Tíminn - 21.03.1992, Blaðsíða 4

Tíminn - 21.03.1992, Blaðsíða 4
4 Tíminn Laugardagur 21. mars 1992 Tíminn MÁLSVARI FRJÁLSLYNDIS, SAMVIHNU OG FÉLAGSHYGGJU Útgefandi: Tíminn hf. Framkvæmdastjóri: Hrólfur Ölvisson Ritstjóri: Jón Kristjánsson ábm. Aðstoðarritstjóri: Oddur Ólafsson Fréttastjórar: Birgir Guðmundsson Stefán Ásgrímsson Auglýsingastjóri: Steingrímur Gíslason Skrifstofur: Lynghálsi 9, 110 Reykjavík Sími: 686300. Auglýsingasími: 680001. Kvöldsímar: Áskrift og dreifing 686300, ritstjórn, fréttastjórar 686306, íþróttir 686332, tæknideild 686387. Setning og umbrot: Tæknideild Tfmans. Prentun: Oddi hf. Mánaðaráskrift kr. 1200,- , verð I lausasölu kr. 110,- Grunnverð auglýsinga kr. 725,- pr. dálksentimetri Póstfax: 68-76-91 „Fréttir um aukið atvinnuleysi í janúar koma þeim vel“ Vísbending heitir vikurit um efnahagsmál, sem gef- ið er út af Kaupþingi h/f sem er eitt af verðbréfafyrir- tækjum landsmanna. Þann 20. febrúar síðastliðinn er fjallað í ritinu um atvinnuleysi. Greinin hefst á þessum orðum: „Fréttir um mikið atvinnuleysi í janúar koma þeim vel sem vilja að gerðir verði kjarasamningar um íitlar eða engar kjarabætur. Um 3,2% vinnuafls reynd- ust atvinnulaus og það er hærra hlutfall en áður hefur mælst hér á landi.“ Greinin endar á þessum orðum: ,Aukist atvinnuleysi ekki mikið frá því sem verið hefur undanfarin ár virðist því ekki vera ástæða til þess að gera sérstakar ráðstafanir til að draga úr því.“ Þessi grein vekur sérstaka athygli vegna þess að þarna er grímulaust predikað að atvinnuleysi eigi að nota sem hagstjórnartæki. Öll umframeftirspurn eftir vinnuafli leiði til verðbólgu, og besta ráðið í barátt- unni við hana sé að fólk þurfi að biðja um vinnu á hnjánum. Samningar um kaup og kjör á vinnumarkaði standa yfir, eins og vitnað er til í umræddri grein. Það vekur athygli í þeirri samningagerð, að ýmis afskipti ríkis- valdsins hafa tafið hana. Hótanir ganga um réttinda- skerðingu og alls konar skipulagsbreytingar, sem verða til þess að fólk missir atvinnu sína. Að rétta af slík mál eru orðin aðalatriði í kjarasamningunum. Ríkisvaldið hefur gengið fram í þessum hótunum. Það samráð ríkisvalds og aðila vinnumarkaðarins, sem leiddi til þjóðarsáttarinnar og þeirrar lágu verðbólgu sem við búum nú við, hefur sáralítið verið fyrr en nú að verið er að klóra í bakkann, þegar samningar hafa verið lausir í marga mánuði. Þögn stjórnvalda um atvinnuástandið er algjör. Er ríkisstjórnin sammála verðbréfasölunum sem skrifa í Vísbendingu? Eru þeir þeirrar skoðunar í raun, að atvinnuleysi eigi að nota sem hagstjórnartæki? Forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa unnið að því hörðum höndum síðan í maí í fyrravor að byggja upp í þjóðfélaginu svartsýni á framtíðina. Kenningar um blessun fjöldagjaldþrota og spár um hinar verstu hrak- farir fyrirtækja, sérstaklega í sjávarútvegi, kannast fólk mætavel víð úr efnahagsmálaumræðu síðustu mán- aða. Sérhver viðleitni til atvinnuuppbyggingar er gerð tortryggileg, og sérhver mistök fortíðarinnar eru blás- in út þeim til viðvörunar, sem gætu verið svo bjartsýn- ir að ætla að ráðast í uppbyggingu nýrra fyrirtækja. Af- leiðingin er sú mesta samdráttarstefna sem hér