Tíminn - 25.09.1990, Blaðsíða 14

Tíminn - 25.09.1990, Blaðsíða 14
1,4 Tíminn MINNING tZtÁZ&ii&ÍM \ , íSl Þriðjudagur-inn.25, sept, 4990 Stefán Jónsson Stefán Jónssson, fyrrverandi al- þingismaður og rithöfundur, lést 17. þ.m. 67 ára að aldri og verður jarð- sunginn í dag. Hann var fæddur á Hálsi í Hamarsfirði í Suður- Múla- sýslu 9. maí 1923, en ólst upp á Djúpavogi og átti þar heima fram undir tvítugt. Foreldrar hans voru Jón skólastjóri Stefánsson, af skaft- fellskum og austfirskum ættum, og kona hans Marselína kennari Páls- dóttir frá Brettingsstöðum á Flateyj- ardal í Suður- Þingeyjarsýslu. Þótt foreldrar Stefáns hefðu auðvit- að engum auði úr að spila var skóla- stjórahúsið í Rjóðri á Djúpavogi menningarheimili og nægilega efn- um búið til þess að þar fleytti öllu vel fram hjá þeim hjónum með böm sín þrjú, Maríu, Stefán og Hólmfríði. Stefán Jónsson sótti lítið skóla eftir að bamafræðslu lauk, sat einn vetur í Samvinnuskólanum, en varð sjálf- menntaður fyrirhafnarlaust, enda námshestur að upplagi og þurfti ekki á ítroðslu að halda eftir að hafa lært undirstöðuatriði þessara hefð- bundnu bóknámsgreina íslenskra skóla. Skortur á skólasetu var hon- um því ekki fjötur um fót í þeim störfum sem hann lagði fyrir sig, enda ekki hneigður til neinnar sér- fræði, að ég held. Stefán Jónsson sannaði það — og má minnast þess á ári læsis — að læs maður verður lærður af því einu að lesa, ef dóm- greind og skilningur er í skaplegu lagi. Hins vegar verður sá nemandi alla tíð fákunnandi sem troðið er í gegnum skólakerfið án þess að verða nokkru sinni læs. Um sjálfan sig segir Stefán í síðustu bók sinni að hann sé „veiðimaður“, það sé eðli hans að skoða umhverfið með augum veiðimannsins, enda duldist ekki að stangveiði og skot- veiði var hans hálfa líf. Á unglingsár- um vildi hann verða sjómaður og stundaði þá sjó, en sú mikla fötlun að missa hægri fót áður en tvítugs- aldri yrði náð hefur vafalaust breytt þeim áformum. Annars lét Stefán fötlun sína ekki tefja fyrir sér á ver- aldarvegferðinni, frekar að hann hertist af henni, ef eitthvað var. Stef- án var hetjulundaður sjálfur og duldi síst aðdáun sína á afreksmönnum, einkum ef þeir voru æðrulausir að auki. Mikið lán var það fyrir Stefán per- sónulega og ekki síður Ríkisútvarpið og íslenska útvarpshlustendur, þegar hann réðst til starfa sem útvarps- fréttamaður 23ja ára gamall. Hjá út- varpinu starfaði hann sleitulaust í 27 ár, næstum heilan mannsaldur að fornu tali. Öll þessi ár var Stefán nánast heimilismaður í hverju húsi á íslandi, skipverji á hverju haffæru fleyi og vistmaður í sjóbúðum og vegavinnuskúrum úti um allt land. Fór saman að hann naut sín í starfi útvarpsmanns og að hlustendur kunnu að meta frásagnir hans og viðtalsþætti. Stefán var einn af brautryðjendum í gerð viðtalsþátta í Ijósvakamiðlum og einn hinn snjall- asti þeirra fyrr og síðar. Viðtöl hans voru ekki bara góð, þau eru sum hver klassísk. Galdur Stefáns sem viðræðumanns lá í því að hann kunni að velja viðmælendur, fólk sem hafði frá einhverju að segja, var viðræðuhæft, auk þess sem hann lagði sig fram um að frásagnar- mennimir fengju að tjá sig eins og þeim var eðlilegt án þess að spyrj- andinn þrælaðist á þeim til þess að Ijóstra upp einhverjum leyndarmál- um eins og þegar verið er að kross- spyrja glæpamenn í eftirlíkingum af réttarhöldum fyrir kviðdómi