Morgunblaðið - 14.02.2006, Blaðsíða 29

Morgunblaðið - 14.02.2006, Blaðsíða 29
sé ógeðslega gott. Þú kenndir mér að búa til hús úr tveimur stólum og stingandi ullarteppi og sýndir mér hvernig orgel virka. Þegar ég var lasin og lítil í mér vaktirðu með mér um miðja nótt og klappaðir mér á tærnar á meðan ég hóstaði. Þú hélst í litla hönd á meðan ég fetaði mig eftir gangstéttarkanti, þú hélst lífinu gangandi í stöðugum takti með því að trekkja veggklukk- una alltaf upp á hádegi á sunnudög- um. Í sumar sagðirðu mér hvað þú værir ánægður með fólkið þitt, að þér fyndist að þú ættir nú kannski eitthvað aðeins í okkur öllum. Og að ef það væri rétt, þá mættirðu bara vera nokkuð stoltur og ánægður með líf þitt. Ég svaraði þér þá eins og ég svara þér núna: þú átt okkur öll, afi minn, og við erum stolt af því að vera fólkið þitt. Af öllu sem þú hefur sagt mér er ég þakklátust fyrir að þú hvíslaðir þessu að mér. Daginn sem þú fórst í hinn heim- inn stoppaði veggklukkan þín. Elsku afi minn, við skulum sjá um að trekkja hana fyrir þig núna. Þú verður alltaf jafn nálægur okkur og tifið í klukkunni, staðfastur undir- leikur við líf okkar allra. Og hvar sem þú ert núna veit ég að hlý, sterk og örugg afahönd mun finna leið til þess að halda í okkar hendur þegar við þurfum á því að halda. Takk fyrir allt sem þú gafst mér, afi minn. Þín afastelpa, Sunna Dís Másdóttir. Í dag er til moldar borinn Páll Jóhannesson frá Herjólfsstöðum. Orð verða fátækleg þegar höfð- ingi sem Páll er kvaddur en sökn- uður og þakklæti fylla hugann. Frá því ég kom sem unglingur til Reykjavíkur hef ég átt hjá þeim Palla og Laugu, uppeldissystur minni, annað heimili. Börnin okkar, sem áttu hvorki afa né ömmu, fundu hjá þeim athvarf og hlýju sem hefur verið þeim ómetanlegt. Minningar um ótal samveru- stundir í gegnum tíðina bæði hér í Reykjavík og austur á Flúðum streyma að, stór hluti af lífinu gegnum árin. Það er erfitt að kveðja þegar svo mikils er að sakna. Það er sagt að umhverfið móti hvern mann. Palli ólst upp í Álfta- verinu. Lifði af Kötlugos og þær hörmulegu náttúruhamfarir sem því fylgdu. Að alast upp við ólgandi jökulárnar á báða vegu og rjúkandi Mýrdalssandinn, þar sem skap þessarar stórbrotnu náttúru fer eft- ir veðráttunni hverju sinni mótaði Palla hans bernskuár. Það sjáum við er við hugsum til hetjulegrar baráttu hans við berkla sem ungur maður og sigur hans á þeim. Og æðruleysi í hvert sinn er á móti blés síðar á lífsleiðinni. Hann var alla tíð mjög vinnusamur og eftirfylginn við hvert verk. Hann var listasmið- ur og viðgerðir á hvers konar vélum léku í höndum hans, s.s. reiðhjólum, saumavélum, þvottavélum og klukkum. Sumarbústaðurinn á Flúðum ber handbragði hans gott vitni. Palli hafði mikið yndi af ferðalög- um, þó í seinni tíð hafi hugurinn fyrst og fremst leitað á æskuslóð- irnar austur í Álftaveri. Dýrmætar voru honum ferðirnar með Gissuri bróður sínum inn á Álftaversafrétt og við minnumst þess hversu lifandi landslagið þar inn frá varð í lýsingu Palla. Og okkur koma í hug ljóð- línur eftir Guðmund Böðvarsson, sem okkur langar að tileinka afa- börnunum. – Lind í lautu streymir, lyng í heiði dreymir, – þetta land átt þú. Palli var mikill höfðingi heim að sækja. Hann var ættrækinn og vinamargur og á heimili þeirra Laugu var alltaf gestagangur. Þar fundu allir öruggt skjól og þau allt- af tilbúin að hlaupa undir bagga ef einhver þurfti liðsinni. Jólaboðin hjá Laugu og Palla eru okkur öllum stór hluti af jólahátíðinni. Síðasta jólaboð verður okkur minnisstætt, hvernig gleðin