Lesbók Morgunblaðsins - 27.05.2006, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 27.05.2006, Blaðsíða 4
4 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 27. maí 2006 Ö rn Elías Guðmundsson fékk viðurnefnið Mugi- son sem barn og það hef- ur verið listamannsnafn hans síðustu ár eða allt frá því fyrsta plata hans, Lonely Mountain, kom út hér heima fyrir jólin 2002. Platan var svo gefin út um heim allan hálfu ári síðar og fékk fínar viðtökur. Á Lonely Mountain var Mugison einn á ferð, setti tónlistina saman á fartölvunni sinni, fléttaði saman rafrænum hljóðum og tónum. Á tónleikum var hann líka einn alla jafna, notaði tölvur og tól til að fylla upp í hljóminn, spilaði undir hjá sjálfum sér. Stundum var hann reyndar með gítarleikara og stundum kom Mugimama, Rúna Esra- dóttir, við sögu, en alla jafna var Mugison einn á ferð. Það þykir því mörgum saga til næsta bæjar þegar spurðist að á næstu sóló- skífu sinni hygðist Mugison troða upp með hljómsveit. Forsmekkur að því fæst á morg- un er hann treður upp með nýstofnaðri hljómsveit sinni í Austurbæ, en tónleikarnir eru liður í dagskrá Listahátíðar. Þreyttur á rútínunni Einsmannssveitin Mugison er ríflega þriggja ára gömul, og Mugison segir að það hafi eiginlega verið kominn tími til að leggja henni í bili, hann hafi verið orðinn þreyttur og langað að breyta til. „Þetta var upp- haflega af nauðsyn, ég hafði ekki efni á að vera með mann eða menn með mér, en það varð líka til góðs enda varð ég að gera það besta sem ég gat úr því að vera einn, sem þróaðist út í mjög skemmtilegt ævintýri,“ segir Mugison og heldur svo áfram eftir stutt hlé: „Síðasta árið var þetta þó bara skemmtilegt á köflum. Eins og öll sirkusatriði verður maður þreyttur á rútínunni, að vera alltaf að loopa í tölvunni og playbackið var farið að fara í taugarnar á mér,“ segir Mugison og bætir við að þannig hafi þetta smám saman hætt að vera eins gaman og áður. Það var því ekk- ert annað að gera en stofna hljómsveit – kalla á trommur og bassa og byrja æfingar. Þeir eru þrír í hljómsveitinni nýju, Guðni Finnsson bassaleikari og Arnar Geir Óm- arsson á trommur, hrynpar Íslands mætti kalla þá enda er á stundum eins og þeir séu í öllum helstu hljómsveitum landsins. Hljóð- færaskipanin er einföld, trommur, bassi og gítar, en tölva kemur líka við sögu, „mér finnst gaman að hafa hana með, hún er svo öflugt hljóðfæri“, segir Mugison, en þótt hann sé enn að nota tölvu á sviðinu þá notar hann hana allt öðruvísi en þegar hann treður upp einn og allt önnur forrit. Búinn að slökkva á farsímanum Þeir félagar Mugison, Guðni og Arnar byrj- uðu að spá í hlutina fyrir áramót að því Mugison rekur söguna, en síðan var alltaf eitthvað að koma upp á, hann var sífellt að taka að sér ný og ný verkefni, svo minna varð úr æfingum og undirbúningi en til stóð. Á endanum greip hann þó í taumana, „ég er búinn að slökkva á farsímanum“, segir hann ákveðinn. Tónleikar Mugisons á Listahátíð verða fyrstu tónleikar hans með hljómsveitinni ut- an að þeir félagar héldu opna æfingu, eins og hann kallar það, á Prikinu sl. miðvikudags- kvöld. Því lyktaði víst með smáskralli og Mugison er svolítið rykaður þegar við spjöll- um saman. Hress þó. „Það var ansi gott spark í rassgatið, þetta var ansi langt frá því að vera áhugavert,“ segir hann og hristir hausinn, en á fimmtudag var önnur æfing, ekki fyrir framan áheyrendur, sem Mugison segir að hafi heppnast mjög vel, önnur æfing var á föstudag og enn önnur í dag. „Þetta verður fínt,“ segir hann, „Það er líka svo gaman þegar það er ekki allt hundrað pró- sent,“ segir Mugison og kímir. Mýrin, meðal annars Fyrst þeir félagar eru komnir af stað ákváðu þeir að gera aðeins meira, spila á tvennum tónleikum í Danmörku og einum í Þýska- landi í næstu viku. Síðan verður staðar num- ið í bili því framundan er að ljúka við tónlist- ina við Mýrina, kvikmynd Baltasars Kormáks eftir samnefndri sögu Arnaldar Indriðasonar. Skammt er í að þeirri tónlist verði skilað, en Mugison virðist ekki hafa af því miklar áhyggjur; „ég á að skila músíkinni 1. ágúst og það verður ekkert mál,“ segir hann hinn rólegasti. Platan sem hann er með í smíðum verður þó að bíða og það þó að hann hafi ætlað sér að vera búinn með hana fyrir löngu. „Ég er með fullt af lögum á hana, fullt af hugmyndum, en það hefur ekki gengið eins hratt og ég átti von á að klára hana, ég bjóst við að þetta myndi ganga hraðar. Ég ætlaði að vera búinn með hana fyrir vorið og síðan átti hún að verða tilbúin í sumar, en hún klárast örugglega ekki á þessu ári, þær hugmyndir sem ég hafði í upphafi hafa þurft meiri tíma til að þróast.