í amer- ískum afþreyingarmyndum. Stefán Jónsson var ekki síður ritfær en að hann væri slyngur í munnlegri frásögn. Frásagnargáfan var runnin honum í merg og blóð, auk þess sem tjáningarþörfin var rík í fari hans. fyrrv. alþingismaður Stefán setti ekki Ijós sitt undir mæli- ker. Hann vissi vel af hæfileikum sín- um og naut þess að tala eins og sá sem valdið hafði. Hann kann að hafa verið veiðimaður, eins og hann lagði sjálfur áherslu á, en hann var líka frásagnarmaður par excellence. Hafi það átt við nokkum mann að vera hafsjór af sögum og fróðleik um menn og atburði, þá féll sú lýsing að Stefáni Jónssyni. Þar var hann lif- andi kominn. Hann skrifaði hverja bókina á fætur annarri sem fyrst og fremst geymdu sögur af minnisstæð- um persónum og frásagnarverðum atvikum, stundum svo skrýtnum að lesandinn hefur ekki við að trúa. Þó eru þetta engar skrýtlur og alls eng- in skreytni, heldur fullkomnar smá- sögur (stundum örsögur), því að hann var raunverulegt skáld, sem sannast hefði enn betur ef hann hefði flýtt sér ögn hægar við skriftir en hann gerði lengst af. Um frásagnasnillinginn Knut Hamsun hefur verið sagt að hann hafi ekki verið neitt nema listamað- ur. Til að forðast ótímabæran saman- burð og óþarfan misskilning vil ég ekki verða til þess að herma slíka mannlýsingu upp á vin minn Stefán Jónsson. En hitt er jafnvíst að Stefán var fyrst og fremst listamaður. Það var svo lítið í honum af aktaskrifara og smáborgara. Hann vildi gera allt að list sem hann kom nærri og lifa lífinu eins og það væri list. Ekki veit ég þó fyrir víst hvort það var lista- mannseðlið eða eitthvað annað sem olli því að hann var áhugamaður um stjórnmál, því að ekki gat það verið vonin um að eignast fé og frama eða mannaforráð, sem rak á eftir með það hjá Stefáni. Þrátt fyrir alla sína veiðimannslund var það fjarri hon- um að veiða pólitískan hégóma En þó fór það svo að þessi listræni útvarpsmaður, sem átti inni á hverju heimili í landinu, var allt í einu far- inn að stunda alvöruframboð fyrir Alþýðubandalagið í Norðurlands- kjördæmi eystra. Hann bauð sig fyrst fram í alþingiskosningunum vorið 1971, en náði ekki kjöri, enda var Al- þýðubandalagið þá þverklofið (eina ferðina enn) eftir innanflokksátök sem snerust ekki síst um fráfarandi foringja þess í kjördæminu, Bjöm Jónsson, sem horfinn var úr flokkn- um og bauð sig fram fyrir Samtök frjálslyndra og vinstri manna og náði kjöri. En Stefán Jónsson lét ekki deigan síga, hann gekk í það að end- urvekja fylgi flokks síns, fór aftur í framboð 1974 og hafði sigur við góð- an orðstír. Var hann þingmaður í 9 ár, en ákvað að hætta þegar hann stóð á sextugu 1983. Þótt ómögulegt sé fyrir mig að sverja fyrir það að Stefán Jónsson hafi fallið ýmsum framsóknarkjós- endum svo vel í geð að það hefði mátt verða á minn kostnað og minna samherja, hafði það engin áhrif á persónuleg kynni okkar. Hvorki vildi ég troða illsakir við hann né hann við mig. Þvert á móti. Við gerðum ýmislegt okkar á milli til þess að verða ekki fjandmenn, þótt við vær- um andstæðingar. Stefán féll reynd- ar ágætlega inn í þá mennilegu pólit- ík sem viðhöfð var í Norðurlands- kjördæmi eystra á þessum árum, enda heiftarlaus og enginn öfgamað- ur. Samt hef ég hitt fólk sem gekk með þá grillu að Stefán hafi verið eitthvað í þá átt. Ekki veit ég af hverju þetta álit var komið nema að því leyti að