magnús, úr því hann vildi ekki neitt með kjötið hafa og þú áttir engan landa? - Ég fór eina dagstund í hand- lang með smiðunum við nýja húsið. Magga litla veitir ekkert af mann- skap við bygginguna. Þeir fá borg- að í eintómu keti smiðirnir, og þykir víst gott, enda ekkert gefið upp. Það er lítið um að vera hjá þeim í þessari kreppu sem sögð er ganga yfir og auðvelt að gera góða samninga. Húsið verður tilbúið fyrir jól, maður lifandi. - Én hvernig fer Magnús að því að borga af bílnum sem hann var að kaupa? Ég frétti að hann hefði klárað haustinnleggið í Kaupfélag- inu upp í útborgunina? - Það er nú hægurinn. Þeir í stjórnarráðinu sjá fyrir því. Hann á ekki eftir að borga nema tæpar tvö hundruð þúsund krónur og Sædís komin ,á steypirinn. Það kemur allt heim og saman. Það small í klippunum sem höm- uðust og gripu í tómt í lausu lofti og andlitið á Krulla varð eitt spurn- ingarmerki. Fyrri hluti - Hvernig getur það komið heim og saman? En Gunnólfur á Fögruströnd hló bara svo spikið hristist. Hann svar- aði með hrifningu í rómnum: - Nú skilurðu það ekki, maður? Þegar Sædís hefur eignast krakk- ann fær Magnús barnsburðarorlof- ið greitt, fjörutíu þúsund krónur á mánuði í fimm mánuði. Það gerir tvö hundruð þúsund í allt. Klárir peningar til að mæta afborgunum af restinni af bílnum. Svo má alltaf gera Sædísi ólétta aftur. Magnús gæti meira að segja útvegað henni vinnukonu, borgað henni í keti og gert hana ólétta líka. Það er enginn vandi að vera bóndi í dag ef menn eru ungir og hraustir og kunna á kerfið. Rúningsmeistarinn kinkaði kolli, en var samt á svipinn eins og hann ætti erfitt með að átta sig á því hvernig menn gætu yfirleitt kunnað á einhver ólukkans kerfi. Hann leiddi því talið að öðru. - Hvað gerðirðu eiginlega við allt innvolsið? Varla hefurðu haft undan að grafa garnirnar áður en hundarnir komust í ósköpin, eins og gerðist hjá mér í haust. - Nei, biddu fyrir þér. Ég kom öllum úrgangi fyrir í tómum áburð- arpokum og fékk hann Runka á ruslabílnum síðan til að taka þá fyrir mig. - Núúú? Hvernig gastu fengið hann til þess? Krulli var standandi forviða. Ég hélt að honum væri harðbannað að flytja sláturúrgang á haugana. - Do do, bannað og bannað. Ég þurfti að mýkja karlinn aðeins upp fyrst. Runki er sólginn í sviðalapp- ir. Ég gaukaði að honum nokkrum stykkjum. Það þurfti ekki meira. Sviðalappir mega heita bannvara og illmögulegt fyrir sælkera eins og Runka að nálgast slíkan munað. - Það hlýtur að hafa verið óhemju vinna að hluta niður alla þessa skrokka, sagði Krulli um leið og hann setti hárblásarann í gang. Hvernig fórstu eiginlega að? Ekki hefur það gengið það hjálparlaust? - Maður var ekki í neinum vand- ræðum með það, sagði stórbónd- inn. Hann Jason á Kvíabóli keypti stærðar rafmagns-bandsög á upp- boði austur í Vík í fyrra, svona ekta ketsög sem var notuð í Slátur- húsinu þar. Hann fékk hana fyrir lítið og hefur hagnast vel á að leigja hana góðkunningjum. Þetta má auðvitað ekki fara hátt. - Var ekki erfitt að flytja sögina á milli? - Nei, það var ekki svo erfitt. Beggi litli sonur sótti hana með mér á traktor með ámoksturstækj- um. Það lyftir þessu enginn maður. Og þó hann sé vel að manni, hann Beggi litli minn, þá