Lesbók Morgunblaðsins - 24.02.2007, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 24.02.2007, Blaðsíða 10
10 LAUGARDAGUR 24. FEBRÚAR 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Norrænar bókmenntir í deiglu Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs verða afhent 5. mars næstkomandi. Í Lesbók hefur verið fjallað um bækurnar tvær sem tilnefndar eru af Íslendingum, Rokland eftir Hallgrím Helgason og Sumarljós og svo kem- ur nóttin eftir Jón Kalman Stefánsson, en í dag og næsta laugardag verður fjallað um bækurnar sem hinar Norðurlandaþjóðirnar leggja fram. Af umfjölluninni má ráða að norrænar bókmenntir eru í deiglu. Eftir Eirík Örn Norðdahl kolbrunarskald@hotmail.com Söngvar hafsins sokknu borga (Lauluja me- reen uponneista kaupungeista á finnsku) er fjórða ljóðabók finnska skáldsins Marko Paasonen (f. 1967), og hans önnur prósaljóð- abók, en fyrri prósaljóðabókin, Sig- urmarsinn, hlaut finnsku bókmenntaverð- launin árið 2002. Söngvar hafsins sokknu borga skiptist í fimm mislanga hluta sem nefnast „Söngvar hafsins sokknu borga“ (16 síður); „Söngvar frá ströndum vatna“ (tvær síður); „Boujaaf- ar Beach (triptyk)“ (þrjár síður); „Holdið og hið forboðna (tvö samtöl)“ (þrjár síður); og „Landslag endalokanna “ (11 síður). Eins og titillinn gefur til kynna sækir bókin efnivið sinn í undirdjúpin, borgir sökkva og stíga aftur upp úr djúpunum, lesandanum er gert að steypa sér niður í og undir götur borga um skolpræsi og á himnum finnast óend- anleg sjálfsfróandi klóakrör – hafið er hold sem þrútnar milli stranda, og ljóðmælandi fer fram á að lesandi saumi saman á honum varirnar, rasskinnarnar og skapabarmana, og loki þannig undirdjúpum manneskj- unnar sjálfrar á sama tíma og undirdjúp veraldarinnar skríða í eina sæng með yf- irborðinu. Í aðra röndina fjallar bókin um tungu- málið sjálft: „Og samt vil ég stilla mig um að nota tungumálið sem steingerist í skeljar“ segir ljóðmælandi og vísar þannig til þess hvernig tungumálið verður að óumbreyt- anlegu tóli, lokuðu innan reglna og hefða. En á sama tíma er tungumálið lífrænt á all- an þann subbulega og himneska máta sem slíkt býður uppá: „skrifar með fingrinum og tungunni, sprautar bleki úr nösunum, skrif- ar veggi hússins fulla af sprungum sem af- hjúpa leðurhúðina handan múrsteina, skrif- ar líka með endaþarmsopinu, nuddar allt sem hreyfir sig inn og út úr merking- arfræðilegum rakanum.“ Tungumálið í meðförum Paasonens er á einhvern máta stórt og flæðandi, og þannig fyllilega í samræmi við þessa umfangsmiklu mynd af neðanjarðar/neðansjávarveröldum sem hann birtir í Söngvum hafsins sokknu borga, og reyndar í fyrri verkum sínum líka, en þessi þemu eru langt í frá ný í verkum hans. Ljóðin eru á einhvern hátt gríðarlega myrk og sakleysisleg á sama tíma, ljóð- heimur bókarinnar margræður og flækir sig í sjálfan sig sem og bókmenntaheiminn utan bókarinnar, en hún er full vísana í goðsögur, evrópska borgarmenn- ingu og bókmenntasög- una. Álfadrottningin Álfadrottningin (eða Fljótadrottningin; Älvd- rottningen á sænsku) er ellefta ljóðabók hinnar finnlands-sænsku Evu-Stinu Byggmästar (f. 1967) á 21 árs ferli, en hún gaf út sína fyrstu