Lesbók Morgunblaðsins

Ulloq
Ataaseq assigiiaat ilaat
Saqqummersitaq pingaarneq:

Lesbók Morgunblaðsins - 20.05.2006, Qupperneq 16

Lesbók Morgunblaðsins - 20.05.2006, Qupperneq 16
16 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 20. maí 2006 H vað er svefn? Og af hverju sofum við? Kannski vegna þess hve svefn er stór hluti af daglegu lífi og vegna þess að svefn mótar allt samfélags- mynstrið, vekur það jafnan furðu að við þessum spurningum eru ekki til einhlít svör. Flestum virðist liggja í augum uppi að svefn er ástand þar sem líkama og sál eru gefin grið frá amstri hversdagsins; við sofum til þess að hvílast. Og allir þekkja hversu öflug svefnþörfin verður eftir langar vökur. En með því að bera svefn saman við önnur líffræðileg ferli sem að við skiljum betur, eins og til dæmis að anda eða að borða, verður gleggra að þetta svar skýrir ekkert og er í raun aðeins orða- leikur. Við öndum til þess að fá súrefni og losa okkur við koltvísýring; við borðum til þess að fá næringarefni. Engin hliðstæð skýring er til á hlutverki svefns. Á sama hátt þá er líf- fræðilegur tilgangur þess að borða hulinn með því að segja að við borðum vegna þess að við erum svöng. En hvað sem því líður þá hafa á síðustu árum orðið stórstígar framfarir í svefn- rannsóknum, enginn skortur er á kenningum um hlutverk svefns og ástæða er til bjartsýni um að ráðgátan um svefn verði á endanum leyst. Hvað er svefn? Í sígildu riti sínu um svefn og drauma notaði Aristóteles snjalla aðferð við að skilgreina svefn; hann færði rök fyrir því að það að vaka fæli í sér einhverja skynjun (á umhverfi sínu eða sjálfum sér), og þess vegna væri sá sem ekkert skynjaði sofandi! Í dag eru flestir þó sammála um að fleiri skilyrði þurfi að uppfylla áður en hægt sé að flokka ástand sem svefn, en þau skilyrði eru meðal annars: a) minnkuð hreyfing á) minni viðbrögð við áreiti b) dæmi- gerð staða (til dæmis lokuð augu í mönnum) og d) ástandið verður að vera afturkræft (til þess að greina svefn frá dái). Nú á dögum er svefn hinsvegar nær eingöngu mældur og skil- greindur með heilarita en allt frá því að heila- ritinn var fyrst notaður á mönnum af Hans Berger, hefur hann þjónað sem vinnuhestur svefnrannsóknamanna. En mikilvægt er að árétta að kjarninn í skilgreiningu Aristóteles- ar, sá að svefn sé hlutlaust tilverustig þar sem hægist á allri líkamsstarfsemi, var lífseigur; til dæmis aðhylltust stórmenni vísindasögunnar eins og sir Charles Sherrington og Ivan Pavl- ov, sem störfuðu eftir aldamótin 1900, þessa af- stöðu. Það kom því mjög í opna skjöldu þegar Guiseppi Moruzzi og Horace Magoun uppgötv- uðu á fimmta áratug síðustu aldar að það hafði engin áhrif á svefn að skera í sundur þær taugar sem bera boð frá skynfærum til heilans en svefntíma mátti stytta með sértækum skurðaðgerðum á heilastofni. Í þessum rann- sóknum fólust endalok þeirrar afstöðu að svefn væri eitthvað sem gerðist þegar önnur örvun væri ekki til staðar og upphaf þeirrar afstöðu að svefn væri á virkan hátt framkallaður í heil- anum. Önnur lykiluppgötvun fylgdi fast á hæla framlagi þeirra Moruzzi og Magoun en árið 1953 uppgötvuðu Nathaniel Kleitman og nem- endur hans að svefn er ekki einhamur heldur á sér tvær gerólíkar myndir: bylgjusvefn og blik- svefn (e. slow-wave og rapid eye movement (REM) svefn). Eftir uppgötvun Kleitmans hef- ur rannsóknum á svefni verið sinnt af miklum og vaxandi krafti. Rannsóknum á lífeðlisfræði svefns er yfirleitt sinnt í lægri spendýrum (en nýlega hefur einnig verið sýnt fram á að fiskar og jafnvel flugur sýna óyggjandi merki um svefn). Klínískum svefnrannsóknum