Lesbók Morgunblaðsins - 21.01.2006, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 21.01.2006, Blaðsíða 7
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 21. janúar 2006 | 7 H inn fyrsta september á þessu ári mun Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun taka til starfa ef frumvarp þess efnis verð- ur samþykkt á vorþinginu. Hún verður samsett úr fimm stofnunum innan Háskóla Íslands sem verða þá sameinaðar og síðar færðar undir eitt og sama þakið. Það eru; Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, Stofnun Sigurðar Nordal, Örnefna- stofnun Íslands, Íslensk málstöð og Orðabók Háskólans. Samkvæmt frumvarpi til laga um stofnunina er tilgangur sameiningarinnar að efla rannsóknarstarf og miðlun á sviði íslenskra fræða auk þess að efla fræðilega ráðgjöf til styrktar og eflingar íslenskri menningu. Þá er gert ráð fyr- ir að margvíslegt hagræði verði af því að sameina vissa þætti í starfsemi þessara stofnana, einkum á sviði stjórn- unar, tækni og þjónustu. Markmiðið er að til verði öflug háskólastofnun sem byggist á helstu undirstöðum íslenskr- ar menningar: tungumálinu og fornbókmenntunum. „Þessi sameining á sér töluverðan aðdraganda, haustið 1996 kemur bréf til Háskóla Íslands frá þáverandi menntamálaráðherra, Birni Bjarnasyni, þar sem óskað er eftir athugun á því að þessar íslenskustofnanir, sem tengj- ast háskólanum, vinni meira saman og jafnvel sameinist. Þá var gerð athugun á þessu og menn voru almennt á því að það væru ýmsir fletir á því að vinna meira saman en það væri ekki gagn að því að sameina stofnanirnar fyrr en þær væru komnar í eitt hús,“ segir Ari Páll Kristinsson, for- stöðumaður Íslenskrar málstöðvar. Byggja á nýtt hús undir stofnunina og eru áætlanir um að það verði viðbygging við Þjóðarbókhlöðuna. Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir samein- ingu í haust mun hin nýja stofnun ekki flytja undir eitt þak fyrr en eftir fimm ár ef allt gengur eftir. Ari Páll segist vera meðmæltur því að stofnanirnar fimm sameinist. „Innan þeirra fer nú fram margvísleg starfsemi, bæði rannsóknarstarfsemi og þjónustustarfsemi við al- menning. Það verður unnið að þessum þáttum í nýju stofn- uninni og rannsóknarstöðum verður fjölgað um tvær, þann- ig að þessi sameining verður til bóta. Við leggjum saman bókasöfn, rannsóknargögn og krafta okkar í staðinn fyrir að vera í fimm tiltölulega smáum einingum. Ég held að Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun verði öflugri en þær fimm sem fyrir eru.“ Í frumvarpinu er ekki lagt upp með að sameiningin sé sparnaðaraðgerð en Ari Páll segir heldur engin loforð vera, enn sem komið er, um aukna fjármuni til stofnunarinnar fyrir utan þessar tvær rannsóknarstöður sem bætast við og húsbygginguna. „Það er ekki ljóst hvort nýja stofnunin muni skiptast í deildir en deildaskiptingin kemur líklega af sjálfu sér eftir viðfangsefnum og af því að við verðum tvístruð um bæinn fyrstu fimm árin.“ Málpólitískt hlutverk skerpt Ari Páll segir þau hjá Íslenskri málstöð ekki vera hrædd um að áherslan á málrækt muni minnka við sameininguna. „Í raun og veru er ég alveg óhræddur við það vegna þess að málrækt nýtur mikils stuðnings hjá almenningi og ef stjórnvöld og stjórnendur stofnunarinnar hlusta á hann hef ég engar áhyggjur af því. Nýja stofnunin í heild vinnur að markmiðum um varðveislu íslenskrar tungu og ef hún verð- ur eins sterk og vonir standa til þá verður það í sjálfu sér til að styrkja íslenskuna,“ segir Ari Páll og bætir við að hann vonist til að þessi sameining verði til þess að íslensk málmenning eignist myndalegt forsvar í