Lesbók Morgunblaðsins - 05.05.2007, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 05.05.2007, Blaðsíða 5
Jökulvatn í súlum Ís, sem síðan var bræddur í súlurnar í Vatnasafni, var safnað úr tuttugu og fjórum jöklum á Íslandi. Það voru þeir Freyr Jóns- son og Gísli Jónsson sem sóttu ísinn og komu honum til byggða. Veðurfrásagnir Bókin Weather Reports You eða Veðrið vitn- ar um þig kemur út í tilefni opnunarinnar. Veðurfrásögnunum söfnuðu þau Oddný Eir Ævarsdóttir og Uggi Ævarsson með liðsinni föður síns, Ævars Kjartanssonar. Aðstaða gestarithöfundar Guðrúnu Evu Mínervudóttur rithöfundi hefur verið boðið að vera fyrsti rithöfundurinn sem nýtur fjárstyrks í sex mánuði og vinnu- aðstöðu í Vatnasafni. Ætlunin er að velja bæði innlenda og erlenda höfunda til dvalar í Stykkishólmi er fram líða stundir. Ritnefnd- ina skipuðu Hjálmar Sveinsson, Dagur Kári Pétursson og Fríða Björk Ingvarsdóttir. Skákiðkun kvenna Guðfríður Lilja Grétarsdóttir hefur skipulagt skákiðkun fyrir ungar stúlkur og konur í Vatnasafni. Innsetning með veðurorðum Gólfverkið You Are The Weather (Iceland) eða Þú ert veðrið (Ísland) hefur Roni Horn unnið í samvinnu við myndlistarmanninn Margréti Blöndal, sem setti saman lista ís- lenskra lýsingarorða er bæði eiga við um veður og fólk. Samkomustaður Vatnasafn mun hýsa margvíslega starfsemi í Stykkishólmi er fram líða tímar, því safnið er opið hverjum þeim sem hefur áhuga á að vera þar hvort heldur í einrúmi eða með ein- hvers konar aðra athafnasemi. Sem dæmi má nefna að þegar er búið að skipuleggja jógakennslu í safninu. Fjármögnun verkefnisins „Listenglarnir“ í London, eða sjálfseignar- stofnunin Artangel, sem átti frumkvæði að þessu verkefni, hefur staðið að öllum fram- kvæmdum því tengdum undir forystu James Lyngwoods. Margir hafa lagt hönd á plóginn til að gera Vatnasafn að veruleika; bæði opinberir aðilar og einkaðilar hérlend- is, auk fjölmargra stuðningsaðila og vel- unnara erlendis. finnst það athyglisvert, myndar mína sjálfs- mynd. Víðernin hér, Ísland sjálft, er slík sjálfs- mynd.“ Ísland sem sjónarhóll til að skoða restina af heiminum Nú virðist stundum eins og þú notir það lands- lag sem þú upplifir hér á þessari eyju – Íslandi – sem sjónarhól til að rannsaka restina af heim- inum. Og þetta gerist auðvitað á mjög persónu- legan hátt án þess að ímynd landsins sem þjóð- lands sé í forgrunni; landið verður hvorttveggja í senn, hlutlaust og persónulegt í þessu ferli, en engu að síður leið til að skoða hvaða öfl það eru sem stýra heiminum í heild. „Ja, ég verð að viðurkenna að þetta er nokk- uð góð lýsing á sambandi mínu við landið,“ svarar Roni eftir nokkra umhugsun. „Og þótt það kunni að hljóma neikvætt er Ísland nefni- lega einn af örfáum stöðum í heiminum sem hægt er að njóta með þessum hætti. Í raun opna slíkir staðir mikla möguleika; það má nota þá sem upphafspunkt til að skoða heiminn; sem uppsprettu þess er maður þrífst á. Ég veit þó að ég get ekki þrifist á slíkum stað, hér eða ann- ars staðar, ef þar er aðsteðjandi ógn,“ segir hún, og vísar m.a. til þeirra miklu breytinga sem átt hafa sér stað á hálendi landsins á und- anförnum árum. Ég veit að þú hefur ekki mikinn áhuga á tali um myndhverfingar í tengslum við verkin þín. En í þeim er þó alltaf þetta staðfasta myndmál tengt hugmyndinni um staðsetningu, samanber nafnið á bókverkunum To Place [röð bókverka sem öll eru tileinkuð Íslandi og listamaðurinn hefur unnið að um árabil]. Staðsetningin á Vatnasafninu hér í bænum er svo táknræn í því samhengi. Húsið hýsti áður safn bóka, sem vísa alltaf langt út fyrir sig, og nú er það safn vatns og veðurfrásagna meðal annars. Það gnæfir yf- ir þorpið og Breiðafjörðinn hátt á þessum kletti, eins og viti; rétt eins boðskapnum sem það býr yfir sé ætlað að sjást jafn víða að og ljós vitans – eins og hann eigi að berast frá Stykk- ishólmi og út í hinn stóra heim. Jafnframt veitir staðsetningin góða yfirsýn, er góður sjónarhóll til að halda áfram að rannsaka heiminn frá. Því spyr ég út frá myndmáli vitans; hvort þetta nýja verk, Vatnasafn, marki nýjan kafla í veru þinni hér er ekki