Lesbók Morgunblaðsins - 20.05.2006, Page 9
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 20. maí 2006 | 9
og teljast þeir bæði fullgildir ríkisborgarar
Bandaríkjanna og Mexíkó.
Veggir og tálmar
Þann 1. janúar 1994 undirrituðu Mexíkó, Banda-
ríkin og Kanada fríverslunarsamninginn
NAFTA (North American Free Trade Agree-
ment) eða TLC (Tradado de Libre Comercio)
eins og hann kallast á spænsku. Kvað samning-
urinn meðal annars á um að opna skyldi við-
skiptaleiðir milli landanna þriggja og fól í sér að
höftum þeim sem landamærin höfðu áður sett
yrði aflétt. Nú, ríflega áratug síðar eru skiptar
skoðanir um áhrif hans á viðskipti og líf fólks al-
mennt. Hafi samningurinn opnað fyrir vöru-
skipti milli Mexíkó og Bandaríkjanna og minnk-
að á einhvern hátt þau flutningshöft sem
landamærin settu áður, er næsta víst að aldrei
hafa hærri veggir né þéttari girðingar verið
reistar á þessum mörkum og aldrei hafa landa-
mæraverðir Bandaríkjanna verið fleiri en ein-
mitt nú. Sem dæmi má nefna að í þétt-
býlisstöðum þar sem áður nægðu girðinganet
eða gaddavírsgirðingar, líkt og sjást í sveitum
Íslands, hafa verið reistir háir múrar og veggir.
Var þetta hugsað til að hefta straum þeirra sem
fara ólöglega norður yfir þau. Nú hefur slíkt
löngum átt sér stað en straumurinn þótti orðinn
of mikill í byrjun tíunda áratugarins. Þá hófu
Bandaríkjamenn að reisa 3-4 metra háa veggi í
borginni Tijuana þar sem vandamálið þótti hvað
mest. Þessi aðgerð var kölluð Operation Gate-
keeper (Hliðvarðaraðgerðin). Járnplötur sem
höfðu verið notaðar í færanlega flugvelli í Persa-
flóastríðinu fengu nú nýtt hlutverk. Aðgerðin
leiddi til þess að ólöglegir „landamærafarþegar“
hafa flutt sig sífellt austar og fundið sér nýjar
leiðir yfir landamærin, á svæði þar sem eru ill-
færar eyðimerkur, hitinn og kuldinn gífurlegur.
Þetta hefur orðið til þess að margir hafa látið líf-
ið í eyðimörkinni, bæði úr þorsta og kulda eða á
annan hátt. Svokallaðir „sléttuúlfar“ (coyotes),
sem oftast fara fyrir stórum hópum yfir landa-
mærin í skjóli nætur, finna sífellt nýjar og erf-
iðari leiðir til að komast yfir. Sumir þeirra,
óprúttnir, hafa oft skilið fólk eftir í reiðileysi í
miðri eyðimörk við aðstæður sem það ræður
ekki við. Auk þess hafa margir lagt aleigu sína
að veði eða tekið lán fyrir kostnaði ferðarinnar
til þess eins að lenda í greipum landamæravarða
sem senda þá beina leið til baka skuldsettari en
nokkru sinni fyrr.
Háa tálmaveggi er nú að finna í flestöllum
stærri borgunum. Sömuleiðis hafa verið tekin í
notkun færanleg fljóðljós og ýmsar tækninýj-
ungar við landamæravörslu. Eins og gefur að
skilja særa veggirnir augað og ekki eru allir
sáttir við slíka sjónmengun. Í sumum bæjunum
þar sem eyðimörkin sjálf blasti áður við íbúum
standa nú dökkir 3–4 metra háir járnveggir;
hafa því íbúarnir brugðið á það ráð að planta
trjám og alls kyns gróðri meðfram járnplötun-
um til að fegra útsýnið. Milli Mexicali og Calex-
ico voru háar rimlagrindur reistar árið 1999; þar
virðist fegurðarskynið tekið með í reikninginn
því rimlaveggirnir eru ekki jafn fráhrindandi og
járnplöturnar, og byrgja ekki algerlega sýn.
