Lesbók Morgunblaðsins - 04.03.2006, Page 2
2 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 4. mars 2006
!
Vinkona mín pantaði hjá mér
pistil. Ég sagðist ekki vera til
sölu, en þá kom í ljós að hún
hugðist ekki greiða neitt hvort
sem var. Hana langaði bara svo
ofboðslega að ég skrifaði pistil
sem hvetti alla til að taka
strætó. Bíddu? Jú, það þyrfti að
upphugsa herferð sem gerði strætó nógu
sexí til þess að fólk tæki við sér, helst
skyldu menn selja bíla sína unnvörpum.
Þetta væri spurning upp á líf og dauða.
Ég yrði að skrifa svona pistil.
Þetta var sömu helgi og náttúrutón-
leikarnir miklu voru haldnir í Laugar-
dalshöll – í loftinu
þessi magnaða orka
sem myndast þegar
allir hugsa það sama
og vilja það sama.
Græn glóð í augum. Og einmitt þá höfðu
téð vinkona mín og stórvinkona hennar
setið í samtals átta tíma á huggulegu
veitingahúsi og magnað hvor aðra upp í
eldheitum umræðum um vernd and-
rúmslofts og náttúru, frá smæsta blómi
til hæstu fjalla. Hugsum hnattrænt, velj-
um lífrænt. Vinnum heima, verndum
geima. Öll slagorðin höfðu fengið á sig
kjöt og bein og þeim var virkilega alvara,
vinkonunum; það dugði ekki að hætta við
Kárahnjúkavirkjun, það þurfti líka að slá
á kosmískan útblástur flugvéla, reisa
skjaldborg um regnskóga, draga úr
einkabílisma, hreinsa loftið. Ég sá fyrir
mér leiðinlega fyrirsögn: Allir með
strætó. Eins og ég hefði heyrt hana áð-
ur.
Hins vegar var ég þeim hjartanlega
sammála, tók verkefnið alvarlega og mín
tillaga að herferð sem gerir strætó sexí
er þessi: Það verður að auglýsa almenn-
ingsvagna sem eitthvað annað en þeir
hafa hingað til verið í hugum fólks.
Henda hugtökum sem byrja á almenn-
ings- eða enda á -kerfi. Það verður að
höfða til ævintýrsins. Því legg ég til að
strætisvagnar verði í herferðinni kallaðir
loftbelgir, lestir eða annað sambærilega
framandi og spennandi. Og þá er þetta
bara orðið allt annað mál. Hægt er að
höfða til dulúðar og spennu; auk þess að
komast þægilega og ómþýtt milli staða
getur maður tekið strætó á villta staði,
lokað jafnvel augum og fyllst eftirvænt-
ingu yfir því hvar maður lendir. Enn
fremur má, miklu betur en úr eigin bif-
reið, njóta ferðaútsýnis – horfa niður á
amstur hversdagsins líkt og úr loftbelg –
standa jafnvel upp í vagninum, snúa sér
heilhring og ná djúpum tengslum við
sjóndeildarhringinn.
Svo má ekki gleyma félagsskapnum.
Það er ævintýri líkast hversu mörgum
má kynnast í strætó – að því gefnu að
hinir líti líka á ferðirnar sem ævintýri og
hætti að sitja alveg steinrunnir. Taka
skal upp til frambúðar þann sið að
hengja bækur í sætin, eins og gert er í
viku bókarinnar. Bókmenntir ættu að
vera staðalbúnaður í strætó. Í loftbelg.
Því stundum er veðrið kannski þannig að
útsýni skerðist, eða maður var að fá ný
lesgleraugu og langar endilega að prófa
þau á ferð.
Það á að vera hægt að gera allt í
strætó, nema slást. Kannski ætti fólk
jafnvel að eiga von á óvæntum glaðningi,
eplakössum, polaroid-myndatökum, fólki
sem spilar á harmónikku … Eitthvað
verður í öllu falli að gera. Segja vinkonur
mínar. Reykjavík er eina borgin í álfunni
þar sem jafn hrikalega fáir nota almenn-
ingssamgöngur, þetta er ekki hægt leng-
ur. Og fyrst þær gátu fengið mig til að
skrifa um strætó, jafnvel taka hann
stöku sinnum upp frá þessu, þá ætti að
vera hægt að róta í fleirum. Allir með
loftbelg. Óborganlegt útsýni. Ævintýri á
gönguför.
