Morgunblaðið - 19.03.2006, Page 8

Morgunblaðið - 19.03.2006, Page 8
8 | 19.3.2006 Hjátrú í íþróttum | „Konur eru að öllu jöfnu miklu umburðarlyndari og eru tilbúnar að heyra okkar afstöðu gagnvart galdri. Margir karlar fussa og sveia og segja, þetta er nú meiri vitleysan. Þá segi ég: ég þekki mann sem er alltaf í sama bolnum þegar Liv- erpool spilar. Þá verða þeir flóttalegir til augnanna og viðurkenna með semingi, að kannski kannist þeir við galdra. Það er gríðarleg hjátrú í kringum íþróttir og ná- kvæmlega enginn munur á því að sitja í hring á gólfinu og reyna að láta óskina sína rætast eða vera í einhverjum bol þegar liðið manns er að spila. Munurinn er bara sá, að annað er meðvitað, en hitt ekki,“ segir Eyrún. Eva segist hafa tekið á móti stúlknaliði í íþróttum á dögunum þar sem mörgum hafi þótt tilhugsunin um að galdra skrýtin. „Ég benti þeim á, að það fólk í okkar sam- félagi sem hefur mesta reynslu af galdri er íþróttafólk. Það er fólkið sem hefur lært að setja sér markmið og galdur er náskyldur markmiðasetningu sem mikið er talað um í nútímanum. Þetta snýst um það að vita nákvæmlega hvað maður vill. Alveg eins og í markmiðasetningu. Hins vegar eru íþróttamenn vanir því að æsa upp í sér ástríður. Ég sagði við þessar stelpur: þegar þið eruð að fara út á völl að spila og fyrirliðinn magnar upp stemmninguna með því að arga „hverjir eru bestir“ eða einhver svona markmið eins og „mölum þær“ eða álíka, er það nátengt galdri og gæti nánast verið tekið upp úr hvaða skruddu sem er, með örlítið breytu orðalagi. Sömu markmiðin eru þulin aftur og aftur. Regndansar eru annað dæmi, eða seiður, þar sem hreyf- ingar og hávaði er notaður til þess að magna upp í þér einhverjar ástríður. Þetta er mjög skylt galdri og reyndar hluti af honum,“ segir Eva. Hún vitnar aftur í nútíma velgengn- ifræði, þar sem alls konar uppskriftir er að finna, eins og í galdri. „Búðu þér til bók þar sem þú skrifar niður draumana þína og safnar saman myndum af því sem þig langar í. Hvað er það annað en galdur? Galdrastafir eru eins og myndir. Einn stafur merkir að maður vilji tengjast vin- áttuböndum, við sjáum sömu táknin aftur og aftur. Í samskipta- og lækningagöldr- um kemur hjartað fyrir aftur og aftur, í verndargöldrum kemur ægishjálmur fyrir í alls konar myndum, svo dæmi séu tekin. Þetta er ekki bara krot út í loftið. Rún- irnar eru upphaflega hljóðtákn en fela í sér heila goðsögn. Ef þig langar ofboðs- lega til þess að verða rík og njóta vel- gengni í fjármálum ristir þú ákveðnar rún- ir og þær merkja ekkert annað en að þú ætlir að grípa tækifærin sem þér gefast og að þú ætlir að vaka vel yfir fjármunum þínum og öðrum verðmætum sem þér er treyst fyrir. Þetta er ekkert annað en markmiðasetning, en bara miklu, miklu skemmtilegra,“ segir Eva. Eyrún segir að kosturinn við galdur sé sá, að iðkunin hætti aldrei að vera skemmti- leg. „Galdur hefur það framyfir aðrar leiðir við að ná markmiðum sínum, að maður fær að leika sér. Börn eru til dæmis mjög góð í galdri og fá alls ekki að versla í þessari búð. Þeim finnst ekkert bjánalegt að sitja úti í skógi og tala við fuglana. Þegar við missum hæfileikann til þess að tengjast náttúrunni og segja upphátt það sem við hugsum, þegar við hættum að tengjast sjálfum okkur gegnumsneitt, missum við þennan hæfileika. Ef maður fer inn í búð og kaupir sér ástargaldur fær maður leið- beiningar um að gera ákveðna hluti og það er gaman. Galdur er sjálfsskoðun og hreinsun og því mjög hollur hreinlega,“ segir hún. Yfir 1.000 nornir? | Hvað stunda margir galdur? „Ég myndi halda að það væru að minnsta kosti fleiri en þúsund nornir á Íslandi, þær eru í það minnsta miklu fleiri en ég hélt. Áður en við opnuðum þessa búð var maður ekki viss, en nú kemur hingað fjöldi fólks og í sumum tilvikum vinir og ættingjar sem gauka að manni hinum og þessum uppskriftum og maður hafði ekki hugmynd um að stunduðu galdur,“ segir Eyrún. Í orðabók Menningarsjóðs er norn skilgreind sem örlagagyðja, galdrakvendi og ill kona eða illkvittin manneskja. Eva kveðst nota nornahugtakið um fleira en eig- inlegan galdur. „Galdrar eða fjölkynngi eru ekki fullnægjandi skilgreiningar á norna- skap. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekkert yfirnáttúrulegt við galdur og að það séu til skýringar á öllu sem honum tengist,“ segir hún. Eyrún segir líka að þær nálgist galdur ekki sem svartan eða hvítan. „Það er hug- arfarið sem ræður úrslitum. Hann er hvorki svartur né hvítur í sjálfu sér, það er hvað uppskriftirnar sjálfar varðar. Til þess að ná árangri verður galdur að skipta mann máli tilfinningalega og langflestir nota galdur fyrir sjálfan sig, kannski maka, foreldra og börnin sín. Margir sem koma hingað vilja að við göldrum fyrir þá, en þetta virkar ekki þannig.