hefur átt sér stað um árabil. Samningar um kaup og kjör eiga sér ekki stað nú í kjölfar samvinnu og samráðs ríkisvalds, verklýðsfélaga og vinnuveitenda, heldur í andrúmslofti kvíða fyrir framtíðinni og afkomunni, sem búið er skipulega að ýta undir svo mánuðum skiptir. Er ekki mál að linni? Er ekki kominn tími til þess fyrir ríkisstjórnina að ýta undir örlitla bjartsýni í þjóðfélaginu? Samdráttarstefn- an ber dauðann í sér og drepur það einstaklingsfram- tak sem er lofað svo mjög á hátíðarstundum. Atli Magnússon: Að lesa sig til heilsu Nú tala menn enn einu sinni um bókmenntafræði, eftir að Þorsteinn Antonsson rithöf- undur sendi Morgunblaðinu langa grein vestan af ísafirði. „Víst skiptir þú máli“ heitir hún og þar er borið víða niður um andrúmsloft í menningarmál- um á íslandi. Þetta er ein mæt grein hjá Þorsteini og það er hún ekki vegna þess að þarna sé það loks komið sem sumir endilega vildu heyra, heldur vegna þess að hann drepur á eitt og annað sem loks ætti að vera þess virði að hefja orða- skipti um það. Það er mikið tal- að um þessi efni og margt af skynsemi það sem það nær. En það á við um meginið af því að litlu skiptir hvort það nokkru sinni var talað eða skrifað eða ekki. Það er á flögri einhvers staðar í útköntunum — „og loks er eins og ekkert hafi gerst“. í þokunni Grein Þorsteins er þess háttar að hún er ekki endilega auð- melt eða skjótlesin. Hún skyldi þó ekki vera af því tagi sem bók- menntafræðin kallar „stríðan lestur"? Spyr sá sem ekki veit, en Vésteinn Ólason háskóla- kennari, sem verður til að svara greininni í Morgunblaðinu á fimmtudag, gefur henni þá ein- kunn að hún sé „þokubakki". Þokubakki er sjálfsagt ekki við- urkennt hugtak í bókmennta- fræði, en „margt býr í þokunni" og þeirri speki tröllsins í þjóð- sögunni ættu bókmenntafræð- ingar að réttu lagi að taka fagn- andi, því margir liggja bók- menntafræðinni á hálsi fyrir að hún sé einmitt svo mikill þoku- bakki. En annars er engin ástæða til að fara með flím um bók- menntafræði og ástæðan til þess að margir virðast hafa horn í síðu hennar kann að vera dulin afbrýðisemi margra yfir að hafa ekki vald né skilning á flóknum hugtökum hennar, og finnst þeir verða að sitja sem þussar úti í horni „meðan full- orðið fólk talar". Skáldum þykir víst líka mörgum að þau eigi að hafa einkarétt á galdrabrögðum listar sinnar og bregðast ókvæða við þegar akademikerar rísa upp og benda á að þetta hafi allt verið fundið upp fyrir löngu og að í handbókunum heiti það þetta eða hitt. Það verður eins og áhorfandi rísi upp í sal hjá sjónhverfingamanni og fletti ofan af öllum brellunum, opin- beri trúðlætin. Auðvitað er slíkt miður vinsælt og skáld taka að skamma bókmenntafræðinga og úr verða deilur um hvort skáldunum beri að flaðra upp um bókmenntafræðingana eða bókmenntafræðingunum upp um skáldin. Hvorir eiga að vera þjónar hinna? Þessi er helsta ástæða algengrar fýlu út í bók- menntafræðinga. Að lesa sig til heilsu En menn gá þess ekki að það er fullt eins skáldunum að kenna þegar bókmenntafræð- ingar og mas um bókmennta- fræði verður leiðigjarnt. Þau vilja nefnilega í æ ríkari mæli verða sjálf bókmenntafræðing- ar og þurfa ekki endilega að hafa próf upp