Lesbók Morgunblaðsins - 22.07.2006, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 22.07.2006, Blaðsíða 5
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 22. júlí 2006 | 5 kraft – að því marki að maður sér ekki lengur tilganginn með því sem maður er að gera. – Mér finnst álagið við þessa uppfærslu reyndar alveg kjörið, segir Ingvar. Við sýnum tíu sýningar sem er algert lágmark, miðað við stærð uppsetningarinnar. En þetta verður lýj- andi ef þetta varir mikið lengur en það. Við vor- um t.d. sex vikur í Young Vic og þar á eftir þrjá mánuði í Playhouse og sýndum átta sýningar á viku. Það er eitthvað sem drepur stemninguna í hópnum og ég held að vinnuálagið komi að end- ingu niður á gæðum sýningarinnar. Það var t.d. eins og orkan væri farin úr Rómeó og Júlíu síð- ustu tvær vikurnar í Young Vic. Við fengum enga hvíld og lékum líkamlega krefjandi sýn- ingar með allt of stuttu millibili. – Uppsetningin á Rómeó og Júlíu var hrein- lega ekki hönnuð fyrir átta sýningar í viku, bæt- ir Gísli við. Okkur var boðin þessi keyrsla og maður varð svo upp með sér og kurteis að mað- ur kunni ekki við að neita. Ég var bara ánægður og hugsaði til þess að bráðum kæmist ég þá í gott form og sá næstu mánuði fyrir mér í hill- ingum – en síðan reyndist þetta þvílík þræla- vinna. – Undir þannig álagi þarf maður að fara rosa- lega varlega til að missa t.d. ekki röddina, segir Ingvar. Sumir tognuðu eða meiddu sig á annan hátt og við þurftum því að leita leiða til að stíga hvert inn í annars hlutverk. Gísli verður hugsi: – En maður hlýtur auðvitað heilmikla skólun við að leika svona oft í viku, segir hann eftir stundarþögn. Heima rífur maður ef til vill í röddina á sunnudegi en það er ekki sýning aftur fyrr en í fyrsta lagi á fimmtudegi svo maður veit að maður á nokkra daga til góða sem nýtast til hvíldar. En hér á Englandi rífur maður kannski röddina á miðvikudagseftirmiðdegi og þarf svo að sýna strax aftur um kvöldið. Þetta gengum við í gegnum; fyrst í sex vikur og síðan í heila þrjá mánuði. Þreytan var ævarandi og maður náði aldrei fullri hvíld. Það virðist draga nokkuð af Gísla við þessa tilhugsun en hann hressist fljótt á ný og heldur máli sínu áfram: – Mín tilfinning er sú að munurinn á bresku leikhúsi og íslensku sé þessi: Þar sem sýn- ingafjöldinn er meiri hér í Bretlandi reyna framleiðendur að gera sýninguna minna krefj- andi og auðveldari fyrir leikarana. Það er auð- vitað skiljanlegt því starfið er gríðarlega erfitt og álagið stanslaust. En fyrir vikið er hætt við því að gæði sýningarinnar séu ekki í hámarki – hún gæti verið sett upp betur. Við í Vesturporti höfum alltaf verið dugleg að breyta öllum sýn- ingunum okkar en aðeins til bóta. Ef breytingin krefst þess að sýningin verði líkamlega erfiðari, en um leið betri þá veljum að breyta henni. Tákn og predikanir Leikritið Woyzeck er hægt að túlka á þann veg að höfundurinn fjalli um það hvernig vís- indadýrkun og efnishyggja reka mannveruna til grimmdar og tómhyggju. Ef til vill fellur þetta erindi vel að nútímanum með tilliti til staðhæf- inga á borð við þá að Guð sé dauður. – Verðið þið varir við að gagnrýnendur túlki verkin ykk- ar á pólitískan eða frumspekilegan máta? Kankvíslegar brosviprur fara um andlit Ingv- ars: – Það er oft þannig að gagnrýnendur lesa í alls kyns tákn og vísanir þegar þeir eru hrifnir. En þeir eru kannski að túlka eitthvað sem okk- ur þótti einfaldlega sniðugt að gera á æfingu og kemur engum boðskap við. Kannski pörum við eitthvað saman í undirmeðvitundinni sem ein- hver boðskapur er á bak við en við höldum eng- ar predikanir og stöndum ekki á sviðinu með vísifingurinn á lofti. Gísla virðist líka langa til að svara spurningunni: – Ég hef engan áhuga á að láta leikhúsið pre- dika, segir hann ákveðinn. Ef ég tek sjálfan mig sem dæmi þá læt ég ekki segja mér neitt og trúi því síðan í blindni. Hefurðu einhvern tíma séð leiksýningu og hrópað úr sætinu: Já! Amen og halelúja! Fólk er meðvitað. Ég held að Woyzeck sé ágætis dæmisaga sem