háskólasamfélag- inu og að íslensk fræði verði enn sýnilegri en áður. Hann segir eitt af ánægjulegustu nýmælunum í þessu frumvarpi að það er skerpt á málpólitísku hlutverki Ís- lenskrar málnefndar. „Í raun og veru mættu stjórnvöld ganga lengra í að auka hlut málpólitíkur í pólitískri um- ræðu. Tillögur um mótun málstefnu eru ekki einkamál mál- fræðinga og því vildi ég sjá ennþá fleiri koma að mál- pólitískri umræðu og ekki síst fulltrúa almannavaldsins. Það verður að huga að máláhrifum ýmissa aðgerða stjórn- valda, það kemur fyrir að menn eru með þrýsting um að þurfa ekki að þýða hitt og þetta í stjórnsýslunni á íslensku, s.s reglur um lyf, flug o.fl. Ef textar eiga að hafa gildi á Ís- landi óþýddir þá er verið að skerða umdæmi íslenskrar tungu og mér finnst að það mætti fara fram mat á mál- áhrifum þegar menn eru að taka slíkar ákvarðanir þ.e. að láta eitthvað óþýtt.“ Ari Páll segir að ef umræðan um stöðu íslenskrar tungu yrði opnari og það yrði tekið á henni eins og hverju öðru pólitísku viðfangsefni kæmi afstaðan til málsins betur upp á yfirborðið. Ekki afleit staða Ara Páli finnst staða íslenskrar tungu í dag ekki afleit. „Því verkefni lýkur aldrei að huga að stöðu tungunnar og gæta þess að ekki sé að henni vegið. Það eru svo hraðar breytingar í heiminum og við getum aldrei lagt þetta verk- efni til hliðar og sagt sigur hafa unnist. Umræðan þarf að vera nógu vakandi til að fólk átti sig á því að málið skiptir máli.“ Hann segir íslenskukennslu aldrei verða nægilega mikla og vill leggja áherslu á að allir kennarar séu ís- lenskukennarar. „Þá á ég við að það sé notuð góð íslenska í kennslubókunum, að kennarar í öllum greinum noti góða ís- lensku í kennslu sinni og að það séu notuð íslensk hugtök í öllum greinum. Meðan allir skólar hér kenna á íslensku er það náttúrulega heilmikil íslenskukennsla og stendur vörð um notkunarsvið tungunnar.“ Ari Páll telur það alvarlegt umhugsunarefni ef háskólar hér á landi fara að kenna á ensku. „Fyrir um ári mótaði Háskóli Íslands sér málstefnu. Þar er að minnsta kosti reynt að taka upplýsta ákvörðun um hvernig menn ætla að snúa sér í þessu. Í frumvarpinu um Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun er nefnt að fleiri háskólar en áður fái fulltrúa í Íslenskri málnefnd og það er framfaraskref.“ Árið 2001 gerði Ari Páll athugun um stöðu íslenskunnar í samnorrænni könnun þar sem verið var að kanna stöðu norrænu málanna á hinum og þessum sviðum þjóðlífsins. „Það hafa orðið svo miklar breytingar að þótt athugun mín árið 2001 hafi leitt í ljós að áhrif enskunnar í þjóðlífinu væru ekki mjög alvarlegt vandamál þá voru blikur á lofti og ég gæti trúað að ástandið sé kannski lakara núna.“ Ari Páll segir að lokum að það ætti að vera auðveldara fyrir Íslendinga en margar aðrar þjóðir að standa saman um meginmarkmiðin í málstefnunni því þeir eru langflestir með sama móðurmálið. Fjársvelt íslenskuskor Jón Axel Harðarson er formaður íslenskuskorar Háskóla Íslands. Íslenskuskor er stærsta skorin innan hugvísinda- deildar og býður upp á nokkrar námsbrautir í grunn- og framhaldsnámi. Jón segir nemendur innan íslenskuskorar nú vera um 425 og að aðsóknin í íslenskunám hafi fylgt al- mennri þróun við deildina. „Það hefur fjölgað í hugvísinda- deild almennt og hjá okkur hefur nemendum frekar fjölg- að.“ Jón segir svolítið hafa verið dregið úr valnámskeiðum fyrir nemendur en hins vegar séu námsbrautir nú fleiri en þær hafa áður verið. „Við fengum fyrirmæli, vegna gerðar kennsluáætlunar fyrir næsta skólaár, að draga úr öllu nám- skeiðavali eins og kostur er og bjóða einungis upp á það sem er alveg nauðsynlegt, það rýrir á vissan hátt gæði námsins.