Lesbók Morgunblaðsins - 21.01.2006, Side 5

Lesbók Morgunblaðsins - 21.01.2006, Side 5
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 21. janúar 2006 | 5 irtæki sín og verslanir. Það ber aðeins minna á þeim innan um öll erlendu heitin. Hugsanlega er það tískuorðið ,,útrás“ sem gerir það að verkum að valin eru erlend heiti, að ég tali nú ekki um að hengja aftan á nafnið ,,punktur group“. En erlendu áhrifin koma víðar fram. Fyr- irtæki eitt valdi enskt heiti á nýja vöru og rökstuddi það með því að nafnið ætti að höfða til ungs fólks. Hefur nokkur spurt ungt fólk að því hvort það vilji heldur drekka skyrdrykk með ensku heiti en ís- lensku? Á degi íslenskrar tungu fékk Blóð- bankinn fyrstu viðurkenningu Íslenskrar málnefndar fyrir góðan auglýsingartexta eða gott slagorð. Hann fékk það fyrir slag- orðið Ert þú gæðablóð? Nýlega birtust í fjölmiðlum viðbrögð sjónvarpsstöðvar við athugasemdum Ís- lenskrar málnefndar um heitið á þættinum Bachelorinn. Þátturinn var mikið auglýstur, m.a. með stórri auglýsingu aftan á stræt- isvögnum borgarinnar. Ekki vildi stöðin breyta heitinu og ein ástæða þess var sú að það hefði verið keypt með pakkanum frá Ameríku! Þetta minnir mig á að í yfirliti yf- ir efni sjónvarpsstöðvanna í dagblöðum má sjá að Ríkissjónvarpið þýðir titla á erlend- um þáttum, ef ekki er um mannanöfn að ræða eins og Frasier eða Hope og Faith, Stöð 2 birtir erlenda heiti þáttarins en er oftast með íslenska þýðingu í sviga fyrir aftan og Skjár 1 birtir aðeins erlenda heitið. Æ sjaldnar sést íslensk þýðing á heiti kvik- mynda sem þó þótti sjálfsögð ekki fyrir svo löngu. Þótt margt sé vel gert í rekstri fyr- irtækja og stofnana virðist sem forsvars- mönnum þeirra sé ekki ávallt ljóst að þeir geta með lítilli fyrirhöfn hjálpað til við efl- ingu íslenskrar tungu án þess að það skaði fyrirtækið á nokkurn hátt. Átak á Norðurlöndum Á undanförnum árum hefur málstefna verið ofarlega á dagskrá norrænu málnefndanna. Norðurlandaþjóðir hafa í vaxandi mæli áhyggjur af þjóðtungum sínum í aukinni samkeppni við ensku. Íslensk málnefnd tók þátt í þessum umræðum og kynnti þær hér- lendis. Hún boðaði til sérstaks alþjóðlegs þings um málstefnu og gaf í kjölfarið út rit- ið Málstefna 2004. Málstefna var einnig við- fangsefni á einu af árlegum málrækt- arþingum málnefndarinnar. Norrænu málnefndirnar hafa hver af annarri safnað saman efni sem taka þurfi á í opinberri málstefnu og hafa þar í huga m.a. vaxandi áhrif ensku víða í þjóðfélögunum, norrænar tungur sem annað mál íbúa á Norð- urlöndum og kennslu á háskólastigi. Svíar riðu fyrstir á vaðið með samantekt sína Mål i mun og gáfu síðar út bæklinginn Bästa språket. Danir fylgdu á eftir með bækling- inn Sprog på spil. Stjórnvöld beggja landa hafa rætt tillögurnar og gert drög að op- inberri málstefnu. Finnlandssænska mál- nefndin tók saman rækilegt rit um stöðu sænskunnar í Finnlandi, Tänk om …, og ný- lega gaf norska málnefndin út ritið Norsk i hundre! með tillögum um aðgerðir. Allar þessar greinargerðir eru aðgengilegar á netinu. Færeyska menntamálaráðið hefur nýlega sett á laggirnar nefnd sem gera á tillögur um færeyska málstefnu og Græn- lendingar eru langt komnir með að vinna að sinni. Málnotkun í háskólum Á allra síðustu misserum hefur það verið ofarlega í umræðunni meðal nágrannaþjóða á Norðurlöndum hversu mjög enskan sækir að í háskólakennslu og er vikið að þessu í fyrrgreindum skýrslum. Sumir háskólar hafa leitað leiða til að móðurmálið verði ríkjandi mál innan skólanna án þess þó að koma í veg fyrir kennslu á ensku þar sem hennar er þörf. Þeir vilja að rækt verði lögð við móðurmálið, að orðaforði á móðurmálinu verði efldur og að nemendur vandi fram- setningu í ræðu og riti þegar námskeið fari fram á móðurmáli. Aðrir hafa tekið ensk- unni fagnandi og boðað að framvegis fari öll kennsla fram á ensku, jafnvel breytt nafni skólans yfir á ensku. Erfitt virðist að fylgja þeirri stefnu að móðurmálið verði ríkjandi á sem flestum sviðum kennslunnar. Raddir þeirra sem telja ensku mál málanna eru svo háværar nú um stundir að hinir, sem hugsa á öðrum nótum, draga sig annaðhvort í hlé til að vera ekki álitnir heimóttarlegir, eða fylgja hinum gegn raunverulegum vilja sín- um í þeirri von að þeir sýnist opnir fyrir umheiminum. Háskóli Íslands setti sér málstefnu fyrir fáeinum misserum. Hún er þessi: ,,Háskóli Íslands er íslensk vísinda- og menntastofn- un og hluti af hinu alþjóðlega fræða- samfélagi. Málstefna Háskólans tekur mið af þessu tvíþætta hlutverki hans. Mál- stefnan hefur að leiðarljósi