Lesbók Morgunblaðsins - 04.03.2006, Blaðsíða 10
10 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 4. mars 2006
F
réttir af fölsuðum niðurstöðum
rannsókna suðurkóreska vís-
indamannsins Hwang Woo-suk
hafa verið áberandi í fjöl-
miðlum, en hann var fyrir
skemmstu í fremstu röð þeirra
vísindamanna sem starfa á sviði líftækni og
gaf glæstar yfirlýsingar um hraðar framfarir
sínar á sviði stofnfrumurannsókna, sem síðan
gáfu góðar vonir um lækningamöguleika
ýmsa. Þegar aðrir vísindamenn höfðu yfirfarið
rannsóknir Hwang Woo-suk stóð ekki steinn
yfir steini í þessum yfirlýsingum; eina fullyrð-
ingin sem hægt var að staðfesta var að suð-
urkóreski vísindamað-
urinn hefði í raun og veru
klónað hund.
Þegar ég las þessar
fréttir skaut stöðugt upp í huga mínum skáld-
verkum ýmiskonar, kvikmyndum, myndasög-
um, smásögum og skáldsögum, sem segja frá
vísindamönnum sem ætla sér um of og falsa
niðurstöður, alltaf með skelfilegum afleið-
ingum. Frankenstein er auðvitað þekktasta
dæmið um vísindamanninn sem ætlar sér um
of, en af öðrum má nefna ungu vísindakonuna
Dr. Susan McCallister í Deep Blue Sea (1999)
sem ætlaði sér að finna lækningu á Alzheimer-
sjúkdómnum með því að rannsaka heila há-
karla. Rannsóknin gekk of hægt fyrir fjárfesta
og því ákvað hún að falsa niðurstöður sínar og
erfðabætti stórfiskinn með erfðaefni manna
með þeim afleiðingum að þeir urðu ofurgáfaðir
og réðust til atlögu við rannsóknarstofuna,
sem var staðsett í yfirgefnum olíuborpalli úti á
rúmsjó, með katastrófískum afleiðingum.
Önnur kona, Dr. Tiptree í kvikmyndinni
Carnosaur (1993), lýgur líka að fjárfestum sín-
um, en rannsóknin heppnast reyndar – frá
hennar bæjardyrum séð. Markmið Dr. Tiptree
var nefnilega að láta risaeðlur ríkja yfir jörð-
inni á ný, svona í eins konar náttúruvernd-
arskyni, og því klónaði hún steingert erfðaefni
risaeðla og blandaði mennskum genum með
þeim afleiðingum að risaeðlurnar urðu ofur-
gáfaðar og drápu allt lifandi. (Það er merkilegt
hvað vísindaskáldskapur setur ósjálfrátt
samasemmerki milli (mennskra) gáfna og of-
beldis.)
Og Dr. Tiptree á sér fyrirmynd og ‘mentor’,
Dr. Moreau í skáldsögu Herberts Georges
Wells, The Island of Dr. Moreau, eða Eyja Dr.
Moreau, frá árinu 1896. Moreau er nefnilega
upptekinn af því að gera manneskjur úr dýr-
um, ekki bara sér til skemmtunar, heldur er
hann að „rannsaka möguleikann á því að móta
lifandi líkama“ (72). Sem er auðvitað það sem
líftæknivísindamenn á borð við Hwang
Woo-suk eru líka að kanna, hversu mótanlegur
mannslíkaminn sé og hvort hægt sé að um-
forma hann án sjúkdóma.
