Morgunblaðið - 14.02.2006, Blaðsíða 11
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 14. FEBRÚAR 2006 11
FRÉTTIR
LJÓSLEIÐARAVÆÐING hefur gríðarleg
efnahagsleg og samfélagsleg áhrif og er ljóst
að munurinn á ljósleiðara- og koparsamfélag-
inu er eins og munurinn á samfélaginu fyrir
og eftir tilkomu járnbrauta og bíla. Með næst-
um ótakmarkaðri bandvídd ljósleiðaranna
opnast möguleikar í menntun, menningu,
þjónustu, lífsstíl og afþreyingu sem virðast í
dag fjarlægur draumur.
Þetta segir Dolf Zantinge, sérfræðingur í
samskiptatækni, sem flutti nýverið fyrirlestur
um opin ljósleiðaranet í ráðstefnusal Orku-
veitu Reykjavíkur. Zantinge er stjórnarfor-
maður fyrirtækisins Unet, sem rekur ljósleið-
aranetið í borginni Almere, einni fyrstu
ljósleiðaravæddu borg Evrópu. Allar opinber-
ar byggingar, fyrirtæki og heimili í borginni
eru tengd fullkomnu ljósleiðaraneti og segir
Zantinge tilkomu þess hafa gjörbylt lífi og
samfélagi borgarinnar. Þannig hafi fjölmörg
hátæknifyrirtæki og þjónustufyrirtæki
hreiðrað um sig í borginni og öll þjónusta í Al-
mere sé á öðru plani en áður þekktist.
Eins og munurinn á
ritvél og einkatölvu
„Það má segja af þeim tölum sem við höfum
séð, að hagvöxtur tvöfaldist við ljósleiðara-
væðingu samfélags,“ segir Zantinge. „Nýjar
tegundir samskipta taka við og ný fyrirtæki
dragast að. Þá opnast margir möguleikar fyr-
ir fólk, t.d. hvað varðar símasamskipti, að-
gang að þjónustu og fjarvinnslu og hag-
kvæmni eykst til muna. Við stöndum nú á
þröskuldi tækniframfara sem geta breytt
heimsmynd okkar algerlega. Háupplausnar
sjónvarp beintengt við ljósleiðara getur leyft
mönnum að skoða saman flóknar og nákvæm-
ar röntgenmyndir í rauntíma. Fræðsla og
kennsla, afþreying og fjarvinnsla verða á allt
öðrum grundvelli en við þekkjum nú.“
Opin ljósleiðaranet voru eins og áður segir
umfjöllunarefni fyrirlesturs Zantinge, en nú
er unnið að því að koma slíkum kerfum upp á
Seltjarnarnesi og Akranesi. Orkuveita
Reykjavíkur fjármagnar þau verkefni og eru
þau í raun prufukeyrsla á opnum ljósleið-
arasamfélögum. „Möguleikarnir eru næstum
ótakmarkaðir. Að bera saman koparkerfið og
ljósleiðarann er eins og að bera saman ritvél-
ina og PC-tölvuna. Jafnvel þegar PC-tölvan
var að koma fyrst á markað, klunnaleg og
með fáa möguleika, keyptu menn hana af því
þeir sáu framtíðina í henni. Það hefur líka
sýnt sig að í dag kemur einkatölvan og netið
að öllum hliðum okkar lífs, það gerir ekki rit-
vélin,“ segir Zantinge. „Það er líka að sýna
sig að þau efnahagskerfi heimsins sem byggj-
ast á ljósleiðurum vaxa mjög hratt, til dæmis í
Japan og Kóreu þar sem allt er á ljósleið-
urum. Það opnast hreinlega nýjar gáttir í
samskiptum og viðskiptum.“
Þjóðhagslega hagkvæm fjárfesting
Ljósleiðaravæðing Reykjavíkur ætti, að
mati Zantinge, ekki að þurfa að kosta mjög
mikið. „Að gefinni minni reynslu ætti það að
kosta um 70 milljónir dollara (4,2 milljarða),
sem er ekki há upphæð miðað við þær gríð-
arlegu framfarir sem verða. Það gæti tekið
þrjú til fimm ár að ljósleiðaravæða alla borg-
ina. Við erum að tala um mikla þjóðhagslega
hagkvæmni þegar þú eykur gagnaflutnings-
getu kerfanna mörg þúsundfalt. Það er líka
hægt að gera þetta skref fyrir skref,“ segir
Zantinge og bætir við að mikilvægast sé að
ljósleiðaravæða fyrst fyrirtæki, stofnanir,
heilsugæslu og skóla til að byrja með. „Þegar
þessir hlutar samfélagsins eru tengdir ljós-
leiðara er skilvirknin strax orðin mun meiri
og hitt getur komið hægar. Við getum tekið
dæmi um það að ljósleiðaravæddur skóli eða
fyrirtæki þarf ekki lengur PC-tölvur. Það
nægir að vera bara með einfalda skjái og
lyklaborð. Öll vinnsla getur farið fram í mið-
lægri tölvu sem sér um alla vinnuna. Þannig
gætirðu alls staðar verið með sýndarvinnu-
stöðvar og alltaf verið að vinna á sömu tölv-
unni, hvar sem þú ert í heiminum. Heimurinn
er að verða stór leikvöllur og þau samfélög
sem sitja eftir og neita að ljósleiðaravæðast
munu lenda mjög aftarlega í samkeppninni
þegar fyrirtæki fara að færa sig á betri sam-
skiptastaði.“
Opin ljósleiðaranet hafa í för með sér gríðarlegar samfélagsbreytingar
Hagvöxtur tvöfaldast
með tilkomu ljósleiðara
Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Dolf Zantinge, sérfræðingur í samskipta-
tækni, ræðir um opin ljósleiðaranet.
