Morgunblaðið - 15.05.2006, Side 26

Morgunblaðið - 15.05.2006, Side 26
26 MÁNUDAGUR 15. MAÍ 2006 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR ✝ Björn Gunnars-son fæddist í Reykjavík hinn 29. september 1951. Foreldrar hans eru Gunnar K. Björns- son, f. 1924, og Lovísa H. Björnsson, f. 1925. Systkini Björns eru: 1) Árni Gunnarsson, f. 1948, maki Daniela I. Gunnarsson, f. 1960. 2) Rannveig Gunn- arsdóttir, f. 1949, maki Tryggvi Páls- son, f. 1949. 3) Sigurjón Gunnars- son, f. 1954, maki Sigríður Olgeirs- dóttir, f. 1960. 4) Gunnar Örn Gunnarsson, f. 1958, maki Olga Bergljót Þorleifsdóttir, f. 1956. 5) Halldór Gunnarsson, f. 1962, sam- býliskona Anna Persson, f. 1968. 6) Þórarinn Gunnarsson, f. 1964, maki Berglind Garðarsdóttir, f. 1966. Björn kvæntist 1977 Guðrúnu Nönnu Guðmundsdóttur, f. 10.3. 1953. Þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Íris Björnsdóttir, f. 27.10. 1974, maki Freyr Bergsteinsson, f. 1.9. 1975. Börn þeirra eru: a) Breki, f. 31.1. 2001; b) Katla, f. 8.11. 2002, og c) Svava, f. 5.5. 2004. 2) Egill Björnsson, f. 2.5. 1980, sambýlis- lands, viðskiptafræði, haustið 1988. Lauk námi á fjármálasviði vorið 1994 og endurskoðunarsviði vorið 1995 en útskrifaðist ekki formlega þar sem hann skilaði ekki inn rit- gerð. Einnig sat hann veturinn 1989–90 í stjórnmálafræði. Öll árin vann hann nánast fulla vinnu með náminu. Hann vann hjá Hagvirki hf. við mælingar og magnuppgjör ásamt almennu skrifstofuhaldi, við stíflu- gerð Blönduvirkjunar, sumrin 1992 og 1993 og við Suðurfjörutanga á Höfn í Hornafirði haustið 1993. Árið 1988 stofnaði Björn ásamt föður sínum heildsöluna og ráð- gjafarfyrirtækið Hitaval sem þeir starfræktu fram til ársins 1999. Jafnframt rak hann framtals- og bókhaldsþjónustu í eigin nafni á sama tíma. Haustið 1998 tók hann að sér í verktöku bókhald fyrir Vélsmiðj- una Gils ehf. sem breyttist í fullt starf skrifstofu- og fjármálastjóra vorið 1999. Þar sá hann um fjár- hagsbókhald, almennt skrifstofu- hald og var aðalaðstoðarmaður framkvæmdastjóra og síðast sem aðstoðarmaður skiptastjóra við uppgjörsmál því fyrirtækið fór í þrot haustið 2001. Upp úr því varð til Altak ehf. sem hann starfaði hjá árið 2002. Hann hóf störf hjá Imp- regilo 2003 sem aðstoðaryfirbókari með aðsetur á Kárahnjúkum. Þar starfaði hann til dauðadags. Útför Björns verður gerð frá Langholtskirkju í dag og hefst at- höfnin klukkan 13. kona Sóley Árnadótt- ir, f. 2.12. 1975. Björn lauk gagn- fræðaprófi frá Rétt- arholtsskóla 1968. Eftir útskrift vann hann fyrst hjá Garð- yrkjudeild Reykjavík- urborgar en frá 1969 vann hann hjá Búnað- arbanka Íslands við ýmis störf, meðal annars sem gjaldkeri. Síðan hóf hann nám við Samvinnuskólann á Bifröst og lauk Samvinnuskólaprófi þaðan 1974 og kláraði fyrra árið í framhaldsdeild Samvinnuskólans til stúdentsprófs vorið 1975. Vorið 1972 hóf hann störf hjá Ís- taki hf. sem mælingamaður á sumr- in og starfaði þar næstu fimm sum- ur, fyrst við vegagerð á Hellisheiði og svo við Mjólkárvirkjun í Arnar- firði þar sem hann sá einnig um skrifstofuhald á staðnum. Árið 1975 hóf hann störf hjá Berki hf. og dótturfyrirtækjum þess, við ýmiss konar skrifstofustörf, lagerhald ásamt erlendum innkaupum og samskiptum og starfaði þar sam- fleytt til 1989 er fyrirtækið var lagt niður. Hann innritaðist í Háskóla Ís- Þegar ég kynntist tilvonandi konu minni Rannveigu, þá átján ára gam- all, tók stór og sterk fjölskylda mér opnum örmum. Lísa og Gunnar áttu sjö börn, eina dóttur og sex syni, og