Auk þess getur fólk talast við „gegnum“ landa-
mærin, nokkuð sem hefur reynst mörgum hent-
ugur samskiptamáti því oft á tíðum búa fjöl-
skyldur og vinir beggja vegna markanna.
Fyrst um sinn eftir tilkomu Guadalupe-
samningsins 1848, voru landamærin lítið annað
en strik á kortum og höfðu takmarkað að segja
hvað varðaði daglegt líf og ferðir fólks sem bjó á
þessum slóðum; oftast fór það óáreitt yfir mörk-
in í báðar áttir. Það er ekki fyrr en á tuttugustu
öld að landamærin hindra ferðir fólks landanna
á milli.
Í dag eru landamæri þessi eru ein þau fjöl-
förnustu í heimi. Stanslaus straumur fólks er
þar á ferð í báðar áttir. Vitanlega er það í ólíkum
erindagerðum; sumir fara til lengri dvalar en
allflestir eru að fara í vinnuna, heimsækja ætt-
ingja og vini, kaupa inn, skreppa á veitingastað
eða krá og þess háttar. Líkt og með íbúafjölda
landamærabyggðanna eru tölur um ferðir fólks
ónákvæmar þar eð ýmist er farið yfir á löglegan
hátt með tilheyrandi pappíra eða laumast yfir í
skjóli nætur (á það vitanlega við í norðurátt).
Gróflega er talið að á hverjum degi fari um það
bil ein milljón yfir mörkin eða um 365-400 millj-
ónir á ári.
Jafnvel þótt fjöldi manns fari yfir landamærin
með lögmætum hætti dag hvern vill athyglin oft
beinast að þeim sem fara yfir á ólöglegan hátt,
en ef marka má tölur Landamæragæslu Banda-
ríkjanna (Border Patrol) eru um 1,5 milljónir
ólöglegra ferðalanga gripnir og sendir til baka á
ári hverju. Eins og sjá má er það fremur lágt
hlutfall af heildartölunni. Í gegnum landamæra-
hlið Tijuana fara t.d. um 40 milljónir á hverju
ári, eða rúm 100.000 á dag; er þetta aðallega fólk
á leið í vinnu eða að sækja ýmsa þjónustu.
Víst er þó að ólöglegum ferðum hefur farið ört
fjölgandi undanfarin ár og mörg vandamál risið
í kjölfarið. Á ári hverju látast um 500-600 manns
í eyðimörkinni, sömuleiðis drukkna margir í
fljótinu Rio Bravo/Grande ár hvert. Um þessar
mundir eiga flestar ólögmætar ferðir sér stað í
Sonora-eyðimörkinni í Arizona. Margir bændur
þar, sem eiga land að mörkunum, eru afar ósátt-
ir við óæskilegar ferðir um jarðir sínar og hafa
þeir tekið lögin í sínar hendur með alvarlegum
afleiðingum. Einnig blöskrar mörgum fjöldi
dauðsfalla. Á ýmsum andsvörum hefur borið við
þessu vandamáli. Samtökin Humane Borders
(Mannúðleg landamæri) voru stofnuð norð-
anmegin árið 2001 og hafa allvíða í eyðimörkinni
komið fyrir 240 lítra bláum plasttunnum með
drykkjarvatni. Að sunnanverðu fyrirfinnast
samtökin Grupo Beta (Betahópurinn) sem leit-
ast við að vernda rétt mexíkóskra ferðalanga og
aðstoða fólk sem ætlar sér yfir. Ein umdeildasta
svörunin hefur þó komið frá mexíkóska utanrík-
isráðuneytinu. Í árslok 2004 gaf það út Leið-
arvísi fyrir mexíkóska farandverkamenn (Guía
del migrante mexicano). Ritið, sem er um 30
blaðsíður, er í formi myndasögu og var gefið út í
1,5 milljóna eintaka. Það fylgdi ókeypis með
hinu vinsæla myndasögublaði Kúrekabókin (El
libro vaquero) og var einkum dreift í þeim fylkj-
um þaðan sem flestir farandverkamenn og út-
flytjendur Mexíkó koma. Í ritinu eru m.a. upp-
lýsingar um hvernig bregðast megi við ýmsum
aðstæðum sem geta komið upp í eyðimörkinni
og þegar farið er yfir fljótið, við handtöku af
hálfu landamæravarða, áhættuna við að nota
fölsuð skilríki, o.s. frv. Myndsöguritið hefur vak-
ið harkaleg viðbrögð, bæði innanlands og utan.