fyllti húsið þegar þú komst heim af spítalanum og öll fjölskyldan gat fagnað þér, og þú hafðir gamanorð á vörum eins og jafnan. Palli hefur alltaf reynst okkur og fjölskyldum okkar einstaklega vel. Við viljum þakka þér, elsku Palli, fyrir allt sem þú hefur gert fyrir okkur og okkar í gegnum tíðina og sérstaklega þökkum við þér alla hlýjuna og skilninginn í okkar garð. Græt ég og greiði gjaldið eina’er má – læt ég á leiði laufin bleik og fá sígræn blöð þér breiði björk í fegri heimi; mildur blær í meiði minning þína geymi. (Sig. Sig. frá Arnarholti.) Hvíl í Guðs friði. Laugu, börnum þeirra og fjöl- skyldunni allri vottum við dýpstu samúð. Megi Guð vera með ykkur. Margrét, Pétur, Berglind, Jódís, Jökull og fjölskyldur. Elskulegur tengdafaðir minn fyrrverandi. Mig langar til að þakka þér í ör- fáum orðum þá óþrjótandi gæsku, natni og gleði sem þú hverja stund sýndir börnunum mínum eins og barnabörnum þínum öllum. Sögu- stund á afakné eða spilastund með öllum þeim galdri sem því fylgir að sameinast í leikgleðinni er hvorki sjálfgefin né verður hún metin til fjár, allra síst nú á dögum þegar fyrirbærið „tími“ á það til að hlaupa frá stórum skara fólks. Þeim skara tilheyrðir þú ekki. Þú leyfðir tím- anum aldrei að fanga þig, þú fang- aðir hann. Það var því aldrei spurn- ing hvort þú vildir koma að gera eitthvað, bara hvað það ætti að vera. Litla mannfólkið í kringum þig var stærst af öllu. Stærra en tím- inn. Stærra en dagblöðin. Stærra en sjónvarpið. Allt gat beðið nema litlir fætur sem skottast út að lok- inni skemmri eða lengri heimsókn í afa og ömmu hús í Skaftahlíðinni. Er hægt að gefa börnum betra veganesti út í lífið en þessa gegn- heilu tilfinningu og skýru skilaboð að þau séu dýrmætust alls? Ég efast um það. Það er þess vegna sem ég skrifa þessi fátæklegu þakklætisorð. Elsku Lauga mín. Ég sendi þér mína ástúðlegustu hluttekningar- kveðju í söknuðinum og þakka þér sömuleiðis. Þið Palli voruð eitt í samheldni ykkar, jafnt fyrir mér, Sunnu Dís og Mána Steini. Það voru Palli afi og Lauga amma sem átti að heimsækja. Lauga amma sem eldaði góðan mat og bjó út hreiður handa smáfólkinu eftir þörfum hverju sinni. Og Palli afi sem hafði ofan af fyrir því á meðan. Og þegar ræða þurfti nýjar upp- götvanir eða lífssannindi gat unga fólkið ævinlega gengið að eyra vísu hjá ykkur báðum. Þvílíkar mót- tökur. Þvílík elska. Elsku Páll, takk fyrir þínar ómet- anlegu gjafir. Minning þín mun lifa. Draumey Aradóttir. Páll var fæddur á Söndum í Með- allandi en Kötlugosið 1918 olli því að fjölskyldan þurfti að flytjast að Herjólfsstöðum í Álftaveri 1919, þar sem foreldrarnir komu undir sig fótunum að nýju og héldu áfram búskap. Gissur bróðir Páls stundar þar búskap nú. Heimilið á Herjólfsstöðum hlýtur að hafa verið mikið menningar- heimili því Páll var vel menntaður og virkur í lífinu alla tíð. Systkinin öll hafa verið farsæl og flest náð háum aldri. Páll var orðin hálfáttræður þegar ég kynntist honum en enn útivinn- andi og fór þá stundum hjólandi til vinnu eins og hann hafði gert í marga áratugi. Hann hætti ekki störfum fyrr en 78 ára, eftir tæp- lega 50 ára starf, en hélt sambandi við gamla vinnustaðinn til hinsta dags. Páll kvæntist Guðlaugu Jóhanns- dóttur árið 1953 og bjuggu þau fyrst á Skúlagötu 56 en lengst í Skaftahlíð 33. þar sem þau ólu upp börnin sín. Árið 2002 keyptu þau sér íbúð í Mánatúni 2. Endurnýj- uðust kraftar þeirra mikið við flutn- inginn þangað enda þægilegra að komast heim og að heiman í lyftu- húsi þegar árin færast yfir. Heimili þeirra er fallegt, hlýlegt