bók aðeins 19 ára gömul árið 1986. Það fyrsta sem maður tekur eftir við bókina, sem er í sjö hlutum, er kápan. Þeir segja það sé flónska að dæma bók eftir kápunni, en í þessu tilfelli er það líklega óhætt: Hin marglitu, sakleys- islega teiknuðu smáblóm sem prýða kápuna eiga sér fullkominn samhljóm í kátínuspír- andi innihaldinu. Gleðin er allsráðandi í Álfadrottningunni, sem er eins konar lesbískur ástaróður smekkfullur af leikandi, ástríðufullu nátt- úrumyndmáli: „Ég sagði sweethearts ég sagði rósir / ég sagði sweethearts og ég sagði rósirnar / það er svo bjart hérna inni það hljóta að vera rósirnar […] elskan augu þín eru rósir og ég sagði / munnur þinn … rós ó, leyf mér að kyssa hann aftur / og ég sagði þú ert stelpa og ég er rós / ég sagði þú ert rós og ég er stelpa.“ Byggmästar nýtir sér duglega mögu- leikana til framsetningar textans – hann á það til að stökkva frá akkeri spássíunnar og fljóta út á miðjar síður, orð og orðhlutar birtast í hástöfum eins og af æpandi kátínu, það teygist á sérhljóðum (ekki síst hinu fal- lega sænska å-i), orð birtast gisin og slang- ur, enska og talmál lita bókina blómstrandi frá upphafi til enda. Líkt og Paasonen vísar til hinnar mennsku náttúru með því að benda á hafið, borgina og klóakið er gróður skógarins, blómin og grænildin náttúra mannsins í Álfadrottningu Byggmästar – náttúra einn- ar konu til annarrar. Eins og góðra ást- arljóða er siður öðlast bókin þokka sinn af nær algeru hamsleysi, fullkominni kátínu og leikgleði sem smitar jafnvel forpokuðustu geðvonskupunga. Söngvar hafsins sokknu borga Eva-Stina Byggmästar Höfundur er rithöfundur. Eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson asberg@dimma.is Skáldsagan Drömfakulteten (Draumadeildin) er annað tveggja verka sem Svíar tilnefna til Bók- menntaverðlauna Norðurlandaráðs þetta árið. Höfundur Draumadeildarinnar má heita nýgræð- ingur á bókmenntasviðinu, hefur aðeins sent frá sér eitt frumsamið skáldverk áður, en þessi bók ber þess síður en svo merki. Hún er forvitnileg, nýstárleg og skrifuð af öryggi og þekkingu. Sara Stridsberg er fædd 1973 og fyrsta skáldverk hennar Happy Sally (2004) er saga um Sally Bauer, sem varð fyrst Norðurlandabúa til að synda yfir Ermarsund. Sú bók hlaut afbragðs- dóma. Draumadeildin er líka skáldverk sem byggist á raunverulegum persónum og atburðum að hluta. En þótt söguhetjan hafi verið til og jafn- vel verið umtöluð á sínum tíma er sagan nær því að vera hreinræktað skáldverk. Í aðalhlutverki er Valerie Solanas, kona sem í seinni tíð er hvað þekktust fyrir að hafa á sjö- unda áratug liðinnar aldar skrifað hina ofurfem- ínísku yfirlýsingu SCUM (Society for Cutting Up Men) og seinna að hafa skotið á listamanninn Andy Warhol eftir að hafa reynt að vinna með honum um tíma. Rithöfundurinn Sara Stridsberg er reyndar þekkt fyrir skrif sín um málefni fem- ínista og þýddi m.a. SCUM-yfirlýsinguna á sænsku. Í Draumadeildinni er saga Valerie Solanas sett á svið og er sú sviðsetning bæði nýstárleg og hugmyndarík, minnir stundum meira á kvik- myndahandrit en skáldsögu. Flakkað er fram og til baka í tíma og eins á milli staða, höf- undurinn kemur við sögu sem skrásetjari