Lesbók Morgunblaðsins - 07.10.2006, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 07.10.2006, Blaðsíða 16
16 LAUGARDAGUR 7. OKTÓBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Jón Val Jensson ollajon@ismennt.is Þ egar æsingurinn í kringum Benedikt páfa og íslam fór að hjaðna, áttaði fólk sig á því, að páfinn hafði verið grátt leikinn, orð hans tekin úr samhengi og viðbrögðin viljandi mögnuð upp.“ Svo segir í nýlegri frétt Páfagarðs (Zenit.org). Í fyrirlestri sínum við háskólann í Regensburg var páfinn í raun að hvetja til samræðna og rökræðu um trúarbrögð í stað þess að útiloka þau frá alvarlegri umræðu, eins og oft á sér stað í samtíð okkar, þar sem trúnni á Guð er vísað á afmarkaðan bás ætlaðan vissum menningarafkima sem að öðru leyti sé lokaður frá menningu og sam- félagi Vesturlandaþjóða. Átti menn sig á þessu samhengi páfaræðunnar, „hafa fylg- ismenn vantrúarinnar í samtíð okkar miklu meiri ástæðu til að gremjast páfanum en nokkrir aðrir. Sú staðreynd kann að skýra þá stæku andúð gegn páfa sem birtist í leið- ara New York Times 16. sept.,“ segir enn í sömu frétt. Umgjörð setningarinnar, sem páfinn tí- undaði úr orðræðu Manúels II keisara í Konstantínópel í lok 14. aldar, var ágætlega rakin í grein í Lesbók Mbl. 23/9, sbr. einnig Reykjavíkurbréf 24/9. Vissulega voru um- mæli keisarans ekki kjarninn í fyrirlestri páfans. Engu að síður er vert að skoða þau nánar. Missagnir íslenzkra fréttamiðla og raunverulegt inntak orða Manúels II Fyrst er þess að geta, að nánast allir ís- lenzkir fréttamiðlar, m.a. Rúv, fóru rangt með það sem stóð skýrum stöfum í ræðu páfans. Keisarinn Manúel sagði EKKI, „að Múhameð spámaður hefði aðeins fært heim- inum illsku og miskunnarleysi,“ eins og Nýja fréttastöðin orðaði þetta 22/9. Morgunblaðið hefur staðið sig fjölmiðla bezt við að gera grein fyrir tilvitnun páfans í keisarann, t.d. í fréttaskýringu 26/9, á meðan Fréttablaðið endurtekur þann sama dag orðalag NFS- stöðvarinnar. Það, sem Manúel 2. sagði í raun, var að það nýja, sem Múhameð hefði fært (was Mo- hammed Neues gebracht hat, eins og segir í fyrirlestri páfa), hefði aðeins verið slæmir hlutir og ómannúðlegir (Schlechtes und In- humanes) á borð við fyrirmæli hans um, að trúna, sem hann boðaði, ætti að útbreiða með sverði. Gegn þessu lagði keisarinn áherzlu á skynsemiseðli trúarinnar, hún sé ávöxtur sálarinnar, ekki líkamans. Því þurfi að beita hæfileikanum til að tala og hugsa rétt til þess að sannfæra skynsemisverur og leiða þær til trúar, en ekki nota ytri vald- beitingu og hótanir. Guð vilji engar blóðs- úthellingar, og það sé í andstöðu við sjálft eðli Guðs að breyta í ósamræmi við skyn- semina. Nútímamönnum veitist sennilega auðvelt að vera sammála þessari röksemd. Keisaranum, sem átti þarna í díalóg við lærðan, persneskan guðfræðing, málsvara íslams, var vel ljóst, að sú trú hafði tekið við miklum, dýrmætum arfi úr Gyðingdómi og kristinni trú. Hið kristna stórveldi Eþíópía náði á 6. öld inn á Arabíuskagann; þannig bárust þangað kristin áhrif. Kaupmenn Gyð- inga báru og með sér trúaráhrif, og Múham- eð átti ennfremur samneyti við kristna menn á ferð sinni um Sýrland. Þannig kynntist hann eingyðistrúnni, sem var (vel að merkja) ekki regla í heiminum um daga Krists, held- ur undantekning. Mörgu háleitu og góðu í kenningunni um kærleiks- og mikilfengleika- eðli Guðs tók Múhameð við frá hinum gyð- ing-kristna arfi. En það nýja, sem íslam færði svo kristnum mönnum við Miðjarð- arhaf, fólst ekki sízt í útbreiðslu trúarinnar með sverðsins mætti, oft