umvöfðu þau kærleika. Hjá þeim í Hvassaleitinu var alltaf líf og fjör því auk fjölskyldunnar var þar stöðugur straumur vina og ættingja. Eftir- minnilegar eru sameiginlegar mál- tíðir fjölskyldunnar þar sem tekist var á um álitamál í kappi við útvarp- ið sem húsbóndinn stillti á fullt. Skiptist þá systkinahópurinn nokk- uð í tvennt, lágværar raddir sem Lísa átti e.t.v. meira í og svo hinar háværari sem ættfaðirinn Gunnar fór fyrir. Í þessum umræðum fylgdi Björn, eða Brósi eins og hann var kallaður, skoðunum sínum eftir með festu og tilhlýðilegum hljómstyrk. Engum duldist hversu traustur, hjartahlýr og hjálpsamur Brósi var. Alltaf var hann boðinn og búinn að aðstoða aðra en ætlaðist ekki til að greiðinn væri endurgoldinn. Sem lít- ið dæmi má nefna þegar hann sem yngri bróðir gladdi systur sína sem þá var í MR með því að fara í bæinn og kaupa handa henni skó sem hon- um fannst hana vanhaga um. Fjöl- margir geta sagt svipaðar sögur um hlýju og hjálpsemi Brósa. Í vinnu sinni var Brósi ötull og samvisku- samur með afbrigðum svo vinnudag- ur hans var oftast langur. Betri sam- starfsmann var erfitt að finna. Björn var vel liðinn og virtur en vildi lítið láta á sér bera. Brósi deyr fyrir aldur fram. Ósegjanlega hefði verið gaman að fá að njóta samvista við hann áfram og þá ekki síst þegar við drögum úr vinnu og höfum meiri frítíma. Brósi var gleðigjafi með smitandi hlátur og hlýja nærveru. Hann var í miklu uppáhaldi hjá börnum okkar og þau sakna frænda síns. Þegar litið er yfir farinn veg sækir sú hugsun á að Brósi hafi meira hugsað um aðra en sjálfan sig. Það er virðingarvert og þannig vildi hann hafa það en hann hefði mátt gæta betur að eigin hag og heilsu og losa sig við skaðræðis sígaretturnar. Brósi var góður vinur, pabbi og afi. Börnin hans Íris og Egill, makar þeirra og barnabörnin voru stolt hans með réttu. Samúð okkar er þeirra. Þau geta ætíð reitt sig á stuðning þeirrar stóru og samheldnu fjölskyldu sem þau eiga að. Það er það minnsta sem við getum gert fyr- ir Brósa sem gaf okkur svo mikið. Tryggvi Pálsson. Það var fyrir hádegi mánud. 8. maí að Gunnar bróðir minn hringdi í mig og tilkynnti mér lát Björns son- ar síns sem hafði orðið bráðkvaddur í herbergi sínu við Kárahnjúka. Hann sem var svo ungur og frískleg- ur hann Brósi, en það var hann alltaf kallaður. Yfir mig helltust minning- ar um ljúfan, glaðlegan, elskulegan dreng sem allaf var svo einlægur. Hann var skírður í Útskálum á Kópaskeri hjá ömmu og afa ásamt jafnaldra sínum, nafna og frænda sumarið 1952. Hann var mikill dund- ari og sjálfum sér nógur og kom á hverju sumri og dvaldi þá í Útskál- um og þar fann hann alltaf sitt af hverju sem halda skyldi til haga og allt var geymt í vösunum. Gaman var að fara með okkur í víkina og leggja silunganetin og síðar að vitja um og grípa spriklandi silunginn úr netun- um. Mér er ofarlega í huga eitt sum- ar þegar foreldrar hans með börnin þrjú komu eitt sinn sem oftar norður að sumarlagi og ákváðu að fara í smá ferðalag með foreldrum mínum. Ég tók þá að mér að hafa hann Brósa þessa daga. Það var ekkert mál, hann var svo hændur að mér . Hann átti brúnt mjúkt og stórt snuð sem hann elskaði mjög og datt ekki í hug að sofna án þess. En fyrsta kvöldið okkar fannst ekki snuðið og leitin stóð til miðnættis. Það fannst á ótrú- legum stað inni í fataskáp. Hann var þarna þriggja ára, en fljótt sofnaði hann og frænkan gætti snuðsins vel eftir það. Þarna var honum fátt óvið- komandi. Svo var ég stundum vetr- arlangt í