honum runnu stundum stærri orð af munni en nauðsynlegt var, sem reyndar hendir flesta stjórn- málamenn meira eða minna, auk þess sem hann gekk oft fram í um- deildum stórmálum, sem þjóðtrúin vildi gera hvern þann mann að öfga- manni sem þar fýlgdi fast eftir skoð- un sinni. En það eru ekki öfgar á stjórnmálamanni, þótt hann sé skoðanafastur, heldur hitt að unna ekki öðrum sannmælis og afneita samkomulagi þegar málamiðlunar er þörf. Efa ég ekki að samþingmenn Stefáns minnast hans fyrir ágætt samstarf um það sem rétt var að standa saman um og hlýleika í per- sónulegri viðkynningu, hvað sem deilum leið um mál sem átök hlutu að standa um og skiptu mönnum í flokka. Stefán Jónsson var enginn hvers- dagsmaður um gáfur og hæfileika og gat sýnst fjölbreytinn í skaphöfn og lífsmáta, því að hann var lífsnautnar- maður, gæddur orku og starfsgleði, sem hjá listamanni getur fengið margvíslega útrás. Ef til vill lifði hann stundum of hratt, ég legg eng- an dóm á það, enda ekki til þess bær. Hitt reyndi ég af honum og finn það í skrifum hans og viðtalsþáttum, að hann bar virðingu fyrir „manninum" og vildi sýna manneskjuna í marg- breytni sinni. Svo gjamt sem Stefáni var að segja sögur af mönnum voru þær ekki sagðar til að niðurlægja neinn, heldur upphefja þá, þó ekki væri fyrir annað en að telja þá þess verða að segja frá þeim. Þessi eigin- leiki bestu frásagna hans er til þess fallinn að láta þær lifa, enda þess virði. Sem rithöfundi tókst Stefáni það sem hann ætlaði sér: Að segja skemmtilega frá fólki, sem átti það skilið að frá því væri sagt. Er naum- ast hægt að hugsa sér þekkilegri af- stöðu í skiptum höfundar og sögu- hetju. Við leiðarlok sendum við Ólöf Auð- ur innilega samúðarkveðju eftirlif- andi eiginkonu Stefáns, börnum hans og öðrum nákomnum ættingj- um. Við minnumst hans með hlýjum hug eins og hann sneri ævinlega vin- samlegu viðmóti sínu að okkur. Ingvar Gíslason Þótt sagt sé að ætíð komi maður í manns stað, sé ég ekki þann, sem fær skipað sæti Stefáns Jónssonar fréttamanns, eins og hann var venjulega nefndur. Stefán átti um margt óvenjulega ævi og var að ýmsu leyti sérstakur maður. Á unga aldri varð hann fyrir því áfalli, að af honum var tekinn fóturinn fyrir ofan hné — fyrir mis- tök, að því er hann sjálfur taldi. Það var mikil raun, ekki síst fyrir þann sem unni útivist og veiðum, og hefði beygt margan manninn, en ekki Stefán Jónsson. Stefán unni mjög landi sínu og þjóð. Hann trúði því að þjóðin gæti búið vel og verið hamingjusöm í landi sínu, ein og óstudd. Hann setti manngiidið ofar auðgildinu. Á yngri árum fylgdi Stefán Fram- sóknarflokknum að málum. Leiðir skildu við herstöðvarsamninginn 1951. Hann þoldi ekki að landið væri setið af erlendum her. Skoðanir Stefáns og föður míns fóru um margt saman og hélst vin- átta þeirra svo lengi sem báðir lifðu. Segja má, að það hafi í raun orðið upphaf vináttu okkar. Stefán heimsótti föður minn stundum, meðal annars að Kletti í Borgarfirði. Þar áttum við síðan margar ánægjustundir við flugu- veiðar að degi og arineld að kvöldi. Þar var lengi rætt og skrafað um þjóðmálin, sögur sagðar og farið með kvæði eða þá að því var vand- lega lýst hvernig „hann“ elti litla flugu í Klettsfljótinu, t.d. litla „græna grímu" eða „bláa“, aftur og aftur og tók svo kannski að lokum. Á slíkum stundum naut Stefán sín vel, enda sögumaður góður. Fyrir