Tíminn - 02.03.1991, Page 8

Tíminn - 02.03.1991, Page 8
8 Tíminn Laugardagur 2. mars 1991 Sigmundur Guðbjarnason, rektor Háskóla íslands: mun leysast upp Um síðustu helgi útskrifaði Sigmundur Guðbjarnason háskólarektor háskólastúd- enta í næst síðasta sinn, en hann hefur ver- ið rektor í taeplega sex ár og mun láta af því embætti í haust. Sigmundur hefur verið óhræddur við að segja álit sitt á ýmsum málum í sinni rektorstíð. Ræður, sem hann hefur flutt við útskrift háskólastúdenta, hafa vakið athygli og jafnvel verið umdeild- ar. Sigmundur ræðir hér við Tímann um gildi menntunar, kjarabaráttu háskóla- manna, innra starf Háskóla íslands, Evrópu- bandalagið og fleira. Góð almenn menntun skiptir þjóðir sífellt meira máli { ræðu, sem þú fluttir við útskrift háskóla- stúdenta um síðustu helgi, sagðir þú m.a. að góð almenn menntun væri forsenda framfara í þjóðfélaginu. Sumir segja að við eigum alltof marga menntamenn og við sé- um raunverulega að offjárfesta í menntun. Hverju svarar þú þessari röksemd? „Góð almenn menntun almennings er ein af forsendum þess að menn geti nýtt sér þá tækni og þekkingu sem hefur orðið til í heiminum. íslendingar hafa verið fljótir að tileinka sér tölvutækni vegna þess að þeir hafa góða almenna menntun. Okkar sjó- menn hafa verið mjög framarlega í því að nýta sér þau tæki sem þeim henta við veið- arnar. Þetta gætu þeir ekki nema af því að þeir hafa góða undirstöðumenntun. Svo eru aðrir sem þurfa að hafa meiri menntun til að geta nýtt sér tækni og vísindi í atvinnulíf- inu. Þar á ég við háskólamenntað fólk og aðra þá sem hafa tileinkað sér einhverja sér- fræðiþekkingu sem þeir nýta sér við hin ýmsu störf í þjóðfélaginu. Þá eru ónefndir þeir sem eru þjálfaðir til vísindastarfa og vinna við að afla nýrrar þekkingar með rannsóknum og þróun nýrra leiða við fram- leiðslu, þjónustu eða önnur störf. Þarna er ég að tala um fólk sem fer í meistaranám eða doktorsnám. Við þurfum á öllum þess- um einstaklingum að halda. Ég held að veruleikinn í dag og framtíðin sérstaklega muni byggja mikið á menntun, þekkingu og tækni. Við verðum að hafa það lið tiltækt hér á landi sem getur bæði flutt inn þessa tækni og einnig aflað þekkingar úr íslensku umhverfi sem við þurfum nauð- synlega á að halda. Þar á ég ekki síst við þekkingu á okkar auðlindum, jafnt til lands og sjávar. Við þurfum að rannsaka þær bet- ur. Þarna eru mörg verkefni óunnin." Ýmsar þjóðir hafa áhyggjur af menntastigi sínu Hvernig telur þú menntunarstig íslensku þjóðarinnar vera samanborið við nágranna- þjóðir okkar? „Einmitt um þessar mundir er töluverð umræða um þessa hluti í nágrannalöndum okkar. Ég hef tekið eftir því að Bandaríkja- menn hafa sérstakar áhyggjur af mennta- stigi sinnar þjóðar og telja að það sé vá fyrir dyrum. Þeir eru samt með einhverja bestu háskóla í heimi. En þetta snýst ekki bara um háskólana heldur einnig framhaldsskólana og grunnskólana. Þetta er allt samtvinnað. Grunnurinn þarf að vera traustur til þess að það sem á grunninum er byggt verði líka traust. Bandaríkjamenn hafa sérstakar áhyggjur af framhaldsskólastiginu. Ég held að menntastig íslensku þjóðarinn- ar sé viðunandi og jafnvel gott á sumum sviðum, en við verðum að gera okkur grein fyrir því að kröfurnar vaxa alls staðar. Við verðum að vera vakandi fyrir því að við ger- um svipaðar kröfur og aðrir.