Lesbók Morgunblaðsins - 27.01.2007, Blaðsíða 12

Lesbók Morgunblaðsins - 27.01.2007, Blaðsíða 12
12 LAUGARDAGUR 27. JANÚAR 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Birtu Björnsdóttur birta@mbl.is    Ein umdeildasta kvikmynd síð- ustu missera er án efa Hounddog en trúarhópar víða um Bandaríkin hafa hvatt fólk til að sniðganga myndina. Kvikmyndatímaritið Premiere til- einkar myndinni heila opnu í jan- úarhefti sínu og reifar þar skoðanir bæði leikstjóra og aðalleikkonunnar sem og þeirra sem andsnúnir eru umræddri mynd. Myndin segir frá ungri stúlku, sem leikin er af Dakota Fanning, en hún elst upp hjá ofbeldis- fullum föður og drykkjusjúkri ömmu í suðurríkjum Bandaríkjanna. Hún leitar hugg- unar í blústónlist og er á leiðinni að kaupa sér miða á tónleika með Elvis Presley þegar unglingspiltur ræðst á hana og nauðgar henni. Leikstjóri myndarinnar, Deborah Kampmeier, segir að hluti á borð við nauðganir megi ekki þagga niður. „Það eru allt of margar konur í okkar samfélagi sem þurfa að burðast með þá vanlíðan sem fylgir ofbeldi einfaldlega vegna þess að það er ekki talað um það,“ segir hún og bætir við að þótt viðfangsefnið sé vissulega við- kvæmt hafi eng- um viðstöddum verið misboðið á nokkurn hátt. „Í umræddu atriði sést ein- göngu í öxl, fót- legg, hönd og andlit stúlkunnar enda er atriðið ekki gert til að hneyksla fólk,“ segir hún. Í sama streng tekur aðalleikkonan Fanning. „Þetta er ekkert í alvörunni. Þetta er bíómynd og þetta kallast leikur. Mér leið ekki illa á nokkurn hátt á meðan á þessu stóð,“ sagði Fanning í viðtali á dögunum. Hún bætir við að hún og Kamp- meier hafi rætt fram og til baka um atriðið í marga mánuði áður en það var tekið upp. Hounddog var frumsýnd á Sund- ance-kvikmyndahátíðinni fyrr í vik- unni.    Kvikmyndin The Golden Age er væntanleg í kvikmyndahús síðar á árinu en um er að ræða framhald myndarinnar Elizabeth frá árinu 1998. Það er sem fyrr ástralska leik- konan Cate Blanchett sem fer með hlutverk El- ísabetar I. Eng- landsdrottningar. Myndin segir meðal annars frá sambandi El- ísabetar við æv- intýramanninn Sir Walter Ra- leigh, sem leikinn er af Clive Owen. Með önnur hlutverk fara Geoffrey Rush og Samantha Morton, sem leikur Maríu Skotadrottningu. Leikstjóri myndarinnar er Shek- har Kapur.    Mikið mun bera á leikaranum kín- verska Donnie Yen á næstunni ef eitthvað er hæft í fregnum af næstu hlutverkum hans. Í viðtali á dög- unum fullyrti umboðsmaður Yen að leikarinn hygðist taka að sér aðal- hlutverk í myndum byggðum á ævi Bruce Lee annars vegar og ævi Genghis Khan hins vegar. Það er fjölskylda Bruce Lee sem stendur að gerð myndarinnar um bardagakapp- ann goðsagnarkennda. Minna er vit- að um efnistök í myndinni um mong- ólska stjórnandann og herforingjann Genghis Khan. KVIKMYNDIR Dakota Fanning Donnie Yen. Cate Blanchett. Eftir Björn Þór Vilhjálmsson vilhjalmsson@wisc.edu Ínýjasta hefti breska kvikmyndatímaritsinsSight & Sound er fjallað um Alþjóðlegukvikmyndahátíðina í Reykjavík sem haldinvar í þriðja sinn síðastliðið haust. Greinin er skrifuð af James Bell, aðstoðarritstjóra tímaritsins, en auk þess að fjalla um hátíðina gerir hann ís- lenska kvikmyndamenningu að umfjöllunarefni og athyglisvert er hvernig hún kemur blaðamanninum fyrir sjónir. Yfirskrift greinarinnar er „Lights out for a terri- tory“ (Ljósin á svæðinu