og margir kaflar byggjast nær eingöngu upp á samtölum. Í upphafi bókar heimsækir höfundurinn Valer- ie Solanas sem er að dauða komin á hótelherbergi á Hótel Bristol í Tenderloin-hverfinu, melluhverfinu í San Fransiskó, þar sem söguhetj- an bjó þegar hún var 52ja ára gömul og endaði líf sitt í eymd í aprílmánuði 1988. Aðrir bókarhlutar gerast ýmist á bernskuslóðum söguhetjunnar, á sólarströndum, í háskólabæ, á hótelum, í rétt- arsal, á geðsjúkrahúsi í New York og í hinni frægu Verksmiðju hjá Andy Warhol. Sagan verður ekki rakin hér, en Sara Strids- berg vinnur frábærlega úr efninu og tekst að skrifa átakanlega sögu, þar sem málfar, atburðir, tími og tíðarandi fléttast saman með einstökum hætti og mynda áhrifamikla heild. Með því að brjóta söguna sífellt upp er hraðinn mikill og frá öllu er sagt í nútíð. Sara Stridsberg miðlar þess- ari sögu í raun án þess að taka afstöðu, sýnir og segir frá, en dæmir ekki. Lesandanum er látið eftir að mynda sér skoðun á því sem fram kemur og það er eitt af því sem gerir þessa bók bæði kraftmikla og sérstæða. Draumadeildin er í senn niðurdrepandi, ögrandi og eftirminnileg. Niðurdrepandi, ögrandi og eftirminnileg Sara Stridsberg Höfundur er rithöfundur. Eftir Bjarna Bjarnason bjarnibjarnason@hotmail.com „Ég hef aldrei verið í vinnu. Það kemur fyrir, yfirleitt á sumrin eða í fríum, að ég sakni þess að vera í vinnu. Það er kannski sunnudagur og ég hugsa: Mínir sunnudagar eru ekki eins og sunnudagar annarra. Má vera að ég hugsi: Á morgun sæki ég um vinnu. Samstundis ímynda ég mér mig sitja við borð. Það hangir dagatal beint fyrir fram- an það. Ég tala í símann. Borða í mötuneytinu. Þegar ég kem aftur á skrifstofuna kveiki ég í sígarettu. En að fáum mínútum liðnum er ég úrvinda af tilhugsuninni um starfið sem ég hef ekki. Ég fer á fætur. Klæði mig og fer út. Líklega byrjar að rigna. Trúlega sit ég á kaffihúsi. Nokkrum stundum síðar geng ég einn heim. Þegar ég læsi að mér í nakinni íbúðinni vaknar hjá mér gleði yfir að ég er ekki í neinu starfi og á enga framtíð.“ Svo segir norski höfundurinn Tomas Espedal í bók sinni Ævisaga frá 1999. Tomas er höfundur ann- arrar bókarinnar sem Norðmenn til- nefna til norrænu bókmenntaverð- launanna í ár. Í ofangreindum texta fór hann á kaffihús á sunnudegi. Hvað þar gerðist má kannski sjá í eftirfarandi orðum hans úr sömu bók: „Hún sat innst í rökkvuðu horni. En ég sá hana samt. Hún líktist engum sem ég þekki eða hef þekkt. Þegar hún sá mig stóð hún upp og yfirgaf borðið. Skildi eftir sígarettu í öskubakka. Kaffibolla. Hún hafði drukkið um helming af mjólk- urkaffinu. Hafði tekið fjóra eða fimm smóka af sígarettunni. Ég settist við borðið. Hvítur líndúk- urinn hafði næstum ósýnilegt munstur úr ljósgráum þriggjalauf- asmárum. Á honum stóð þunnur glervasi með lilju trónandi uppúr sem kastaði munúðarfullum skugga yfir dúfugráar servíetturnar og te- bollusmylsnuna. Ég bleytti vísifing- ur. Safnaði upp mylsnukornunum einu af öðru og stakk þeim upp í mig. Ég drakk kaffið, reykti restina af sígarettunni og hugsaði ljótar og villtar hugsanir um hana.