“ Hann segir að á undanförnum árum hafi verið stofnaðar nýjar og þverfaglegar námsbrautir sem megi helst ekki kosta neitt og séu til að draga að nemendur, en þær námsbrautir byggjast á því námsframboði sem fyrir er. „Ég held að Háskóli Íslands verði að leggja mikla rækt við íslenska menningu og ég sé ekki fyrir mér að það breytist í framtíðinni en spurningin er hvernig starfið verð- ur fjármagnað. Auðvitað er það krafa að nám í íslensku sé bæði fjölbreytt og gott og til þess verðum við að geta boðið upp á kennslu og stundað rannsóknir. Fjármagnið sem við höfum núna nægir ekki til að greiða launakostnað að fullu og því verður að breyta.“ Í námsgreininni íslensku hefur fastráðnum kennurum fækkað um þrjá síðan 1998. Sex bókmenntakennarar hafa látið af störfum en aðeins þrír verið ráðnir í staðinn. „Það er kannski ekki útlit fyrir að stöðunum fækki frekar en það er spurning hvenær við fáum að ráða í fleiri stöður,“ segir Jón og bætir við að fjárhagur hugvísindadeildar sé mjög þröngur og því séu nýir kennarar ekki ráðnir í stað þeirra sem hætta. „Við erum stærsta deildin en fáum minnst fjár- magn með hverjum nemanda.“ Spurður um hina fyrirhuguðu Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun segir Jón flesta líklega fagna því að Íslensk stjórnvöld ætli sér að styrkja og efla íslensk fræði. „Hins vegar er ekki gert ráð fyrir því að íslenskuskor fái aðstöðu í hinu nýja húsi sem byggt verður yfir stofnunina. Menn líta svo á að íslenskuskor Háskóla Íslands eigi að vera mið- stöð rannsókna í íslenskri málfræði og íslenskum bók- menntum í landinu og mörgum hefði þótt eðlilegt, sérstak- lega vegna samvinnu íslenskuskorar og þessara stofnana, að hún hefði fengið aðstöðu í húsinu. En samkvæmt fyrir- liggjandi áætlunum er ekki gert ráð fyrir því.“ Hingað til hefur verið samvinna milli þessara fimm stofn- ana, sem nú stendur til að sameina, og íslenskuskorar. „Starfsmenn þeirra hafa iðulega kennt við íslenskuskor og leiðbeint nemendum okkar og vonandi verður sú samvinna áfram eftir sameiningu. Hins vegar óttast sumir skora- menn að yfirvöld kunni að líta svo á að vegna þessarar samvinnu hafi íslenskuskor ekki þörf á að ráða í ýmis störf og benda því á að aukin samvinna við hina nýju stofnun megi ekki leiða til veikingar skorarinnar,“ segir Jón að lokum. Stofnun um íslensk fræði ’Samkvæmt frumvarpi til lagaum stofnunina er tilgangur sam- einingarinnar að efla rannsóknar- starf og miðlun á sviði íslenskra fræða auk þess að efla fræðilega ráðgjöf til styrktar og eflingar ís- lenskri menningu.‘ KRISTJÁN Árnason, prófessor í íslenskri málfræði, skrifaði grein í nýjasta hefti Ritsins þar sem hann fjallar um aukna fyr- irferð ensku í íslensku máli. Þar styðst hann við niðurstöður úr samnorrænni könnun sem gerð var með hjálp Gallup á Íslandi á viðbrögðum Íslendinga við spurn- ingum um ensk áhrif og málpólitík. Könn- unin var gerð sem hluti af stóru sam- norrænu rannsóknarverkefni og er meginviðfangsefni þess tökuorð og slettur í norrænum málum nútímans. „Það sem ég var fyrst og fremst að beina sjónum að í þessari grein var hvort afstaða Ís- lendinga til íslensku og ensku hefði hugs- anlega breyst. Það hefur alltaf verið sagt að tungumálið væri mikilvægast Íslend- ingum í sambandi við þeirra þjóðerni. Nú hefur því verið haldið fram að menn séu farnir að beina sinni þjóðernisvitund að náttúrunni frekar en málinu og finnst að til þess að vera góðir Íslendingar þurfi þeir að hafa hreina náttúru frekar en hreint mál,“ segir Kristján. „Það sem er ekki síð- ur spennandi að vita er hvaða afstöðu menn hafa til enskunnar og þá er spurning hvort enskan sé orðin verulegur hluti af ís- lenskum raunveruleika og hvort mönnum finnist enskan vera þeirra mál. Það kom t.d. fram að fólki finnst mikilvægt að ís- lenskir stjórnmálamenn séu góðir í ensku, það er hluti af ímynd nútíma Íslendingsins að vera góður enskumaður og mikill nátt- úruverndarsinni en kannski síður mál- verndarsinni.