er að sjálfsögðu sinnt með því að rannsaka menn og þær sjúkdómsmyndir svefns sem í þeim birt- ast. En sú mynd af svefni sem hefur birst okk- ur í rannsóknum á síðustu áratugum og gildir um menn sem dýr, er í einfölduðu máli á þessa leið: Í vöku sýnir heilalínurit hraðar bylgjur með lágt útslag en þegar svefninn færist yfir breyt- ist ásýnd heilalínuritsins og hægari bylgna með hærra útslag verður vart, á reglubundinn hátt nokkrum sinnum yfir nóttina verður svo breyt- ing á og bliksvefn, með heilalínuriti sem líkist vöku, verður ráðandi. Taugafrumurnar haga sér einnig á ólíkan hátt í vöku og svefni og er virkni þeirra yfirleitt mest í vöku. Í bylgju- svefni láta frumur í heilastofni (rétt ofan við mænu) lítið sem ekkert á sér kræla, frumurnar í heilaberkinum minnka einnig virkni sína en mestu munar um að þær breyta virknimynstr- inu þannig að frumur sem liggja samhliða verða virkar samtímis. Þessi taktfasta virkni útskýrir hátt útslag á heilaritinu í bylgjusvefni og við hana hægir einnig mjög á efnaskipta- hraða. Aðeins fáar frumur við botn framheilans hafa hámarksvirkni í bylgjusvefni og eru þess- ar frumur taldar hafa mikilvægu hlutverki að gegna við að orsaka svefn. Ekki er með öllu ljóst hvað örvar þessar frumur upphaflega en þó er vitað að þær verða virkari við aukið hita- stig (og hver kannast ekki við að syfja í hita- mollu?). Í bliksvefni verða frumur heilabark- arins aftur jafn virkar og í vöku og er starfsemi þeirra drifin áfram af hópi taugafrumna í heila- stofni; á þessu stigi svefnsins dreymir menn. Jafnhliða aukinni virkni taugakerfisins í blik- svefni þá fer einnig mikið púður í að viðhalda spennuleysi (lömun) í stoðgrindarvöðvum. Án þessa er næsta víst að við myndum í svefni hreyfa okkur í takt við draumana sem aug- ljóslega gæti skapað vandkvæði, til dæmis fyrir þann sem dreymir grindahlaup. Við langvar- andi svefnleysi verða þær taugafrumur sem mest tengjast svefni (við botn framheila) sí- virkari, þær hamla virkni taugafrumna sem tengjast vöku og orsaka að líkindum þrýsting- inn til þess að sofna sem verður á endanum óstjórnlegur. Sú mynd af svefni sem er dregin upp hér að ofan er einfölduð og að sumu leyti ófullnægj- andi en hún er ekki ófullnægjandi vegna þess að hún er einföld: heldur vegna þess að það sem við höfum lært um svefn, allt frá dögum Aristótelesar, fjallar um hvernig taugakerfið kallar fram vöku og mismunandi svefnstig. Við erum engu nær um til hvers það er gert. Kenningar um tilgang svefns og áhrif svefnleysis Þörfin fyrir svefn er öllum kunn. Rottur sem sviptar eru svefni lifa í um það bil 2 vikur; þær lifa mun lengur séu þær sveltar en geta sofið að vild! Mörgum finnst þetta vera næg ástæða til þess að ætla að svefn hljóti að vera til eitthvers. En það hefur reynst þrautinni þyngri að meta hvort hefur meiri skaða svefnleysið eða að- gerðirnar sem þarf að framkvæma til þess að orsaka það. Ennfremur hafa menn haldið sér vakandi (án lyfja) í 11 daga svo vitað sé og það án varanlegra vandkvæða; aðrir hafa lifað við góða heilsu árum saman eftir að hafa orðið fyr- ir sértækum heilaskaða sem minnkar svefn- lengdina niður í næstum ekki neitt. Það er líf- seig goðsögn að menn missi vitið af svefnleysi. Í náttúrunni má finna dæmi þess að dýr geti tímabundið komist af án svefns. Sem dæmi um þetta má nefna Keisaramörgæsir en hjá þeirri tegund sjá karlfuglarnir um það að unga út eggjunum og svo virðist sem þeir vaki á meðan á því stendur, eða um þrjá mánuði. Flestir far- fuglar hljóta líka að hafa fundið einhverja lausn á svefnþörfinni. Á meðan á löngu flugi stendur þurfa þeir annaðhvort