Lesbók Morgunblaðsins - 07.10.2006, Síða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 07.10.2006, Síða 4
Eftir Inga Frey Vilhjálmsson ifv@hi.is Þ egar stéttaskipting í íslensku þjóðfélagi kemur til tals á opinberum vettvangi er gjarnan sagt að hún hafi verið fremur lítil í gegnum tíðina. Til að mynda kom þessi skoðun fram í nýlegri umræðu um aukinn ójöfnuð í þjóðfélaginu, sem kviknaði eftir að fjölmiðlar höfðu sagt frá himinháum launum stjórnenda í fjármálaheiminum. Þessi staðhæfing er yfirleitt ekki rökstudd þegar hún er sögð, heldur virðast menn gefa sér að hún sé sönn. En það er ýmislegt við hana að athuga. Fyrsta spurningin sem vaknar er: Á hvaða heimildum er hún byggð? Næsta spurn- ing: Um hvaða tímabil er verið að tala? Er verið að tala um stéttaskiptingu á Íslandi á fyrri hluta tuttugustu aldar, allan seinni hluta hennar eða kannski bara síðustu tvo áratugina? Vegna þess hversu illa ígrunduð skoðunin virðist vera er hægt að kalla hana: „kredduna um stéttaskipt- inguna á Íslandi“. Í greininni ætla ég að leiða að því rök að skoð- unin sé röng þegar rætt er um stéttaskipt- inguna í íslensku þjóðfélagi á fyrri hluta tutt- ugustu aldarinnar. Ég dreg þessa ályktun með því að alhæfa um stéttaskiptinguna í landinu á þessum tíma út frá niðurstöðum rannsóknar á stéttarstöðu nemenda Menntaskólans í Reykja- vík á árunum 1904–1953. Rannsóknin er stofn- inn í BA-ritgerð í sagnfræði sem ég skrifaði við Háskóla Íslands. Helsta forsendan sem þessi al- hæfing um stéttaskiptinguna í landinu byggist á er sú að möguleikar manna á að komast til mennta séu mælikvarði á stéttaskiptingu í þjóð- félagi. Í rannsókninni kom fram að frekar mörg börn efnaðs fólks í íslensku þjóðfélagi komust inn í Menntaskólann í Reykjavík á árunum 1904 til 1946, en heldur fá börn efnalítils fólks. Þetta breyttist frá og með árinu 1946 þegar samþykkt voru fræðslulög sem fólu í sér að tekið var upp samræmt próf, landsprófið, sem var inntöku- próf í menntaskóla á Íslandi til ársins 1974. Eftir að byrjað var að nota landsprófið sem inntökupróf í menntaskóla komust miklu fleiri börn sem áttu efnalitla foreldra inn í Mennta- skólann í Reykjavík. Niðurstöðurnar benda til að ekki hafi verið efnahagslegt jafnrétti til náms á Íslandi fyrir upptöku landsprófsins. Skilningur minn á hug- takinu ,,efnahagslegt jafnrétti til náms“ er sá að ekki sé hægt að segja að slíkt jafnrétti ríki í þjóðfélagi þegar efnahagsleg staða nemenda eða foreldra þeirra stendur í veginum fyrir því að þeir geti komist til mennta, en sú virðist hafa verið raunin á Íslandi á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar. 1904–1927: Skóli hinna efnameiri Í umfjölluninni um stéttarstöðu nemenda skipti ég tímabilinu 1904–1953 í þrjú undirtímabil sem eru afmörkuð af breytingum sem höfðu áhrif á inntökufyrirkomulagið í Menntaskólanum í Reykjavík á þessum árum. Fyrsta tímabilið er afmarkað af því að árið 1904 var Lærði skólinn svokallaði gerður að al- mennum menntaskóla, og árið 1927 kom Jónas Jónsson frá Hriflu, þingmaður Framsókn- arflokksins, sem var ráðherra kennslumála í ríkisstjórn Tryggva Þórhallssonar 1927–1932, á þeirri reglu að einungis þeir 25 nemendur sem hlytu hæstu einkunnirnar í inntökuprófum skól- ans skyldu teknir inn í fyrsta bekk hans á hverju ári. Á þessu tímabili voru rúm 38 prósent þeirra nemenda sem