Lesbók Morgunblaðsins - 17.02.2007, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 17.02.2007, Blaðsíða 3
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 17. FEBRÚAR 2007 3 lesbók Í viðtali sem birtist í leikskrá sýningar Leikfélags Reykjavíkur á Degi von- ar nú kemur fram að þegar ég hef verið spurður um hvort leikritið byggist á fjölskyldu minni hafi ég iðulega svarað: „Já og nei og já og þó aðallega nei. Þetta þýðir að leikritið er fyrst og fremst skáldskapur.“ Í viðtalinu segi ég ennfremur: „Systir mín átti margt sameiginlegt með Öldu í Degi von- ar en þær eru líka ólíkar. Þar skilur á milli skáldskapar og svokallaðs veruleika. Það sama gildir um aðrar persónur í leikritinu sem eiga sér fyrirmyndir.“ Það er trú mín að þeir sem fjalla af heil- indum um skyldleika persónanna í Degi vonar við raunverulegar persónur hljóti að taka mið af þessum orðum mínum. Þau eiga í eðli sínu ekki aðeins við um Dag vonar. Þau eru sá grunnur sem menn verða alltaf að standa á þegar þeir fjalla um skáldverk er byggjast á reynslu höfundar. Svo fremi sem þeir vilja að umfjöllunin verði vönduð og heiðarleg. Því miður er því ekki að heilsa í þessari umfjöllun Einars Kárasonar. Enda gengur honum ann- að til. Framarlega í grein Einars stendur þetta: „Geðfötluðu systurinni er leikritið tileinkað og textarnir sem Alda er látin fara með á sviðinu munu vera eftir þessa systur Birgis; Sigríði Freyju Sigurðardóttur.“ – Þetta er rangt. Að- eins eitt af þeim ljóðum og sögum sem eru lögð í munn Öldu eru eftir systur mína, þ.e. „Hún var nú stödd hjá tré sem var fegurst allra trjáa…“ Þessi litla saga er kyrfilega merkt henni bæði í prentaðri útgáfu leikrits- ins og í leikskrá. Allt hitt sem Alda segir er minn eigin skáldskapur. Að öðrum kosti hefði ég merkt systur minni það. Annað væri rit- stuldur. Eftir þessa hrakfallalegu byrjun á úttekt sinni á því hvernig systir mín samsvari Öldu í leikritinu heldur Einar áfram og segir: „Og að sama skapi eiga bræðurnir í verkinu hlið- stæður í Birgi sjálfum og bróður hans Ingi- mari Erlendi Sigurðssyni rithöfundi.“ Þessu fylgir síðan langloka um aðalpersónuna í skáldsögunni Borgarlífi eftir Ingimar sem kom út fyrir rúmum fjörutíu árum. Tengir Einar þessa umfjöllun sína um Borgarlíf við Dag vonar meðal annars með eftirfarandi hætti: „Ég hef stundum heyrt fólk undrast yf- ir þeirri kaldhæðnu eða grimmu mynd sem Birgir Sigurðsson dregur upp af bróðurnum í Degi vonar, en þar er honum nánast lýst sem útbelgdum aumingja; sjálfsupptekinni og hrokafullri smásál. En það merkilega er að sú mynd rímar alveg við persónuna Loga í Borg- arlífi“. – Og þar sem Logi er sama sem Ingi- mar að mati Einars Kárasonar er þessari klausu ætlað að koma því til skila að Birgir Sigurðsson ráðist í leikritinu að bróður sínum með téðri kaldhæðni eða grimmd. „Sjálfselskur aumingi“ Þessi illyrmislega mynd af Herði í Degi vonar er ekki mín; hún er Einars Kárasonar. Eng- inn maður með óbrenglaða dómgreind og óspilltan mannskilning getur ályktað sem svo að höfundur leikritsins lýsi Herði sem „út- belgdum