Norðanmegin hefur það fengið nafnið Intrusive
Guide (Leiðarvísir þeirra uppáþrengjandi) og
þykir ýta undir ólögmætar ferðir yfir landa-
mærin. Sunnanmegin telja menn hins vegar
ekki vafa leika á hvaða þjóðfélagshópi ritið sé
ætlað, og hvetji beinlínis til þess að mexíkóskir
þegnar flytjist úr landi og stundi ólöglegar að-
gerðir.
Mexíkó: Land farandverkamanna?
Í lok síðasta árs voru birtar nýjustu tölur yfir
peningasendingar sem mexíkóskir borgarar í
Bandaríkjunum sendu til heimalandsins. Þær
hafa aldrei verið hærri, ríflega 20.000 milljónir
dollarar. Þetta þýðir að fjármagnið sem kemur
inn í Mexíkó með slíkum hætti nálgast tekjur
ríkisins af olíuútflutningi (helsta tekjustofni rík-
isins) og skilar nú meiru en ferðamannaiðnaður-
inn. Þetta þýðir einnig að Mexíkó skipar nú eitt
efsta sæti á lista þeirra þjóða sem mestar tekjur
hafa af vinnu þegna sinna erlendis.
Árið 2004 nam upphæðin ríflega 16.600 millj-
ónum dollara og árið 2002 tæpum 10.000 millj-
ónum dollara; árið 1999 var hún tæp 6.000 millj-
ónir dollarar og árið 1990 aðeins 2.500 milljónir
dollarar. Eins og sjá má er þetta ör hækkun og
hefur upphæðin hvorki meira né minna en þre-
faldast á fimm árum. Í lok ársins 2003 þegar
þessi mikla hækkun kom í ljós sagði Vicente
Fox, forseti Mexíkó, þetta fjármagn eiga mik-
ilvægan þátt í því að draga úr fátækt þjóð-
arinnar. Orð forsetans mætti skilja sem svo að
farandverkamennirnir beri að einhverju leyti
ábyrgð á því að leysa fátæktarvanda Mexíkó.
Fjármagnið fer þó að litlu leyti í uppbyggingu
landsins því megnið fer í einkaneyslu.
Þegar Vicente Fox tók við embætti forseta
Mexíkó í ágúst 2000 var eitt fyrsta verk hans að
fara til landamæranna, nánar tiltekið systra-
borganna Nogales. Þar tilkynnti hann að breyta
þyrfti málefnum ólöglegra farandverkamanna,
þeirra sem fara án tilskilinna pappíra yfir landa-
mærin og hætta lífi sínu til að finna vinnu í
Bandaríkjunum. Hann lofaði einfaldlega að
opna landamærin. Eftir það hefur Fox hitt
Georg W. Bush, forseta Bandaríkjanna nokkr-
um sinnum, m.a. í Washington 7. september
2001. Þar ræddu þeir Fox og Bush vaxandi eit-
urlyfjasmygl en sömuleiðis málefni ólöglegra
innflytjenda frá Mexíkó og möguleika á nýjum
milliríkjasamningi, einskonar gestafyrirkomu-
lagi sem tæki að einhverju leyti mið af Bracero-
samningnum gamla, þannig að Mexíkóar gætu
unnið með lögmætum hætti í Bandaríkjunum í
tiltekinn tíma. Var það vilji mexíkósku stjórn-
arinnar að undirrita slíkan samning fyrir árslok
2001. En fáeinum dögum síðar, hinn 11. sept-
ember, breyttist staðan í einni svipan. Í stað
þess að „opna“ landamærin voru allmargir
bandarískir hermenn sendir þangað til liðs við
landamæraverði með það fyrir augum að hindra
komu hryðjuverkamanna úr suðurátt. Það hefur
þó ekki komið í veg fyrir straum þeirra sem fara
ólöglega yfir landamærin.
