Lesbók Morgunblaðsins - 22.07.2006, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 22.07.2006, Blaðsíða 7
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 22. júlí 2006 | 7 Þetta var að vísu satt því á hans yngri dögum voru tveir legsteinar lagðir á leiði í næsta ná- grenni við hann. Annar í upphafi 17. aldar yfir Tómas Ólafsson, lögréttumann, sem var fædd- ur um 1560 og bjó á Lýtingsstöðum í Tungu- sveit; hinn á Stórholti í Fljótum, er legsteinn Tómasar Brandssonar á Þorleifsstöðum. Hann var fæddur um 1490 og dáinn laust eftir 1570. Því kemur það á óvart hvað Arngrímur hafði lélegar heimildir um íslenska rúna- stafrófið og íslenskar rúnaristur þegar hann skrifaði kaflann um tungu þjóðarinnar og rún- irnar. Hann virðist ekki hafa þekkt önnur ís- lensk rúnastafróf en það sem hann sótti í rit- gerð Ólafs í Ormsbók, (Codex Wormianus), sem hann átti og sendi Worm, en þar eru, eins og kunnugt er, allar málfræðiritgerðirnar. Skýringar Arngríms eru þó ekki í miklu sam- hengi við texta Ólafs eða við það rúnastafróf sem hann prentar í bókinni. Þegar Óli Worm hóf að safna gögnum um forntíð Norðurlandanna skrifaði hann Arn- grími og innti hann eftir nánari upplýsingum um þessa steina, sem honum skildist vera frá upphafi Íslandsbyggðar. Neyddist þá Arn- grímur til að koma með undanfærslur: Ef þess er krafist að fá allar legsteinsáletranir eru göngur og ferðalög nauðsynlegar og svo eru þeir allir veðraðir og skriftin ekki nógu greini- leg þar sem slíkar áletranir eru höggnar í þá hörðu steintegund sem við köllum blágrjót eða blágrýti og þær eru svo sjaldgæfar að ég get tæplega talið upp fjóra eða fimm hér á Norð- urlandi. Seinna ber hann því við að: Landar sínir séu deigir til þess að opna hug sinn eða sýna þekk- ing sína á þessum efnum, fyrir þá sök að á þá, sem sinna rúnum, falli grunsemd um svarta- galdur, einkum hjá höfuðsmönnum Dana hér, svo ekki bresti mikið á, að þeir séu teknir und- ir rannsókn. Um þessar mundir hafði að vísu einn maður verið brenndur fyrir að galdra (1625) en varla hefur jafnháttsettur maður og Arngrímur átt á hættu að vera borinn slíkum sökum, en lík- legt er að þeir sem eitthvað vissu um rúnir hafi færst undan að viðurkenna það af hræðslu við að vera ásakaðir um óleyfilegt athæfi. Worm hélt áfram að biðja pennavini sína á Íslandi, Arngrím, Þorlák Skúlason síðar bisk- up, Magnús Ólafsson prest í Laufási, Brynjúlf biskup Sveinsson, um teikningar af og lýs- ingar á þessum gömlu steinum sem þeir gátu auðvitað ekki veitt honum. Að vísu fékk hann nokkur rúnaletur frá þeim og einhver íslensk rúnahandrit hafði hann undir höndum þegar hann birti rúnabækur sínar, en vitneskju um það sem í raun og veru var til í landinu fékk hann ekki og þeir prestar og biskupar vísa stöðugt á þann mann sem átti að vera einn helsti rúnameistari landsins en aldrei var til taks þegar á þurfti að halda: Jón Guðmunds- son lærði, sem hraktist um landið undan fénd- um sínum á Vestfjörðum og hefur sennilega fengið rykti sitt um rúnakunnáttu af galdra- kveri því sem hann var sagður hafa skrifað þegar hann átti að hafa haldið galdraskóla á Snæfellsnesi. Hann náðist og var dæmdur út- lægur kringum 1635. Í Kaupmannahöfn fór hann á fund Óla Worms sem kom því til leiðar að Kristján Friis Cancelleri útvegaði