aumingja; sjálfsupptekinni og hroka- fullri smásál,“ vesalingi eins og Einar kallar hann síðar í greininni. Leikstjórar og leikarar sýningarinnar, bæði nú og fyrir tuttugu árum, skildu það hinsvegar strax á fyrsta samlestri að ástand og framkoma Harðar í leikritinu ræðst af því að móðir hans elskar hann lítt eða ekki og mismunar bræðrunum. Það veldur honum djúpstæðum sársauka sem leitar út- rásar í heift og árásargirni. Þar á ofan er hann haldinn nagandi efa um sjálfan sig eins og einn gagnrýnandi leikritsins orðaði það. Sá sem lék Hörð fyrir tuttugu árum og sá sem leikur hann nú byggja báðir túlkun sína á þessum grunni. En það eru fleiri sem höfundur Dags vonar lýsir sem aumingjum að mati Einars Kárason- ar. Hann segir: „Faðir þeirra heitinn er af- hjúpaður í verkinu; reynist hafa verið sjálfs- elskur aumingi.“ – Ekkert í leikritinu gefur tilefni til þessara orða. Sumir listamenn eru svo alteknir af list sinni að ekkert annað kemst að. Bitnar það iðulega á ástvinum þeirra og veldur á stundum miklum sársauka. Móðirin í leikritinu segir að faðir barnanna hafi svikið bæði hana og þau og ekki skeytt um neitt nema að mála myndir. Er hann þar með „sjálfselskur aumingi?“ Engan veginn. Og margt af því sem Alda dóttir hans hefur eftir honum bendir til fallegrar og merki- legrar hugsunar. Silja Aðalsteinsdóttir fjallar um sýninguna á Degi vonar nú á vefsíðu Tímarits máls og menningar. Þar segir að list- ræn taug systkinanna sé komin frá föðurnum, „listmálaranum, sem aldrei sést í verkinu en verður samt einhver mest spennandi persóna þess. Hann eyðilagði verkin sín áður en hann dó – /…/ En þarf það að þýða að þau hafi verið einskis virði? Ótal dæmi eru um að listamenn hafi fyrst verið metnir löngu eftir þeirra dag.“ Svo mælir Silja. Og eru nú orðin vandfundin rök fyrir þeirri fullyrðingu Einars að höf- undur leikritsins afhjúpi þessa persónu sem sjálfselskan aumingja. Enda er þessa hug- mynd um föðurinn í leikritinu hvergi nokkurs staðar að finna nema í heilabúinu á grein- arhöfundi. En í þessu sama heilabúi er að finna fleiri meint viðhorf Birgis Sigurðssonar til persónanna í Degi vonar ásamt þeim að hann lýsi Herði sem útbelgdum aumingja og föðurnum sem sjálfselskum aumingja. Þeirra á meðal er rúsínan í þessum ófélega pylsu- enda Einars Kárasonar. Meira um það hér á eftir. Mest af þessari makalausu grein Einars Kárasonar fjallar um sögupersónuna Loga í Borgarlífi Ingimars Erlendar. Einar sparar ekkert til að geta sett samasemmerki milli Loga og höfundarins: Logi er Ingimar, Ingi- mar er Logi. Og fer þá heldur að harðna á dalnum fyrir höfund sögunnar ef rétt reynist, því samkvæmt Einari er Logi/Ingimar ekkert nema sjálfsupphafningin og skáldsagan Borg- arlíf hefur ekkert gildi nema sem einskonar stúdía í „sjálfsupphafningu“. Til þess að fylla upp í þessa ætluðu sjálfsupphafningu höfund- arins týnir greinarhöfundur ýmislegt til úr sögunni, þar á meðal að Logi – sem er vel að merkja sjálfslýsing höfundarins samkvæmt Einari Kárasyni – sé ekki aðeins upphafið mikilmenni heldur líka svo mikill kvennaljómi