“ Að njóta menntunar Má ekki líta á menntun að einhverju leyti sem neyslu? „Jú, auðvitað er menntun jafnframt þess eðlis að menn geta notið hennar án þess að nýta hana. Mér hefur fundist mjög skemmtilegt og uppörvandi að sjá hvað fólk sækir mikið alls konar námskeið, bæði í há- skólanum og utan, til að afla sér menntunar eða færni til að gera hina ýmsu hluti. ís- lendingar eru ákaflega iðjusamir og í raun hafa þeir verið fróðleiksfúsir. Það má m.a. sjá á endurmenntunarstarfi í Háskólanum hvað það er mikil aðsókn að svokölluðum menningarnámskeiðum, en þau sækir fólk til þess að fá að njóta þeirrar menntunar sem þar er boðið upp á. Það er vert að gefa því gaum að núna fjölgar þeim sem njóta góðrar heilsu á efri árum og þetta er gott tækifæri til að afla sér menntunar og þekk- ingar bara til að njóta hennar." Á seinni árum hefur færst í vöxt að heilar stéttir krefjist þess að þeirra menntun fari fram á háskólastigi. Ég get nefnt fóstrur og nú er farið að kenna fjölmiðlun í háskólan- um. Er þetta ekki bara hluti af kjarabaráttu? „Það er það vafalítið öðrum þræði, en hins vegar eru kröfurnar um þekkingu og færni að vaxa. Það er ákaflega mikilvægt að þeir sem starfa í fjölmiðlum séu vel heima á ein- hverju tilteknu sviði. Það mun skapast hér eins og hefur gerst erlendis að fjölmiðla- menn sérhæfa sig á tilteknum sviðum. Þannig að þeir séu betur í stakk búnir til að vega og meta upplýsingar sem að þeim ber- ast, því að þeir verða að geta lesið í sundur það sem máli skiptir. Á þessu sviði vex sú þekking sem þeir eiga að vinna úr og kröf- urnar til þeirra vaxa að sama skapi.“ Launakjör háskólakennara fæla hæfa menn frá háskólanum Kjarabarátta háskólamanna hefur verið nokkuð áberandi á seinni árum og nú síðast kjarabarátta stundakennara við háskólann. Hvernig horfir þessi barátta við háskólan- um? „Þetta er og mun verða vaxandi vandamál hér í háskólanum, vegna þess að launakjör- in eru núna slfk að við eigum oft í erfiðleik- um með að fá kennara til að taka að sér kennarastöður. Það hefur komið fyrir að kennarar hafa sótt um stöður og fengið þær, en þegar þeir hafa áttað sig á hvað launin eru lág hafa þeir hætt við. Við erum með lausar kennarastöður á ýmsum stöðum sem við eigum erfitt með að fylla, vegna þess að launakjörin eru svo lág. Þetta er oft sérstak- lega mikið áfall fyrir fólk sem er að koma að utan þar sem það hefur verið í framhalds- námi og störfum. Það kemur hingað heim og kemst að því að launin eru kannski þriðj- ungur af því sem það hafði. Ég þekki þetta sjálfur. Þegar ég kom heim eftir meira en tíu ára starfsferil erlendis, fékk ég fjórðung af þeim launum sem ég hafði. Þetta var mjög erfiður tími meðan maður var að aðlagast þessum bágu kjörum. Staðreyndin er ein- faldlega sú að menn sætta sig ekki lengur við svona bág kjör. Þó að háskólakennarar hafi ekki farið í verkfall með BHMR á síðasta ári, var það ekki vegna þess að þeir hafi ekki fulla samúð og skilning á þeirra baráttu. Kjörin eru jafn- lág hjá okkur og þeim. Við lítum svo á að okkar skyldur séu fyrst og fremst við okkar nemendur. í háskólanum eru fimm þúsund nemendur. Þó að það sé hægt með verkfalli og öðrum aðgerðum að valda verulegri röskun hér, höfum við kosið að gera það ekki, í þeirri von að við getum náð einhverj- um árangri eftir öðrum leiðum. Það er mjög slæmt að heyja kjarabaráttu þegar fórnar- lambið verður þriðji aðili sem engum vörn- um fær við komið, í þessu tilfelli er það nemandinn. Það er ólíkt því að heyja kjarab- aráttu þar sem þú átt bein viðskipti við þinn vinnuveitanda. Þar eigast þeir einir við, launþeginn og vinnuveitandinn. Verkfalls- vopnið hefur í gegnum tíðina verið nauð- synlegt, en því er mjög vandbeitt. Við höfum kosið að beita því ekki, vegna þess að skjól- stæðingar okkar geta á engan hátt komið vörnum við eða leyst þennan vanda." Telur þú hættu á því að bág kjör háskóla- kennara komi niður á gæðum kennslunnar? „Þau hafa ekki gert það til þessa, en fyrr eða síðar