með allsherjarupp- gjöf íbúanna, en stundum með vörn borga og miklu blóðbaði eftir töku þeirra (dæmi: Cæs- area árið 640). Enda þótt múslimar reyndust að sumu leyti vægir stjórnendur eftir landvinninga sína, – sem gaf þeim sjálfum tækifæri til að þiggja margt gott úr persneskri, sýrlenzkri og hellenskri menningararfleifð sem þar var fyrir, m.a. á sviði ljóðlistar, myndlistar, raunvísinda, læknisfræði, heimspeki og guð- fræði – þá beittu þeir kristna menn þving- unum, m.a. með sérstökum kvaðarskatti, ji- zya, banni við því að þeir gengju í skóm, stigju á bak hesti eða verðu sig fyrir árás, banni við byggingu kirkna og klaustra, hringingu kirkjuklukkna og við því að út- breiða og vitna um trú sína (krossfesting og guðlegt eðli Krists voru bannfærð viðhorf). Þetta ásamt einstöku ofsóknum o.fl. leiddi til þess að kristin trú þurrkaðist næstum út í Norður-Afríku og víðar á nokkrum öldum. Eins og fram kemur í nýlegri bók próf. Richards Fletcher, The Cross and the Cres- cent (Penguin 2003, s. 36–37), er talið að nál. 75–90% af kristnum mönnum á hinum þétt- býlli yfirráðasvæðum múslima hafi snúizt til íslamstrúar. Það gerðist reyndar takmarkað fyrstu öldina eftir landvinningana, en megnið af þessum trúskiptum átti sér stað næstu tvær aldirnar. Af fimm leiðandi höf- uðkirkjum fornaldar urðu þrjár, Alexandría í Egyptalandi, Antíokkía í Sýrlandi og Jerú- salem, sem lamaðar, einangraðar og úr leik í kristinni orðræðu heimsins, svo að Róm og Konstantínopel urðu einar um hituna (R.W. Southern). Keisarinn Manúel var eðlilega að tala í sínum aðstæðum – í því litla sem eftir var af Austrómverska keisaradæminu í lok 14. ald- ar, en það hafði áður teygt sig yfir geysilegt landflæmi við austan- og sunnanvert Mið- jarðarhaf og nánast allar eyjarnar þar, hluta Ítalíu, allt Grikkland og miklu meira til. Og þeir, sem höfðu rúið býzanska ríkið löndum sínum, voru vitaskuld múslimar, sem reynd- ar höfðu gengið miklu lengra en svo, því að réttum 100 árum eftir lát Múhameðs var framsókn herja þeirra komin svo langt, að þeir höfðu bæði yfirunnið meirihluta Spánar og áttu í orrustu við kristna menn í Poitiers nálægt Tours í miðju Vestur-Frakklandi (ár- ið 732). Þar og í fleiri orrustum tókst Frönk- um undir forystu Karls Martels (afa Karla- magnúsar keisara) að stöðva útþenslustefnu múslima í Vestur-Evrópu. Aðeins 62 árum eftir ummæli Manúels keisara unnu Tyrkir síðustu leifarnar af Býzanz-ríkinu með töku Konstantínópel 1453. Þeir lögðu undir sig allan Balkanskagann (héldu Grikkjum her- numdum til 1829), réðust á Ungverjaland og sátu tvisvar um Vínarborg (1529 og 1683) – þvílíkur var framgangur múslima, sem á margar hliðar þrengdi þannig að hinum kristnu þjóðum. Þegar Reykjavíkurbréf Mbl. hefur það eft- ir Der Spiegel, að í hugum margra sé rætur heilags stríðs gegn vestrinu að finna í kross- ferðunum (sem stóðu yfir 1096–1291), þá er það sögulega rangt; hugmynd Kóransins um jihad var að baki útbreiðslustríðum múslima (m.a. gegn kristnum) mörgum öldum fyrir krossferðirnar; hið fyrsta þeirra landvinn- ingastríða gegn kristnum byggðum hófst um 634 (Landið helga). Síðar varð arabíska yf- irstéttin værukær til útþenslu og trúarboð- unar í allri sinni velmegun og glæstu menn- ingu. En þá kom upp endurnýjaður trúareldmóður og hernaðarþróttur meðal yngri þjóða í íslamstrú, Berba, Mamelúka og Selsjúka (Tyrkja), sem leiddi til nýrrar framsóknar múslima og upphafs krossferð- anna í lok 11. aldar og síðar til falls kross- fararíkjanna á 13. öld og Miklagarðs 1453. Afstöðu Manúels