Reykjavík, fyrst hjá fjöl- skyldu hans á Ásvallagötu 31 og síðar lengur á Grenimel 13. Á sunnu- dagsmorgnum var oft bankað á gluggann á Grenimelnum og voru þar komin þrjú systkinin í heimsókn, Brósi yngstur. Þá var gítarinn tek- inn fram og sungið og eða lesið í bók. Ljúfar stundir það. Ég minnist sunnudagsbíltúranna á R 1733 með nesti, oft sex bræðrabörn mín, for- eldrar og ég í farteskinu. Svo liðu ár- in, ég gifti mig og fluttist í Sandfells- haga í Öxarfirði og enn hittumst við hvert sumar. Brósi var tvö til þrjú sumur í Hafrafellstungu hjá frænd- fólki og naut sín vel og átti góða daga þar. Svo fóru félagarnir fimm, tveir bræður mínir þar meðtaldir, að koma á Strimpu, hertrukk sem settir voru flugvélastólar í. Strimpa kom yfir öræfin og út úr henni spruttu ótal börn og fullorðnir í mat og eða kaffi, stundum var líka gist hjá okk- ur hjónum. Og börnin þurftu nú að rannsaka hús og komu víða við á jörðinni, enda frjálsræðið algert. Haldið var svo áfram í Kverkártung- una í laxveiði, sumar eftir sumar með foreldrum, fjölskyldu og vinum. Vænt þótti mér um að hann kom með foreldrum sínum að kveðja bónda minn 2001 og með Agli syni sínum fyrir þremur árum, alltaf brosandi að faðma frænku sína. Ég sakna hans mjög. Um leið og ég þakka allar okkar stundir saman, veit ég að afi hans og Bangsi hafa tekið á móti honum opnum örmum. Elskulega frændfólk. Ég veit að ykkar sorg er mikil en minningarnar um hann Brósa minn standa eftir og ylja ykkur. Blessuð sé minning hans. Hvíli hann í friði. Ásta Björnsdóttir föðursystir. Fyrir þremur vikum vorum við í París og nutum þessarar óviðjafn- anlegu borgar á sólríkum vordögum. Þar hittum við Brósa. Nokkrum sinnum lágu leiðir okkar saman, fyr- ir hreina tilviljun. Það var eins og forlögin hefðu ætlað okkur að hitt- ast. Alltaf heilsaði hann brosandi og hlýr í viðmóti eins og hann var æv- inlega. Auðvitað var ákveðið að gera eitthvað. Við mæltum okkur mót og áttum saman yndislega kvöldstund í einu skemmtilegasta hverfi Parísar- borgar í grennd við Sacre Coeur- kirkjuna. Eftir vel heppnaða máltíð gengum við upp hæðina þar sem þessi undurfagra kirkja stendur, nutum útsýnisins yfir borgina og hlýddum á messu. Við munum ekki gleyma þessu kvöldi. Hálfum mán- uði síðar var Brósi allur. Við spjölluðum margt í París enda lék Brósi á als oddi. 11 ára gamall sonur okkar hreifst af þessum frænda sínum sem hann hafði ekki hitt oft. Þeir urðu strax miklir mát- ar. Brósi var mikill fjölskyldumaður og við tókum eftir því hvað hann tal- aði um börnin sín af miklum hlýleik. Við rifjuðum líka upp fyrri samveru- stundir, sögðum fréttir af fjölskyldu- meðlimum og slógum á létta strengi. Aldrei var skortur á umræðuefni enda var Brósi viðræðugóður, skemmtilegur og einlægur. Við er- um þakklát fyrir að hafa átt með honum þessar eftirminnilegu stund- ir í París. Við vottum Agli og Írisi, barna- börnum, Gunna og Lísu og öllum ættingjum samúð okkar. Gunnar Þór Bjarnason, Jóhanna Einarsdóttir. Er ég frétti af skyndilegu og ótímabæru fráfalli þínu, Brósi minn, þá komu fram ýmsar minningar frá æsku- og uppvaxtarárum okkar í Hvassaleitinu. Nábýlið og skyldleik- inn tengdu fjölskyldur okkar saman. Við fluttum börn að aldri í nýtt hverfi og vorum frumbýlingar í Hvassaleitinu. Meðgöngutími skildi okkur að í aldri. Uppvöxtur okkar og krakkanna í næstu húsum einkennd- ist af útileikjum, boltaleikjum, klifri í nýbyggingum, leikjum á gamla golf- vellinum og nágrenni, þar sem Kringlan er núna, strákar og stelpur að leik