og rausn- arlegt og oft haldnar fjölmennar veislur. Allir velkomnir og margir sem koma þar við. Páll og Guðlaug byggðu sér, ásamt Margréti, uppeldissystur Guðlaugar, sumarhús að Flúðum og dvöldu þar alltaf e-ð á hverju sumri þó ekki væri nema til að rækta og taka upp kartöflur og aðra garðá- vexti því sjálfbær hafa þau verið með kartöflurnar mestan sinn hjú- skap. Páll og þau Guðlaug bæði ræktuðu einnig vel garðinn sinn; vini, kunningja, mágafólk, systkini og ekki síst börnin, barnabörnin og tengdafólk. Páll vanrækti þannig ekki það mikilvægasta í lífinu frek- ar en Guðlaug. Þannig vann Páll öll verk vel í lífinu og ávallt að ráðgera og hugsa um framtíðina. Páll var ágætur verkmaður og varð aldrei ráðalaus, sinnti raunar smáviðgerðum fyrir ýmsa til ævi- loka, tengdi eldhúsvaska fyrir barnabörn, gerði við leikfangabíla og fl. Veitti góð ráð þegar verið var að byggja og hélt til haga á vinnu- stofu sinni fróðleik um gamla verk- siði. Átti m.a. ágætt safn gamalla áhalda. Páll gleymdi engu sem hann hafði lært og hefði hann á annað borð áhuga á málefni eða fólki, þá hafði hann stálminni. Kötlueldar, saga þeirra og vísindi Kötlu var eitt af áhugamálum hans og fylgdist Páll alla tíð vel með umræðu um þessa örlagadís bernskunnar. Páll var sérlega umtalsfrómur, vel klæddur, hirðusamur og einlæg- lega fordómalaus maður, sérlega bóngóður og tryggur. Farsæll mjög í lífi sínu og starfi. Við biðjum honum, Guðlaugu, af- komendum og öðrum aðstandend- um guðs blessunar. Ég þakka Páli fyrir góða, skemmtilega og fræðandi samfylgd sem og vináttu í minn garð. Einar Guðjónsson. Það var mér efst í huga þegar ég kvaddi föðurafa minn á spítalanum 10. janúar sl. áður en ég fór til Bandaríkjanna að líklega myndi ég ekki sjá hann á lífi aftur. Ég var eiginlega næsta viss um það. Hann var nú svo sem búinn að búa mig undir það, eins og aðra í fjölskyld- unni, að mögulega ætti hann ekki langt eftir. Engu að síður vonaðist ég til að hitta hann sprækan í mars þegar ég hugðist snúa heim. Og ég leyfði mér þess vegna að hlakka til. Ég hlakk- aði til þess að sjá og hitta manninn sem hefur um margt skipt sköpum í lífi mínu og mótað mína manngerð. Á vissan hátt tók afi, líklega óafvit- andi, við hlutverki föður míns þegar hann lést fyrir tæpum tuttugu ár- um. Ég átti líka því mikla láni að fagna að búa við sömu götu og föð- urforeldrar mínir stærstan hluta ævi minnar. Það var stutt ,,yfir“ til ömmu og afa. Afa var næstum því allt til lista lagt og hann var sérlega handlaginn. Hann var útsjónarsam- ur í lausnum sínum, nákvæmur og átti ráð undir rifi hverju þegar kom að lagfæringum. Þolinmæðina skorti heldur ekki þegar kom að því að rekja fyrir manni, í smáatriðum, hversu miklu máli skipti að vanda vel til verka og taka sér góðan tíma í það að vinna hlutina rétt og vel. Afi var afskaplega bóngóður en jafnframt hreinskilinn. Hann var alltaf til í að gera manni greiða og ef erindið var brýnt, var gengið um- svifalaust í málið. Það er kannski vegna alls þessa sem ég er löngu hættur að leiðrétta ömmu þegar hún segir í orðræðu ,,pabbi þinn“ og á við afa. Afi var flottur karl og frábær fyr- irmynd. Jákvæður í hugsun og gekk glaður til verks. Hann bjó jafnframt yfir aðdáunarverðri sjálfsyfirvegun. Ég man ekki eftir því að hann hafi orðið verulega reiður. Hann hvessti sig aldrei lengur en augnablik og þá var það kannski vegna þess að maður hafði ekki tekið nógu vel eftir leiðbein- ingum. Hann var líka svo duglegur að treysta manni. Treysta orðum manns og leiðbeiningum þegar hann sjálfur gat