teknir voru inn í skólann börn op- inberra starfsmanna og háskólagenginna manna. Þar á eftir komu börn bænda, sem voru rúmlega 17 prósent af heildarfjöldanum. Þriðju og fjórðu stærstu hóparnir voru börn manna í þjónustu-, verslunar- og skrifstofustörfum og börn faglærðra iðnaðarmanna, í hvorum hópi voru um 13 prósent af heildarfjölda nemend- anna. Tveir fámennustu hóparnir voru börn manna í störfum sem ekki rúmast í öðrum flokkum, tæp 4 prósent, og börn verkamanna, sjómanna og annarra í svipuðum störfum sem voru rúm 3 prósent af heildarfjölda. Stétt- arstaða nemenda Menntaskólans breyttist ekki mikið þann tíma sem 25 manna reglan var í gildi, frá 1927 til 1946. Afdrifaríkar ákvarðanir Jónasar Þegar Jónas frá Hriflu tók við ráðherraembætti árið 1927 vildi hann koma í veg fyrir að börn efnaðra Reykvíkinga einokuðu Menntaskólann í Reykjavík. Jónas gerði tvær breytingar til að ná þessu markmiði sínu. Áðurnefnda takmörk- un nemenda við skólann með 25 manna regl- unni, auk þess sem hann veitti Gagnfræðaskól- anum á Akureyri leyfi til að útskrifa stúdenta. Eftir það voru tveir skólar á landinu sem höfðu heimild til þess. Ástæðurnar fyrir þessum ákvörðunum Jón- asar voru þær að hefði skólinn á Akureyri leyfi til að útskrifa stúdenta myndu flestir nemend- urnir sem útskrifuðust þaðan ekki vera Reyk- víkingar. Einnig, að væri fjöldi nemenda sem fengi aðgang að skólanum í Reykjavík takmark- aður við 25 kæmust einungis bestu nemend- urnir inn, óháð ætterni þeirra eða efnahags- stöðu. Margir voru óánægðir með þessar ákvarðanir Jónasar. Þá vakti Jónas einnig reiði íhaldssamra Reykvíkinga árið 1929 þegar hann skipaði ,,kommúnistann“ Pálma Hannesson, sem þá var náttúrufræðikennari við Gagnfræðaskólann á Akureyri, rektor Menntaskólans í Reykjavík, og gekk framhjá fimm af kennurum skólans sem einnig sóttu um embættið. Pálmi átti eftir að gagnrýna 25 manna reglu Jónasar frá Hriflu og beita sér fyrir því á fjórða áratugnum að skólakerfi landsins yrði breytt því hann taldi tvenns konar aðstöðumun hafa verið til náms á Íslandi á þessum tíma: búsetu manna á landinu og stéttarstöðu þeirra. Árið 1941, þegar Pálmi Hannesson gegndi þingmennsku fyrir Framsóknarflokkinn, bar hann, ásamt Bjarna Bjarnasyni flokksbróður sínum, upp þingsályktunartillögu á Alþingi um skipun milliþinganefndarinnar sem samdi frum- vörpin er urðu að fræðslulögunum árið 1946. Maðurinn sem Jónas frá Hriflu skipaði sem rektor átti eftir að leggja sitt af mörkum til að afnema reglu Jónasar, og stuðla að auknu efna- hagslegu jafnrétti til náms á Íslandi. 1928–1946: Efnahagslegt misrétti til náms í Menntaskólanum Eftir að Jónas kom 25 manna reglunni á jókst samkeppni um að komast inn í skólann, en að meðaltali 75 nemendur á ári náðu inntökupróf- inu næstu nítján árin. Kennarar skólans fóru að bjóða upp á aukakennslu gegn greiðslu sem átti að hjálpa nemendum að komast inn. Þessi þró- un hyglaði efnuðum nemendum, en kom sér illa fyrir þá efnaminni og má segja að mennta- skólanám á Íslandi hafi enn verið forréttindi hinna efnuðu í íslensku þjóðfélagi eins og eft- irfarandi tölur sýna. Af þeim 475 sem komust inn í fyrsta bekk skólans eftir inntökupróf á tímabilinu 1928– 1946 voru 33,6 prósent börn manna úr stéttinni háskólagengnir menn og opinberir starfsmenn; 18,7 prósent voru börn manna í þjónustu-, versl- unar- og