Um andstöðu við Kárahnjúkavirkjun
vísast til fyrri pistils, Orkan innan-
brjósts. Um bæði málefni gildir þetta:
Að rjúfa lífheild jarðarinnar er eins og
að kljúfa ávöxt, kannski líkt og Pablo
Neruda hugsar í ljóðinu Óður til sítrónu
(lauslega þýtt brot):
við opnum
tvær helftir
kraftaverks
Er einhver, t.d. gerandinn, þess megn-
ugur að græða slíkt sár saman aftur?
Eftir Sigurbjörgu
Þrastardóttur
sith@mbl.is
Allir með
loftbelg! Nú er það orðið ljóst. Fréttamafíanhefur náð völdum. Nú er þaðfréttin sem ræður Íslandi. Íslander orðið viðfang í viðstöðulausri
fréttaleit. Það er hundelt. Allt er frétt. Skil-
greiningin á frétt er orðin: það er frétt ef
það er sagt frá því.
Í gegnum tíðina hefur fréttadeildin verið
Mekka hvers fjölmiðils sem allir eiga að
snúa sér til þegar þeir biðja. Og ekki bara
aðrir starfsmenn fjölmiðlanna heldur einnig
almenningur og ráðamenn. Annað væri
frétt.
Nú hefur fréttamafían náð völdum. Gunn-
ar Smári Egilsson er
allsráðandi í 365, Páll
Magnússon í RÚV, Ás-
geir Sverrisson á
Blaðinu, Styrmir áfram
á Mogga. Heil útvarps-
rás af fréttatengdu talmáli var byrjunin á
365 og nú hefur sjónvarpsrásin bæst við,
NFS, sem frá morgni til kvölds flytur okkur
fréttir og skýringar á þeim. Dægurmála-
útvarp Rásar 2 hefur verið lagt niður, nýtt
Síðdegisútvarp stofnað undir yfirumsjón
Fréttadeildar Útvarps. Nú vaknar maður
ekki lengur til dagsins við fagra tóna á Rás
1 heldur dynur á manni kynbundið ofbeldi,
knattspyrna og annar hryllingur. Þú sleppur
ekki undan fréttinni. Samkeppnin um frétt-
irnar er mikil. Samkeppnin er þó enn sem
komið er aðeins um hver fyllir upp í flest
dagskrárgötin en ekki hver segir betri frétt-
ir eða leggur meira í fréttaleitina. Nú fyrst
þurfa menn að framleiða. Framleiða.
Hver er fréttin? spyrja menn og skiptir
þá engu hvers eðlis umfjöllunin er. Þjóðleik-
húsið verður að vera að frumsýna, Arnaldur
verður að vera að gefa út bók, einhver verð-
ur að missa hönd, Laxness verður að deyja –
aftur – ef það á komast að í fjölmiðlum (með
undantekningum þó sem helst heitir Rás 1
og stundum Mogginn). Hvað er plottið?
Hver er sensasjónin? Það verður einhver að
deyja. Það er kominn æsingur í alla umfjöll-
un. Og þá stendur helst hið fagra höllum
fæti. Það er svo lítill æsingur í því sem
skiptir máli í lífinu. Þetta er væmið, örugg-
lega, en ef maður borðar of mikið rusl verð-
ur líkaminn skítugur, veikur, ljótur. Hvað ef
maður les of mikið af rusli um rusl?
Reglulega eru fréttadeildirnar beðnar um
að fjalla meira um hið góða og fagra í lífinu,
það sé ýmislegt jákvætt sem hægt sé að
fjalla um. Um það má segja eftirfarandi:
fréttir hljóta sem betur fer að vera neikvæð-
ar, það er fjallað um það sem heyrir til tíð-
inda, það sem er frábrugðið því vanalega.
Spurningin er bara: þarf að segja svona
miklar fréttir? Hverju skilar það? Betra
samfélagi? Úps, það má ekki segja það.