að allar konur liggi marflatar fyrir honum. Ég ber auðvitað ekki nokkra ábyrgð á Borgarlífi eftir Ingimar Erlend. Ábyrgð mín snýr að Degi vonar. Hinsvegar vakti það í fyrstu undrun mína hversu langt Einar Kára- son seilist í því að koma til skila ætlaðri sjálfs- upphafningu höfundar Borgarlífs í lýsingu hans á Loga. En þegar leið að lokum grein- arinnar varð mér ljóst hvert höfundur hennar stefndi. Og er þá komið að rúsínunni í pylsu- endanum ófélega. Rúsínan er þessi: Birgir Sigurðsson er líka haldinn sjálfsupphafningu. Hún kemur fram í Reyni í Degi vonar. Einar segir: „Í leikritinu má líka finna sjálfsmynd höfundarins; bróðir Harðar/Loga heitir þar Reynir og samsvarar augljóslega Birgi sjálf- um. Og þótt ekki sé hægt að segja að mynd Reynis sé dregin í helgimyndalitum þá er per- sónan samt sérkennilega gallalaus miðað við fólkið allt um kring.“ Semsagt: Reynir er ekki aðeins sjálfsmynd höfundarins; hann er líka sjálfsupphafning hans. Eftir þessa yfirlýsingu koma snaggaralegar lýsingar á hinum gölluðu persónum „allt í kring“. Þar segir meðal ann- ars að höfundur lýsi Herði sem vesaling, föð- urnum sem aumingja og móðir þeirra sé „eins og á barmi taugaáfalls mestallt verkið“. Einber heilaspuni Eftir þessa grunnhyggnu og óheiðarlegu af- greiðslu snýr greinarhöfundur sér að Reyni og bregður nú fyrir sig háðstóni enda er nú komið að sjálfsupphafningu leikskáldsins: „En hinsvegar er Reynir sönn ímynd karlmennsk- unnar. Hinn trausti og réttsýni drengur sem reynist jafnan best á raunastundum. Það stendur yfir verkfall á meðan leikritið gerist og alltaf er hann mættur á verkfallsvaktina. Hann skilur hámenningu þegar hún er borin fyrir hann; timbraður og tættur eftir ball í Vetrargarðinum fer hann að hlusta á há- kirkjulega tónlist eftir Palestrína. Og það er hann sem reynist vera dugandi skáldið í fjöl- skyldunni.“ Í rauninni segir tónninn í þessari klausu allt sem segja þarf un hana. Ég ætla þó að sýna Einari þá kurteisi að benda honum á augljósar veilur í ætlaðri sjálfsupphafningu minni: Í leikritinu er Reynir hvorki traustur né rétt- sýnn, þótt móðir hans álíti það. Hann er í meira lagi meinlegur, lýgur að móður sinni, skemmtir sér við að blekkja hana, ræðst með heift og kulda að henni í lokauppgjöri verks- ins, hatar og lítilsvirðir bróður sinn, kjamsar á hefndarstundinni. Þetta og margt annað sýnir tvímælalaust að hann er ekki „sérkennilega gallalaus“. Það er einber heilaspuni Einars Kárasonar. Reynir hefur hinsvegar ýmsa kosti þótt gallaður sé. Er vonandi að slíkt sé enn leyfilegt í persónusköpun án þess að höf- undur sé vændur um sjálfsupphafningu. Enda hefur undirritaður aldrei verið vændur um slíkt í sambandi við þennan unga mann í leik- ritinu fyrr en Einar Kárason gerir það nú í þessari frumstæðu umfjöllun þar sem sama- semmerki er sett milli skáldaðrar persónu og höfundar án frekari umsvifa. Leikritið gerist að nokkru á tímum verk- fallsins mikla árið 1955. Þá voru menn stétt- vísir. Reynir er því ekki „hinn trausti og rétt- sýni drengur“ vegna þess að hann stóð verkfallsvakt. Það gerði