Lesbók Morgunblaðsins - 05.05.2007, Blaðsíða 10
10 LAUGARDAGUR 5. MAÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ
lesbók
Eftir Þóru Þórisdóttur
tora@hlemmur.is
J
arðlistaverkasería ástralska lista-
mannsins Andrew Rogers er allt
annað en venjuleg, hvort sem lit-
ið er á gríðarlega stærð grjót-
garðanna sem mynda einskonar
keðju umhverfis jarðkringluna
eða hugmyndafræðina sem liggur að baki.
Roger fékk hugmyndina Ísrael þar sem
hann hreifst mjög af Arava eyðimörkinni og
hóf þegar undirbúning að fyrsta stóra jarð-
listarverkefninu sem varð að veruleika árið
1999. Verkið er myndað með samsetningu
tveggja stafa úr Tórunni, lögmálsriti Gyð-
inga Chai og þýðir langlífi. Í kjölfarið reisti
Rogers ekki bara fleiri verk í Avara eyði-
mörkinni heldur teygði verkefnið anga sína
til annarra landa þar sem hvert stórvirkið
rak annað. Af þeim tólf verkefnum sem Ro-
gers hefur nú einsett sér að vinna, hvert og
eitt samansett af táknmyndaþrennu, eru sjö
þegar orðin að veruleika; í Ísrael, Chile,
Bólivíu, Sri Lanka, Ástralíu, Íslandi og Kína.
Nú er Rogers að vinna að áttunda verkefn-
inu á Indlandi og er að semja um og und-
irbúa verk í Bandaríkjunum, Englandi,
Austur og Vestur-Evrópu og Tíbet.
Lífstaktur Andrew Rogers
Roger sem er fyrrverandi fjármálamaður og
tómstundamálari söðlaði um í lífi sínu árið
1980 og einbeitti sér að þrívíðri list, aðallega
bronsskúlptúrum. Fimmtán árum seinna
skiptir hann úr fígúratífu raunsæi yfir í fí-
gúratífa afstraksjón, án þess að víkja frá því
þema sköpunar, vaxtar og hringrásar lífsins
sem er drifkrafturinn í verkum hans. Þekkt-
ustu bronsverk Rogers eru Flora Exampler
og Rhythms of Life sem bæði hafa verið
gerð í nokkrum eintökum einstaklinga, fyr-
irtækja eða opinberra aðila. Rhythms of
Life eða Lífstakturinn er einnig lyk-
iltáknmynd jarðlistaverkanna og titillinn yf-
irheiti verkefnisins í heild jafnt sem brons-
skúlptúranna sem Rogers vinnur jöfnum
höndum.
Lífstakturinn er hefðbundinn nútímalegur
bronsskúlptúr á ferhyrndum stalli þar sem
skáhallandi stilkur sem líkist fallusi er í
mótvægi við spírallaga form og kúlu sem
tákngera vöxt og egg eða sæði. En ef skúlp-
túrinn er eins og frjáls þrívíddarteikning
sem hefur sig til himna þá er útgáfa Rogers
af verkinu útfærð í jarðlistarverunum sem
útafliggjandi flöt upphleypt teikning sem
ekki er hægt að sjá heildarmyndina nema
frá sjónarhorni himinsins.
Framkvæmd verkanna,
gríðarlegt átak
Jarðlistarverkin eru gríðarstór og sam-
anstanda yfirleitt af þremur steingörðum
sem mynda mismunandi tákn. Eitt þeirra er
ávallt Lífstakturinn en hin tvö ævafornar
táknmyndir eftir óþekkta höfunda sem
heimamenn (helst öldungaráð) viðkomandi
staða velja og tengjast menningararfi þeirra.
Flest verkin eru reist utan alfaraleiðar á
friðhelgum stöðum og við gerð þeirra hafa
verið notuð þúsund tonna af grjóti. Stór
hluti verkefnisins og ekki sá lítilvægasti er
að afla tilskilinna leyfa fyrir framkvæmd-
unum en Rogers leggur mikið upp úr því að
nota efnivið viðkomandi svæðis og skilja við
landið án annarra ummerkja en sjálf lista-
verkin.