II verður að skoða í ofangreindu ljósi, sem og út frá því, að í eig- inlegri trúarkenningu færði íslam þeim kristnu ekkert nýtt og gott sem þeir áttu ekki fyrir, en svipti hins vegar þá, sem tóku Múhameðstrú, mörgum grundvallargildum kristinnar trúar, einkum trúnni á Heilaga Þrenningu, Guðssonareðli Krists og einstætt endurlausnarverk hans. Íslam færði SUMUM þjóðum betra sið- ferði og betri trú en þær höfðu fyrir Það er alrangt, ef menn telja íslam ekki hafa fært neinum þjóðum framför í trúar- og sið- ferðisefnum. Íslam ruddi brott fjölgyðistrú og blóðfórnum bæði í Arabíu og hinu gamla Persaveldi (sem var eitt stórríkið sem mús- limir unnu strax upp úr miðri 7. öld) og síð- ar enn austar í Asíu, en gerði það að veru- legu leyti með valdbeitingar-þvingun, á meðan Gyðingar, kristnir og Zaraþústra- menn nutu vissrar tillitssemi, af því að þeir töldust „fólk Bókarinnar“. En hjá mörgum hinna heiðnu þjóða tíðkaðist lítil virðing fyrir konum, og þrátt fyrir að múslimar njóti ekki álits hér á Vesturlöndum fyrir ástandið á því sviði, þá var boðun íslams í þeim efnum hikstalaust ýmsum þeirra þjóða til góðs. Þannig fordæmdi Múhameð þann sið að grafa óvelkomin, nýfædd meybörn lifandi og kenndi fylgismönnum sínum að stúlkur væru Guðs gjöf eins og drengir. Eins predikaði hann gegn takmarkalausu eiginkvennahaldi bedúína, heimilaði þeim í mesta lagi fjórar konur, ef þeir gætu meðhöndlað þær af sanngirni, annars skyldu þeir láta sér eina nægja. Í báðum þessum tilvikum voru kristnir menn á miðöldum með háar siðferðiskröfur, ívið hærri en Múhameð: hjá kristnum og Gyðingum var einkvæni reglan, og hvarvetna sem kristnin breiddist út, var barnaútburður bannaður, jafnt í löndum Norður-Afríku og víðar í rómverska heimsveldinu sem hér á Íslandi. Þannig sjáum við, að kristnu fólki færði Múhameðstrúin enga framför í þessum málefnum. Öðrum – eins og bedúínum – varð íslam hins vegar siðbót í þessu efni og mörg- um öðrum að auki. Páfinn Benedikt hefur líka lýst því yfir, að hann „ber einlæga virð- ingu fyrir íslamstrú“ eins og fram er komið í fréttum. Páfagarður endurtekur þar að auki orð 2. Vatíkanþingsins (1962–65) sem lúta að trú múslima, þ.e. í kirkjusamþykktunum Lu- men Gentium, 16. gr., og einkum í Nostra ætate (3), þar sem segir m.a., að kirkjan líti með virðingu til múslima, þeir tilbiðji einn Guð, ævarandi, miskunnarfullan og almáttk- an, leitist við af öllu hjarta sínu að gefa sig undir hans órannsakanlegu úrskurði, virði siðlegt líferni og stundi Guðsdýrkun með bæn, ölmusugjöf og föstu (sjá nánar Kirkju.net). Af þessu er ljóst, að því fer fjarri, að kaþólska kirkjan óvirði trú músl- ima. Allt eru þetta staðreyndir máls, sem vert er að hafa í huga sem bakgrunn þeirra um- ræðna, sem fram hafa farið eftir fyrirlestur páfans í Regensburg. Rétt og rangt í máli Manúels í Miklagarði Bænastund Páfi hefur ekki átt sjö dagana sæla eftir ummæli sín um Íslam. Hér er hann á bænastund í Castel Gandolfo, 1. október sl. „Af þessu er ljóst, að því fer fjarri, að kaþ- ólska kirkjan óvirði trú múslima,“ segir í þessari grein sem skoðar sögulegt og trú- fræðilegt samhengi umdeildra orða Bene- dikts páfa um íslam. Höfundur er guðfræðingur og lagði stund á mið- aldafræði við Cambridge-háskóla 1980–83. »En hjá mörgum hinna heiðnu þjóða tíðkaðist lítil virðing fyrir konum, og þrátt fyrir að múslimar njóti ekki álits hér á Vesturlöndum fyrir ástandið á því sviði, þá var boðun íslams í þeim efnum hikstalaust ýmsum þeirra þjóða til góðs.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.