flest róttækt fólk. Ég get einnig upplýst að á þessum tímum og enn í dag hlustar alþýðufólk á klassíska tónlist. Dæmi Reynis í því efni er ekki sérstakt. Og fullyrðing Einars um að Reynir sé samkvæmt leikritinu „dugandi skáldið í fjölskyldunni“ (en Hörður ekki) fellur um sjálfa sig því hin gáf- aða og velmenntaða velgjörðarkona fjölskyld- unnar, Guðný, segir um Hörð: „Hans leið ligg- ur ekki gegnum vetrargarðana, skítinn og kjaftshöggin. Hann er ekki verri fyrir það. Og það er skáld í honum. Kannski meira að segja gott skáld.“ Og fer nú aðdróttun Einars um sjálfsupphafningu leikskáldsins gegnum Reyni að riða til falls. En hann lumar þó á einu „trompi“ sem hann slær fram í lok grein- arinnar: „En það var þetta með kvenfólkið sem Logi óð í hné sem leiddi aftur hugann að Degi vonar,“ segir hann og sekkur enn dýpra í lágkúruna. Því nú er ætlunin að sýna fram á að höfundur leikritsins sé að upphefja Reyni – og þar með sjálfan sig – með því að eigna Reyni kvenhylli. Greinarhöfundur upplýsir að Reynir skreppi um hverja helgi í Vetrargarð- inn og nái sér þar „í dömu til að riðlast á um nóttina. Það virðist ekki vera neinum vand- kvæðum bundið fyrir mann eins og hann,“ segir Einar. Veilan í þessum málflutningi er sú að í leikritinu er ekki vikið að því einu ein- asta orði né heldur gefið í skyn að þetta sé Reyni auðvelt. Við blasir að þetta er ekki ann- að en enn eitt dæmið um óheiðarleikann í þessari umfjöllun. „Undarlegt …“ Í lok greinarinnar vitnar Einar Kárason í svar Reynis þegar hann er spurður hvernig honum líði eftir slíka nótt skyndikynna. Svarið er: „Dauður, skítugur tómur./…/Það tekur mig viku að jafna mig. Og þá er kominn tími til að fara aftur í Vetrargarðinn og ná sér í aðra.“ – „Undarlegt …“ segir greinarhöfundur um þetta svar sem er þó ekki annað en nákvæm, kersknifull lýsing á því hvernig fólki á öllum tímum iðulega líður eftir slíka nótt fyllirís og skyndikynna en leitar þeirra þó samt aftur og aftur. Grunnfær mannskilningur Einars spannar þetta hinsvegar ekki fremur en margt annað í leikritinu; „Undarlegt …“ segir hann. En það eina undarlega er að þessi góð- kunningi minn, Einar Kárason, skuli hafa lagst svo lágt að skrifa þessa óvönduðu og óheiðarlegu grein. Það veldur mér í senn undrun og vonbrigðum. Einar Kárason gerist undarlegur Morgunblaðið/Golli Einar Kárason skrifar grein í Lesbók Morg- unblaðsins 10. 2. síðastliðinn sem nefnist „Að lýsa sjálfum sér“. Í inngangsorðum að grein- inni segir að sagan sem sögð er í leikriti mínu, Degi vonar, byggist á fjölskyldu minni. Þar segir ennfremur „að bræðurnir í leikrit- inu eigi hliðstæður í Birgi og bróður hans, Ingimari Erlendi Sigurðssyni rithöfundi, en hann sendi frá sér skáldsögu á sjöunda ára- tugnum, Borgarlíf, þar sem bræðurnir koma einnig við sögu. Hér eru ætlaðar sjálfsmyndir þeirra skoðaðar.“ Skáldið segir Og fer nú aðdróttun Einars um sjálfsupphafningu leikskáldsins gegnum Reyni að riða til falls. En hann lumar þó á einu „trompi“ sem hann slær fram í lok greinarinnar.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.