“ Þessu trúir hinn iðjulausi Norð- maður okkur fyrir um sjálfan sig. Í bókinni hans, Ganga, sem tilnefnd er til bókmenntaverðlauna Norð- urlandaráðs í ár, er hann búinn að leysa úr þessu með vinnuna. Þar hefur hann komist að því að hann geti unnið fyrir sér sem lands- hornaflakkari enda þykir honum sem að með því sé hann að halda við fornum menningararfi. Starfinu fylgir að hann sefur undir berum himni út um víða veröld í vinnuföt- unum sem eru undantekningalaust teinótt jakkaföt. Helsti farangurinn er vínflaska, sígarettur og bók. Stundum þegar gangan tekur veru- lega á þarf hann að leggja frá sér bókina, hún birtist hvort sem er aft- ur síðar þegar heim kemur og hann byrjar að skrifa. Því lengur sem Tomas gengur því lengra aftur hugsar hann í tíma. „Ferðalagið gerir okkur ekki eldri heldur yngri. Ferðalagið ruglar okk- ur, færir árin og tímann úr jafnvægi, við ímyndum okkur að við sjáum allt með nýjum augum, ungum augum. Ferðin truflar minnið, lætur okkur gleyma réttum aldri okkar, mistök- um okkar og vonbrigðum í lífinu.“ Í bók Tómasar er kannski gengið meira frá einhverju en að einhverju í leit að ferskri og bernskri sýn á heiminn. Hin bókin sem Norðmenn tilnefna í ár er smásagnasafnið Freistingar Von Aschenbachs eftir Jan Jakob Tönseth sem á það sameiginlegt með Tomasi Espedal að sækja mik- inn innblástur í frönsku 19. aldar skáldin Arthur Rimbaud og Charles Pierre Baudelaire. Er það athygl- isvert að þegar Tómas loks finnur staðinn í heiminum sem honum þyk- ir hann helst eiga heima á, heimabæ Rimbauds, þá fyllist hann dauða- beyg og forðar sér hið snarasta. Það er eins og áhrifavaldurinn verði kæfandi þegar komið er of nálægt honum. Þessu virðist öfugt farið með Jan Jakob Tönseth. Ein af sög- um hans fjallar um Baudelaire- sérfræðing sem fær sér göngutúr um Tuileriegarðana í París og hverf- in þar í kring í leit að innblæstri. Á leiðinni sér hann göturnar æ betur með augum skáldsins þar til smáat- riði í anda Prousts opnar honum sýn inn í fortíðina sem hellist yfir hann í líki einskonar fyrirbærafræðilegrar alsælu. Í þessu uppljómaða ástandi, sem má ímynda sér að sé ferski heimurinn sem Tomas Espedal hafði glatað, þykir honum sem hlut- irnir tali til sín: „Sjáðu okkur, þreifaðu á okkur, smakkaðu á okkur, gefðu okkur nafn. Já, í guðanna bænum nefndu okkur þú sem hefur orðin á valdi þínu því við getum ekki af sjálfs- dáðum, með þeim meðulum sem okkur eru gefin, komist út yfir tak- mörk okkar. Þannig túlkaði ég orð- lausa bón hlutanna. Þeir höfðu þjappað saman inntaki sínu og beint því að mér. Þeir gerðu árás með lit- um, ilmum og dáleiðandi útlínum. Það var eitthvað ögrandi og biðjandi í framferði þeirra. Þeir hugðust nýta sér næmi mitt til að nefna þá með nafni, koma til móts við þá í máli og gera þá örlítið meira til. Ég held mér sé óhætt að segja að við vorum óvænt á sömu bylgjulengd, hlutirnir og ég.“ Gengið að ferskum heimi Tomas Espedal Höfundur er rithöfundur. Jan Jakob Tönseth Morgunblaðið/Brynjar Gauti 5. mars Tilkynnt verður hver hlýtur Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs á fundi sem haldin verður á Íslandi 5. mars nk. Verðlaunin verða svo afhent á 59. þingi Norðurlandaráðs í Ósló síðar á árinu.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.