“ Í gegnum tíðina hefur Mugison kunnað því illa að spila ný óútgefin lög á tónleikum, vill helst ljúka við þau í hljóðverinu áður en hann fer að spila þau opinberlega, en á þess- um Listahátíðartónleikum verður hann þó með fjögur eða fimm ný lög. Annað á tón- leikadagskránni er eldra en hljómar þó ný- stárlega því allt er í hljómsveitarbúningi. Hann segir þó að tónlistin sem hann semur fyrir hljómsveit sé ekkert öðruvísi en það sem hann hefur hingað til samið fyrir sjálfan sig, lögin verði alltaf til á kassagítarinn og drifin inn sem demó. „Svo þróast þau áfram eftir því hvernig þau vilja vera. Ég hugsa ekkert um að ég sé að semja fyrir hljóm- sveit, hugsa bara um lögin, hvað þau þurfa og kalla á. Mér finnst eiginlega eins og þessi lög semji sig sjálf; ef lag biður um píanó þá þarf ég að redda píanói, hringi í Davíð Þór.“ Hellings yfirvinna Þrátt fyrir miklar annir undanfarin ár segist Mugison hafa það gott, lífið sé honum gott. „Þetta er bara eins og að vera smiður, það er gaman að hafa nóg að gera og ekki síst ef maður hefur gaman af því sem maður er að gera. Ég er heppinn maður,“ segir Mugison og bætir við að það sé munaður að geta framfleytt sér af tónlist, sérstaklega hér á landi, „við náum að skrimta á þessu, með hellings yfirvinnu“, segir hann og hlær við. Líkt og vill vera með tónlistarmenn vinnur Mugison að miklu leyti heima hjá sér og seg- ist kunna vel við það, ekki síst þar sem hann er svo heppinn að kona hans og sonur eru bæði tónelsk. „Það hefur þó sína kosti að fara í vinnuna, fara á einhvern stað utan heimilisins og vinna þar. Skilja svo vinnuna eftir þegar maður fer heim,“ segir Mugison, enda getur það verið erfitt fyrir vinnusaman mann að vera ekki sífellt að þegar vinnuað- staðan er heima. „Ég spái kannski í það ef ég á aukapening einhvern tímann.“ Soltinn og klæðlítill Þótt Mugison hafi nóg að gera hér heima kviknar gjarna sú spurning hvort honum myndi ekki miða betur áfram byggi hann er- lendis. Hann gefur í sjálfu sér ekki mikið fyrir það, finnst það ekki veigamikil ástæða til að flytja út, en segir að þau hjónin hafi rætt það nokkrum sinnum að búa ytra í ein- hvern tíma. Hann átti einmitt heima úti í Lundúnum í þrjú ár, lagði þá grunninn að fyrstu plötunnni, Lonely Mountain, og lýsir því sem góðum tíma þótt hann hafi oft verið auralítill. „Ég þyrfti að fara í einhvern skóla og læra að hugsa um peninga,“ segir hann og rifjar upp er hann var soltinn og klæðlítill úti í löndum – fékk að liggja í stofunni hjá vin- um og kunningjum. Þá átti hann lítið annað en Makkann sinn sem hann samdi á tónlist- ina á Lonely Mountain. Tal okkar berst að því hve algengt það sé að fólk á hans aldri haldi utan í lengri eða skemmri tíma, en þó er eins og flestir snúi aftur þegar börnin eru komin á skóla- skyldualdur – vilji að þau alist upp hér á landi. Mugison finnst það þó ekki vera atriði sem skipti meginmáli; minnir á að hann hafi alist upp á hálfgerðu flakki með fjölskyld- unni víða um heim. „Mér finnst ég ekki hafa farið illa á því að vera bara ár og ár í skóla hér og þar og stundum ekkert í skóla,“ segir hann og bætir svo við: „Ég hefði ekkert á móti því að vera næstu tuttugu árin á flakki í húsbíl, en þegar maður vill deila lífinu með einhverjum öðrum þá gerir maður ekki hvað sem er.“ Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson Heppinn maður, Mugison Æft af kappi Guðni Finnsson, Arnar Geir Ómarsson og Örn Elías Guðmundsson, sem menn kalla Mugison.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.