honum konungsbréf um að mál hans skyldi prófast að nýju. Worm sneri Jóni aftur til Íslands og getur hvorki hans né rúnakunnáttu hans neins stað- ar, enda er ég sannfærð um að á 17. öld kunnu flestir þeir sem fræðimennsku stunduðu á annað borð eitthvað um rúnir nema Jón lærði, sem aldrei virðist hafa lagt sig sérstaklega eft- ir þeim fræðum þótt hann hafi verið fróður á öðrum sviðum. Finnur biskup Jónsson segir í kirkjusögu sinni að hann hafi eitt sinn séð bréf frá Brynj- ólfi biskup til Jóns lærða með fyrirspurnum um rúnir: „Um það gat Jón engu svarað af skynsemi eða viti og bar því við að einhvern tímann hafi verið lagt hald á gögn hans. Þann- ig að biskup hefði farið í geitarhús að leita ull- ar. Meðan þessu fór fram kom sá sem mest vissi um íslenskar rúnir, Björn Jónsson á Skarðsá ekki við sögu þótt hann hafi búið í ná- munda við bæði Arngrím og Þorlák biskup. En 1642 ritaði hann merkilega grein sem hann nefndi Nokkuð lítið samtak um rúnir. Þar dregur hann saman allar tiltækar heimildir um rúnir í hinum fornu fræðum, eddukvæðum, sögum og ljóðum. Hann kannast við bækur Worms og veit að þetta letur sést á klettum og legsteinum þeirra gömlu kónga og yfirmanna í Noregi og Danmörku þótt hann geti ekki lesið þær sjálfur: þó sú bók sé mér ei skiljanleg fyr- ir mína vankunnanda sakir, og vil eg láta heyra minn skilning á þessu orði rúnir og bív- ísa nokkurnveginn það vort mál vera eftir því og sem þeir hinir gömlu talað hafa. Hann minnir á „að forbannað er rúnir að hafa til nokkra galdra eða hjátrúar“, vill bægja frá sér öllum grun um að iðka slíkt og tekur það skýrt fram að rúnir eru fyrst og fremst letur: „Því letrið í sjálfu sér og í sinni myndan er svo gott og einfalt sem nokkurt annað tungumálsletur eða stafamyndir sem notað var fyrir daglegt móðurmáls rit og stafagjörð. Og þó þeir fjölkynngismenn nokkrir hafi haft eður hafi rúnanna myndir til nokkurra óguð- legra athafna þá er það ekki rúnunum að kenna: Því svo má til vonds hafa það letur, sem vér nú daglega tíðkum, sem nokkurnveginn það letur. Einnig má og með þessu rúnaskrifi margt gagnlegt og fróðlegt saman taka, sem með öðru letri og binda með og í því þá hluti er menn vilji allmenningur ei skilji og betur gagnar að ekki sé fyrir allra manna augum.“ Hann gerir nöfnum rúnanna skil og skipt- ingu stafrófsins í þrjár ættir og sýnir allmörg dæmi um slíkar þrídeilurúnir sem myndaðar eru þannig að ættin er gefin upp með því að setja strik vinstra megin við aðalstafinn og staða rúnarinnar með strikum vinstra megin (8. mynd). Auðvelt er að mynda stöðugt ný af- brigði af þrídeilum samkvæmt þessu kerfi, enda var það svikalaust gert af þeim sem feng- ust við þessi fræði. Beri maður þessar málrúnamyndir Björns, sem einnig eru til í eldri handritum, saman við ristuna á Röksteininum, ríflega 800 árum eldri, er engu líkara en að Varinn hafi haft rit- gerð Björns við höndina þegar hann valdi þrí- deilur og dulrúnir í sinn texta (2. mynd): Á Röksteininum má sjá spjall/spjald-rúnir Björns efst, hjálmrún í neðstu línu ásamt haugbúaletri sem Björn skýrir þannig: „Enn haugbúaháttur er með því móti að hver næsti stafur hinn seinni er settur fyrir þann sem les- ast skal, og gengur allt stafrófið út.