Garðarnir eru að mestu hlaðnir með hand-
afli og hafa nú 3300 manns unnið að gerð
þeirra í afar mismunandi landslagi sem nær
allt frá hafsbotni á 200 metra dýpi (Avara í
Ísrael) og upp í 4360 metra hæð yfir sjáv-
armáli (Bólivía). Hitastigið hefur verið allt
frá einnar gráðu frosti (Ísland) upp í 45
gráða hita (Ísrael) og á hæstu stöðum hefur
þurft að takast á við þunnt loft og súrefn-
isleysi eða öfgakennt veðurfar, miklar hita-
sveiflur og sandbylji. Tveir ísraelskir arki-
tektar sjá um að teikna verkin upp í
hárnákvæmum hlutföllum með hjálp gervi-
hnattamynda og GPS-tækni. Grjótgarðarnir
hafa mismunandi útlit eftir svæðum, gerðir
út 300-600 kg steinum upp í 4-5 tonna björg,
hlaðnir frá 50 cm upp í fjögurra metra hæð,
þétt og massíft eða nokkuð gisið.
Verk Rogers á Akureyri
Andrew Rogers sem hafði augastað á Ís-
landi fyrir verkefnið komst í samband við
Hannes Sigurðsson forstöðumanns listasafns
Akureyrar í gegn um Steinunni Þórarins-
dóttur myndhöggvara. Eins og Hannesar er
von og vísa tók hann vel í hinar ótrúlegu
hugmyndir Rogers og taldi að umhverf-
isverk af þessum toga myndi verða lyfti-
stöng fyrir Akureyrarbæ. Verkefnið var hins
vegar mun viðameira en nokkurn óraði fyrir
og þá ekki síst vinnuferlið sem fólst í að afla
tilskilinna opinberra leyfa. Á endanum urðu
þó verkin að veruleika þrátt fyrir skort á
vinnuafli og margvísleg vandamál með
vinnuvélar. Þrjár risastórar (100x100 metr-
ar) táknmyndir teiknaðar með gisinni línu
hraunhnullunga litu dagsins ljós í september
2006, eldgömul rún sem táknar Nú er stað-
sett efst á Vaðlaheiði, Örninn er í Hlíð-
arfjalli og Lífstakturinn í Fálkafelli.
Þungaðar konur,
trúarlegur undirtónn
Þegar Andrew Rogers hefur lokið verki þá
lætur hann ætíð mynda þungaðar konur
með bumbuna bera á grjótgörðunum. Þetta
er óður hans til lífsins, sköpunar og tímg-
unar sem og allt höfundarverk hans snýst
um. Sköpun listamanns hefur verið tákngerð
í líkingu getnaðar, meðgöngu og fæðingu allt
frá tímum rómantíkur, en í verkum Rogers
eru hugtökin sköpun og tímgun eitt og hið
sama. Á Íslandi auglýsti Rogers eftir þung-
uðum konum sem brugðust vel við og létu
ekki naprar íslenskar aðstæður aftra sér við
myndatökuna.
Rogers leggur áherslu á að yfirstíga mörk
og innbyggt í verkum hans felast menning-
arsamskipti milli þjóða, eða „fjölmenning-
arlega þjóðernishyggju“ eins og Hannes
segir í sýningarskrá, „þar sem styrking
menningarlegrar sjálfsmyndar mismunandi
þjóða sameinar þær í grundvallargildum
veraldarinnar – lífinu sjálfu. Það er ekki
laust við að í verkefninu felist trúarlegur
undirtónn þar sem lífskjarninn, andi manns-
ins, hjartsláttur tilverunnar og hringrás lífs-
ins eru upphafin á jákvæðan hátt.“
Sýningin í Listasafni Akureyrar
Sýningin sem nú er haldin í Listasafni Ak-
ureyrar er fyrsta almenna yfirlitssýningin á
hinu stórbrotna landlistaverki Rogers sem
myndar keðju steinskúlptúra um alla jarð-
kringluna. Sýningunni sem stendur til 24.
júní er fylgt eftir með yfirgripsmikilli sýn-
ingarskrá með textum eftir Lilly Wei list-
fræðing og Hannes Sigurðsson listfræðing
og forstöðumann safnsins.
Teiknað á hnöttinn Jörð
Risastór jarðlistaverk Andrew Rogers eru nú
sýnd í Listasafni Akureyrar en það er fyrsta
almenna yfirlitssýningin á hinu stórbrotna
landlistaverki Rogers sem myndar keðju
steinskúlptúra um alla jarðkringluna.
Rúnin Nú Rúnin er staðsett efst á Vaðlaheiði, Akureyrarörninn er í Hlíðarfjalli og Lífstakt-
urinn í Fálkafelli. Hver táknmynd er 100x100 metrar.
Verðandi mæður Rogers lætur alltaf mynda þungaðar konur á jarðlistarverkunum. Þetta verk er í Avara eyðimörkinni í Ísrael.
Höfundur er myndlistargagnrýnandi
við Morgunblaðið.