Spámaðurinn
H.G. Wells fæddist í Englandi árið 1866. Þrátt
fyrir að vera af frekar fátæku fólki kominn, og
því ekki menntaður sem skyldi, tókst honum
að ná sér í styrk til að stunda nám í raunvís-
indum. En hugur hans stóð til skrifta og árið
1895 sló hann í gegn með skáldsögunni The
Time Machine (Tímavélin) og gat eftir það
helgað sig skriftum að mestu leyti. Hans
þekktustu verk eru sögur eins og The In-
visible Man eða Ósýnilegi maðurinn (1987),
The War of the Worlds eða Innrásin frá Mars
(1898) og The First Men on the Moon eða
Fyrstu mennirnir sem fóru til Tunglsins
(1901). Þrátt fyrir að hafa helgað sig vísinda-
og framtíðarskáldskap var Wells virtur höf-
undur og bækur hans nutu vinsælda sem fag-
urbókmenntir, auk þess að vera álitnar eins-
konar forspár um framtíðina. Sjálfur var Wells
framan af mikill bjartsýnismaður á framþróun
í krafti vísinda, en síðar á ævinni tapaði hann
þeirri trú, sérstaklega eftir að hafa horft upp á
hörmungar heimsstyrjaldarinnar fyrri, ekki
skánaði ástandið svo eftir þá síðari en um hana
mun hann hafa sagt að þar hefði raunveruleik-
anum tekist að skapa mun verri heim en hann
hefði nokkurn tíma getað ímyndað sér í sínum
myrkustu fantasíum. Wells er iðulega nefndur
faðir vísindaskáldskapar (líkt og reyndar hinn
franski Jules Verne og Mary Shelley, höfund-
ur Frankenstein), skáldsögur hans hafa notið
mikilla vinsælda og verið kvikmyndaðar í bak
og fyrir. Á þann undarlega hátt sem nútíma-
samfélagi er svo lagið hafa kvikmyndanirnar
ekki endilega orðið til að vekja áhuga á skrif-
um Wells, ef þau á annað borð gleymast ekki
er tilhneigingin sú að líta á þau sem fremur
einfeldningslegar sögur, þægilega uppsprettu
hugmynda frá hinum naíva tíma fyrstu vís-
indaskáldsagnanna. Í umfjöllunum um hina
skelfilega vondu kvikmynd Stevens Spiel-
bergs, War of the Worlds (2005), með Tom
Cruise í aðalhlutverki, sá ég aðeins einn gagn-
rýnanda fjalla um samnefnda bók Wells sem
vitræna skáldsögu með tilheyrandi þjóðfélags-
gagnrýni á heimsvaldastefnu vesturveldanna.
Sagan og sársaukinn
Eyja Dr. Moreau er stutt skáldsaga eða eins
konar nóvella. Sögumaður er Edward
Prendick, skipsfarþegi sem lendir í þeim
hremmingum að skipið ferst og hann rekur um
hafið á vistalausum björgunarbát með tveimur
mönnum, sjómanni og samfarþega. Eftir
nokkurra daga hungur kemur upp hugmyndin
um mannát – sem er aldrei nefnt í sögunni,
bara gefið í skyn. Það er hinn farþeginn sem
stingur upp á þessari lausn en þegar sjómað-
urinn dregur stutta stráið neitar hann að fórna
sér og eftir nokkur átök við farþegann detta
þeir báðir útbyrðis og Prendick verður einn
eftir í bátnum. Hér er strax gefinn tónninn
fyrir söguna sem fjallar einmitt um mennsku,
og þá sérstaklega mörk mennsku og dýra.
Einnig er eftirtektarvert að sjá að Wells lætur
hinn menntaða farþega stinga upp á hinu
ósegjanlega, en ekki sjómannsrustann. En
Wells var, eins og áður hefur komið fram, á
sinn hátt nokkuð róttækur þjóðfélagsrýnir.
Prendick er bjargað um borð í farmskip og
hittir þar Montgomery, sem er læknismennt-
aður og hlúir að honum. Með Montgomery eru
nokkrir fremur sérstæðir blökkumenn, auk
ýmissa dýra í búrum, þar á meðal er púma.
Það verður fljótlega ljóst að skipsáhöfninni er
illa við farþega sína og farminn og svo fer að
lokum að þegar Montgomery, félögum hans og
farmi er skilað til eyjarinnar nafnlausu er
Prendick einnig hent fyrir borð.
Montgomery er ekki ánægður með þá
niðurstöðu en við þessu er ekkert að gera svo
hann býður Prendick húsaskjól og kynnir
hann fyrir aðalmanninum, Dr. Moreau. Fljót-
lega kemur í ljós að á eynni eru ýmis leyndar-
mál, en fyrst í stað er Prendick hvað mest
undrandi yfir íbúum eyjarinnar sem eru hver
öðrum sérstæðari. Þeir virðast af ólíkum kyn-
þáttum og eru fremur þöglir, auk þess að virka
bæði bæklaðir og afmyndaðir á einhvern hátt,
ef ekki beinlínis dýrslegir. Það rifjast upp fyrir
Prendick að hann þekkir nafn Moreau, en
hann hafði verið þekktur metnaðargjarn lækn-
ir sem var ásakaður fyrir að stunda kvikskurði
á dýrum og varð að flýja land.