Fréttir eru hlutlausar frásagnir af því sem
gerist og hafa þann eina tilgang að upplýsa.
Er það nóg? Af hverju er það nóg?
Fréttir eru sannleikur. Fréttir eru stað-
reyndir. Þær eru ekkert meira. Þær segja
frá hörmungum í fjarlægum löndum, hversu
margir dóu, hversu mikið tjón hefur orðið.
Sjaldnast mikið meira. Þess vegna má sam-
keppnin í ljósvakanum ekki snúast upp í
samkeppni um fjölda frétta þannig að leikið
efni og menning gleymist. Listin hefur það
nefnilega fram yfir fréttirnar að horfa á
manneskjur en ekki hagsmunaaðila.
Menn hafa velt því mjög fyrir sér hvað
varð til þess að allt í einu var hægt að skrifa
glæpasögur á íslensku. Ekki hefur morðum
fjölgað, að neinu ráði að minnsta kosti. Það
skyldi þó ekki vera allur fréttaflutningurinn
og ekki síður sá skortur á íslensku sjón-
varpsefni sem hefur þessi áhrif. Þegar stór
hópur Íslendinga lifir að stórum hluta í
sjónvarpstækinu sínu þar sem ríkir útlendur
veruleiki, veruleiki sápunnar og morðsins?
Vantar kannski íslenskan ófréttnæman
hversdag inn í tækin? Vitum við meira um
hversdagslíf Vina í Bandaríkjunum en vina í
Hafnarfirði (hér er vitnað í seríuna Fastir
liðir eins og venjulega – með talsverðri virð-
ingu).
Fréttamafían getur glaðst. Hún ætti þó
ekki að gleyma því að flestar fréttir líða hjá
og gleymast, fólk fer í sumarfrí og heyrir
ekki íslenskar fréttir í 15 daga, kemur heim
og skoðar minningargreinarnar og lífið held-
ur áfram eins og engin frétt hafi verið á
meðan það var í burtu.
Fréttin skrifar Ísland
Fjölmiðlar
Eftir Sigtrygg
Magnason
sigtryggur@islenska.is
’Fréttir eru sannleikur. Fréttir eru staðreyndir.Þær eru ekkert meira. Þær segja frá hörmungum
í fjarlægum löndum, hversu margir dóu, hversu
mikið tjón hefur orðið. Sjaldnast mikið meira.‘
I Það er sjálfsagt að bera í bakkafullanlækinn að nefna Silvíu Nótt svo mikið sem
fjallað hefur verið um hana í fjölmiðlum að
undanförnu. Bjarni Jónsson leikhúsfræð-
ingur skrifar athyglisverða grein í Lesbók í
dag þar sem hann spyr: „Er hægt að ætlast
til þess af áhorfendum, að þeir uppgötvi í
hverri leiksýningunni
eftir annarri haldbetri
sannleika en þann sem
þeir hafa þegar sett saman í huga sér eftir
lestur bóka, blaða og tímarita og eftir að
þeir hafa séð sjónvarp og kvikmyndir,
vafrað um á netinu og hlustað á útvarp?
Varla. (Það flækir málið enn frekar, að fjöl-
mörg atvik úr okkar undarlega þjóðlífi eru
eðlilega svo mikið „leikhús“ að þau þurfa
ekki frekari úrvinnslu við í þjóðleikhúsi,
borgarleikhúsi eða hjá sjálfstæðum leik-
hópum.)“
II Og nú gerir enn ein fjólan tilkall til at-hygli í raunveruleikhúsi þjóðarinnar sem
er pilturinn Gillzenegger; vaxtarræktar-
maður sem telur sig eiga brýnt erindi við
unga menn á tvítugsaldri. Gillzenegger er
dulnefni pilts að nafni Egill Einarsson sem
hefur vakið athygli jafnaldra sinna og Eddu
útgáfu fyrir óheflaðan talsmáta á bloggsíðu
sinni og víðar.