tekur hann ekki heila bandsög á bakið, enda mundi hún Gíslunn hans aldrei leyfa það. - Hvað tók Jason í leigu fyrir sögina? Varla hefur hann viljað kjöt fyrir viðvikið, stórgripabónd- inn sjálfur? Nei, en það var lítilræði sem ég þurfti að gera fyrir hann í staðinn. Gamli reykkofinn stendur alltaf fyrir sínu. Ég tók að mér að reykja fyrir hann nokkur hrossabjúgu og fáeinar nautatungur sem ekki þýðir að biðja fyrir í Sláturhúsinu. Þeir þykjast ekki mega taka við neinu af gripum sem slátrað er annars staðar. - Ekki er það illa sloppið. Sögin hefur líka sparað þér mikinn tíma og útgjöld, sagði Krulli um leið og hann lét blásarann aftur á sinn stað. - Það fer nú eftir hvemig á það er litið, sagði Gunnólfur á Fögru- strönd íbygginn. Það fór heill dag- ur í að sækja sögina. Við Jason höfðum um margt að spjalla eins og endranær. Beggi litli stillti fyrir hann jeppann á meðan. Hann fær borgað í nautatungu þegar ég hef lokið við reykinguna. Þær þykja herramannsmatur þessar nauta- tungur. Jason selur þær grimmt einhverri restaurasjón í Reykja- vík. Nú, svo fór annar dagur í að skila söginni. - Það er eins og ég segi, allt er orðið margfalt tíma- frekara í búskapnum. En neyðin kennir nöktum og fátt skortir mann. - Ég kem svo til þín á morgun með hana Laugu mína og fæ þig til að snurfusa hana aðeins. Sem Gunnólfur á Fögruströnd hafði þetta mælt svipti Krulli í Kambi af honum brekáninu sem breitt var yfir herðar stórbóndans og dustaði af jakkanum með göml- um strákústi sem vantaði á skaftið. Gunnólfur reis síðan upp og rétti honum plastpoka sem legið hafði undir stól við hliðina á þeim sem ég sat á. Ég grúfði mig niður í Tímann og lét sem ég tæki ekki eftir neinu. - Þá erum við kvittir, sagði Gunnólfur stórbóndi á Fögru- strönd. Má ekki bjóða þér í nefið? Síðan bauð hann mér líka í nefið á meðan Krulli tók tvö stærðar kjötlæri upp úr pokanum og leit á með velþóknun, áður en hann stakk þeim aftur niður og setti pokann í frystikistu í einu horninu. Ég sá ekki betur en kistan sú væri nærri full. Þarnæst bauð Krulli mér að setjast í stólinn hjá sér. Á meðan hann hafði æfðar hendur í hári mínu ræddum við með nokkrum alvöruþunga um það þjóðfélag sem bannar bændum að framleiða eins og þeir bæði geta og vilja, - neyðir þá til að stunda sjálfsþurftarbúskap og vöruskipti, í blóra við öll þau ágætu kerfi sem fundin hafa verið upp í Bændahöllinni í Reykjavík. - Sjáðu mig til dæmis, sagði Krulli. Ég á ennþá fáeinar skjátur utan við kvóta og það má segja að ég verði allt árið að éta lambapísl- imar sem ég slátraði í haust, ásamt þessu lítilræði sem ég hef tekið við fyrir að gera mönnum smágreiða, - um Ieið má til sanns vegar færa að ég bragði varla nokkurn tíma lambakjöt. - Hvernig getur það verið? Ann- að hvort éturðu lömbin eða ekki, sagði ég. - Nei, sjáðu til ljúfurinn, sagði Krulli, ég gerði samning við frænda minn sem er stöndugur útvegsmað- ur suður með sjó. Hann tekur við öllu því lambakjöti sem ég get útvegað honum. I staðinn sendir hann mér fyrsta flokks saltfisk. Það kjöt sem hann fær frá mér kemst hvergi á skýrslur og sama má segja um fiskinn. Hann er allur veiddur utan við heimildir.

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.