Og svo byrjar Prendick að heyra púmuna
öskra. Honum líkar það illa en þó enn verr
þegar hann getur ekki betur heyrt en að öskr-
in komi úr mannsbarka; hann brýst inn á
rannsóknarstofu Moreau og finnur þar sjálfan
lækninn, blóðugan upp yfir haus, og púmuna,
kvikskorna, vafða sárabindum, umformaða
yfir í eitthvað annað. Prendick flýr inn í skóg-
inn og hittir þar fyrir undarlegt samfélag íbúa
eyjarinnar sem virðist stjórnað af einskonar
apa-manni (þó ekki Tarzan), sá er lögmaður að
hætti hinna fornu lögmanna Íslendinga: hann
fer með lögin yfir hinum íbúunum til að minna
þá á að halda þau. Lögin ganga út á að ekki má
borða kjöt, ekki ganga á fjórum fótum, ekki
klifra í tré, ekki róta í jörðinni – í stuttu máli er
öll dýrsleg hegðun bönnuð. Lagaþulan endar
svo á ákalli til ‘hans’: „Hans er Hús sársauk-
ans. Hans er Höndin sem skapar. Hans er
Höndin sem særir. Hans er Höndin sem
læknar.“ (59)
Prendick líst ekki á félagsskapinn og flýr og
eftir nokkrar hremmingar er hann aftur kom-
inn í öruggt skjól þeirra Moreau og Montgom-
ery og fær loks skýringar á því sem fram hefur
farið: rannsókn á mótun lifandi líkama. Vís-
indamaðurinn þylur upp þær margvíslegu að-
ferðir sem reyndar hafa verið á líkömum, allt
frá læknisfræðilegum aðgerðum og tilraunum
til hundaræktunar, til þess athæfis sirk-
usstjóra að skapa ‘frík’ til sýningar í ferðaleik-
húsum sínum. Moreau lýsir því svo að lokum
yfir að það sé hægt að gerbreyta líkamanum,
ekki bara útliti hans heldur og einnig efna-
starfsemi – og það er þar sem líftækni-
tengingin kemur inn í myndina.
Sársauki er lykilatriði í rannsóknum
Moreau, en hann álítur að sársauki sé nauð-
synlegur til að viðhalda mennskunni. Og þetta
viðhald mennskunnar, það er einmitt það sem
er málið, því þrátt fyrir góðan vilja Moreau
hörfar mennskan smátt og smátt úr
dýr-mennum hans, þau gera uppreisn og
drepa hann og Montgomery, Prendick sleppur
lifandi og býr lengi vel einn á eyjunni með
mann-skepnunum og fær því kjörið tækifæri
til að fylgjast með hvernig þær hverfa aftur til
síns dýrslega upphafs. Þegar björgunarbát
rekur að eyjunni fær Prendick loks tækifæri
til að flýja, honum er bjargað um borð í skip og
álitinn geðsjúkur þegar hann segir sögu sína.
Hann lærir fljótt að þegja um ævintýri sín, en
á hins vegar öllu erfiðara með að læra að venj-
ast mannfólki á ný: „Ég gat ekki sannfært
sjálfan mig um að þeir karlar og konur sem ég
mætti væru ekki eins konar dýrmenni, sem
þrátt fyrir að líta út eins og mannskjur væru í
raun umformaðar skepnur sem bæru yfir-
bragð mennsku, og að þau myndu fljótlega
byrja að breytast og sýna í fyrstu eitt dýrslegt
einkenni og síðan annað.“ (136) Prendick hefur
tapað traustinu á hið mennska form, og það
sem meira er, hann efast um sjálfan sig líka.
Nýjasta tækni og vísindi
Ég vísaði hér í upphafi til vangaveltna um
stöðu vísinda í dag, en það er óneitanlega at-
hyglisvert að eina sannanlega verk hins suð-
urkóreska Moreau skuli hafa verið að klóna
hund. En saga Wells var auðvitað skrifuð á
nítjándu öldinni, þegar þróunarkenningin var
að kollvarpa hugmyndum vestrænna manna
um sjálfa sig. Það er ‘engin tilviljun’ að fyrsta
tilraunadýr Moreau hafi verið api. Nútíma-
líftækni-rannsóknir hljóta að knýja okkur til
vangaveltna um stöðu mennskunnar. Hver er
þessi mennska og hvaða hlutverki gegnir hún
fyrir mannkynið? Hvernig skilgreinum við
hana, það er, hvar liggja mörkin á milli
mennsku og ómennsku, á hvaða stigi aðgerða
á líkömum okkar hættum við að vera mennsk?
Er manneskja sem knúin er áfram með gang-
ráði enn mennsk, þegar það er svo ljóslega vél-
búnaður sem tryggir líf hennar og tilveru?