að fljúga sofandi eða sofa lítið sem ekkert (ég hef aldrei getað ákveð- ið hvort mér finnst merkilegra). Nýlega var þó ein tegund spörfugla rannsökuð og svo virtist sem að svefnþörfin minnkaði stórum yfir þann árstíma sem fuglarnir notuðu að öðru jöfnu til ferðalaga. Undarlegasta undantekningin er kannski úr heimi sjávarspendýranna; eftir að hafa borið sýna hvalir, hvorki kýr né kálfur, engin merki svefns í allt að 6 vikur. Í stuttu máli virðist sem að dýr geti þróað með sér leið- ir til þess að komast af án svefns og því er erfitt að halda fram að svefn sé alltaf nauðsynlegur. Svefn og þroski Eitt megin stefið í kenningum um svefn á ræt- ur sínar að rekja til þess að ungviði sefur að öllu jöfnu meira en fullorðnir. Til dæmis verja fullorðnir menn 1⁄3 af degi hverjum í svefn og minna en einum tíunda af því í bliksvefn. Til samanburðar ver hvítvoðungur 2⁄3 af degi hverj- um í svefn og helmingi þess tíma í bliksvefn. Vegna þess að þetta á sér stað á sama tíma og geysihraðar breytingar verða á taugakerfinu þá hefur mörgum þótt það gefa vísbendingu um að svefninn orsaki að einhverjum hluta þroska eða sé nauðsynleg forsenda hans. Sú staðreynd að dýr sem fæðast vanþroskuð sofa jafnvel enn meira en þau sem fæðast albúin til þess að takast á við lífið hefur gefið þessari kenningu byr undir báða vængi. Þessi kenning er fyrir margra hluta sakir aðlaðandi og hefur undirritaður gjarnan varið hana en örðugt hef- ur reynst að draga raunprófanlegar tilgátur af henni. Þetta skýrist aðallega af því að ekki er hægt að stjórna magni eðlilegs svefns í rann- sóknarstofunni og því verður að reiða sig fylgnirannsóknar sem oft eru meingallaðar. Glöggir lesendur sjá jafnframt að þroski hvala- kálfa, sem ekkert sofa fyrstu sex vikur ævinn- ar, er ekki svefnháður. Breytingum á tauga- kerfi hvalakálfa á þessu fyrstu vikum ævinnar hefur reyndar ekki verið lýst og ansi for- vitnilegt er að vita hvort að til dæmis breyt- ingar á taugamótum í heilaberki fylgi ferli hlið- stæðu því sem við þekkjum úr öðrum spendýrum. Svefn, minni og viðhald heilabarkarins Það er lífseig hugmynd að svefn sé nátengdur taugavirkni í heilaberkinum og hugmyndir hafa verið uppi um að svefn stuðli að breyt- ingum á taugamótum innan barkarins sem ger- ast við nám og minni. Þessi hugmynd fellur illa að þeirri staðreynd að svefnlengd dreifist ekki í hlutfalli við stærð heilabarkarins; fílar, sem hafa hvað stærstan heilabörk, sofa reyndar minnst. Og svefnlengd spáir ekkert fyrir um hversu auðvelt er að þjálfa dýr eða hversu auð- velt menn eiga með að tileinka sér nýja þekk- ingu. Tengsl svefns og minnis hafa verið rann- sökuð af æ meiri krafti á síðustu árum og eru þessi tengsl vægast sagt umdeild og rann- sóknaniðurstöður eru mjög misvísandi. Af heil- brigðri skynsemi má hverjum manni vera ljóst að það er betra að vera útsofinn þegar til stendur að leggja eitthvað á minnið, en, sem fyrr, ekki er með öllu ljóst af hverju þetta staf- ar. Bætir svefn minni og skerpir einbeitingu eða er þörfin fyrir svefn illsamrýmanleg æðri heilastarfsemi og hefur svefnleysi því aðeins óbein neikvæð áhrif á minni? Þessari spurn- ingu er enn ósvarað. Svefn, orkunotkun og efnaskipti Við eðlileg efnaskipti í miðtaugakerfinu verða til mjög hvarfgjörn niðurbrotsefni, svokallaðir staklingar (e. free radicals), sem geta valdið umtalsverðum skaða á taugavef. Það er því snotur tilgáta að bylgjusvefn, sem er ekki orkufrekt ástand, gefi svigrúm til þess að lag- færa skemmda vefi eða að gera staklinga óvirka. Munur á svefnlengd dýra með mismun- andi efnaskiptahraða fellur vel að þessari til- gátu. Dýr