slökkt) og þar vísar höf- undur til eftirminnilegrar opnunar hátíðarinnar en að lokinni frumsýningu á opnunarmyndinni The Queen voru ljósin í Reykjavík slökkt í hálfa klukku- stund. Bæjarbúar gátu þannig virt fyrir sér him- inninn og stjörnurnar – jafnvel var vonast eftir norðurljósum – án truflunar frá ljósmengun borg- arinnar. Framtak þetta hefur greinilega verið blaðamanninum minnisstætt en hann telur að þarna hafi skemmtilegur tónn verið sleginn fyrir hátíðina og viðeigandi andrúmsloft skapað, enda þótt hann minnist líka á að veðrið hafi ekki beinlínis verið að óskum. Í framhaldinu fjallar Bell um það mikla úrval kvikmynda sem hátíðin státaði af, en það samanstóð af um 80 kvikmyndum frá 30 þjóð- löndum, og telur hann dagskrárstjóra hafa staðið sig vel við að kynna nýjabrumið í alþjóðlegri kvik- myndamenningu fyrir íslenskum kvikmynda- áhugamönnum. Þá fjallar Bell nokkuð um innlenda kvikmynda- framleiðslu og nefnir sérstaklega til sögunnar kvik- mynd Árna Ólafs Ásgeirssonar, Blóðbönd (Thicker than Water). Ljóst er að Bell hefur hrifist af mynd- inni því í umfjöllun sem hann ritar og er birt annars staðar í sama tímariti um Thessaloniki-kvik- myndahátíðina á Grikklandi þar sem Blóðbönd var einmitt sýnd kemur fram að hann álítur mynd Árna Ólafs mikilverðustu uppgötvun þeirrar hátíðar, en hann ver umtalsverðu rými í lofsamlega umfjöllun um myndina. Í greininni um Alþjóðlegu kvik- myndahátíðina í Reykjavík segir Bell ennfremur að Árni Ólafur eigi fullt erindi í framvarðasveit ís- lenskra kvikmyndagerðarmanna. En það er þó kannski ekki síst upphaf greinar James Bell sem vekur athygli. Hún hefst á þeim orðum að í ljósi fersks og skapandi tónlistar- umhverfis landsins og eilítið skringilegrar („quirky“) ímyndar þess á alþjóðlegum vettvangi hafi blaðamaður búist við að hitta fyrir þjóð kvik- myndaáhugamanna sem væri vel þjónað af sjálf- stæðum og jafnvel óvanalegum kvikmyndahúsum sem byðu upp á hugmyndaríkt kvikmyndaúrval. Raunveruleikinn reyndist þó allt annar, segir Bell. Í landinu eru engin sjálfstæð kvikmyndahús til lengur, þess í stað eru þau öll í eigu örfárra dreif- ingaraðila sem hafa engan áhuga á öðru en miðju- moði frá Hollywood. „Áhorfendur kynnu að bregð- ast vel við meiri fjölbreytni en fá sjaldan tækifæri til þess,“ segir hann. Bell staðsetur Alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Reykjavík innan þessa umhverfis og hefur eftir framkvæmdastjóra hátíðarinnar, Hrönn Mar- inósdóttur, og dagskrárstjóranum Dimitri Eipides að ætlunin með hátíðinni sé einmitt öðrum þræði sú að reyna að skapa „kvikmyndamenningu“ á Íslandi. Bell verður þó starsýnt á það að Alþjóðleg kvik- myndahátíð í Reykjavík hóf göngu sína þetta árið rúmri viku eftir að annarri kvikmyndahátíð lauk, Iceland International Film Festival, sem hann lýsir sem „letilegu samansafni og úthreinsun“ á þeim kvikmyndum sem dreifingaraðilum hefur áskotn- ast yfir árið, og harmar í því sambandi að nálægð þessara tveggja kvikmyndahátíða kunni að hafa or- sakað ákveðna þreytu hjá áhorfendum sem honum fannst hafa birst í tregri aðsókn á fyrstu myndir síðari hátíðarinnar. Það er vitanlega gleðiefni fyrir Alþjóðlegu kvik- myndahátíðina og Árna Ólaf að fá jafnjákvæða um- fjöllun í einu virtasta kvikmyndatímariti heims, en því verður ekki á móti mælt að gests augað er glöggt. Greining Bell á