að talmál og rit- mál Háskólans er íslenska, jafnt í kennslu, rannsóknum sem stjórnsýslu. Þetta felur m.a. í sér að kennsla og próf til fyrstu há- skólagráðu fara að mestu fram á íslensku. Víkja má frá þessari meginreglu ef sérstök ástæða er til, svo sem við kennslu í erlend- um málum, ef kennari er erlendur eða kennsla er einnig ætluð útlendingum. Rann- sóknum og framhaldsnámi fylgja erlend samskipti og fleiri mál en íslenska eru not- uð í því starfi, einkum enska. Meg- inkennslumál í framhaldsnámi er þó ís- lenska, eftir því sem við verður komið. Háskólinn vill stuðla að því að gera kenn- urum, sérfræðingum og nemendum kleift að tala og skrifa um öll vísindi á íslensku og gera þau jafnframt aðgengileg almenningi eins og kostur er. Málnotkun í Háskóla Ís- lands skal vera til fyrirmyndar.“ Það var stórt skref að stíga og alls ekki auðvelt að fá málstefnuna samþykkta. Það tókst og nú er mikilvægt að henni verði fylgt eftir. En hvers vegna er svo mikilvægt að há- skóli hafi sína málstefnu sem á að vera móðurmálinu styrkur og stoð? Er verið að hefta framfarir, þekkingu, stöðu manna í erlendu fræðasamfélagi? Því fer fjarri. Mik- ilvægt er að þeir sem ljúka námi úr háskóla getið tekið þátt í erlendu samstarfi ef þeir kjósa. Þá þurfa þeir að geta tjáð sig á er- lendu tungumáli sem alls ekki þarf endilega að vera enska. En þeir þurfa einnig að geta notað móðurmálið í samskiptum við starfs- bræður sína og -systur, kynnt fræði sín fyr- ir almenningi og notað móðurmálið við kennslu óbjagað. Eitt einkenni íslenskrar málræktar er nýyrðasmíð. Hún hefur gert mönnum kleift að ræða um flest svið mann- legra fræða á íslensku. Þann misskilning má oft sjá á prenti og heyra í tali manna að þeir sem aðhyllast nýyrðastefnu og um leið málrækt vilji ,,banna“ orð af erlendum upp- runa. Þeir vita í raun betur, eða ættu að gera það. Oft er sú leið farin að laga erlend orð að hljóð- og beygingarkerfi málsins sem og stafsetningu þannig að þau falli sem best að málkerfinu. Hin leiðin, að búa til ný orð yfir erlend hugtök, hefur reynst afar vel þótt ekki nái öll þau orð fótfestu í málinu sem mælt er með. Enn ein leið er að taka erlend orð þannig að láni að þau eru þýdd yfir á íslensku, t.d. loftpúði (e. airbag) og heimasíða (homepage) og er fjöldi slíkra orða í daglegum orðaforða fólks. Opinber íslensk málstefna Þótt mikilvægt sé að háskólar setji sér sína málstefnu, þar sem þeir senda frá sér fólk til starfa um allt þjóðfélagið, er það ekki nóg. Landið allt þarf að eiga sína mál- stefnu, ekki síður en nágrannaþjóðirnar, sem verndar tunguna á dögum hnattvæð- ingar og vaxandi erlendra áhrifa. Það nægir ekki lengur að segja: ,,íslenska er okkar mál.“ Við verðum að horfast í augu við það að lítið málsamfélag eins og okkar á erfitt uppdráttar þegar sótt er að úr öllum áttum jafnvel þótt við stöndum svo vel að vígi að hafa eina þjóðtungu. Opinber málstefna þarf að ná sem víðast um þjóðfélagið, inn í grunnskóla, framhaldsskóla, háskóla, op- inber fyrirtæki og fjölmiðla og hún þarf að vera samþykkt af menntamálaráðuneyti og Alþingi. Sé hún vel gerð mun hún einnig hafa sín áhrif á einkafyrirtæki og einka- rekna fjölmiðla. Málstefnu eiga ekki að fylgja boð og bönn. Hún á miklu fremur að vera hvatning til að gera sem best á sem flestum sviðum, byggja upp heilbrigt við- horf til tungumálsins þannig að það eflist og dafni um leið og Íslendingar taka í aukn- um mæli þátt í alþjóðlegri samvinnu hnatt- væðingarinnar.  Heimildir: Bästa språket (http://www.regeringen.se/content/1/c6/ 05/07/61/d32f62b5.pdf) Málstefna. Language planning. 2004. Ritstjórar Ari Páll Kristinsson og Gauti Kristmannsson. Rit Íslenskrar málnefndar 14. Ís- lensk málnefnd, Reykjavík. Mål i mun (http://www.regeringen.se/sb/d/108/a/1443) Norsk i hundre! (www.sprakrad.no/templates/ Page.aspx?id=7962). Sprog på spil (http://www.kum.dk/sw6576.asp) Tänk om … (www.kotus.fi/svenska/publikationer/ tank_om/handlingsprogram.shtml) Þór Vilhjálmsson. 2001. Réttarreglur um íslenska tungu. Líndæla. Sigurður Líndal sjötugur 2. júlí 2001. Bls. 645–663 . Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík. Höfundur er prófessor, forstöðumaður Orðabókar Háskólans og formaður Íslenskrar málnefndar (2002–2005). ’En erlendu áhrifin koma víðar fram. Fyrirtæki eittvaldi enskt heiti á nýja vöru og rökstuddi það með því að nafnið ætti að höfða til ungs fólks. Hefur nokkur spurt ungt fólk að því hvort það vilji heldur drekka skyr- drykk með ensku heiti en íslensku? ‘

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.