skrifstofustörfum og 17,7 prósent voru börn atvinnurekenda. Í fjórða stærsta hópnum voru börn faglærðra iðnaðarmanna og annarra í svipuðum störfum: 13,8 prósent. Börnum bænda í skólanum fækkaði um 10 prósentustig á milli tímabila og voru 7,6 prósent af þeim sem komust inn í skólann. Minnstu hóparnir voru börn sem rúmast ekki í öðrum hópum: 6 pró- sent af heildarfjölda, og börn sjó- og verka- manna, alls 11 talsins af 434, eða 2,5 prósent. Stéttarstaða nemenda Menntaskólans átti hins vegar eftir að breytast mikið á næstu árum. Aukið jafnrétti til náms með fræðslulögunum árið 1946 Árið 1943 var skipað í milliþinganefndina sem Pálmi og Bjarni höfðu borið fram tillögu um tveimur árum áður. Hún átti að „rannsaka kennslu- og uppeldismál þjóðarinnar og gera tillögur um skipun þeirra“. Í nefndina voru skipuð þau Jakob Kristinsson fræðslu- málastjóri, sem jafnframt var formaður hennar, Kristinn Ármannsson, Ingimar Jónsson, Ár- mann Halldórsson, Sigfús Sigurhjartarson og Aðalbjörg Sigurðardóttir. Milliþinganefndin leitaði eftir skoðunum skólanefnda og kennara um allt land og tók tillit til þeirra er hún samdi fjögur frumvörp sem urðu að fræðslulögunum árið 1946. Stéttaskipting á Íslandi á fyrri hluta 20. aldar Rannsókn á stéttarstöðu þeirra sem komust inn í Menntaskólann í Reykjavík á árunum 1904 til 1946 bendir til þess að stéttaskipting hafi verið mikil hér á landi. Þetta gengur þvert á þá kreddu að Ísland hafi verið land þar sem stéttaskipting sé lítil. Rannsóknin sýnir að Menntaskólinn var fyrst og fremst skóli fyrir fína fólkið í Reykjavík fram eftir síðustu öld eða allt þar til landsprófinu svo- kallaða var komið á fót árið 1947 en það stuðlaði að jafnrétti til náms. 4 LAUGARDAGUR 7. OKTÓBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Kristín E. Jónsdóttir fann fyrir stéttaskipt-ingunni í Menntaskólanum í Reykjavík þegar hún hóf þar nám haustið 1940, þá 13 ára gömul, eftir að hafa verið í hópi þeirra hæstu á inntökuprófinu, sem hún kallar ,,mann- skaðagil“: ,,Ég fann það strax að almennt til- heyrði þetta fólk annarri stétt en ég, þó ég hafi vissulega hætt að finna fyrir því með tím- anum.“ Hún segir að flestar stúlkurnar í skól- anum hafi verkað á sig eins og ,,kuldalegar hefðarmeyjar“. ,,Ég fann kannski meira fyrir stéttaskiptingunni en aðrir af því að ég var ut- an af landi, því það þótt niðurlægjandi að vera úr sveit, það var kallað að vera ,,sveitó“. Við vorum talin vera annars flokks fólk; en ég lét það nú ekki mikið á mig fá.“ Foreldrar Kristínar voru bændur á smábýli ,,utan í einu Vestfjarðafjallanna“ sem settu sér það markmið í lífinu að koma Kristínu og systkinum hennar tveimur í gegnum lang- skólanám. Kristín segir meðal annars söguna af þessari baráttu í hugleiðingu í bókinni Minningar úr Menntaskólanum í Reykjavík. ,,Vegna fjárhagslegra aðstæðna var mjög erfitt fyrir fólk utan af landi að koma börnum sínum til náms í Menntaskólanum. Fyrsta hindrunin var hvernig það ætti að borga húsa- leiguna fyrir börn sín,“ segir Kristín. For- eldrar hennar brugðu á það ráð að móðir Kristínar fór með börnin til Reykjavíkur, leigði ,,litlar risíbúðir“ og hélt þeim heimili í borginni meðan þau sóttu skóla. ,,Síðasta árið sem mamma gerði þetta var þegar ég var í fyrsta bekk Menntaskólans því eftir að stríðið skall á þá gat hún ekki gert þetta lengur því