Lesbók Morgunblaðsins - 17.02.2007, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 17.02.2007, Blaðsíða 16
16 LAUGARDAGUR 17. FEBRÚAR 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók LIST í almenningsrými eða opinberu rými, hefur tekið róttækum breytingum síðastliðna áratugi og orðið miklar breytingar á henni á al- þjóðavettvangi. Í Bandaríkjunum var það „eitt prósent vegna listarinnar“ reglugerðin sem sett var á laggirnar á áttunda og níunda ára- tugnum sem hafði gríðarleg áhrif og eins og Tom Finkelpearl segir í bók sinni „Dialogues in public art“, átti hreinlega þátt í sköpun nýrr- ar listgreinar, eða geira innan myndlist- arinnar. Hér á landi er það Listskreyt- ingasjóður sem fylgir eftir reglugerð um fjárveitingu til listþáttar opinberra bygginga. Listskreytingasjóður var settur á laggirnar ár- ið 1982 í framhaldi af stjórnarfrumvarpi sem þáverandi menntamálaráðherra, Ingvar Gísla- son, setti fram. Í reglum sjóðsins segir að verja skuli einu prósenti af heildarkostnaði opinberr- ar nýbyggingar til listskreytingar hennar og umhverfis. Ekki þekki ég þær reglugerðir sem liggja til grundvallar listskreytingum í op- inberu rými í Vestur-Evrópu en í Hollandi t.d. er greinin í miklum blóma og samstarf lista- manna, arkitekta og borgarskipuleggjanda viðtekið vinnulag. Frá abstrakt skúlptúr til gróðursetningar Frá því að einkennast af módernískum skúlp- túrum, sem lítið sem ekki tengjast umhverfi sínu, hefur list í opinberu rými í æ ríkara mæli tekið mið af umhverfi sínu. Í grófum dráttum má skipta þessum geira í nokkrar mismunandi nálgunarleiðir. Listaverkin eru staðsett ann- aðhvort í samhengi við einkabyggingu sem þjónar almenningi á einhvern hátt eins og bankar t.d. gera eða í samhengi við opinbera byggingu á borð við sjúkrahús og skóla. Einnig innan borgarskipulags eða skipulagshluta, skipulags hverfis eða jafnvel einnar götu eða torgs. Erlendis hefur það færst í aukana að listamenn taki þátt í borgarskipulagi eða þeir eru með í hönnun byggingar allt frá upphafi hönnunarferils. Oftar er þó raunin sú að lista- maðurinn kemur inn síðastur þegar hinir eru svo til búnir. Hann lendir þá kannski í að eiga að bjarga ómanneskjulegu umhverfi fyrir horn eða fær einum vegg úthlutað til skreytinga sem oft á tíðum geta litlu bætt við og verða eins og krem á köku sem hefði verið betri án þess. Þró- unin virðist þó vera sú að listamenn koma í auknum mæli fyrr inn í verkefni. Form lista- verkanna er afar mismunandi, sum feta hefð- bundnar slóðir eins og til dæmis skúlptúrar á miðju torgi sem lítið tengjast umhverfinu, en heldur nýstárlegri er svokölluð nytsamleg list sem einnig hefur verið vinsæl. Þá tekur lista- maðurinn þátt í hönnun t.d. bekkja eða gróð- ursetningar, lagningu göngustíga og lýsingu þannig að mörk listarinnar og hönnunarinnar verða óljós. Sumir listamenn kjósa síðan að finna verkum sínum stað innan hins opinbera rýmis sem ekki tengist arkitektúrnum í efn- islegu formi, þeir leitast þá við að skapa ein- hvers konar umræður eða samræður t.d. með því að hengja plaköt á strætisvagnastöðvar eða finna list sinni annan tímabundinn farveg, framkvæma skoðanakannanir eða nálgast staðinn, umhverfið og íbúana líkt og fé- lagsfræðingar, þó ávallt með listrænu leið- arljósi. List, fræðsla, hönnun eða góðgerðarstarfsemi? Þessi listgeiri hefur á undanförnum árum verið í stöðugri þróun og hefur verið kallaður hin nýja opinbera list, (new genre public art –Suz- anne Lacy) eða list sem einkennist af „connec- tive aesthetics“ (Suzy Gablik), list sem oft er í nytsamlegum tengslum við umhverfi sitt. Eins og segir í grein eftir Nina Möntmann um fyr- irbærið í listtímaritinu Frieze er hér um að ræða list sem lætur sér ekki