á það. Þessu veld- ur örvænting, þegar mönnum finnst þeir engu koma saman af viti, eru kannske orðnir svo hræddir við að bókmennta- fræðin sjá í gegn um þá að blýt- anturinn dettur úr höndunum á þeim. Þetta er sambærilegt við fólk sem þjáist af alvarleg- um sjúkdómum. Það fer þá að lesa sér til um hin morknandi líffæri í læknisfræðiritum og veit að lokum heilmikið um „anatómíu" þeirra og „patóló- gíu“. Það les og les, eins og í veikri von um að þar finnist ráð handa því til að lækna sig sjálft. En sennilega læknast það ekki samt, og ef það læknast þá er það varla lestrinum að þakka. Þetta verður svo til þess að bókmenntafræðin fær allt of mikil sviðsljós, kannske miklu meiri en hún kærir sig um sjálf. Hún verður eins og aukaleikari í leikriti, sem verður að bera uppi einsamall hverja sýning- una á fætur annarri, því aðal- leikarinn er alltaf eitthvað mið- ur sín eða forfallaður. Aðalatriði og aukaatriði En hér var minnst á aðfinnsl- ur Vésteins Ólasonar, sem finnst að Þorsteinn geri þeim „æviráðnu" í háskólanum rangt til, þegar hann er að fetta fingur út í aðferð þeirra og túlkun á samhenginu í íslenskum bók- menntum, sem hann segir þá slíta sundur eins og þegar læk- ur hverfur undir hraun. Það er miður að Vésteinn er svo hör- undsár fyrir hönd þeirra kenn- aranna í bókmenntafræðunum við háskólann að svar hans við grein Þorsteins Antonssonar minnir á andsvar skrifstofu- manns hjá Rafiðnaðarsamtök- unum eða öðru „battaríi" laun- þegahreyfingarinnar við árás á fagheiður þeirra. Þótt víst megi segja að Þorsteinn vegi að fag- heiðri kennaranna, þykir oss að Vésteinn dvelji um of við ein- mitt það atriði. Hann hefði að skaðlausu mátt reyna að þreifa ögn Iengur í kringum sig í „þokubakka" Þorsteins, sem hann kallar svo, fremur en að láta sem hann hafi ekki séð þar handaskil, eins og skilja má af orðum hans. Það er nú einu sinni aðalsmerki háskóla að hann á að vera „leitandi". En í háskólanum má vera að allri þoku sé löngu létt og menn spóki sig í sólskini þar sem allt blasir við svo klárt og augljóst. Hefði Vésteinn kosið að lesa grein Þorsteins Antonssonar með öðrum hætti en hann ger- ir, hefði honum orðið ljóst að höfundurinn er í sem skemmstu máli að sýna fram á að íslenskt bókmenntalíf er ekki við sem besta heilsu. Það er aðalatriði, einhverjar hnútur sem þar falla utan í ýmsar „stas- sjónir", svo sem háskólann og Tímann(!), eru aukaatriði. Ég er t.d. fús að gleðja Véstein með því að ég er ekki á því með Þor- steini að ódöngunin, sem þjak- ar bókmenntalíf í landinu, sé Háskóla íslands að kenna. Hvernig ætti hann að geta orð- ið því nein viðhressing sem máli skiptir, og að mínu viti er hann ekkert skyldugur til þess svo mörgum öðrum fremur. Ástandið er varla neinum klík- um að kenna heldur. Klíkur hafa ekki afgerandi áhrif nema þeim séu búin skilyrði til þess af aumingjalegu umhverfi. Grein Þorsteins Antonssonar hefur það sér til gildis að hún lýsir hvernig umhorfs er í um- hverfi sem er í vanda, er ráð- vana. Það er umhverfi lang- legusjúklinga, sem án afláts eru að telja hver öðrum trú um að þeim sé að skána meðan það gerist satt að segja lítið og ekk- ert.

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.