það var hann reyndar þjóðkunnur, bæði sem útvarpsmaður og rithöf- undur. Bækur Stefáns Jónssonar eru ekki síst vel skráðar sögur, sem menn lesa sér til ánægju. í þeim birtist jafnframt lífsskoðun Stefáns, ást á hinu ósnortna umhverfi, á landinu og því fólki sem það byggir. Stefán Jónsson tók sæti á Alþingi sem varamaður árið 1972, en sem kjörinn alþingismaður Norðurlands eystra árið 1974. Mér þótti gott að starfa með Stefáni, þótt í sitt hvor- um flokknum værum. Stefán dró sig í hlé frá þingmennsku 1983 og sneri sér að hugðarefnum sínum, útivist og ritstörfum. Lengst mun ég minnast Stefáns sem vinar á kyrrlátum stundum, fjarri ysi og þysi. Fyrir þær minn- ingar þakka ég og kveð með sökn- uði. Við hjónin sendum eftirlifandi eig- inkonu Stefáns Jónssonar, Kristjönu Sigurðardóttur, og afkomendum hans samúðarkveðjur. Steingrímur Hermannsson Stefán Jónsson var á miðjum aldri þegar hann fór út í pólitík. Hann bauð sig fram á Norðurlandi eystra, kominn á þing 1973. Þingeyjarsýsl- ur voru kjördæmi hans og það var engin tilviljun, — þaðan var hann ættaður og taldi sig jafnan Húsvík- ing að hálfu. Það var heldur engin tilviljun að nýi þingmaðurinn fylgdi flokki vinstrimanna; í kjördæminu hafði samvinnuhugsjónin gegnsýrt mannlífið í meira en öld, félags- hyggja var honum meðfædd, og breytti þar aldrei neinu um gusu- gangur og brölt í frægum stjórn- málatrúðum hér heima og erlendis, sósíalistanum í Stefáni varð ekki haggað. Aldrei örlaði á metorða- girnd og monti „hinna leiknu stjórnmálamanna", — pólitískur metnaður Stefáns var sá einn að bregðast hvergi hugsjóninni um jafnrétti og bræðralag, en standa jafnan þar sem barist var gegn und- ansláttarmönnum og landsölu- bröskurum, gegn hernámi banda- ríska auðvaldsins á íslandi, — og þar með fyrir endurheimt sjálfstæð- is þjóðarinnar. Það var nú allt og sumt. Áður en Stefán Jónsson tók sæti á Alþingi var hann löngu þjóðfrægur maður fyrir störf sín í Ríkisútvarp- inu, — fréttamennsku og dagskrár- gerð. Hann kom liðlega tvítugur á fréttastofuna og átti þar heima næstu áratugi, varð á stundinni jafningi allra hinna á bænum, og voru þó engir aukvisar f liði Jóns Magnússonar fréttastjóra: Hendrik Ottósson, Emil Björnsson, Margrét Indriðadóttir, Högni Torfason og Thorolf Smith, og á engan hallað þótt staðhæft sé að Stefán hafi verið fjölhæfastur þessara atvinnumanna í faginu. Á fréttastofunni var ævinlega meira en nóg að gera. Mannskapurinn á þeytingi út um borg og bý með hljóðnema á lofti, ritvélagnýrinn á vaktinni eins og í orkuveri, og heyrðist vart mannsins mál fyrir há- vaðanum í BBC og Reutersmaskín- um, símar glamrandi á hverju borði og allt í háalofti. Mikil vinna, en fyrst og fremst líf og fjör. Og ekki minni hasar í pásunum. Þar blönd- uðu geði þeir sem kunnu að koma fyrir sig orði, — samtalskúnstin í hávegum höfð, — og kaffistofa fréttamanna vinsælasti samkomu- staður í Útvarpinu. Þar fylgdi líka töluverður hávaði góðlátlegum stælum og gagnrýni, með kveðskap, kátínu og hlátrasköllum, og Stefán Jónsson ekki manna hljóðlátastur. Og svo var hann talandi skáld, hag- yrðingur svo undrum sætti, — og sá var nú ekki að ruglast í bragarhátt- unum. Vísur hans margar urðu fleygar um allar jarðir, og þar að auki orti hann að gamni sínu tæki- færisljóð og hverskyns kvæðabálka, — margt af því á heima með kveð- skap bestu alþýðuskálda fyrr