sem hafa hæstan efnaskiptahraða, oftast smádýr, þurfa meiri svefn en þau sem hafa lægri efnaskiptahraða. Sum smærri nag- og pokadýr sofa allt að 18 klukkutíma á dag en til samanburðar komast fílar af með um 3 tíma á dag. Ennfremur hefur verið sýnt fram á að svefnleysi getur aukið skaða vegna staklinga, en ekki er búið að sýna fram á að aukinn svefn verji taugakerfið. Flugustofnar ræktaðir með tilliti til lítillar svefnlengdar (líkt og mjólk- urkýr ræktaðar vegna nytar) sýna öll merki eðlilegs svefns þó að stuttur sé, bæta til dæmis upp svefntíma sé hann skertur, en þessar flug- ur lifa mun skemur en þær sem sofa eðlilega. Yfir ævina virðist því sem eðlilegar flugur og þær sem þurfa minni svefn hafa úr álíka mörg- um klukkutímum að spila vakandi, kannski vegna þess að þær flugur sem sofa mjög stutt hafa ekki tíma til þess að vinna gegn skaða sem hlýst vegna staklinga. Þetta vekur upp spurn- ingar hvort að hægt sé að smíða lífveru, eða breyta einhverri sem til er fyrir, á þann hátt að hún þurfti engan svefn – en ævin yrði drifin af á ógnarhraða? Menn hafa einnig mjög mis- munandi svefnþörf og líkt og flugurnar, þá lifa þeir sem sofa 5 tíma og minna skemur en þeir sem sofa 7–8 tíma. Þetta myndi allt smella saman ef þeir sem sofa 9 tíma og meira hefðu ekki einnig skertar lífslíkur! Menn sem sofa 7 tíma lifa því að öðru jöfnu lengst, sem fellur betur að aldagamalli visku um að meðalhófið sé í öllu best en nútíma kenningum um svefnháð- ar varnir gegn staklingum. Önnur tengd hugmynd er að svefn sé fram- kvæmdur til þess að spara orku og svefntími sé aldrei stuttur nema eitthvað í þróunarsögu teg- undarinnar hafi knúið hann fram. Stórir gras- bítar, sem sofa jafna stutt, gætu hafa fórnað orkusparnaði sem svefninum fylgir til þess að geta verið á varðbergi gagnvart kjötætum, eða vegna þess að svo mikill tími fer í að éta sig saddan af svo orkusnauðum mat sem gras er. Á hinn boginn gætu rándýr, sem sofa jafnan lengi, leyft sér meiri svefn vegna þess að þau gátu sofið óhrædd um árásir auk þess sem að ein máltíð af kjöti og fitu dugar ansi lengi og því ekkert annað að gera en að spara orku og sofa. Snotur tilgáta, en vegna þess að hún hef- ur þróunarfræðilega skírskotun er erfitt að draga af henni raunprófanlegar tilgátur og maður spyr sig hvort að ekki sé alltaf hægt að finna svona skemmtilegar skýringar – eftir á. Svefn og framtíðin Við vitum ekki af hverju við sofum. Samt verj- um við þriðjungi af ævinni sofandi. Og öll sam- félög eru sniðin í kringum svefn: án svefns myndi dagur glata gildi sínu sem tímaeining; engin ástæða væri til þess að skipta vinnunni í dagshluta; minni ástæða væri fyrir að halda heimili; og þá engin ástæða fyrir að vera sífellt að ferðast milli heimilis og vinnu; erfitt er að sjá fyrir sér núverandi fjölskylduform halda sér í slíku samfélag. Svo mætti lengi telja. Án svefns væri samfélagið óþekkjanlegt. Það er því ekkert skrítið að menn hafa löngum reynt að hafa stjórn á svefninum, oft- ast með því að innbyrða lyf sem annaðhvort stuðla að vöku eða svefni. Svefnlyf eru flestum nútímamönnum kunn, þau eru margvísleg en eiga það öll sameiginlegt að virkni þeirra felst í því að auka áhrifamátt hamlandi taugaboðefna. Sá er galli á gjöf njarðar að eðlilegur svefn er ekki framkallaður á þennan hátt. Hamlandi taugaboðefni koma að sjálfsögðu við sögu en á sértækan hátt og margt fleira kemur til. Af þessum sökum verður svefn, kallaður er fram með lyfjum, ekki eins og svefn sem gerist af sjálfu sér heldur einhverskonar rot. Á hinn bóginn er kominn skriður á þróun lyfja til þess að minnka svefnþörf. Þar ber