Eftir Svavar Knút Kristinsson
svavar@mbl.is
„MÉR líst mjög vel á þá framtíðarsýn sem Dolf
Zantinge var að sýna okkur og er raunar orðin
að veruleika í Almere,“ segir Jónmundur Guð-
marsson, bæjarstjóri Seltjarnarness, en þar í
bæ stendur nú yfir átak um ljósleiðaravæðingu.
„Það sem Dolf var að greina frá er þessi
áhersla á opið net, þar sem dreifileiðirnar, sjálft
vegakerfið, er á höndum annarra en þeirra sem
veita þjónustuna. Þetta er nákvæmlega sama
sýn og við á Seltjarnarnesi
höfum haft á ljósleiðaravæð-
ingu bæjarins og er sú hug-
myndafræði sem við vinnum
eftir. Ég tel að það sé grund-
vallaratriði ef opinberir að-
ilar eru á annað borð að
koma að málum af þessu
tagi, að það sé skýr aðgrein-
ing á milli dreifikerfisins og
efnisins og tryggt sé að not-
endur hafi frelsi til að velja á
milli ólíkra þjónustuveitenda. Þetta er eins og
með vegakerfið. Það er okkar að stuðla að því að
vegakerfið verði til, sjá um umferðina, nema
hvað snertir okkar eigin þjónustu, t.d. aðgang
borgara að þjónustu bæjarfélagsins. Skilyrðið
um opið net var lykillinn að þátttöku okkar í
verkefninu og gerð er krafa um eitt opið net
sem annaði allri þjónustu.“
Gefur meiri möguleika
Jónmundur segir landleysi hafa hrjáð bæj-
arfélagið hingað til og þar hafi ekki þrifist stór
fyrirtæki sem þurftu mikið landrými undir
starfsemi sína. Með ljósleiðaranetinu opnist
hins vegar möguleikar fyrir aðkomu smærri
þekkingarfyrirtækja sem þurfa ekki mikið pláss
undir starfsemi sína. „Okkur fannst það bæði
klókt og eftirsóknarvert að vera í fararbroddi
þeirra sveitarfélaga sem vilja ljósleiðaravæðast
og byggja upp framtíðarkerfi sem mun anna ört
vaxandi eftirspurn eftir bandvídd um ókomin
ár,“ segir Jónmundur.
Framkvæmdir við ljósleiðaravæðingu Sel-
tjarnarnesbæjar hófust í fyrrasumar og er
fjórðungur bæjarins nú tengdur.
„Ætlunin er að ljúka verkinu síðla hausts í ár,
en rafræn stjórnsýsla bæjarins verður opnuð nú
fljótlega,“ segir Jónmundur. „Þá hafa allar
stofnanir bæjarins verið tengdar ljósleiðara-
kerfi.“
Jónmundur
Guðmarsson
Telur opin kerfi
réttu lausnina
STEFNT er að því að áhrif kemískra
efna á heilsu fólks og umhverfi verði
hverfandi árið 2020, samkvæmt að-
gerðaáætlun sem samþykkt var á
ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (SÞ)
um kemísk efni í Dubai á dögunum.
Sigríður Anna Þórðardóttir umhverf-
isráðherra stýrði fundinum, sem
fulltrúar um 130 ríkja heims sóttu, og
lagði hún þar áherslu á hreinleika
hafsins.
Í ræðu umhverfisráðherra kom
fram að aðgerðaráætlun SÞ væri
mikilvægt skref til að vernda hrein-
leika hafsins, en áætlaður kostnaður
vegna heilsutjóns fólks á strandsvæð-
um vegna mengunar sjávar séu tæpir
13 milljarðar dollarar á ári.
Kemísk efni eru í dag talin valda
umtalsverðum áhrifum á heilsu fólks,
ekki síst í þróunarlöndunum. Mörg
kemísk efni eru talin geta valdið
krabbameini og haft áhrif á þroska
barna. Kemísk efni geta borist langa
leið með haf- og loftstraumum og eru
mörg dæmi um það á norðlægum
slóðum m.a. á íslenskum hafsvæðum.