þú getur dregið þinn eigin lærdóm af og í kjölfarið spurt sjálfan þig spurninga á persónulegum nótum. Ég hef miklu meiri áhuga á svoleiðis leikhúsi. Þetta leikrit fjallar um framhjáhald og að koma illa fram við náungann. Það sýnir framhjáhald í sinni verstu mynd með því að Woyzeck drepur konuna sína fyrir að halda framhjá sér. Svipaður atburður gæti gerst í dag, en í nútímasamfélagi er framhjáhald orðið léttvægur hlutur sem margir stunda en fæstir túlka sem dauðasynd. Það er allt í lagi að varpa því fram að hlutir geta haft alvarlegri afleiðingar en maður vill trúa í ein- feldni sinni. Að skipta tungum Framsetning Vesturports á Woyzek er ekki síst óvenjuleg vegna hins sterka íslenska hreims sem einkennir enska talmálið. Hann gaf sýning- unni framandi blæ og gerði það að verkum að það var erfitt að staðsetja sögusvið leikritsins landfræðilega. – Hvernig gengur að skipta úr íslensku yfir í ensku, Ingvar? – Það gengur reyndar furðu vel. Við vorum með enskan þjálfara sem hjálpaði okkur – þó ekki til að við myndum hljóma eins ensk og mögulegt er, heldur til að við værum eins skilj- anleg og mögulegt er. Það hljómar kannski undarlega en mér finnst auðveldara að leika bæði Rómeó og Júlíu og Woyzeck á ensku. Í Rómeó og Júlíu notum við auðvitað upp- runalega textann sem er svo ótrúlega vel skrif- að fyrirbæri að hann hljómar alltaf fallega í höfði fólks og munni. Enska útgáfan af Woy- zeck, sem við vinnum með, virðist að sama skapi vera ágætis þýðing. Íslenskan flæðir ekki alltaf jafn vel í þessum tilvikum og þó maður sé Ís- lendingur er stundum erfiðara að muna textann á móðurmálinu. – Mér datt raunar eitt í hug núna, segir Gísli. Enska er ekki tungumál sem maður talar dag- lega. Það gerir það þá kannski að verkum að þegar maður leikur persónu sem talar ensku frelsast maður enn frekar frá sjálfum sér. Ég segi eins og Ingvar: Mér fannst miklu betra að leika Rómeó á ensku en íslensku. – Er íslenskan svo óþjál að hún getur ekki hljómað eðlilega í leikritum og kvikmyndum? – Ég held að við séum einfaldlega svo óvön því að heyra hana, svarar Ingvar. Íslenskan er æði, en við erum vanhirt og snuðuð um leikið ís- lenskt sjónvarpsefni. Ef við sjáum og heyrum ekki fjölbreytt leikið efni á íslensku þá kemur hún okkur spánskt fyrir sjónir. Við erum alin á svo miklu rusli á ensku, sem við sættum okkur við þó það sé hrikalega illa gert, og ef við sjáum eitthvað á eigin tungu þá skömmumst við okkar. Málið er að ef við fáum ekki að spreyta okkur á þeim vettvangi þá lærum við aldrei neitt. Það er því í rauninni ríkissjónvarpið sem hefur brugð- ist menningarlegri skyldu sinni að þessu leyti. Framundan bíður Gísla og Ingvars helj- arinnar verkefni en fram að því ætlar Ingvar sér að fara í frí með fjölskyldunni. – Við erum að fara að leika í Hamskiptunum eftir Franz Kafka í Lyric Hammersmith leik- húsinu, segir Gísli. Þar verður Nína Dögg Fil- ippusdóttir líka ásamt tveimur breskum leik- urum. Og frumsamin tónlist eftir Nick Cave – hann er nánast orðinn húsbandið okkar. Þetta kom þannig til að í vetur lék ég í sýningu sem heitir Nights at The Circus með Neehive- leikhópnum í Lyric Hammersmith. Þá var Dav- id Farr að taka við sem leikhússtjóri og hann talaði um að við ættum að sameina krafta okk- ar. Fyrst stakk hann upp á nokkrum verkum en svo spurði hann hvort ég vildi leika í Ham- skiptum Kafka, taka þátt í leikgerðinni og leik- stýra verkinu ásamt honum. Ég var til í það og í framhaldi af því slógust Ingvar og Nína í hóp- inn. Æfingar hefjast 21. ágúst og við frum- sýnum 4. október. Kvenmannsrödd glymur úr kallkerfi leik- hússins og hávaðinn frá vinnu sviðsmannasveit- arinnar er farinn að yfirgnæfa samtalið. Klukk- an er sex og það er auðskilið að leikarinn og leikstjórinn þurfa frá að hverfa til að sinna síð- ustu sýningu kvöldsins. Blaðamaður kveður og horfir á eftir Ingvari og Gísla hverfa langt inn í ranghala Barbican: Göngulagið er afslappað. Höfundur er blaðamaður

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.