ekki lengur gert allt sjálfur. Hann var þó ekki endi- lega alltaf sammála aðferðafræð- inni en gat alltaf sætt sig við loka- niðurstöðuna. Hann bar sanna virðingu fyrir manni. Afa þótti óendanlega vænt um ömmu eins og okkur öllum. Hann hafði oft orð á því við mig hversu þakklátur hann var henni fyrir stuðninginn og trygglyndið, ekki síst þessi síðustu ár þegar hann varð smátt og smátt meira ósjálf- bjarga. Afi var svo sannarlega orð- inn þreyttur þessa síðustu daga og vikur en hann þreyttist aldrei á því að reyna að finna lausnir á því hvernig hann gæti létt ömmu lífið og tilveruna. Ég kveð afa minn með söknuði um leið og ég er þakklátur fyrir að hann fékk að fara skýr í kollinum og í jafnvægi. Hann var góður mað- ur og hjartahlýr og skilur eftir sig sjóð góðra minninga, ásamt þekk- ingu og reynslu í afkomendum sín- um, sem hann var svo stoltur af. Ég er líka stoltur af honum. Stoltur af því að vera svolítið eins og hann. Orri Páll. Það er mikill sjónarsviptir að mönnum eins og Páli Jóhannessyni, sem við kveðjum nú eftir langa og giftusama ævi. Páll hóf störf hjá Fálkanum í Reykjavík haustið 1945 og vann þar fram á vordaga 1994, eða í tæp 49 ár. Menn, sem svo lengi starfa hjá sama fyrirtæki, setja óneitanlega svip sinn á starfsumhverfi sitt. Páll vann fyrst á reiðhjólaverkstæði fyr- irtækisins, en lengst af á reiðhjóla- lagernum, sem hann sá um og stjórnaði áratugum saman. Undirritaður kynntist Páli strax í bernsku, þar sem ég bjó fyrstu ævi- árin í sama húsi og Fálkinn starfaði í við Laugaveg, og var tíður gestur í fyrirtækinu. Síðar átti ég þess kost að vinna með nafna mínum í nær- fellt 25 ár. Páll var einn þeirra manna, sem gaf sig allan að starfi sínu, og sinnti því af kostgæfni og dyggð. Hann var fróður um margt, las mikið og gat sagt mjög skemmtilega frá. Einkum hafði hann gaman af kveðskap, og lumaði oft á hnyttinni stöku eða litlu kvæði, sem hann skaut á okkur vinnufélagana. Var þá oftar en ekki hlegið dátt, því aldrei var djúpt á kímni og glettni. Vitanlega er margs að minnast frá löngu sam- starfi, en þannig man ég nafna minn best. Ég votta ekkju Páls, Guðlaugu Jóhannsdóttur, og fjölskyldunni allri, dýpstu samúð mína, og bið góðan Guð að styrkja þau í sorg sinni og blessa minningu Páls Jó- hannessonar. Páll Bragason. MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 14. FEBRÚAR 2006 29 MINNINGAR Minningarkort 535 1825 www.hjarta.is 5351800 Englasteinar Helluhrauni 10 Sími 565 2566 – www.englasteinar.is 15% afsláttur af öllum legsteinum og fylgihlutum Sendum myndalista Hjartans þakkir fyrir auðsýnda samúð og hlýhug við andlát og útför ástkærs eiginmanns míns, föður okkar, tengdaföður, afa og langafa, JÓNS GÍSLASONAR, Skálafelli, Suðursveit. Sérstakar þakkir til starfsfólks Heilbrigðis- stofnunar Suð-Austurlands. Pálína G. Gísladóttir, Ingunn Jónsdóttir, Eggert Bergsson, Róshildur Jónsdóttir, Eyþór Ingólfsson, Þorvaldur Þ. Jónsson, Stella Kristinsdóttir, Sigurgeir Jónsson, Elísabet Jensdóttir, Þóra V. Jónsdóttir, Þorsteinn Sigfússon, barnabörn og barnabarnabörn. Hjartans þakkir fyrir auðsýnda samúð og hlýju við andlát og útför elskulegs eiginmanns míns, föður okkar, tengdaföður, afa og langafa, HJARTAR FRIÐBERGS JÓNSSONAR, sem lést á heimili sínu, Fornastekk 11, Reykjavík, mánudaginn 23. janúar. Vigdís Einarsdóttir, Jón F. Hjartarson, Elísabet Kemp, Einar F. Hjartarson, Kristín Þorgeirsdóttir, Stefán F. Hjartarson, Áslaug Guðmundsdóttir, Ævar S. Hjartarson, barnabörn og barnabarnabörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.