mótast fyrst og fremst af ein- veru eins og áður, heldur af því að Ísland sé góður staður til að mynda aukin tengsl við um- heiminn? „Þetta er athyglisverð hugmynd sem þú set- ur fram. Því að mínu mati hafa þau öfl er stýra samfélaginu í samtímanum breyst svo mikið að raunverulegur möguleiki á því að upplifa ein- veru er nánast ekki til lengur, og því hef ég þurft að bregðast við. Ef til vill hefur sá mögu- leiki bara horfið úr lífi þeirra sem eru á mínum aldri, hugsanlega er möguleikinn þó bara ekki lengur fyrir hendi í heiminum. Sú þekking sem ég öðlaðist á því að koma hér ein og ferðast um á sínum tíma fer að verða sjaldgæf, flestir eru aldrei einir í þeim skilningi sem ég kynntist hér. Aldrei,“ segir hún og leggur áherslu á orð sín. „Þeirri þekkingu er ég aflaði mér á ferðum mínum hér í tuttugu og fimm ár má líkja við heilt tungumál, tungumál sem ég er enn að vinna úr, m.a. í bókverkunum mínum – nú síð- ast í Veðrið vitnar um þig.“ Roni hugsar sig aðeins um en heldur síðan áfram: „Sú staðreynd að mér tókst nýlega að komast að einum afskekktasta jökli landsins, Drangajökli, er við vorum að safna ís í súlurnar, með jafn auðveldum hætti og raun bar vitni – að staðurinn var svo ótrúlega aðgengilegur, svo fullkomin andstæða þess að vera óaðgengilegur og svo fullkomin andstæða þess að vera af- skekktur – er ógnvekjandi. Og það hefur með einhverjum hætti ratað inn í listsköpun mína og þetta verk hér sem ég vil miðla áfram til um- heimsins. Það sem ég á við er að tæknin sem við búum yfir og hugsunarhátturinn sem henni fylgir hef- ur orðið þess valdandi að staðir sem ekki er hægt að komast á eru ekki lengur til. Allt er innan seilingar. Sú staðreynd markar ótrúlega mikla breytingu í sálfræðilegum og vist- fræðilegum skilningi frá því sem áður var og af- hjúpar með afdrifaríkum hætti þann voða sem umhverfið er í og hversu hætt það er komið. Umhverfið verður æ viðkvæmara af þessum sökum og í raun skiptir engu máli í hvaða til- gangi þú vilt komast á tiltekinn stað. Mér er al- vara þegar ég segi þetta og stafar af því ógn um leið.“ Roni segir Ísland, legu sinnar vegna og sem eyland, vera einskonar prófstein hvað slíka þol- raun varðar: „Íslendingar búa ekki við þreng- ingar eða ógn vegna yfirþyrmandi fátæktar eða sjúkdóma. En landið gæti þurft að þola mikla ágengni sem vegur ekki síður að kjarna þess samfélags sem hér hefur þrifist. Ef einhver hef- ur áhuga á því sem er einstakt á Íslandi þá get- ur sá hinn sami nálgast það eins og ekkert sé. Og þeir sem hafa hug á slíku eru ekkert endi- lega vel upplýstir eða uppfræddir – ekki heldur um ábyrgðina sem fylgir ferðalaginu. Því er viss ógn yfirvofandi og hætta á að eitthvað sem er ómetanlegt verði eyðilagt.“ Siðferðisgildi í veðri og mennsku Mig langar aðeins til að spyrja þig um notkun þína á tungumálinu í gólfinu hérna; nú hefur þú tvinnað hér saman ensku og íslensku? „Já, þetta er fyrsti tvítyngdi skúlptúrinn í heiminum sem ég veit af! Sjálf bý ég ekki yfir tvítyngdri rödd, en ég fékk Margréti Blöndal myndlistarmann til að vinna í orðunum með mér. Grunnur þessarar innsetningar eru orð sem lýsa bæði veðrinu og mennskunni. Mar- grét tók þá hugmynd inn í heim íslenskunnar en ég fór með hana inn í heim enskunnar sem tók á sig mynd þessa safns lýsingarorða, er skiptast nánast til helminga á milli tungumál- anna. Mér finnst þessi vinna heillandi vegna þess að þau málvísindalegu gögn sem maður endar með búa yfir sínum eigin gildum – hugs- anlega siðferðisgildum – lýsingum á veðri/ mönnum.