Morgunblaðið - 19.03.2006, Qupperneq 16

Morgunblaðið - 19.03.2006, Qupperneq 16
16 | 19.3.2006 koma til landsins. Hvers vegna veitirðu þeim sérstaka athygli? „Það sem ég er einkum að velta upp eru mynstrin sem koma upp og síðan hvaða upplýsingar þarf að fela fyrir okkur. Orkuyfirvöld hafa talið það siðferðilega skyldu okkar að nýta bókstaflega allt og ráðstafa á lágu verði í þágu alþjóðlegra stórfyrirtækja. Síðan fór ég að skoða orðspor, sögu og reynslu annarra af því að starfa með þessum sömu fyrirtækjum og þá varð virkilega erfitt að skrifa. Okkar fegurstu gersemar hafa staðið fyrirtækjum til boða sem hafa komið illa fram við verkamenn og rústað umhverfi fólks allt frá frumskógum Amazon til úthverfa Hull á Bretlandi. Þegar við skoðum síðan orðin hérna heima segja menn að þau eigi að „skjóta stoðum undir okkur“,“ segir Andri. Andlýðræði iðnaðarráðuneytisins Orkugeirinn svonefndi fær mikla gagnrýni í bókinni þinni. Hvað telur þú vera svona gruggugt við hann? „Það er kannski rétt að hann fái frekar slæma útreið. Því er samt ekki beint gegn ákveðnum einstaklingum eða neitt slíkt,“ segir Andri og bætir við að orkugeirinn sé gott dæmi um hvernig valdið er nýtt til að skilgreina veruleikann út frá einni leið og einni ákveðinni stefnu sem verði að fylgja, annars drukknum við. „Ég fann æðislegt dæmi um þetta úr ræðu iðnaðarráðherra af Iðnþingi 2005. Þar segir hún að eftir milljón tonna álbræðslu getum við látið gott heita því þá höfum við notið efnahags- legra- og félagslegra gæða sem við hefðum ekki getað veitt okkur með neinum öðr- um hætti.“ Andri afritaði ræðuna samstundis af heimasíðu iðnaðarráðuneytisins til að nýta í bókina. Nokkrum mánuðum seinna birtist grein eftir sama ráðherra í Morgunblaðinu þar sem segir: „Ég hef aldrei haldið því fram að áliðnaðurinn sé eina leið okkar Íslendinga til að skapa góð lífskjör.“ Andra þótti þetta heldur úr takti við fyrri yfirlýsingar og ætlaði að leita í áðurgreinda ræðu á vef ráðuneytisins. Þá hafði ræðunni verið breytt og klausan um að gott væri að hætta við milljón tonna framleiðslu var horfin. Opinber markmið voru þá komin upp í 1,5 milljón tonn. „Þetta rímar mjög vel við hvernig iðnaðarráðuneytið hefur unnið síðustu ár. Þarna hafa menn í fjörutíu ár verið að fylgja markmiðum sem hafa aldrei verið bor- in á borð fyrir þjóðina. Þegar menn komast að því að fólk er ekki beinlínis hrifið af stefnunni fara einkennilegir hlutir að gerast og sumir nokkuð skuggalegir. Mynstur koma upp sem maður hefur aðeins séð í einræðisríkjum. Maður hittir sérfræðinga sem þora ekki að tjá sig á sama tíma og heimildir hverfa. Ef menn eru sannfærðir um að það sé bara ein rétt leið og framtíðin byggist ekki á vali, hvað getur þá ógnað framtíðinni? T.d. þekking líffræðingsins, myndir ljósmyndarans og vilji fólks. Þá þarf að setja nokkuð margar milljónir í að halda vilja þjóðarinnar á réttri línu. Hefði t.d. einhver trúað því fyrir tuttugu árum að Ómar Ragnarsson og þekking hans á landinu yrðu einhvern tíma talin óæskilegt afl í samfélaginu?“ Talíbanakrafa nútímans Andri tekur vefsíðuna www.star.is sem dæmi en hún var rekin af iðnaðarráðu- neytinu og Landsvirkjun. „Star.is gekk út á að selja Austfirðingum rómantíska mynd af stóriðju og um leið berja niður allar aðrar hugmyndir og alla þá sem tóku þátt í lýðræðislegu umræðunni sem átti að fara fram. Þetta var kostað af al- mannafé,“ segir Andri en vefsíðan er ekki lengur starfrækt. Í bókinni tekur hann sem dæmi fyrirsagnir á borð við „Andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar beita lygum og ósannindum“. Þú talar um talíbanakröfu nútímans, hvað áttu við með því? „Talíbanakrafan gengur út á alhæfingar og hópaskiptingu samfélagsins. Ef þú vilt ekki virkja allt ertu á móti rafmagni, ef þú vilt ekki breyta landinu í stærsta ál- ver í heimi ertu á móti áli og hræsnari ef þú notar annaðhvort ál eða rafmagn.“ Andri segir að landið og náttúran hafi nánast engan launaðan talsmann á meðan milljónum sé eytt í skapa ímynd um rómantíska stóriðju. „Náttúruverndarsamtök eru svelt, líffræðingar eiga að vera talningarvélar sem telja grös en ekki mann- eskjur. Síðan bregður mörgum þegar þeir lesa hvað álfyrirtækin hafast við.“ Rithöfundar hafa tíma Bókin er raunar byggð á miklu meiri blaðamennsku en við erum vön frá rithöf- undum, þú hlýtur að hafa fylgst vel með fjölmiðlum og legið í heimildum? „Já, ég var eiginlega orðinn heimildafíkill. Það er sex blaðsíðna heimildaskrá í bókinni,“ segir Andri og brosir en hann vitnar í ræður, skýrslur, fjölmiðla og meira að segja símafund fjárfesta hjá Century Aluminium. „Ég er að reyna að raða upp heimsmynd. Það sem rithöfundar og listamenn hafa er tími á meðan enginn annar hefur tíma. Ég finn muninn á því þegar ég er t.d að vinna í leikriti og þarf að vera að frá átta á morgnana til sex á kvöldin. Þá fylgist ég ekki nærri eins vel með fjöl- miðlum og stærðarinnar mál fara kannski alveg framhjá manni.“ Andri bendir á að við búum í litlu samfélagi þar sem allir blandast saman burtséð frá flokkspólitík eða öðrum skoðunum. „Mig langaði að líma alla þessa þræði sam- an og birta veruleikann. Bókinni er ekki beint gegn einum flokki eða einstaklingum heldur eru gildin sem ég geng út frá þau sem mér finnst skipta máli. Ég lít svo á að maðurinn sé frjáls, geti skapað og vilji vel. Hugsanlega hegg ég nærri hagsmunum fólks í kringum mig en það er kannski hluti af því að búa í svona litlu samfélagi. Ég geri það hins vegar ekki af því að mig langi að koma einhverjum illa heldur af hreinni nauðsyn af því að grundvallarreglur lýðræðissamfélagsins hafa verið brotn- ar. Sumum finnst þetta kannski neikvætt. Ef einhver ekur á rauðu ljósi frá Árbæ og niður í miðbæ er ekkert voðalega neikvætt að gera athugasemd við það, jafnvel þótt hann hafi ekið á löglegum hraða alla leiðina,“ segir Andri. | halla@mbl.is FRÁ FANTASÍU TIL RAUNSÆIS „Það má ekki gefa Íslandi og náttúrunni rómantískt gildi en ál má hafa eitthvert rómantískt, göfugt gildi.“

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.