saman. Mæður okkar heimavinnandi og til taks að skóladegi loknum. Við saman í flugvél að fara norður í sveitina – Öxarfjörðinn, lentum á flugvellinum við Kópasker. Þú að fara í Tungu og ég í Sandfellshaga til Ástu frænku, föðursystur þinnar. Skyldmenni um alla sveit. Við að fara í Bakkafjörðinn, þar sem foreldrar þínir og fleiri voru að koma sér upp veiðijörð – fengum leyfi frá sveitastörfunum. Minnist laufabrauðsgerðar fjöl- skyldna okkar á aðventunni, skorið út á öðru heimilinu og kökurnar steiktar á hinu, stutt að fara milli húsa, enda hlið við hlið í raðhúsa- lengjunni. Beðið var með eftirvænt- ingu, að búið væri að steikja afgang- ana/afskurðinn og runnu þeir út eins og heitar lummur. Amma þín að fletja út, ásamt öðrum og afi að skera út, með sínum fimu fingrum, fyrir tíma laufabrauðshjólanna. Heill herskari af börnum að taka þátt og síðan var veisla, er kassi með litlum kókflöskum var borinn inn, ásamt öðru góðgæti. Við að verða unglingar og ég pínu- lítið skotin í frænda mínum. Við að verða fullorðin, búin að festa ráð okkar og eignuðumst frum- burði okkar sama árið 1974, þú Írisi þína og ég Bryndísi. Nú hafa leiðir barna þeirra mæst, á sama leikskóla. Ég man hláturinn þinn, honum gleymi ég ekki. Ég votta börnunum þínum, Írisi og Agli, afabörnunum, foreldrum, systkinum og öllum ástvinum þínum mína innilegustu samúð. Blessuð sé minning þín. Sigríður Jóhannsdóttir (Sissý). Góður drengur – var það fyrsta sem flaug um hug minn þegar ég fregnaði skyndilegt andlát Brósa. Ég kynntist Brósa fyrst þegar hann var 19 ára glaðbeitt ungmenni á æskuheimili sínu í Hvassaleiti 79. Hann var hraustlegur, með þykkt og mikið hár. Honum fannst „ekkert vera til að borða hérna“ ef hvítt franskbrauð var ekki alltaf til í eld- húsinu. Hann borðaði sem sagt það sem honum þótti best og annað ekki og lýsir það persónuleika Brósa nokkuð vel eins og hann var alla tíð. Hann fór ekki endilega hefðbundna slóð. Heimilið var eitt það myndarleg- asta sem við krakkarnir úr hverfinu komum á og við komum þar mikið, því systkinahópurinn var stór og börnin vinmörg. Húsmóðirin tók vel á móti öllum skólakrökkunum með sínu elskulega viðmóti og eðlislæga áhuga fyrir öllum þessum ungu manneskjum sem sóttu börnin henn- ar heim. Húsbóndinn sást minna enda oftast í vinnunni eins og aðrir athafnamenn af hans kynslóð. En pabbinn gekk að unga fólkinu og spurði spurninga ekki síður þegar hann mátti vera að og lét það ekki ógert að kynnast mannskapnum frekar en önnur góð foreldri. Þetta sómafólk varð síðar tengdaforeldrar mínir til fjölmargra ára þegar ég var gift Sigurjóni syni þeirra, bróður Brósa. Þau hafa ævinlega reynst syni mínum vel. Unnusta Brósa á þessum árum og síðar barnsmóðir, Guðrún Nanna Guðmundsdóttir, á einlægan vinar- hug minn ávallt síðan, gullfalleg stúlka, vönduð og gefandi. Heimili Nönnu og Brósa í Birkihvammi var notalegt að koma á, listrænt og fal- legt. Einstakan hlýhug í minn garð og sonar míns sýndu þau Brósi æv- inlega bæði í orði og í verki. Stoltir afar og ömmur eru orðnir margir í aldurshópi okkar sem vor- um krakkarnir í hverfinu fyrir ekki svo löngu, en svei mér ef Brósi var ekki sá allra stoltasti þegar yndis- legt barnabarn, frumburður Írisar dóttur hans fæddist. Elsku Íris mín og Egill, Lísa, Gunnar, systkini Brósa og aðrir að- standendur, ég samhryggist innilega í ykkar mikla missi. Góður drengur er genginn. Marta B. Helgadóttir. Það er komið að því að kveðja, allt of fljótt. Óþægileg tilfinning, doði, undrun, reiði. Löngun