Íslensk stjórnvöld hafa því lengi lagt
áherslu á mikilvægi þess að vinna
gegn mengun kemískra efna, einkum
vegna mögulegra áhrifa þeirra á líf-
ríki hafsins.
Nokkur átök urðu meðal ríkja um
frágang aðgerðaáætlunar, einkum
hvað varðar fjármögnun hennar og
dróst fundurinn nokkuð af þeim sök-
um. Áætlunin miðar að því að tryggja
betri framleiðslutækni og meðhöndl-
un kemískra efna og betra eftirlit
með framleiðslu nýrra efna. Eins og
áður segir er stefnt að því að áhrif
kemískra efna á heilsu fólks og um-
hverfi verði hverfandi árið 2020, en
fram að þeim tíma er gert ráð fyrir að
þjóðir heims komi saman á þriggja
ára fresti og meti framkvæmd áætl-
unarinnar. Umhverfisstofnun SÞ
mun fylgjast með framkvæmdinni.
Þá stjórnaði umhverfisráðherra
ennfremur, ásamt umhverfisráð-
herra Jórdaníu, fundi um orku- og
umhverfismál á ársfundi Umhverfis-
stofnunar SÞ í Dubai. Þar voru rædd-
ar aðgerðir til að bæta orkunýtingu
og auka hlut endurnýjanlegrar orku í
heiminum.
Samhliða því að stýra fundinum
tók umhverfisráðherra þátt í um-
ræðum og lagði sérstaka áherslu á
nýtingu jarðhita, en hún skýrði m.a.
frá aukinni áherslu Íslendinga á jarð-
hitanýtingu í þróunarlöndum og
minnti á starfsemi Jarðhitaskóla SÞ
hér á landi. Þá benti hún á þá miklu
möguleika sem eru á nýtingu jarðhita
víðs vegar í heiminum, en þeir gætu
séð hundruðum milljóna manna fyrir
endurnýjanlegri orku.
Þekking Íslendinga
mikilvæg þróunarlöndum
Sigríður Anna segir bæði aðgerða-
áætlunina vegna kemískra efna og
orkumálin málefni sem skipta Íslend-
inga gríðarlegu máli. „Aðgerðaáætl-
unin skiptir mjög miklu máli fyrir
okkur Íslendinga, því við höfum í
gegnum tíðina lagt gríðarlega
áherslu á það að vernda hafið og allt
kvikt sem í því er. Það eru okkar
hagsmunir sem fiskveiðiþjóð. Meng-
un virðir engin landamæri og það er
mjög mikilvægt að það verði strang-
ara regluverk um eftirlit og fram-
leiðslu kemískra efna,“ segir Sigríður
Anna. „Við erum hér á Íslandi með
strangar reglur um þessi efni og við
fylgjum Evrópusambandinu í því, en
víða um heim eru reglurnar ekki eins
strangar og eftirlitið ekki í nógu góðu
lagi. Það þýðir það að mjög mikið er
um slæmar afleiðingar af slíku í þró-
unarlöndunum. Mörg þessara efna
geta valdið krabbameini og haft áhrif
á þroska barna. Það eru sífellt að
koma meiri fréttir af því, m.a. í gegn-
um niðurstöður rannsókna, hversu
slæm áhrif kemísk efni hafa á lífverur
og þar á meðal að sjálfsögðu á menn,
því við lifum á því sem náttúran gefur
af sér. “
Varðandi orkumálin segir Sigríður
jafnmikilvægt að finna leiðir til betri
orkunýtingar og að vinna að þróun
endurnýjanlegra orkugjafa. Segir
hún orkunýtingu hafa batnað gríðar-
lega m.a. með tilkomu bættrar upp-
lýsingatækni. Hins vegar sé líka afar
mikilvægt fyrir þróunarlöndin að efl-
ast í orkumálum og þá helst með nýt-
ingu endurnýjanlegra og hreinna
orkugjafa. „Þróunarlöndin þurfa að
sækja fram á þessum sviðum en þau
þurfa aðstoð við það,“ segir Sigríður
Anna. „Þar er mjög mikilvæg aðstoð
þróuðu ríkjanna við þróunarlöndin.
Hjá okkur hafa Þróunarsamvinnu-
stofnun og íslensk fyrirtæki verið
mjög framarlega í að færa okkar
þekkingu til þróunarlandanna.“
Vilja eyða áhrif-
um kemískra
efna á heilsu
og umhverfi
Umhverfisráðherra stýrði fundum Sameinuðu þjóðanna um umhverfismál í Dubai
Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra stýrði fundi á vegum SÞ um aðgerðaáætlun vegna kemískra efna
sem haldinn var í Dubai. Ráðherra sagði slíka áætlun mjög mikilvæga vegna verndunar hafsins.