“ Á hlið Röksteinsins má einnig sjá stafkarla- letur af sömu gerð og í riti Björns. Þessar þrí- deilur hafa að öllum líkindum borist til Íslands þegar á landnámsöld því þær eru aðeins þekktar frá Röksteininum og úr íslenskum handritum. Um miðja 18. öld samdi Jón Ólafson Grunn- víkingur mikið rit um rúnir, sem hann nefndi Runológíu eða Rúnareiðslu. Jón styðst mjög við samtak Björns, en hafði einnig undir hönd- um önnur handrit með líkum letrum. Þar á meðal nú glatað skinnhandrit frá því um 1550, sennilega skrifað af séra Þorleifi Björnssyni á Reykhólum. Þorleifur var 1546 dæmdur fyrir kvennafar og „iðkun djöfullegrar fjölkynngi“ og ekki er ósennilegt að rúnablöð hans hafi átt þátt í að koma síkum orðrómi á kreik. Í handritinu segir að þetta séu hin 24 letur í Fjölni. Jón Ólafsson vitnar í því sambandi í rúnabók Worms (Monumenta Danicorum) þar sem segir að Arngrímur Jónsson segi „í síjnu sendebrefe, sem infært er [...] byrjast þar pag. 38. at menn meine, at Þóroddr nockr Rúna- meistari hafi upp þeinkt þessi xxiiij Rúnaletr, eður fleire; Eður helldur teckit þau eptir öðr- um, og haft um hönd“. En Þóroddur þessi rúnameistari setti samkvæmt hinum óþekkta höfundi að formála málfræðiritgerðanna í Ormsbók fram nýtt rúnastafróf saman á móti latínustafrófinu ásamt Ara fróða. Hefur það líklega verið kringum 1120. Talan 24 kemur heim við tölu rúnanna í frumgermanska rúna- stafrófinu og það getur tæplega verið tilviljun þar sem þessi tala var ekki þekkt fyrr en Lud- wig Wimmer leysti gátu frumgermönsku rún- anna um miðja 19. öld. Finnst mér sennilegt að þessi tala sé upphafleg í því kerfi af þrídeilum og letrum sem Varinn greinilega kunni og sem virðist hafa varðveist, a.m.k. að einhverju leyti, á Íslandi fram á 17. öld. Samtak Björns um rúnir og Rúnareiðsla Jóns eru til í mörgum uppskriftum í þeim fjöl- mörgu handritum með rúnum og letrum af ýmsu tagi sem varðveitt eru í Þjóðarbókhlöðu, á Árnastofnun og víðar. Fram undir 1900 voru rúnir nokkuð algengar á gripum af ýmsu tagi, svo sem rúmfjölum, trafkeflum, prjóna- stokkum og lárum og má segja að rúnirnar hyrfu ekki úr notkun á Íslandi fyrr en menn hættu að skrifa upp handrit og skreyta nytja- hluti með letrum af ýmsu tagi.  Helstu heimildir: Einar G. Pétursson, 1998: Eddurit Jóns Guðmundssonar lærða. Reykjavík Páll Eggert Ólason, 1926: Menn og menntir siðskiptaald- arinnar á Íslandi, IV. Þórgunnur Snædal, 1998: Íslenskar rúnir í norrænu ljósi. Árbók hins íslenzka fornleifafélags. ? 2001–2: Rúnaristur á Íslandi. Árbók hins íslenzka forn- leifafélags ? 2002: From Rök to Skagafjörður. Scripta Islandica 53. og stafagjörð Höfundur er rúnafræðingur og starfar í Svíþjóð Ljósmynd Þórgunnur Snædal. 1. mynd Þetta myndarlega rifbein fannst í Sigtúnum skammt frá höfuðborg Svía Stokkhólmi. Í ristunni er konungurinn Ingi Steinkelsson lofaður fyrir mat- argæði og þekkilegheit. Ljósmynd Bengt A. Lundberg. 8. mynd Rúnaletur úr ritgerð Björns á Skarðsá. Ljósmynd Þórgunnur Snædal 6. mynd Rúnasteinnin í kirkjugarðinum á Grenðjaðarstað. Lagður yfir Sigríði Hrafnsdóttur á fyrri hluta 15. aldar. Ljósmynd Bengt A. Lundberg. 5. mynd AM 748 4to.Rúnastafrófið bundið í hina einkennilegu setningu sprengd mans hök flýðu tvi boll í málskrúðsfræði Ólafs hvítskálds í hand- ritinu AM 748 4to.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.