nægja að eiga sér stað í opinberu rými heldur leitast við að verða virkur hluti af þessu rými. Hér getur verið erf- itt að finna réttu leiðina og listin getur átt það á hættu að fá á sig fræðslublæ eða vera þvingað upp á fólk. Dæmi um slíka nálgun gæti verið verkefnið Flood frá 1993 þegar HaHa- hópurinn í Chicago setti upp verkefni þar sem unnið var með eyðnismituðum að gróðursetn- ingu jurta sem hugsanlega geta nýst við gerð eyðnilyfja, en minna var velt fyrir sér hvort eyðnismitaðir hefðu áhuga á gróðursetningu. Listræn verkefni af þessum toga taka líka ósjaldan á sig form einhvers konar fé- lagsmiðstöðvar eða samfélagsþjónustu sem listamenn sjá um, oftast tímabundið, þar sem kannski fátækir eða götubörn eða aðrir sem minna mega sín geta komið saman,og haft t.d. aðgang að tölvum, oft er unnið að einhvers kon- ar sköpun eða fegrun umhverfis, dæmi um þetta er Oda Projesi-verkefnið í Istanbúl. Það er sérstaklega mikilvægt þegar um er að ræða verkefni af þessum toga að leitast sé við að yf- irstíga það umhverfi sem verkefnið er staðsett í og hugsanlega bjóða upp á eða skapa valkosti sem hafa eitthvað fram yfir það sem raunin er, valkosti sem hafa listræn gildi að leiðarljósi. Allir hafa skoðun á skúlptúrnum á torginu Vinnubrögð af þessum toga eru stutt komin hér á landi, en að mínu mati er hér um afar spennandi möguleika að ræða fyrir listamenn, sem við þessar aðstæður eru að vinna í raun- verulegu umhverfi, ekki vernduðu umhverfi gallería, safna eða innan sýningarramma á borð við Listahátíð. Straumar og stefnur und- anfarinna ára hafa miðast nokkuð við að lista- menn leita eftir að ná tengslum við áhorfendur í list sinni og í þessum geira eru tengslin óhjá- kvæmileg og viðbrögð áhorfenda hluti af verk- inu. Að mörgu þarf að huga þegar listin er áþreifanlega hluti af daglegu lífi á þennan máta, t.d. að mögulegum skemmdarverkum og eins er almenningur sem betur fer ófeiminn við að tjá skoðanir sínar þegar listin er komin á torg, þó að rödd hans heyrist síður þegar kem- ur að list innan listasafna og gallería. Oft hafa risið heitar deilur í kringum verk í opinberu rými. Í Bandaríkjunum urðu mikil málaferli vegna skúlptúrs Richard Serra, Til- ted arc, risavaxins skúlptúrs sem að lokum var fjarlægður vegna þess að hann þótti ógnandi við umhverfið. Skúlptúrar eftir John Ahearn, sem staðsettir voru í Suður-Bronx, voru fjar- lægðir að ósk listamannsins vegna þess að al- menningi þótti skilaboð þeirra röng. Hér var um að ræða fígúratíva skúlptúra sem fólki þótti upphefja ímynd glæpamanna þeirra sem sverta ímynd hverfisins. Minnismerki Maya Lin um hermenn sem börðust í Víetnamstríð- inu, sem staðsett er í Washington og er vinsæll ferðamannastaður í dag, var aðeins samþykkt með því skilyrði að einnig yrði komið fyrir fí- gúratífum skúlptúr á svæðinu. Hér á landi hef- ur einnig verið deilt um listaverk í opinberu rými, ekki er langt síðan skúlptúr eftir Bryn- hildi Þorgeirsdóttur olli nokkrum umræðum. Einnig undrast fólk samþykki borgaryfirvalda á listaverki Yoko Ono í Viðey, þar sem þegar er að finna súlur eftir Richard Serra og skála Ólafs Elíassonar. Það má spyrja sig að því hvernig listamenn sem áhuga hafa á að vinna list sína í þessu op- inbera samhengi, sem hér hefur verið fjallað um, fari að því hér á landi. Nú höfum við auð- vitað listskreytingasjóð en smæðar samfélags- ins vegna eru samkeppnir um listskreytingar ekki margar. Landsvirkjun, sjúkrahús, skólar, flestar þessara bygginga eru skreyttar á nokk- uð hefðbundinn máta en ekki margar bygg- ingar eru reistar árlega. Samvinna listamanna og arkitekta fer þó vaxandi. Þannig hefur Kristinn E. Hrafnsson myndlistarmaður unnið náið með arkitektum að skipulagi, m.a. með Stúdíó