fyrst að nefna lyfið Modafinil (Cephalon Inc). Modafinil var uppgötvað fyrir tilviljun af frönskum vís- indamönnum fyrir um fimmtán árum og seinna kom í ljós að lyfið virkaði vel sem meðferð við drómasýki sem er sjúkdómur sem meðal ann- ars lýsir sér í óstjórnlegri dagsyfju. Lyfið, sem hefur óþekkta virkni, virðist ekki virka á sama hátt og hefðbundin örvandi lyf eins til dæmis amfetamín sem skilur neytandann eftir í svefn- skuld þegar notkun er hætt. Líklegast er að lyfið, fyrir helbera tilviljun, hamli á sértækan hátt virkni þeirra frumna í framheilanum sem orsaka svefn við eðlilegar aðstæður. Lyfið dregur úr svefnþörf í kringum 48 klukkustund- ir og enn sem komið er hafa ekki fundist auka- verkanir; Modafinil er ekki vímugjafi. Eins og við má búast hefur heilbrigt fólk séð leik á borði í að taka lyfið til þess að afkasta meiru í hverju því sem það vill taka sér fyrir hendur. Þar sem lyfið er lyfseðilsskylt og fæst aðeins framvísað til sjúklinga er svo komið að ólögleg- ur markaður fyrir lyfið hefur skapast. Fleiri hliðstæð lyf er í farvatninu og hefur rannsókn- ararmur bandaríska hersins (DARPA) þegar hafið prófanir á vökulyfinu CX717 á hermönn- um. Mörgum kann að finnast áhrifamáttur þess- ara nýju lyfja ógnvekjandi og vona kannski að ekki takist með öllu að ráða svefngátuna. Það er skiljanlegt; ef við næðum tangarhaldi á svefni yrðu samfélagsbreytingarnar gífur- legar. Þó aðeins tækist að ná valdi yfir svefni í litlum mæli (til dæmis með því að geta orsakað tveggja til þriggja dag skaðlaust svefnleysi) myndi það orsaka byltingu í hvernig við lifum. Breytingin gæti verið hliðstæð því þegar gas- ljós gerðu mannfólki kleift að starfa um nætur, eða þegar getnaðarvarnarpillan aðskildi kynlíf og getnað. En það eru þessar jaðarrannsóknir sem eru ástæðan fyrir bjartsýni minni um að við munum á endanum skilja hvers vegna við sofum (hvernig sem við svo kjósum að nota þær upplýsingar). Að mínu viti er róttækustu niðurstaðnanna að vænta frá þremur megin rannsóknarsviðum: í fyrsta lagi, þar sem sjón- um er beint að þeim undantekningum frá ánauð svefnsins sem náttúran hefur skapað, eins og svefnmynstri sjávarspendýra, farfugla, og Keisaramörgæsa; í öðru lagi, þar sem rann- sakaðar eru orsakir einstaklingsmunar á svefnþörf og svefnlengd; og í þriðja lagi, þar sem þess er freistað að smíða lífveru sem ekki sefur. Einn af höfuðpaurum svefnrannsókna síð- ustu aldar, Alan Rechtschaffen, sagði eitt sinn að ef svefn hefði engan tilgang, þá væru það dýrustu mistök þróunarsögunnar. Og aldrei hefur lausn svefngátunnar verið nærri: kenn- ingasmiðir eru frjóir, rannsóknum er sinnt af krafti, kerfisbundið og djarft. Ef fer sem horfir munum við á endanum ná valdi yfir svefninum, skilja af hverju við sofum og hvaða hlutverki svefninn gegnir. Þó að ég vilji ekki útiloka að svefn sé tilgangslaus og ekkert nema grá- glettni skaparans. Af hverju sofum við? Hvað er svefn? Það er ekki víst að margir hafi velt þessari spurningu fyrir sér og raun- ar eru til fá svör við henni. Það er jafnvel erfitt að halda því fram að hann sé alltaf nauðsynlegur. Hugsanlega er hann bara gráglettni skaparans. Vísindamenn vinna samt hörðum höndum að því að skilja fyr- irbærið og ná tökum á því. Eftir Karl Ægi Karlsson karlsson@ru.is Morgunblaðið/Kristinn Tilgangslaust? „Einn af höfuðpaurum svefnrann- sókna síðustu aldar, Alan Rechtschaffen, sagði eitt sinn að ef svefn hefði engan tilgang, þá væru það dýrustu mistök þróunarsögunnar.“ Höfundur er doktor í taugavísindum og aðjúnkt á heilbrigðistæknisviði við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.