húsnæði var orðið svo dýrt í Reykjavík. Eftir það var ég hjá hinu og þessu fólki meðan ég var í skólanum,“ segir Kristín. Önnur hindrun fyrir fátækt fólk sem Kristín minnist á var sú að til þess búa sig undir inn- tökuprófið hafi mörg börn farið á námskeið hjá Einari Magnússyni: ,,Það voru [...] aðallega börn reykvískra foreldra með næg fjárráð til að greiða fyrir námskeiðin, sem höfðu mögu- leika á að standast prófið,“ segir Kristín sem var í námskeiði hjá Einari í einn mánuð áður en hún tók inntökuprófið, en flest þeirra barna sem sóttu námskeið Einars voru hjá honum í heilan vetur til að undirbúa sig fyrir það og þurfti hver nemandi að greiða ákveðið gjald á mánuði. Kristín ,,Ég fann það strax að almennt til- heyrði þetta fólk annarri stétt en ég.“ Fátæk sveitastúlka sem komst yfir ,,mannskaðagilið“ Þegar ég fór inn í menntaskólann gilti súregla að aðeins mátti taka 25 nemendur inn í skólann og því var mikil keppni um þessi sæti, segir Adda Bára Sigfúsdóttir sem komst inn í skólann árið 1940, þá fjórtán ára gömul, eftir að hafa gengist undir inntökupróf. Í orð- um sínum vísar hún til 25 manna reglunnar sem Jónas frá Hriflu kom á. Það munaði hins vegar litlu að Adda Bára kæmist ekki inn. ,,Fólk trúði því að eina leiðin til að komast inn í skólann á þessum tíma væri að fara á námskeið sem einn kennaranna við mennta- skólann, Einar Magnússon, hélt á hverju ári. Margir voru óánægðir með að nemendur þyrftu að fara í gegnum þetta námskeið hjá Einari til að komast inn. Einn hinna óánægðu hét Steinþór Guðmundsson og var kennari við Miðbæjarskólann. Hann fór í samkeppni við Einar, tók að sér nokkur börn og kenndi þeim til að búa þau undir inntökuprófið. Ég fór í tíma hjá Steinþóri,“ segir hún. Eftir inntökuprófið, þegar Einar Magnússon tilkynnti hverjir kæmust inn í skólann, heyrði Adda Bára ekki sitt nafn nefnt: ,,Hann hætti að lesa upp nöfnin þegar hann var búinn að lesa upp tuttugu fyrstu og sagði að þar á eftir væru krakkar sem hefðu fengið alveg sömu einkunn og að hann treysti sér ekki til að ráða fram úr því hverja þeirra ætti að taka inn. Ég vissi því ekki hvort ég hefði komist inn eða ekki,“ segir Adda Bára og bætir því við að þegar hún kom heim til sín þennan dag hafi hún beðið pabba sinn, Sigfús Sigurhjartarson, að hringja í Ein- ar til að spyrja hann hvort hún hefði komist inn eða ekki: ,,Það kom svo á daginn að ég hafði verið ein af þessum fimm sem komust inn og Einar las ekki upp. Ég var númer 21. Svona voru samskiptin í kringum þetta inntökupróf, alveg rotin fannst mér. Af hverju í ósköpunum átti að gera eitthvað mál úr því að ein stelpa sem hafði farið á námskeið hjá öðrum en Ein- ari Magg hefði komist inn í skólann?“ Að mati Öddu Báru einokaði efnamikið fólk úr Reykjavík menntaskólann á þessum árum. „Það var dýrt fyrir alla aðra en þá sem gátu búið í Reykjavík að vera þar í skóla. Aðeins einn af þeim nemendum sem hóf nám við menntaskólann á sama tíma og ég var bæði fá- tækur og utan af landi. Þetta fyrirkomulag opnaði ekki neinar dyr nema fyrir þá sem bjuggu í Reykjavík og gátu legið yfir náminu.“ Adda Bára „Svona voru samskiptin í kringum þetta inntökupróf, alveg rotin fannst mér.“ Rotin samskipti í kringum inn- tökuprófið Efnahagslegt jafnrétti til náms í Menntaskólanum í Reykjavík 1904–1953

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.