“ Kristján segir hin sterku tengsl á milli tekna og enskunotkunar einnig vera umhugsunarverð en þeir tekju- hærri nota meiri ensku en þeir tekjulægri. „Enskan virðist frekar vera lykill að góð- um lífskjörum heldur en íslenskan, því ef menn eru góðir í ensku fá þeir hærri laun og betri vinnu. Þeir sem hafa meiri mennt- un nota líka meiri ensku í vinnu, námi og til bóklesturs. Einnig er munur á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis en enska er minna notuð úti á landi en á höf- uðborgarsvæðinu.“ Tölvupóstur eða e-mail? Í könnuninni var spurt um hin ýmsu nýyrði og kom m.a. í ljós að 46,7% íslendinga sögðust nota orðið tölvupóstur en 42,6% orðið e-mail. „Þeir sem nota tölvur mikið sletta meira, eru ekki eins hreintungusinn- aðir og aðrir og þeir nota frekar enska orðið e-mail en íslenska orðið tölvupóstur. Það kom t.d fram í þessari könnun að þeir sem nota orðið tölvupóstur eru frekar eldra fólk og landsbyggðarfólk. Það verður alltaf þannig að þeir sem umgangast ensk- una meira smitast af henni. Könnunin sýnir líka víðtækan mun milli aldurshópa í notk- un á ensku en yngri kynslóðin notar meiri ensku en sú eldri,“ segir Kristján. Íslendingum þykir þó flestum of mikið af enskum orðum í íslenskunni auk þess sem flestir eru hlynntir því að gerð séu ný ís- lensk orð yfir ensk tökuorð. Fornsögur og nútíma íslenska Íslendingar nota ensku mest allra Norður- landaþjóða og segir Kristján það líklega vera vegna smæðarinnar. „Það er miklu meira kennsluefni á ensku í skólum hér á landi en annars staðar og er það líklega ein af ástæðunum.“ Kristján segir annað vandamál, sem tengist áhrifum enskunnar, vera tengslin við íslensku fornsögurnar. „Ég held að það yrði mikill skaði, og manni heyrist að hann sé að miklu leyti skeður, ef það þarf að þýða Íslendingasögurnar yfir á nútíma ís- lenskt mál. Ég segi stundum að ef svo er komið þá þurfi líka að þýða sögur 20. aldar rithöfunda, eins og Halldórs Laxness, yfir á nútíma íslensku því að ef það þarf að þýða Njálu þá er eins víst að það þurfi að þýða Gerplu og Íslandsklukkuna líka.“ Að sögn Kristjáns er viss krafa um að Íslendingar séu þrítyngdir, þ.e góðir í ensku, góðir í ís- lensku Halldórs Laxness og góðir í nútíma íslensku. Áhyggjur af enskum áhrifum Í greininni kemur fram að 73% aðspurðra Íslendinga voru því frekar eða algerlega ósammála að enskan yrði gerð að alheims- móðurmáli en 19% voru því frekar eða al- gerlega sammála. Kristján segir ensku- notkun í fræðum og menningu fara sífellt vaxandi og röksemdin fyrir því sé sú að nauðsynlegt sé að taka þátt í alþjóða vís- indum og þróun. Hann segir að niðurstöður könnunarinnar bendi ekki til þess að þess- ar raddir úr röðum menntamanna hafi hljómgrunn meðal almennings á Íslandi enn sem komið er. „Traustur meirihluti landsmanna fylgir hefðbundnum íslenskum málræktargildum og meirihluti manna hef- ur áhyggjur af enskum áhrifum á form málsins, en áhyggjur eru ekki góðar því þær þýða að eitthvað er að.“ Kristján er á því að það þurfi að efla ís- lenskukennslu í skólum og huga betur að því hvernig búið er að faginu frá grunn- skóla og upp í háskóla. Tengsl milli enskukunnáttu og lífskjara

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.