sýður upp úr hjá okkur eins og öðrum. Menn munu ekki una þessum kjör- um mjög lengi. Það nær ekki nokkurri átt að menn skuli hafa aðeins 100 þúsund á mánuði eftir margra ára nám og framhalds- nám erlendis." Fylgifiskur þessarar kjarabaráttu hefur verið viss andúð á menntun og mennta- mönnum hjá ákveðnum hluta þjóðarinnar. Er slík togstreita ekki mjög óæskileg? „Hún er mjög óæskileg. Ég tel að þessi tíðu verkföll, sem kennarastéttin hefur verið til- neydd til að fara í, hafi gert mikinn skaða. Þau hafa valdið tjóni í kennarastéttinni og raunar tel ég að þau hafi átt stóran þátt í að draga úr sjálfsvirðingu kennara. Kjarabar- áttan hefur einnig skapað andúð þeirra sem verða þolendur, það eru nemendur og for- eldrar þeirra. Ég hef orðið var við hvaða áhrif þetta hefur haft á mín börn. Það er mjög hættulegt að fara í slík verkföll ár eftir ár og þau hafa leitt til andúðar á þessum hópi sem hefur þennan samnefnara, en auð- vitað er þetta mjög sundurleitur hópur manna." Miklar breytingar hafa orð- ið á innra starfí háskólans Hvernig finnst þér stjórnvöld búa að há- skólanum? „Háskólinn hefur í gegnum tíðina átt á brattann að sækja. Það hafa komið tímabil þar sem stjórnvöld hafa gert sér grein fyrir mikilvægi háskólans og þess að hann þróist í takt við tímann og þarfir þjóðfélagsins. Það er eðli háskóla að líta fram á veginn og hugsa til lengri tíma heldur en stjórnmála- mönnum er tamt að gera. Við erum að hugsa áratug fram á veginn og gott betur, en þeir eru að glíma við vandann í dag. Há- skólinn hefur barist fyrir auknu sjálfræði og sjálfstæði. Okkur hefur orðið töluvert ágengt í þeim efnum. Við höfum í reynd lagt mjög mikla orku í að bæta okkar innra starf á undanförnum árum. Þar hafa orðið veru- legar breytingar sem menn hafa lítið orðið varir við utan veggja háskólans. Sú viðleitni nær til rannsóknarstarfseminnar, kennsl- unnar, félagslegra samskipta innan háskól- ans, þjónustu við stúdenta og víðar. Þessi viðleitni hefur skilað töluverðum árangri. Ég mun gera betur grein fyrir þeim í haust, þegar ég legg fram skýrslu mína og um leið starfsnefnda háskólans. Við höfum bætt stjórnsýsluna hér til að veita betri þjónustu innan háskólans og ut- an. Við höfum fengið miklu fleiri háskóla- kennara til að taka þátt í hinum ýmsu stjórnunarstörfum. Við höfum skipað starfsnefndir sem hefur verið falið að sjá um að framkvæma ýmis mál. Við erum t.d. með vísindanefnd sem er með rannsóknarsjóð undir höndum. í þann sjóð sækja háskóla- kennarar á samkeppnisgrundvelli. Þeir keppa um takmarkað fé og bestu verkefnin fá styrk, þannig að menn verða að ná ár- angri í starfi. Þetta knýr menn til miklu markvissari starfa. Menn koma einnig ár- angrinum skjótar frá sér í greinum sem birtast hér heima og erlendis. Á sama hátt hefur kennslan orðið hnitmið- aðri að einhverju leyti. Við höfum fengið nemendur til að meta gæði námskeiða. Við höfum sett upp námskeið fyrir kennara, svo að þeir geti kynnst því sem er nýjast í kennslutækni og öðru þess háttar. Við höf- um sent öllum kennurum handbók fyrir há- skólakennara. Við höfum sett upp kennslu- málasjóð til að styrkja nýmæli í kennslu og svona mætti áfram telja. Þetta hefur skapað meira aðhald í kennslu og rannsóknum. Við höfum einnig lagt okkur fram um að koma þeirri þekkingu sem við höfum aflað út í þjóðfélagið í hendurnar á þeim sem gætu haft gagn af henni. Okkur hefur orðið eitt- hvað ágengt við að koma á auknum tengsl- um háskólans og atvinnulífsins og ég spái því að þessi samskipti eigi eftir að aukast á næstu árum á ýmsum sviðum." Spái því að EB eigi eftir að liðast í sundur Þú hefur vakið athygli fyrir að segja af- dráttarlaust