Álíka spurningar blöstu við samtímamönn-
um Wells í kjölfar skrifa Darwins. En þá var
vandamálið ekki vél- eða erfðatækni, heldur
spurningin um dýrið, skepnuna sem skyndi-
lega var orðin óþarflega nálæg manninum. Á
þeim tíma stefndum við ekki í átt til þeirrar of-
urmennsku sem Hwang Woo-suk lofaði – og
sveik – heldur aftur á bak til hins frumstæða;
ef við erum komin af dýrum, berum við þá ekki
skepnuna með okkur? Þessar vangaveltur
koma greinilega fram í Eyju Dr. Moreau, þótt
þær séu ekki færðar beint í orð fyrr en undir
lokin þegar Prendick uppgötvar varanleg áhrif
samvistanna við mann-skepnurnar á sálarlíf
sitt og hæfileika til að umgangast fólk.
Eins og áður er komið að slær inngangurinn
um björgunarbátinn strax tóninn: hið ónefnan-
lega mannát vekur strax spurningar um mörk
manna og skepna. Og þótt Prendick átti sig
ekki á sannleika málsins, þá lýsir hann verum
Moreau hvað eftir annað sem ómennskum og
getur ómögulega annað en haft ógeð á þeim.
Sömuleiðis kallar hann Montgomery skepnu,
en Montgomery, sem hefur mikla samúð með
dýr-mennunum, drekkur mikið til að friða
samviskuna. Prendick hins vegar getur
ómögulega haft samúð með þessum verum og
því kallar Montgomery hann líka skepnu.
Mesta skepnan er síðan auðvitað hinn kald-
ranalegi og rökhugsandi vísindamaður, Dr.
Moreau, sem með sínum skepnuskap gengur
allhart á viðurkennd mörk mennskunnar.
Samt er málið ekki svo einfalt í þessari
margþættu og þétt unnu sögu Wells, því í
bland við fyrirlitningu Prendicks á siðgæði
Moreau er hann líka næsta fullur aðdáunar á
honum og afrekum hans; þegar hann rifjar
upp útlegð vísindamannsins getur hann ekki
annað en hugsað með sér að þar hafi vísinda-
samfélagið brugðist miklum og frumlegum
hugsuði. Það eru því stöðug átök innan sög-
unnar milli kristins siðgæðis (Wells var mjög
kristinn) og þeirrar aðdáunar á vísindum og
vísindamönnum sem ríkti í vestrænum sam-
félögum á nítjándu öld, í kjölfar mikilla vís-
indauppgötvana sem ollu því að raunvísindi
styrktu stöðu sína mjög. En samhliða því að
fylgja þessu viðhorfi að nokkru leyti er Wells
greinilega einnig gagnrýninn á þá upphefð og
göfgun vísindamannsins sem þarna kemur
fram; senan þar sem mann-skepnurnar kyrja
ákall sitt til ‘Hans’ er greinilega ádeila á þá
hugmynd að vísindamaðurinn sé orðinn hinn
nýi guð, hafinn yfir kristilegt siðgæði.
Þessi togstreita innan sögunnar kemur þó
ekki í veg fyrir að Eyja Dr. Moreau sé heil-
steypt og þaulhugsað verk, því niðurstaðan er
jú sú að þótt Prendick sé ómögulegt að öðlast
samúð með ósköpnuðum Moreaus, þá er hon-
um jafnómögulegt að treysta mannkyninu
framar. Prendick er gerður að hinum dæmi-
gerða óvirka menntamanni, hann er áhorfand-
inn, utanaðkomandi og utanveltu, honum er
ómögulegt að taka skýra afstöðu heldur verð-
ur leiksoppur atburða sem hann hefur enga
stjórn á. Sem slíkur er hann lítt jákvæð sögu-
hetja í sögu Wells og lesandi hefur takmark-
aða samúð með honum þar sem hann situr
einn í húsi sínu langt utan þjóðvega, um-
kringdur bókum sem hann sér sem sönnunar-
gögn um hina mennsku sál og reynir þannig
örvæntingarfullt að halda í trúna um göfgun
mannsins.
Kvikskurðir og mann-skepnur
ReutersHwang Woo-suk „Moreau er nefnilega upptekinn
af því að gera manneskjur úr dýrum, ekki bara
sér til skemmtunar, heldur er hann að „rann-
saka möguleikann á því að móta lifandi líkama“
(72). Sem er auðvitað það sem líftæknivísinda-
menn á borð við Hwang Woo-suk eru líka að
kanna, hversu mótanlegur mannslíkaminn sé og
hvort hægt sé að umforma hann án sjúkdóma.“
Eyja Dr. Moreau eftir H.G. Wells kom út árið
1896 en hefur áhugaverðar tengingar við
samtímann, einkum líftæknina sem hefur á
110 árum þróast svo hratt að skáldskapur
Wells er ekki fjarri raunveruleikanum nú.
Eftir Úlfhildi
Dagsdóttur
varulfur@centrum.is
Höfundur er bókmenntafræðingur.