“ Hvað er á topp-þrír galdralistanum? „Ást, hefnd og peningar,“ segir Eva. „Mjög margir koma líka til þess að styrkja sjálfsmyndina. Ég er ánægð með þann árangur, því margir eru litlir í sér og finnst þeir ekki verðskulda hamingju. Maður hefur séð fólk fara ofsalega kátt héðan út með lítinn galdur til að styrkja egóið. Gald- ur sem við erum með og heitir Bjarg er einn af okkar vinsælustu göldrum. Það kom okkur verulega á óvart. Fávitafælan er vinsælust og líka Skuldafælan,“ segir Eyrún. „Fólk sækir í sjálfsstyrkingargaldra, sem reyndar kom mér ekki á óvart, en það kom mér aftur á móti í opna skjöldu hvað fólk sækir mikið í verndargaldra og vernd- argripi. Það virðist vera fyrir hendi ótti við eitthvað sem ég veit ekki alveg hvað er, hvort það er myrkfælni eða draugahræðsla eða almennur ótti og öryggisleysi í okkar samfélagi. Því átti ég ekki von á. Mér finnst slæmt hvað það virðist vera útbreitt vandamál,“ segir Eva. Nornabúðin er skuldlaust fyrirtæki eftir sex mánaða rekstur og segjast þær með eigin orðum, ofsalega þakklátar fyrir móttökurnar. „Okkur hefur verið alveg einstaklega vel tek- ið. Eflaust hafa einhverjir horn í síðu okkar, eins og gengur í lífinu, en þeir hafa ekki kom- ið til okkar og kvartað. Við erum strax komn- ar með fastakúnnahóp sem kemur hingað í jurtate og kanilsnúða og til að slappa af og spjalla. Við höfum fengið mikla hvatningu og stuðning frá ótrúlegasta fólki,“ segir Eva. Eyrún bætir við. „Við tókum þá ákvörðun í upphafi að vera heiðarlegar í því sem við gerum og segjum fólki að við höfum enga yf- irnáttúrulega hæfileika. Ef það vill hitta álfa eða framliðna eða hvaðeina, þýðir ekkert að koma hingað. Þegar fólk sér nornabúð held- ur það að við hljótum að vita allt mögulegt en við erum ekki miðlar og vinnum ekki við þess háttar. Það eru alveg nógu margir um það,“ segir hún. En skyldi dulúðin sem hvílir á galdraiðkun ekki skjóta neinum skelk í bringu? „Það er mjög algengt að fólk sé smeykt við að prófa galdur. Það heldur kannski að eitthvað snúist gegn sér eða þess háttar. Málið er, að galdur snýst ekki gegn þér nema þú sért að reyna að kalla eitthvað illt yfir aðra. Það er allt í lagi að prófa en það gildir sama um galdur og mat- reiðslu og tónlist. Maður verður aldrei góður í galdri nema með því að æfa sig. Galdur byggist á ástríðu og ef maður er að reyna að tryggja velgengni í prófi eða kalla fram heppni er útilokað að það snúist gegn manni og að maður fótbrotni,“ segir Eva. „Ég er í þjóðkirkjunni og mér finnst bara allt í lagi að taka hluti ekki hátíðlega, sama hvort það er galdur eða trú eða eitthvað annað. Ef ekki er hægt að hlæja að ein- hverju er ekki pláss fyrir það í mínu lífi. Ég ber óendanlega virðingu fyrir guði og náttúrunni, en ég held að bæði guð og náttúran hljóti að hafa húmor. Maður þarf ekki annað en að sjá feita býflugu til þess að átta sig á því. Til þess að vera góð norn þarf maður að vera umburðarlyndur og að vera forvitinn. Maður þarf ekkert annað,“ segir Eyrún. Skyndilausnir eru vinsælar í samtímanum og þeir sem selja galdur fara ekki var- hluta af því. „Eins og við bendum á, gengur galdur ekki út á eitthvað ritúal sem þú gerir til þess að fá lausn núna! Skuldafælan er til dæmis í rauninni ekkert annað en sjálfsstyrkingargaldur til þess að temja sér það hugarfar, að það sé allt í lagi að eiga peninga og láta þá bara í friði. Maður þarf ekki að eyða þeim núna í það sem mann langar strax. Auðvitað kemur fólk til að fá skyndilausnir og redda hlutunum strax. En við tök- um mjög skýrt fram í öllum okkar uppskriftum að þú færð ekki það sem þú vilt þegar í stað með galdri. Galdur er ekki hókus pókus til þess að redda. Hann er aðferð til þess að temja sér nýtt hugarfar og beina viljastyrk sínum í ákveðna átt, til að gera sér grein fyrir hvað maður vill. Galdur er ekki skyndilausn. Þær eru ekki til sölu hérna frekar en annars staðar. Maður þarf alltaf að leggja eitthvað á sig og skoða sjálfan sig og vera tilbúinn til þess að opna huga sinn fyrir tækifærum,“ segir Eva að síðustu. | helga@mbl.is NORNIR Í NÚTÍMANUM Það kom mér aft- ur á móti í opna skjöldu hvað fólk sækir mikið í verndargaldra og verndargripi.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.