íslensku kvikmyndalands- lagi, þar sem tveir dreifingaraðilar ráða lögum og lofum á markaðnum og sjá síðan ofsjónum yfir framtaki á borð við Alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Reykjavík og spilla markvisst fyrir henni með því að skipuleggja eigin hátíð rétt á undan henni, sýnir fram á ástand sem vitanlega er ekki boðlegt. Það kann hins vegar að vera að sum okkar séu hrein- lega orðin of vön þessu umhverfi til að gera okkur grein fyrir hversu óviðunandi og óvenjulegt það er, en aumleiki þess blasir að sjálfsögðu við erlendum gestum sem vita hvað kvikmyndamenning er. Glöggt er gests augað SJÓNARHORN » Í landinu eru engin sjálfstæð kvikmyndahús til lengur, þess í stað eru þau öll í eigu örfárra dreifingaraðila sem hafa engan áhuga á öðru en miðjumoði frá Hollywood. „Áhorfendur kynnu að bregðast vel við meiri fjölbreytni en fá sjaldan tækifæri til þess,“ segir Bell. Eftir Björn Norðfjörð bn@hi.is F ær Scorsese óskar, eða fær Scorsese ekki óskar? Það er spurningin. Ég ætla þó ekki að gerast hér spámað- ur og segja til um hvernig fer í lok febrúar þegar tilkynnt verður um þá útvöldu. Reyndar hef ég ekki séð ennþá ýkja mikið af myndunum sem hlutu náð fyrir augum akademíunnar í ár, en það hræðir mig svo sem ekki frá spádómum enda hafa gæði mynd- anna aldrei skipt miklu máli þegar kemur að þessu vali. Þótt auðvitað sé mat sem þetta huglægt hugsa ég að flestir geti verið sammála um að bestu mynd- irnar standi sjaldnast uppi sem sigurvegarar – bestu myndir ársins eru reyndar sjaldnast til- nefndar. How Green was My Walley var tekin fram yfir Citizen Kane, Rocky fram yfir Taxi Driver, og Forrest Gump fram yfir Pulp Fiction – meist- araverk Hitchcocks Vertigo og Psycho voru aldrei tilnefnd. Aftur á móti sýnist mér óvenjuerfitt að spá í spilin í ár og tilnefningarnar um margt áhugaverð- ar. Scorsese vs. Eastwood Það er aðvitað firra hjá fjölmiðlum að halda því fram að Dreamgirls hafi verið hlutskörpust þótt hún hafi hlotið flestar tilnefningar, þar sem hún var ekki tilnefnd fyrir bestu mynd, leikstjórn, aðal- hlutverk karls eða konu – fjögur mikilvægustu verðlaunin. Babel verður að teljast hlutskörpust (þótt að reyndar hvorki Brad Pitt né Cate Blanc- hett hafi verið tilnefnd) með sjö tilnefningar og gæti unnið „sannfærandi sigur“, svo maður beiti fyrir sig íþróttamáli, með því að vinna fjölda verð- launa samfara því að vera valin besta mynd. Sigur Crash í fyrra var t.a.m. með eindæmum „ósannfær- andi“ (en ásamt því að vera valin besta mynd fékk hún einungis óskara fyrir bestu klippingu og besta frumsamda handrit). Vissulega gæti Queen stolið senunni þar sem hún hlaut sex tilnefningar (og Hel- en Mirren næsta örugg um óskar fyrir bestan leik) en í hringnum eru líka tveir þungavigtarmenn þótt myndir þeirra séu tilnefndar til færri verðlauna. Ef svo færi að þeir bæru sigur úr býtum um bestu mynd og/eða leikstjórn munu verðlaunin líklega dreifast víða. Mynd Clint Eastwood Letters from Iwo Jima er tilnefnd sem besta mynd og hann fyrir leikstjórn en aðeins tvennra annarra verðlauna, besta frum- samda handrit og hljóðblöndun. Þá fékk Flags of Our Fathers tvær tilnefningar fyrir hljóðvinnslu. Mynd Martin Scorsese The Departed var sömu- leiðis tilnefnd fyrir bestu mynd og leikstjórn, auk verðlauna fyrir klippingu, aukahlutverk karlleikara og handrit gert eftir áður