Réttur - 01.07.1982, Síða 25
Sýnist þér, að svona slœmar flíkur
sómi þessum hetjum Reykjavíkur?
Hví er á þeim hungursvipur slíkur?
— Hver og einn ég hélt að væri ríkur
höfundur að svona stórri borg.
III
Kaldir hjallar hrörna í ryki og fúa,
— hér er það sem stritsins ættir búa.
Byggt þær hafa í nýjum götum grúa
góðra húsa, — en ekki handa sér.
Haldnar skorti, gremju, gigt og lúa,
guð sinn eiga þær að finna hér.
Góðu húsin voru ætluð öðrum:
œðri stétt, sem rœndi lýðsins fjöðrum,
— þessum hreyknu höggormum og nöðrum
heims, sem Jesús Kristur barðist við.
Starfsins þjóð er ýtt að yztu jöðrum
eða í kjallarann — að skransins hlið.
Þetta eru þeirra laun, sem byggja,
— þannig borgar auðsins kalda hyggja.
Dagsins yndi er kannski kolabryggja,
kveldsins gleði máski náföl börn.
Höfuð sljó á hálmi um nætur liggja,
— hvergi brjóstin finna neina vörn.
Þegar ekki þarf að byggja fleira
þeim til geðs, sem lifa á fólksins dreyra,
dáðfús höndin dóm sinn fær að heyra,
— drottinvaldsins hœsta flærðarstig:
Þetta er gott, — við þurfum ekki meira.
Þú mátt, vinur, fara og hvíla þig.