Bók hans Biblía fallega fólksins er til um-
fjöllunar í Lesbók í dag, bók um vaxtarrækt,
mataræði og framkomu; bók sem er skilget-
ið afkvæmi „klámkynslóðarinnar“ svoköll-
uðu þar sem kvenfyrirlitning, líkamsdýrkun
og efnishyggja sitja í fyrirrúmi.
Hlutverkaleikur af því tagi sem leikendur
Sylvíu Nætur og nefndur Gillzenegger hafa
tekist á hendur er vandmeðfarinn ef á annað
borð er gengist við ábyrgðinni sem í honum
flest. Margt af því sem þessar persónur láta
flakka og verður fleygt í kjölfarið er sett
fram í hugsunarleysi og án fyrirhyggju um
afleiðingar. Börn og unglingar gangast upp í
klámfengnum talsmátanum, tileinka sér
hegðun sem hvergi á sér raunverulega fyr-
irmynd og þannig verður hegðunin fyrst
raunveruleg; leikþátturinn verður alvara og
smám saman hluti af hegðunarmynstri
heillar kynslóðar. Í réttlætingarskyni er tal-
að um háðsádeilu og grín, en ádeilan má sín
lítils þar sem höfundar velta sér upp úr
þeim gildum sem þeir telja sig gagnrýna og
grínið er sannarlega umdeilanlegt. Mörgum
finnst það hreinlega ekki fyndið.
III „Sem heimildasaga um fjarlæga fortíðer verkið einkar trúverðugt. Nielsen
vísar til minnisbóka sinna og bloggsíðu, auk
greina um „trúboðsförina“ úr dönskum blöð-
um. Þá er einnig vísað í greinar í erlendum
blöðum og á fréttavefjum á netinu. Hversu
mikið frásögnin er skálduð og hversu mikið
hún er sannleikanum samkvæmt er ekki
gott að segja, en hitt er víst að verkið á er-
indi við samtímann.“
Hér er vitnað í grein Jórunnar Sigurð-
ardóttur og Soffíu Auðar Birgisdóttur um
tilnefnda höfunda til Bókmenntaverðlauna
Norðurlandaráðs 2006. Sannarlega eru þar
bitastæðari bókmenntir í boði og skrifaðar
af meiri alvöru, sannfæringu og þörf til að
miðla lesandanum sýn á samtímann sem
gerir hann gagnrýnni og vandlátari á það
sem fyrir hann er borið.
Neðanmáls
Ámeðan einkavæðingarbylgjan drekk-ir skólum, bönkum og heilbrigðis-stofnunum – sem er slæmt ástand –
gleymist oft á tíðum að tala um einka- og
markaðsvæðingu lista, eða það sem er jafn-
an sett undir einn hatt sem „menning“. Und-
irritaður sá yfir kaffibollanum í gærmorgun
umfjöllun um þessi mál í Fréttablaðinu. Þar
var rætt við viðskiptafræðinginn Jóhönnu
M. Ólafsdóttur sem hefur kannað áhrif rík-
isstyrkja á listir og menningu. Í stuttu máli
voru niðurstöður hennar þær að það sé já-
kvætt og hagstætt að veita styrki til menn-
ingarmála, þrátt fyrir að margir vilji meina
að það sé eyðsla á peningum skattgreiðenda.
Þessum niðurstöðum ber að fagna enda eru
þarna komin fram aukin hagfræðileg rök
fyrir málinu. En það verður að skerpa á hug-
myndafræðilegum forsendum málsins sem
mjög oft vantar í umræðuna. Ef opnari og
meiri umræða færi fram um hvað er menn-
ing og hvað list, myndi skýrar koma í ljós
hvers vegna markaðurinn á ekki að stýra
þessum þáttum. Og hvað er menning? Er
það Stefán Jón Hafstein brosandi og heils-
andi ljóðskáldum og myndlistarmönnum,
eltandi Yoko Ono á röndum? Er það ráð-
herra á sinfóníutónleikum brosandi og heils-
andi „djettsett-liðinu“ í hléinu, með dýrt
hvítvín við hönd? Er það jólabókaflóðið?
ehp
murinn.is
Menning
til sölu
Morgunblaðið/Sverrir
Lesið í Austurstræti.