til að flýja kveðjustundina gerir vart við sig. En sumt er bara algjörlega óumflýjanlegt sama hversu ósangjarnt það er. Við höld- um, okkur finnst, við trúum … hvað vitum við svo sem eftir allt. Hug- urinn eins og blæðandi sár góðra minninga. Minningar um hlýjan góð- an vin, „háalvarlegar“ veiðiferðir, grillveislur, gleði yfir laxi, alls konar aðstoð, hittingar í áfangaveislum, eins og afmælum, skírnum, ferming- um, útskriftum … En bestar voru óskipulögðu en kærkomnu heimsóknirnar þar sem oftar en ekki mátti heyra háværar rökræður og hlátrasköll því það var ekki sjálfgefið að allir væru á einu máli, þannig eru vinir. Það er sagt að tíminn lækni öll sár. Það kann að vera rétt. Tíminn er vinur okkar. En sárin skilja eftir sig ör sem aldrei hverfa. Sárin eru sársaukafull og óvelkomin. En örin verða að endingu kær- komin, því við viljum muna. Takk fyrir fallegar minningar. Kæri vinur, mest af öllu minnumst við kærrar vináttu sem var allt of stutt. Við sem ætluðum að sitja saman með rauðvín og rökræða í ellinni. Elsku Íris og Egill og fjölskyldur, okkar innilegustu samúðarkveðjur, munið að það sem þið saknið eru góðu stundirnar og þær lifa í minn- ingunni. Kæru Gunnar, Lísa, börn og fjöl- skyldur, söknuðurinn er sár en minningin um góðan dreng lifir. Steinn, Ásta María, Steinunn Dögg, Steinarr Logi og Auðun. Vini og vinnufélaga Björns Gunn- arssonar setti hljóða þegar spurðist að hann hefði orðið bráðkvaddur um síðustu helgi, liðlega fimmtugur maðurinn, á sínu öðru heimili austur við Kárahnjúka. Þar hafði hann starfað síðustu þrjú ár sem stað- gengill fjármálastjóra við þessa mestu framkvæmd íslenskrar at- vinnusögu. Björn var einn fyrsti Íslendingur- inn sem réðst til starfa hjá ítalska verktakafyrirtækinu Impregilo vor- ið 2003 og vann sér þar traust jafnt innlendra sem erlendra samstarfs- manna. Hann hafði það geðslag og víðsýni sem auðveldaði honum að hrærast í spennuþrungnum norna- katli, þar sem saman núast marg- háttuð gildi mismunandi menningar- heima fólks af meira en 30 þjóðernum. Meðal fólks sem starfar langtímum saman fjarri byggð og ættingjum við erfiðar aðstæður að mjög krefjandi verkefnum. Hér nýttist bæði reynsla Björns frá fyrri störfum í iðnaði og við mannvirkja- gerð á fjöllum en ekki síður eðlis- kostirnir, jafnaðargeð og árvekni, nákvæmni og vinnusemi og vakandi áhugi á þeim viðfangsefnum og hagsmunum sem hann hafði tekið að sér að gæta hverju sinni. Ég kynntist Birni fyrst í þessum störfum hans og þau kynni voru ánægjuleg frá fyrsta degi. Hann var léttur í skapi og átti gott með að um- gangast fólk; lét ekki hávaða eða uppákomur raska ró sinni og hafði það viðhorf til erfiðra viðfangsefna, að ekki væri annað að gera en að leysa úr þeim. Hann var réttsýnn maður og vildi á engan halla en held- ur ekki að gengið væri á sinn rétt eða sinna manna. Hann var lifandi í áhuga á umhverfi sínu, daglegum viðfangsefnum og þjóðmálum. Á vinnustað var staða Björns slík, að mjög var til hans leitað um ráð- leggingar og úrlausn fjölþættra við- fangsefna. Og alltaf var Björn boð- inn og búinn að aðstoða samstarfs- fólkið, nú eða að vera kletturinn til að styðjast við ef þannig vildi verk- ast. Hann var bóngóður og raungóð- ur og hélt því ekki á hólunum þegar hann liðsinnti samferðamönnum sín- um. Ótímabært fráfall hans skilur eftir stórt skarð í hugum vinnufélaga og vina. Hann var drengur góður sem sárt er saknað. Þórarinn V. Þórarinsson. BJÖRN GUNNARSSON

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.