skoðun þína á ýmsum málum sem hafa borið hátt í pólitískri umræðu. Þú hefur m.a. varað við því að við göngum í Evrópubandalagið. Telur þú að aukin evr- ópsk samvinna sé okkur hættuleg? „Nei, við eigum mikil samskipti við önnur Evrópulönd og ég held að aukin alþjóðleg samvinna sé okkur mjög mikilvæg. Hún hefur alltaf verið að aukast. Háskólinn hef- ur verið að auka sína samvinnu við háskóla í V-Evrópu og N-Ameríku. Það hefur einn- ig verið leitað eftir samvinnu við okkur frá Japan. Við munum væntanlega einnig auka samskiptin við háskóla í A-Evrópu á næstu árum. Háskólar eru alþjóðlegir í eðli sínu. Milli háskóla ríkir nauðsynleg samkeppni og samvinna. Allur þorri okkar háskóla- kennara er í tengslum við kollega í öðrum háskólum. Það sem ég hef varað við er að við göng- um inn í EB án þess að við áttum okkur á því hvað það gæti haft í för með sér. Um- ræðan hér á landi var þannig að það þótti að sumra áliti sjálfsagður hlutur að ganga inn í EB, því fyrr því betra. Mér finnst að það hafi verið mikil deyfð í atvinnuþróun hér á landi um nokkurn tíma. Framtaks- semi manna hefur minnkað verulega. Sumir virðast hreinlega bíða eftir að við göngum í EB og telja að þá muni allt batna, þá muni koma hingað fyrirtæki með fjármagn og bjarga okkar málum. Ég held að það muni ekki gerast með þeim hætti. EB er sjálft að mótast. Það er að breytast. Við vitum raunverulega ekkert hvernig það mun líta út eftir fimm eða tíu ár þegar löndin í A-Evrópu hafa gengið inn í það. Ég hef grun um að þetta bandalag muni, eins og öll hin fyrri, liðast í sundur eftir ein- hverja áratugi. Þá verðum við að huga að því, hvar við ætlum að vera stödd. Auðvitað eigum við að vinna með EB. Við eigum að hafa viðskipti við bandalagið. Við eigum góð samskipti við það í dag. En við eigum að leyfa því að þróast og meta það svo síðar hvað okkur sjálfum hentar. Við erum það fámenn þjóð að það er tiltölulega einfalt fyrir þessi fjölþjóðafyrirtæki, sem ég hef verið að fylgjast með, að ná hér öllum þeim áhrifum sem þau kjósa. Það tel ég að henti ekki okkar hagsmunum." Gera verður greinarmun á væntingum og veruleika Telur þú að umræða um þetta mál hér á landi hafi ekki verið skynsamleg? „Jú, auðvitað hafa menn skipst á skoðun- um og það er nauðsynlegt. Það er eðli okk- ar lýðræðisþjóðfélags að menn vegi og meti ólík sjónarmið, en þá verða þessi ólíku sjónarmið Iíka að koma fram. Mikið af því sem menn hafa verið að ræða eru bara tiigátur og hugmyndir, vonir og vænt- ingar. Menn verða að gera sér grein fyrir hvað eru tilgátur og hvað er veruleiki. Mér hefur fundist að menn haldi þessu ekki að- skildu þegar þessi mál hafa verið rædd. Við þurfum að skapa okkur miklu skýrari mynd af því sem við stefnum að. Það á ekki að vera neitt óljóst í þeim efnum. Við verð- um að vega og meta ávinninginn og ann- markana. Tíminn skiptir einnig miklu máli þegar um örlagaríkar ákvarðanir er að ræða. Ég tel að við eigum ekki að rasa um ráð fram. Við eigum að bíða og sjá hvernig þetta bandalag þróast. Það kann vel að vera að í framtíðinni henti það okkur, en ég get ekki séð að það verði hérna megin við alda- mótin." Að lokum: Hvað ætlar þú að taka þér fyrir hendur þegar þú hættir sem rektor í haust? „Ég fer í rannsóknaleyfi í haust til Kaup- mannahafnar. Ætla ég að snúa mér að rannsóknastörfum. Mér finnast rannsóknir afar spennandi og heillandi starfsvettvang- ur. Ég hef á mínum starfsferli sinnt bæði grunnrannsóknum og hagnýtum rann- sóknum. Ég minntist áðan á deyfð í at- vinnumálum og þykist sjá þar ýmsa mögu- leika sem ég vil sjá verða að veruleika." Egill Ólafsson

x

Tíminn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.