Morgunblaðið - 20.02.2006, Blaðsíða 62
62 F MÁNUDAGUR 20. FEBRÚAR 2006 MORGUNBLAÐIÐ
Fólk er alltaf að taka til, dytta aðeinhverju, bæta og mála. Áðurnotuðu menn einkum góða
veðrið á vorin og sumrin til þessara
verka, en nú, þegar liggur við að
segja megi að það sé gott veður allan
ársins hring, að minnsta kosti á höf-
uðborgarsvæðinu, fellur mörgum
aldrei verk úr hendi, jafnt úti sem
inni. Jafnvel á miðjum þorra var
málað sem aldrei fyrr.
Fjölskyldufyrirtæki í 52 ár
Fyrir rúmlega 50 árum kom Sig-
urður Sigurðsson málari, Mál-
arabúðinni við Vesturgötu á lagg-
irnar. Oft var ys og þys í litlu
fjölskylduversluninni þar til fjöl-
skyldan hætti rekstri hennar 1987.
Tímarnir voru breyttir og stórar
verslanir tóku við hlutverki þeirra
sem ruddu brautina á þessu sviði
sem svo mörgum öðrum.
Börn Sigurðar og makar þeirra
hafa samt haldið uppteknum hætti
að hluta og reka Rúllugerðina ehf.
við Vatnagarða 14 í Reykjavík. Það-
an hefur K. Richter hf. dreift máln-
ingarrúllunum í verslanir eins og til
dæmis stórverslanir Byko og Húsa-
smiðjunnar.
„Við framleiðum málningarrúllur
og erum fyrst og fremst í samkeppni
við innfluttar rúllur,“ segir Sigurður
Sævar Sigurðsson. „Við erum einu
innlendu framleiðendurnir sem eftir
eru og teljum okkur vera með betri
vöru en flutt er inn en samkeppnin
er mikil. Allir vilja fá vörurnar sem
ódýrastar og það er erfitt að keppa
við fjöldaframleiðslu frá Asíu en við
höldum áfram á meðan málararnir
og almenningur vilja kaupa rúll-
urnar okkar í öllum helstu bygginga-
vöruverslunum og málningarverk-
smiðjum.“
Sigurður Sigurðsson byrjaði með
Málarabúðina 1954 og fljótlega hóf
hann að framleiða málningarrúllur
með dyggri aðstoð Egils Egilssonar.
„Hann var málari og þurfti sjálfur
málningarvörur en vegna hafta var
ekki hægt að flytja þessar vörur inn
og því hóf hann framleiðslu á máln-
ingarrúllum um fjórum árum eftir
að hann byrjaði með verslunina,“
segir Sigurður Sævar. „Til að byrja
með var framleiðslan gerð af van-
efnum enda erfitt með alla aðdrætti
en fljótlega vatt hún upp á sig og nú
kaupum við hráefni héðan og þaðan
og setjum rúllurnar saman.“
Mörg handtök
Töluverð vinna liggur að baki
hverri rúllu. Áklæðið kemur í
stórum ströngum og að meðaltali er
hægt að gera um 1.000 rúllur úr
hverjum stranga. Þegar búið er að
sníða stærðirnar er efnið saumað
saman og því síðan snúið við í þar til
gerðri vél. Efnið er síðan sett upp á
plasthólk og lokað fyrir á endunum
með sérstakri vél. Enn ein vélin er
síðan notuð til að taka ló úr rúll-
unum. „Þetta er eins og fönd-
urstofa,“ segir Guðfinna Agnars-
dóttir, eiginkona Sigurðar Sævars.
Björg Sigurðardóttir, systir Sig-
urðar Sævars, segir að mikið hafi
breyst frá því faðir þeirra byrjaði í
rúllugerðinni. „Hann lét sér ekki
nægja að setja hina ýmsu hluti sam-
an heldur skrapp niður í búð á kvöld-
in til þess að mála rúllusköftin. Þá
var líka notað lím til að halda efninu
á hólkunum,“ segir hún og bendir á
fyrstu rúlluna máli sínu til stuðn-
ings.
Sex manns starfa við Rúllugerð-
ina, Sigurður Sævar, Guðfinna,
Björg, Þorkell Helgason, eig-
inmaður hennar, Ásta Jónsdóttir og
Arnbjörn Ásgrímsson. Sigurður
Sævar segir að áður fyrr hafi salan
verið mest á vorin og sumrin en í
seinni tíð hafi salan verið jafnari allt
árið. „Nú er málað meira jöfnum
höndum allt árið, byggingar rísa
hratt og þörfin fyrir málningarrúllur
er því meiri en áður.“
Um 100 vörunúmer
Sigurður Sigurðsson var mikill
íþróttamaður og keppti meðal ann-
ars í þrístökki, langstökki og há-
stökki á Ólympíuleikunum í Berlín
1936. Í íþróttunum þarf sérstaka skó
fyrir ákveðnar íþróttagreinar og það
er eins í málningunni – sérstakar
rúllur þarf fyrir mismunandi fleti og
hinar ýmsu tegundir af málningu.
Rúllugerðin er með um 100 vöru-
númer og þar á meðal má til dæmis
sjá perlonmálningarrúllur fyrir
plast- og olíumálningu, gljámálning-
arrúllur fyrir hálfmatta og glansandi
plastmálningu og vatnsþynnt park-
etlakk, gæða málningarrúllur fyrir
ójafna fleti, lakkmálningarrúllur fyr-
ir hálfmatta og glansandi olíu-
málningu, hraunmálningarrúllur
með svampundirlagi fyrir grófa og
ójafna fleti, svampmynsturrúllur
fyrir mynstur- og hraunmálningu og
ekta glansmálningarrúllur fyrir
plastmálningu með miklum gljáa á
gifsplötur og aðra slétta fleti.
„Rúllurnar hafa í eðli sínu ekki
breyst mikið en þegar plastið kom til
sögunnar og leysti járnið í hólkunum
og handföngunum af hólmi varð
gjörbylting í framleiðslunni,“ segir
Sigurður Sævar. „Við höfum ætíð
vandað vel til verka og lagt metnað
okkar í að vera með góða vöru sem
við getum afgreitt samdægurs. Þess
vegna erum við enn að.“
Hafa framleitt málning-
arrúllur í hálfa öld
Plasttappar eru settir á rúllurnar með þar til gerðri vél.
Guðfinna við vélina sem tekur ló úr rúllunum.
Systkinin Björg og Sigurður Sævar við stranga sem eftir á að sníða.
Sigurður Sævar á lager Rúllugerðarinnar þar sem eru rúllur af mismunandi
stærðum ætlaðar fyrir mismunandi fleti og hinar ýmsar tegundir málningar.
Björg Sigurðardóttir „matar“ vélina sem snýr efninu við á hólkunum. Guðfinna Agnarsdóttir pakkar málningarsetti; málningarbakka og rúllu.
Sigurður Sævar Sigurðsson með fyrstu rúlluna, tæplega
50 ára gamla, í vinstri hendi og nýja rúllu í þeirri hægri.
Eftir Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is