Í mars 2002 hittust Fox og Bush í iðn-
aðarborginni Monterrey í Norðaustur-Mexíkó
og ræddu þessi mál enn og aftur. Sem fyrr voru
þeir sammála um að ekki væri hægt horfa
framhjá sögulegum, menningar- og efnahags-
legum tengslum landanna. Á fundinum sagðist
Bush vilja gera sameiginleg landamæri þjóð-
anna nútímaleg, skilvirk og örugg. Í byrjun
febrúar 2005 áttu svo umræddir forsetar aftur
fund. Þar voru endurteknar fyrri hugmyndir –
að nútímavæða landamærin og gera þau örugg-
ari. Og enn var rætt um gestasamning fyrir
ólöglegt vinnuafl. Slíkt fyrirkomulag myndi
leysa stórt vandamál þjóðanna beggja því mál-
efni ólöglegra Mexíkóa í Bandaríkjunum er í
raun opinbert leyndarmál í báðum löndunum.
Er álitið að jafnvel 6-8 milljónir af þeim 10 millj-
ónum Mexíkóa (fæddra í Mexíkó) sem búsettir
eru í Bandaríkjunum séu án tilskilinna pappíra.
Í þessu samhengi má geta þess að í dag eru um
25 milljónir Mexíkóa og Mexíkó-Ameríkana í
Bandaríkjunum sem gerir þennan hóp að einum
stærsta minnihlutahópi þar í landi.
Á undanförnum mánuðum hefur möguleikinn
á nýjum gestasamningi verið ræddur í banda-
ríska þinginu sem og staða ólöglegra innflytj-
enda í Bandaríkjunum. Samtímis hafa verið
uppi raddir um það að bæta þurfi við tálmvegg-
ina sem þegar hafa verið reistir, jafnvel reisa
einskonar Kínamúr eftir öllum mörkunum. Nú
hefur Bandaríkjaforseti loks tilkynnt niður-
stöður þingins. Hvað snertir ólöglega innflytj-
endur í Bandaríkjunum á að sækja þá til saka en
jafnframt leyfa þeim að gerast löglegir borgarar
með ákveðnum skilyrðum þó. Einnig á að koma
á fót gestasamningi og farandverkamenn verða
skráðir til löglegrar vinnu um ákveðinn tíma en
þurfa þá að hverfa til síns heima. Reisa á enn
frekari múra og nýr hátæknibúnaður verður
tekinnn í notkun við vörslu landamæranna. Til
að koma endanlega í veg fyrir ólögegar ferðir
verða sendir 6.000 þjóðvarðliðar landamæra-
vörðum til aðstoðar. Tíminn einn mun leiða í ljós
hvort hægt verði að framfylgja fyrirhuguðum
áætlunum. Einnig á eftir að koma í ljós með
hvaða hætti Mexíkóar bregðast við þessu nýja
fyrirkomulagi, bæði stjórnvöld, íbúar landa-
mæranna og farandverkamenn. Meðan Banda-
ríkjaforseti ítrekar að Mexíkó sé vinaþjóð og
fyrirhugaðar aðgerðir feli ekki í sér hervæðingu
landamæranna líta Mexíkóar þetta ekki sömu
augum eins og kemur fram hjá forseta Mexíkó
sem þegar hefur lýst yfir áhyggjum sínum á
hervæðingu markanna. Hvernig sem málin fara
má telja víst að meðan eftirspurn er eftir ódýru
vinnuafli norðanmegin og takmarkaða vinnu að
hafa í Mexíkó og öðrum löndum Rómönsku Am-
eríku mun straumnum til landamæranna ekki
linna.
