Tíminn - 10.06.1989, Qupperneq 12

Tíminn - 10.06.1989, Qupperneq 12
Hvalsneskirkja. cnmamynd: Arnl Bjarna.) „Sælar þær sálir eru“ Þegar við Árni Bjarnason Ijósmyndari fórum á dögun- um í leiðangur hér suður að Básendum, sem lesendur sáu árangurinn af um næstsíðustu helgi, þá stönsuðum við líka hjá kirkjunni að Hvalsnesi. Hún er hin fegursta bygging, og að því er lesa má í handbókunum Landið þitt Island var hún reist á árunum 1886 og 1887. Það var þáverandi eigandi Hvalsness, Ketill Ketilsson hrepp- stjóri í Kotvogi í Höfnum, sem lét reisa kirkjuna. Hún er hlaðin úr tilhöggnum steini, og glöggir menn hafa bent á að hún líkist í rauninni ákaflega mikið Dómkirkjunni í Reykjavík, þótt öll sé hún smærri í sniðum. En Hvalsneskirkja er kannski ekki síst merk fyrir þær minjar sem hún geymir um sálmaskáldið Hallgrím Pétursson. Hann var prestur hér árin 1644-51, skömmu eftir að hann kom heim frá Kaupmannahöfn, þar sem hann hafði um sinn fyrirgert frama sínum hjá kirkjunni vegna barneignar með Guðríði sem varð síðan kona hans. Héðan flutti hann svo að Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, þar sem hann orti Passíusálmana. Margt varð Hallgrími mótdrægt á Hvalsnesárunum, en kannski hefur það orðið sárast að hér misstu þau hjónin dóttur sína á fjórða ári, Steinunni að nafni. Eftir hana orti Hallgrímur innilegt erfiljóð, sem lengi hefur verið talið meðal áhrifa- mestu kvæða hans. En fyrir tiltölulega fáum árum fannst að Hvalsnesi steinn, sem enginn vafi virðist leika á að sé legsteinn Steinunnar litlu Hallgríms- dóttur. Er hann nú geymdur inni í Hvalsneskirkju. Að vísu er brotið af honum, en þó má lesa nafn hennar þar, svo og stafina 164 sem eru án efa byrjun á ártali. Svo er að sjá að þennan stein hafi Hallgrímur sjálfur höggvið í sorg sinni til að merkja legstað dóttur sinnar litlu. Þótt steinninn hafi síðar færst af gröfinni og við vitum því ekki lengur hvar hún er, þá má samt segja að Hall- grími hafi vel tekist að varðveita minningu Steinunnar litlu með þessu handarverki sínu. Allir, sem koma í kirkjuna, hljóta ósjálfrátt að leiða hugann að telpunni litlu og minningu hennar. Erfiljóð Hallgríms um Steinunni hefst á þessu erindi: Sœlar þœr sálir eru sem hér nú skiljast við frá holdsins hryggðar veru og heimsins göldum sið, hvílast t himnafrið, þar sem með scetum hljóðum syngur lof Drottni góðum lofsamlegt engla lið. Kvæðið er í tveimur hlutum, sá fyrri tíu erindi en hinn síðari þrjú. Fyrri hlutinn er ortur með þeim hætti að út úr fyrstum stöfum sjö fyrstu erindanna má lesa „Steinun“, átt- unda erindi byrjar á orðinu „mín“, það níunda á „litla“ og tíunda erind- ið á „hvílist nú“. Má því út úr þessum litlu atriðum lesa líkt og í hnotskurn talandi vitnisburð um áfallið sem Hallgrímur hefur orðið fyrir við dótturmissinn. Annars er kvæðið hófsamlega ort og síður en svo af nokkurri bölsýni eða örvæntingu. Að hætti síns tíma var Hallgrímur einlægur trúmaður. Legsteinn Steinunnar litlu Hallgrimsdóttur í kirkjunni að Hvals- nesi. Hann hefur trúað því statt og stöðugt að dóttir sín væri nú farin að leika sér með englum guðs í himnaríki, og í kvæðinu dylst ekki að það er honum mikil huggun harmi gegn. Hann segir: / þennan flokkinn fróma flutt varstu, barnkind mín, himneskum hafin sóma hvílist nú sálin þín, Ijómar þar skœrt og skín í faðmi Jesú fríðum, fagnandi öllum tíðum, dýrðin sú aldrei dvín. En síðan víkur hann að hérvistar- dögum hennar og heldur áfram: Nú er þér aftur goldið angrið, sem barstu mest, þegar þitt hrjáðist holdið hátt þú stundir og grést, gefin er gleðin best, hafin úr hryggð og móði, hreinsuð með Jesú blóði, synd engin á þér sést. En þrátt fyrir huggun trúarinnar leynist samt ekki að hann syrgir dóttur sína, svo sem sjá má í fram- haldinu: Unun var augum minum ávallt að líta á þig, með ungdóms ástum þínum œtíð þú gladdir mig, rétt yndis-elskulig, auðsveip af hjarta hlýðug, í harðri sótt vel líðug, sem jafnan sýndi sig. Nœm, skynsöm, Ijúf (lyndi, lífs meðan varstu hér, eftirlœti og yndi œtíð hafði ég af þér, í minni muntu mér, því mun ég þig með tárum þreyja afhuga sárum, heim til þess héðan fer. Og kvæðið er lengra en verður þó ekki rakið frekar hér. Það er nokkuð víða prentað, meðal annars í Hall- grímskveri, og því tiltölulega að- gengilegt þeim sem lesa vilja. En það er vel fyrirhafnarinnar virði enn þann dag í dag að lesa þetta kvæði Hallgríms og skreppa síðan suður á Hvalsnes og líta á hitt handarverk hans til minningar um Steinunni litlu, sem fékk að hvílast einhvers staðar í kirkjugarðinum þama syðra. -esig

x

Tíminn

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.