birtu efni. Fyrir tveimur árum var uppi samskonar staða er Eastwood var tekinn fram yfir Scorsese sem besti leikstjóri og mynd hans Million Dollar Baby var valin besta myndin á kostnað mynd Scorsese The Aviator (sem þó vann fimm verðlaun eða einu fleira en Million Dollar Baby). Höfðu margir spáð því að verðlaunin myndu skiptast bróðurlega á milli þeirra – annar fengi óskar fyrir bestu mynd en hinn leikstjórn – þótt annað hafi komið á daginn. Erfitt er að segja til um hvaða áhrif þetta muni hafa á valið í ár. Mun samúðin falla með Scorsese (hversu oft þarf hann að sjá á eftir óskarnum) og hann vinna í þetta skipt- ið þótt The Aviator hafi verið „óskarslegri“ mynd en The Departed – og reyndar miklu betri mynd en Million Dollar Baby. Eða mun akademían forðast að gera upp á milli þeirra og velja aðra mynd. Eitt er víst: Little Miss Sunshine verður ekki valin besta myndin. Hún er hér fulltrúi „sjálfstæðu“ myndanna (þótt henni sé dreift af risanum Fox á heimsvísu) sem fá að fljóta með til skreytingar – þó helst ekki fleiri en ein: Capote í fyrra, Sideways í hittiðfyrra og Lost in Translation þar áður. Þær vinna aftur á móti oft verðlaun fyrir besta handrit (sbr. síðarnefndu myndirnar tvær) – hafið það í huga. Viva México! Auk einvígis þeirra Eastwood og Scorsese er það hlutur grannans í suðri sem vekur kannski hvað mesta athygli, en Mexíkóar eru ansi fyrirferð- armiklir þetta árið. Alejandro González Iñárritu er leikstjóri Babel sem líkt og áður segir var hlut- skörpust í tilnefningunum þetta árið, en mynd hans Amores perros var tilnefnd sem besta erlenda myndin árið 2001. Þá er ekki síður markverður hlutur leikstjórans Guillermo del Toro í ljósi þess að mynd hans El Laberinto del Fauno er fyrsta myndin sem hann gerir í Mexíkó eftir þónokkur ár í Hollywood. Auk þess að vera tilnefnd besta erlenda myndin, þar sem hún verður að teljast nokkuð sig- urstrangleg, fær hún alls fimm aðrar tilnefningar. Loks fær Alfonso Cuarón tvær tilnefningar fyrir klippingu og handrit fyrir mynd sín Children of Men, en þekktasta mexíkóska myndin hans er Y tu mamá también. Líkt og alþjóð veit er tilgangur óskarsverð- launanna umfram annað að selja kvikmyndir. Í fyrsta lagi selja þau hugmyndina um rauða dreg- ilinn – draumaborgina uppfulla af glamúr, ríkidæmi og stjörnum. Allir í Hollywood græða á henni. Í annan stað selja verðlaunin þær myndir sem fá náð fyrir augum akademíunnar enda leggja markaðs- haukar Hollywood-risanna á sig sífellt meiri vinnu og sífellt meira fjármagn til að tryggja myndum til- nefningar og helst verðlaun. Fjölmiðlarnir dansa svo með og kynna myndirnar með óbeinum auglýs- ingum í greinum sem þessari. Eigum við nokkuð að vera að draga úr: Af ofangreindum myndum er ver- ið að sýna í kvikmyndahúsum hérlendis Babel, The Departed, Little Miss Sunshine, Children of Men, og Flags of Our Fathers. Ekki missa af þeim! Skari, skari, herm þú mér! Í vikunni var tilkynnt um tilnefningar til ósk- arsverðlaunanna amerísku, en sjálf verðlaunaaf- hendingin mun fara fram 25. febrúar. Hér er gluggað aðeins í listann sem er áhugaverðari en mörg undanfarin ár. Babel Hún hlaut næstflestar tilnefningar til Óskarsverðlauna, alls sjö, og gæti unnið „sannfærandi sigur“með því að vinna fjölda verðlauna samfara því að vera valin besta mynd.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.