Vissulega er ekki hægt að líta framhjá því að
örlagaþræðir þessara tveggja þjóða liggja sam-
an. Þær deila ekki aðeins náttúruauðlindum á
ríflega 3.000 km svæði, heldur er saga þeirra
margsamofin og þær beinlínis háðar hvor ann-
arri, bæði efnahags- og menningarlega. Í raun
geta þær ekki þrifist hvor án annarrar. Á sinn
flókna hátt bæði sundra landamærin og sameina
þær.
Það hafa löngum þótt meinleg örlög Mexíkó
að eiga valdamestu þjóð heims að nágranna.
Einhverju sinni gerði hershöfðinginn Porfirio
Díaz, sem fór með völd í Mexíkó í 34 ár (1877–
1911), nálægð þjóðanna að umtalsefni sínu og
sagði: „En sú mæða! Mexíkó, svo fjarri Guði og
svo nálægt Bandaríkjunum.“ Í lok bókarinnar
Glerlandamærin, sem getið var hér í upphafi,
bætir Carlos Fuentes um betur og umturnar
orðum forsetans: „Veslings Mexíkó, veslings
Bandaríkin, svo fjarri Guði, svo nálægt hvort
öðru.“ (309).
Helstu heimildir
Arreola, Daniel D., James R. Curtis. The Mexican Border
Cities. Landscape Anatomy and Place
Personality. Tucson & London: The University of Arizona
Press, 1993.
Ceballos Ramírez, Manuel. “La conformación histórica de la
región del Río Bravo 1848-1911. Memorias de la Academia
Mexicana de la Historia correspondiente de la Real de
Madrid. XLV. bindi, Mexíkó, D.F., 2002: (63-88).
Del Moral, Paulina. „La frontera heroica“: Kikapús, mascogos
y seminoles. Í Entre la magia y
la historia. Tradiciones, mitos y leyendas de la frontera. José
Manuel Valenzuela Arce,
ed. Tijuana: El Colegio de la Frontera Norte, 2000.
Ellingwood, Ken. Hard Line. Life and Death on the U.S.-
Mexico Border. New York: Pantheon
Books, 2004.
Fuentes, Carlos. La frontera de cristal. Una novela en nueve
cuentos. Mexíkó, D.F.: Alfaguara,
1996.
Guía del migrante mexicano. Mexíkó, D.F.: Secretaría de
Relaciones Exteriores, 2004.
Martínez, Oscar. Troublesome Border. Tucson & London: The
University of Arizona Press, 1988.
Martínez, Rubén. Cruzando la frontera. La crónica implacble
de una familia mexicana que
emigra a Estados Unidos. Mexíkó, D.F.: Planeta, 2003.
Ruiz, Ramón Eduardo. On the Rim of Mexico. Encounters of
the Rich and Poor. Colorado:
Westview Press, 2000.
Valenzuela Arce, José Manuel, ed. Por las fronteras del norte.
Una aproximación cultural a la
frontera México-Estados Unidos. Mexíkó, D.F.: Fondo de
Cultura Económica, 2001.
Ýmsar greinar úr dagblöðunum La Jornada, La Voz og Prensa
Hispana.
Tölfræðilegar upplýsingar frá: CONAPO (Consejo Nacional de
Población), INM (Instituto
Nacional de Migración), INEGI (Instituto Nacional de
Estatística Geográfica e
Informática) og U.S. Customs and Border Protection.
Höfundur er doktor í rómönsk-amerískum fræðum og
stundakennari við spænskudeild Háskóla Íslands.
Reuters
n sleppi yfir girðinguna sem hér skilur að Tijuana í Mexíkó (til vinstri) og San Diego.