Granda að skipulagi bílastæðasvæðis við Kringluna. Teiknistofan Tröð, sem hannar fyrirhugaðan duftkirkjugarð í Öskuhlíð, vann tillögu sína í samvinnu við Sigurð Guðmunds- son myndlistarmann, sannarlega áhugavert og lofsvert framtak. Auðvitað eru mörg fleiri dæmi um slíkt samstarf hér á landi og fer ef- laust fjölgandi. Listin sem áttaviti Sýning Kristins E. Harðarsonar í Gallerí i8 ber þess óhjákvæmilega merki að áfangastaður verkanna sem sýnd eru er annar. Þessi verk eru ekki unnin fyrir sýningarsali Gallerísins heldur er vonin sú að þeim megi síðar finna stað sem þau tengjast og gefa aukið líf. Það er ekki þar með sagt að þau geri sig ekki í rýminu, þvert á móti njóta þau sín vel og skilaboð þeirra komast allt eins á flug við þessar kring- umstæður. Kristinn sýnir tvo gólfskúlptúra sem ef til vill gætu allt eins verið á vegg, til- skornar járnplötur. Önnur er eins og áttaviti nema hér heita allar áttir Norður. Platan er einfalt verk á yfirborðinu, áhorfandinn getur staðsett sig í opi í miðju hennar og upplifað það að hvert sem litið er er horft í Norður. Hér koma vel fram hæfileikar listamannsins til að tengja verk sín umhverfi sínu á opinn og ljóð- rænan hátt og vekja áhorfandann um leið til umhugsunar, sama hver bakgrunnur eða aldur hans er. Við erum börn Norðursins, ef til vill er engin undankomuleið frá því, sama hversu mjög við viljum vera evrópsk. Það er kannski ekki spurning hvort við erum Íslendingar eða ekki, verkið leitast við að fá okkur til að hugsa okkur í stærra samhengi, Norðrinu. Og kannski virðist suma daga eins og allar áttir vísi í norður, í átt kulda og myrkurs? Á veggj- unum umhverfis verkið heldur Kristinn áfram leik sínum með áttirnar og áttavitann, þar sem skammstafanir áttanna mynda orð eða orð- leysur, hér túlkar áhorfandinn samsetning- arnar á sinn hátt, til dæmis má lesa vísi að orð- inu Anna, sem aftur gefur verkinu persónulegan og ljóðrænan tón þar, áttaviti einkaheimsins hefur marga viðmiðunarpunkta. Kristinn leitar í ljóð Sigurðar Pálssonar í öðru gólfverki, járnplötu sem virðist skorin úr hinni plötunni. Hér er skorin út setningin Það er óhjákvæmilegt að sigla, úr nýútkominni ljóðabók Sigurðar, Ljóðorkusvið, auk línuspils sem minnir á stílfærðar öldur. Vitnað er í ljóðið Ódysseifur Elytis, þar sem segir að ekki sé óhjákvæmilegt að lifa, en óhjákvæmilegt að sigla. Ljóð Sigurðar og verk Kristins eiga einkar vel saman í opinni, margræðri, heim- spekilegri og ljóðrænni afstöðu sinni sem er aðgengileg mörgum en ekki ætluð aðeins fáum. Ekki er óalgengt að listamenn sem vinna verk sín í opinbert rými kjósi að koma þar fyrir setningum úr ljóðum eða skáldskap og það er ánægjulegt að sjá ljóð samtímaskálda lifa framhaldslífi í myndlistinni. Setninguna má meðal annars túlka sem óð til innra lífs, sköp- unar, ævintýraþrár og almennt til þess að lifa lífinu lifandi og í samhengi við umhverfið, en sá sem siglir er borinn af öldum hafsins. Sýning Kristins gefur ágæta innsýn í verk- lag listamannsins og býður áhorfendum upp á hugrænt ferli í lausagír, forvitnilegt er að vita hvert framhaldslíf þessara listaverka verður í íslensku myndlistarumhverfi. Listin sem áttaviti Gagnrýnandinn „Sýning Kristins gefur ágæta innsýn í verklag listamannsins og býður áhorfendum upp á hugrænt ferli í lausagír, forvitnilegt er að vita hvert framhaldslíf þessara listaverka verður í íslensku myndlistarumhverfi,“ segir Ragna Sigurðardóttir í umsögn sinni um sýningu Kristins Harðarsonar í i8 á Klapparstígnum. Sýningunni lýkur næstu helgi. MYNDLIST Gallerí i8 Til 24. febrúar. Opið 11–17 þri. til fös. 13–17 lau. Aðgangur ókeypis. Kristinn E. Hrafnsson Ragna Sigurðardóttir

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.