og síð- ar. Stefán var jafnan potturinn og pannan í skemmtanalífi starfs- manna stofnunarinnar. Hann hristi fram úr erminni gamanþætti af öllu tagi og fengu hlustendur stundum að njóta þess. Ógleymanleg er apríl- sigling Vanadísarinnar upp Ölfusá, að ekki sé minnst á hvítabjarnar- söng karlakórs Kolbeinseyjar hafís- vorið 1965. Einnig átti hann þátt í nokkrum söngvaleikjum sem settir voru á svið í leikhúsum höfuðborg- arinnar og eru enn að skjóta upp kolli í leikfélögum áhugafólks til sjávar og sveita. Og eins og oft er háttur svona stráka, bruðlaði Stefán með gáfur sínar, mátti enda sjálfur vita eins og allir sem til þekktu að af nógu var að taka, — hugmyndaflug- ið og andagiftin jafnan á sínum stað. Og sá var nú ekki að fyrtast við krítí- kinni. Einu sinni vorum við nokkrir að sjóða saman gamanmál og lá fyr- ir morgunfundi texti Stefáns eftir nóttina. Á blaðsíðu 20 leit lesarinn upp úr handritinu og sagði: „Heyrðu kallinn, hérna rambarðu aldeilis á rétta tóninn. Haltu áfram í þessum dúr.“ „Þú segir nokkuð," sagði höf- undurinn, reif í sundur hinar blað- síðurnar 19 og fleygði þeim í bréfa- körfuna. Stefán gaf út fjölda frumsaminna bóka. Fyrst Krossfiska og hrúður- karla fyrir tæpum þrjátíu árum, og síðan komu þær hver af annarri, og hver annarri betri. Hin síðasta í fyrra: Lífsgleði á tréfæti með byssu og stöng. Og þótt deila megi um sitthvað í veiðimannsfílósófíunni þar, eru kenningarnar samt grefilli skemmtilegar, eins og annað sem hann lét frá sér fara. Ekki er víst að aðrir höfundar hafi skrifað betur á þessari tíð. Þar er allt á mannamáli kláru og kvittu, og sumt undur fal- legt í mennskri hlýju. Og nú er Stefán Jónsson allur, þótt maður eigi bágt með að trúa því. Maðurinn var alltaf svo sprelllifandi og langt frá því að vera dauðans matur, líka síðustu mánuðina; lét eins og ekkert væri, haldinn ólækn- andi voða, rétt eins og það væri bara tímaspursmál hvenær hann hristi meinsemdina af sér. í vor lentum við í hrakningum í ferðalagi ofan úr Borgarfirði, um miðnæturskeið brast á fárviðri á Hvalfjarðarströnd með brunagaddi og blindbyl. Brátt varð ekki lengra komist og sá ekki út úr augum og urðum við að hýrast í bflnum fram eftir nóttu. Þar lék allt á reiðiskjálfi og munaði minnstu að rokið hrekti okkur út af veginum þá og þegar. Var samferðafólkinu mörgu hætt að standa á sama. En þarna varð Stefán hrókur alls fagn- aðar, kvað vísur og hermdi eftir ræðusnillingum á Alþingi, og snéri yfirvofandi slysförum upp í frábæra kvöldvöku. Um síðir komust allir heilir á húfi inn á Miðsand og þar bjargaði næturvaktin á olíustöðinni mannskapnum inn í hlýjuna. Kom þá í Ijós að björgunarsveitin var að- dáendahópur Stefáns og átti í hon- um hvert bein. Báru piltarnir fram nestispakka sína og kaffibrúsa og slógu upp veislu, en Stefán hélt áfram gleðskapnum og allir skemmtu sér konunglega. Á tréfætinum fyrrnefnda gekk Stef- án frá 18 ára aldri, og skal það nokk- urt þrek æskumanni að bera slík ör- kuml eins og ekkert sé. Vekti ein- hver máls á þessu, var tal Stefáns þar um allt í kaldranalegum hálf- kæringi. Það var hans fas. Og þó var þetta enginn hrúðurkarl, heldur manneskjan hlý og sönn og fín, og það var mikil heppni að eiga Stefán Jónsson að vini og fá að vera sam- starfsmaður hans mestan part æv- innar. Jón Múli Ámason.

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.