“ Mér finnst þetta málvísindalega samhengi athyglisvert og velti því fyrir mér hvort það er meðvitað, því nú hefur auðvitað oft verið rætt um íslensku sem lítið tungumál sem gæti lent í útrýmingarhættu. Þú stillir því upp með þeirri tungu sem hefur náð heimsyfirráðum, ensk- unni. Roni hlær dátt að þessari túlkun og stöðu móðurmáls hennar „sem rándýrsins“, eins og hún orðar það. „Sem Bandaríkjamaður er kem- ur til Íslands er óhjákvæmilegt að taka eftir því hversu vel þjóðin talar ensku. Hér talar fólk mitt mál af slíkri nákvæmni að mér finnst ég oft læra af því hvernig þið notið enskuna. Fyrir nú utan að hvernig væri Ísland ef enginn talaði ensku – slíkt myndi óhjákvæmilega færa lífið hér yfir á nýtt stig eyjamennsku, ekki satt? Slíkt hef ég þó aldrei upplifað því mín upplifun af Íslandi er sú að fólk talar ensku betur en ég sjálf – og ég er ekki að reyna að skjalla neinn er ég segi þetta. Í mörgum tilvikum hef ég nefni- lega dregið ómetanlegan lærdóm af því hvernig tilgangurinn helgar meðalið í samræðum á ensku, á afar gestrisinn hátt er hefur sig yfir allt hversdagshjal. Að sjálfsögðu blandast stjórnmál hug- myndum fólks um ensku í heiminum í dag, til- finning fyrir yfirráðum er tengd ensku sem heimsmáli. En íslensk menning byggist ekki á heimsvaldastefnu. Í mínum bókum er sá ís- lenski hugsunarháttur ákaflega virðing- arverður þótt restinni af heiminum þyki lítið til þess koma að þjóð vilji ekki valta yfir aðra. Ég laðast að þjóð sem hefur ekki þörf fyrir að pre- dika yfir öðrum. Sú hógværð sem fylgir viðveru Íslendinga er aðlaðandi. Svo mikið er víst að ég væri ekki hér ef hér á landi ríkti yfirgangssöm menning.“ Mælanlegt magn af því ómælanlega En þegar þú stillir þessum tungum upp saman, íslenskunni og enskunni, þá er eins og þú af- hjúpir um leið þá ógn sem getur steðjað að smáu tungumáli; hér eru ekki einungis jöklar í útrýmingarhættu heldur hugsanlega líka ís- lenskan á tímum alþjóðavæðingar. „Ég hugsa þetta frá öðru sjónarhorni og hafði hreinlega aldrei dottið þessi lestur í hug,“ segir Roni hreinskilin. „Þetta safn af jökulvatni víðs vegar að var upphaflega til fyrir ákveðna tilviljun – það er svo mikið vatn á Íslandi að ég vissi ekki hvar ég ætti að byrja; á heitu vatni, eða köldu, úr ám eða sjó, o.s.frv. Það virtist því skynsamlegt að halda áfram með þá rannsókn sem ég hef áður verið upptekin af á jökulvatni. Ekki síst í ljósi okkar tíma, þar sem vatnið í jöklum er mjög gamalt og hreint; í þeim skiln- ingi að það hefur ekki orðið fyrir áhrifum okkar tíma nema að litlu leyti. Núna þegar það hefur bráðnað hér í súlunum er búið að raska eig- inleikum þess tilfinnanlega. Vatnasafnið felur því í sér ákveðin endalok; þetta lífsnauðsynlega efni hefur verið tekið úr sínu eðlilega umhverfi og um leið eru tengsl þess við restina af heim- inum rofin; það mun aldrei sameinast hafinu umhverfis landið, Gangesfljóti í Indlandi eða Thamesánni í London. Í súlunum er mælanlegt magn af einhverju sem í öllum öðrum skilningi er ómælanlegt – hvort heldur sem er í skilningi raunvísindanna, tímaskynjunar eða tilfinning- anna. Löngun til að sameina frekar en skilja að Hvað tungumálið varðar þá var ekki meiningin að vekja sérstaka athygli á íslensku sem slíkri, heldur að jafna út muninn á milli eins tungu- máls og annars. Tungumál, eða tjáskipti, í mín- um huga eru alltaf tengd sögunni um Babel – hugmyndinni um samskiptaleysi og umkvört- unum okkar um skilningsleysið í heiminum yf- irleitt. Tungumál, ólíkt vatni, skilja okkur að. En í þessu gólfverki hér langaði mig til að sam- eina frekar en skilja að; gera eiginleika tungu- málsins líkari eiginleikum vatnsins. Vatn sam- einar á máta sem tungumál gera ekki.“ Roni setur hljóða í nokkra stund, en svo segir hún: „Ég skil samt hvað þú átt við með íslensk- una, hún er eins og lokað kerfi, því auðvitað eru svo fáir sem tala hana. Einmitt þess vegna er svo mikilvægt að halda henni lifandi – samhliða enskunni sem þið notið til að sameinast heim- inum. Veðursögurnar eru auðvitað leið til að safna tungumálinu – orðum – saman rétt eins og vatninu.“ Það er kominn tími til að ljúka samtalinu og ganga niður í þorpið. Á leiðinni ofan af klett- inum verður mér litið til baka þar sem Vatna- safnið gnæfir yfir á sinn hógværa hátt. Komið til að sameina frekar en skilja að í menningar- legum skilningi; veigamikill en yfirlætislaus þáttur í því að færa Ísland nær miðju heimsins – sem eins og þeir sem þekkja Jules Verne vita að hefur verið á Snæfellsnesi um langt skeið. útrýmingarhættu www.vatnasafn.is Vatnasafn/Library of water MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 5. MAÍ 2007 5

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.